Skip to content

Stjórnarskráin í stórsókn

Höfundur: Þorkell Helgason, October 22nd, 2010

Stórmerkur fundur var haldinn í Stjórnarskrárfélaginu kvöldið 20. október. Fundarmenn voru um hundrað talsins, þar af nær fimmtíu frambjóðendur sem allir fluttu ávörp. Konur voru áberandi margar í þessum hópi, allt að helmingur.

Það er bersýnilega góður hópur af fólki sem býður sig fram af heilum huga.
Mikill einhugur virtist um helstu stefnumál. Eftirfarandi er samantekt mín á þeim stefnumálum sem fengu umfjöllun og stuðning, í flestum tilvikum hjá miklum meirihluta þessara frambjóðenda. Atriðin eru hér upptalin í eins konar efnisröð:

Stjórnarskráin á að vera þjóðarsáttmáli, en sú hugsun var á margra vörum.
Allt vald komi frá þjóðinni sem er ein meginforsendan og komi fremst í stjórnarskrána.
Skýr og skilmerkileg stjórnarskrá, helst þannig að hvert barn geti lesið hana.
Virðing fyrir lýðræðinu en fram kom einlæg ást á lýðræðinu sem er auðvitað grunnforsenda framboðanna.
Mannleg reisn er friðhelg eins og svo fallega er komist að orði í inngangi þýska stjórnarskrárinnar. Þetta endurtóku þó nokkrir í einhverri mynd.
Vörn gegn græðgi og afglöpum eins og ég orða það í minni stefnuskrá. Annar sagði að stjórnarskráin ætti að vera þegnunum skjól gegn valdi hvaðan sem það kemur. Einn ræðumanna taldi þó öll tormerki á því að stjórnarskráin geti verið slíkt haldreipi.
Mannréttindi komi fremst í stjórnskrána og þeim sé með öðrum hætti gert hærra undir höfði en nú, bæði borgaralegum og félagslegum réttindum. Orð eins og réttlæti og sanngirni voru nefnd í þessu samhengi.
Trúfrelsi var orð sem allmargir nefndu en fóru mislangt út í það hvað það ætti að merkja.
Þjóðin geti komið að ákvarðanatöku svo sem með þjóðaratkvæðagreiðslu en líka með nútíma tölvutækni.
Persónukjör var nánast á vörum allra. Kosningin til stjórnlagaþings verður stóra tilraunin í þá veru. Hún verður að takst vel.
Landið eitt kjördæmi eða einhver önnur leið til að ná fram fullum jöfnuði atkvæðisréttar.
Auðlindir í þjóðareigu og ekki aðeins að nafninu til heldur að þjóðin njóti góðs af auðlindum landsins.
Þrískipting valdsins verði raunveruleg ekki síst með styrkingu Alþingis. Sumir töluðu fyrir því að framkvæmdarvaldið væri kosið beint af þjóðinni með einhverjum hætti.
Ráðherrar sitji ekki á þingi. Sumir útfærðu þetta nánar eins og að framkvæmdarvaldið væri alfarið undir stjórn Alþingis.
Seta í valdastólum takmörkuð t.d. við tvö kjörtímabil. Sumir vildu jafnvel að þjóðin gæti afturkallað umboð fulltrúanna og það á miðju kjörtímabili.
Ríkistjórn verðifjölskipað stjórnvald þannig að einstakir ráðherrar geti ekki farið sínu fram. Ekki er síður mikilvægt að ráðherrar geti ekki skotið sér undan ábyrgð með því að vísa hver á annan.
Varnaglar gegn valdinu t.d. þannig að hver valdaþátturinn í hinu þrískipta ríkisvaldi hafi eftirlit með hinum, jafnvel sjálfstætt eftirlitsvald.
Opnari stjórnsýsla og aðgengi að upplýsingum var mál velflestra. Gegnsæi var orð af sama toga.
Umhverfis- og náttúruvernd var mörgum ofarlega í huga.

Margt fleira bar á góma. Nær allir voru sammála um að nú væri einstakt tækifæri til að sameina þjóðina og styrkja grundvöll hennar. Þetta tækifæri kæmi ekki aftur í bráð, því verður að grípa það.

Ég get tekið undir velflest meginsjónarmiðin sem þarna komu fram. Nái ég kjöri hlakka ég til að vinna með fulltrúunum á stjórnlagaþinginu verði þeir jafn heilshugar og málefnalegir og þeir frambjóðendur sem tóku til máls á þessum fundi Stjórnarskrárfélagsins.

Nú þurfum við að líta upp frá dægurþrasinu og hefjast handa við uppbyggingu betra og réttlátara samfélags. Endurbætt stjórnarskrá verður okkur traust viðspyrna á þeirri vegferð. Því þurfa frambjóðendur og kjósendur að leggjast á eitt um að kosningarnar 27. nóvember verði sigur fyrir lýðræðið.

Comments are closed.