Skip to content

Um fjöllistaframboð: Hannibalsmálið í kosningunum 1967

Höfundur: Þorkell Helgason, March 31st, 2013

[Leiðrétt kl. 12, 31. mars 2013 eftir ábendingar frá Benedikt Jóhannessyni. Auk þess er Hagstofan beðin afsökunar á smáskætingi um hana, sem nú er horfinn!]

Mjög er nú, fyrir þingkosningarnar 2013, til umræðu meðal nýrra framboða að slá sér saman undir einum listabókstaf til að standa betur að vígi við úthlutun jöfnunarsæta.

Fyrir fleiru en einu framboði í sama kjördæmi í nafni sömu stjórnmálasamtaka eru ekki mörg dæmi. Síðan 1959 hefur það alla vega aðeins gerst einu sinni. Það var 1983 þegar Framsóknarflokkurinn bauð upp á sérframboð, BB-lista, auk aðalllistans, B-lista, í Norðurlandskjördæmi vestra.

Hannibal Valdimarsson og félagar buðu fram lista í Reykjavík 1967 og vildu fá hann skráðan sem sérlista Alþýðubandalags; sem GG-lista. Fyrirsvarsmenn G-lista andmæltu. Yfirkjörstjórn fór að þeirra ósk og kallaði lista Hannibals „I-lista Utan flokka“. Hannibal kærði til landskjörstjórnar sem úrskurðaði honum í vil. Yfirkjörstjórn í Reykjavík hundsaði þann úrskurð, auglýsti listann sem I-lista og skrifaði jafnframt til dómsmálaráðuneytis í þá veru.

Landskjörstjórn hélt við sinn keip og úthlutaði Alþýðubandalagi uppbótarsætum að meðtöldum atkvæðum Hannibals. Það varð til þess að Alþýðubandalagsmaðurinn Steingrímur Pálsson varð uppbótarmaður.

Málið kom til kasta kjörbréfanefndar (bókun hennar hef ég ekki) og síðan Alþingis. Nú skiptu Allaballar auðvitað um skoðun og þeir ásamt Framsókn studdu kjörbréf fyrrgreinds Steingríms. Einn greiddi atkvæði á móti (Pétur Benediktsson) en aðrir sátu hjá. Athyglisvert er að hinn umdeildi Steingrímur greiddi atkvæði með sjálfum sér (að því er virðist skv. kosningaskýrslu Hagstofunnar). Hann var því dómari í eigin máli!

Þess má geta að eitt af því sem stjórnlagráð lagði til var að Alþingi úrskurði ekki sjálft hvort það sé löglega kjörið. En þessu hefur nú öllu verið kastað á haugana.

Í umræddum kosningum 1967 voru 12 utankjörfundaratkvæði í Rvík merkt GG. Yfirkjörstjórn var samkvæm sjálfri sér og úrskurðaði þau ógild en landskjörstjórn vísaði málinu til Alþingis sem tók ekki afstöðu enda breyttu þau engu.

Allt þetta sýnir og sannar enn og aftur að það þarf að stokka upp kosningalögin og m.a. gera landskjörstjórn hærra undir höfði. Í raun ættu yfirkjörstjórnir ekkert að vera annað en starfsstjórnir landskjörstjórnar og – að mati okkar sem sátum í stjórnlagaráði – á ekki Alþingi að úrskurða um eigið ágæti. Greinilegt er af afgreiðslu Alþingis 1967 á umræddu kjörbréfi að þar réð pólitík ferðinni.


Comments are closed.