Skip to content

Skipum okkur á bekk með siðuðum samfélögum

Höfundur: Þorkell Helgason, April 8th, 2014

[Höfundur hefur sent Alþingi eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu o.fl., þingskjal 635 — 340. mál, lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.]

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu byggir að mestu leyti á efnahagslegum rökum; á því hvort við hefðum þann ábata af inngöngu sem þyki réttlæta aðild. Þetta er vissulega mikilvægt, en að mati undirritaðs ekki meginmálið. Það eru hin siðferðilegu og menningarlegu rök sem eru mun mikilvægari.

Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í þjóðfélagi sem grundvallast á lýðræði, réttarríki og samfélagslegri ábyrgð. Þetta er engan veginn sjálfgefið enda ekki nema að takmörkuðu leyti okkur sjálfum að þakka; mun frekar því að höfum verið menningarlega fóstruð í þeim heimshluta þar sem þessi gildi eru í hávegum höfð. Við höfum fyrst og fremst sótt okkur fyrirmyndir og forsjá til granna okkar á Norðurlöndum svo og í öðrum næstu Evrópuríkjum.

Evrópusambandið varð vissulega til utan um efnahagsumgjörð, en á bak við lá og liggur mun meira; þ.e. vilji þjóða bandalagsins að vernda og styrkja fyrrgreind samfélagsgildi í friði og með samvinnu. Evrópusambandið er þó engan veginn gallalaust frekar en önnur mannanna verk, en með virkri þátttöku aðildarríkjanna er sífellt verið leita leiða til að búa um betur.

Að mati undirritaðs er það hvorki kleift né æskilegt að við, þessi örsmáa þjóð, treysti á eigin mátt og megin. Miklu heldur getum við varið þau gildi sem við viljum vernda með því að tengjast böndum þeim sem eru sama sinnis. Þetta gerum við með þátttöku í samstarfi Evrópuríkja; með inngöngu í Evrópusambandið. Við eigum heima með grönnum okkar í Evrópu, síður þeim í vestri en engan veginn með risaríkjum enn lengra í burtu þar sem grunngildi okkar samfélags eru fótum troðin.

Samþykkt og framkvæmd á þeirri þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu getur leitt til einangrunar þjóðarinnar um langan aldur. Málinu væri ekki aðeins skotið á frest til umþóttunar heldur verið að skella aftur hurðum. Komist þjóðin að því síðar að rétt væri að taka aftur upp þráðinn er viðbúið að þá yrði tregða til að hlíða nýju kalli frá okkur. Skrefið sem stigið yrði með þingsályktuninni kynni því að binda hendur heillar kynslóðar, jafnvel fleiri; kynslóða sem vildu ekki vera utan gátta í samstarfi evrópskra vinaþjóða.

Af þessum sökum leyfi ég mér, sem þegn þessa lands, að mælast til þess við þingmenn að þeir felli umrædda þingsályktunartillögu.

Comments are closed.