Skip to content

ICESAVE er prófraun á beint lýðræði

Höfundur: Þorkell Helgason, April 9th, 2011

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 8. apríl 2011]

Þannig hefur oftsinnis háttað til að stutt hefur verið á milli kosninga til sveitarstjórna og kosninga til Alþingis; ár eða minna. Eitt sinn gerði ég lauslega tölfræðilega könnun á úrslitum slíkra kosningapara og fékk sterka fylgni með tilfærslum milli vinstri og hægri í hvorum tveggja kosningunum. Gott ef fylgnin var ekki sterkust milli úrslita í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og landsúrslita í þingkosningum. Greinilegt var að kjósendur voru oft að „hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi“.

Það er því miður algengt í öllum kosningum að kjósendur horfi um víðan völl en einbeiti sér ekki að því sem kosningin á að snúast um hverju sinni. Þetta er einkum bagalegt þegar greitt er þjóðaratkvæði um einstakt afmarkað efni og eru það ein meginrökin sem beitt er gegn beinu lýðræði. Um þrjátíu þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið fram um ýmis málefni viðvíkjandi Evrópusambandinu í aðildarríkjum þess, svo sem um aðild að sambandinu, um einstakar breytingar á grunnsamningum þess eða um evruna. Vitað er að úrslitin hafa oft ráðist af vinsældum ríkisstjórnar í viðkomandi aðildarlandi.

Kosningin nú snýst um eitt mál

Á morgun, 9. apríl, reynir á þjóðina í afar mikilvægri atkvæðagreiðslu um nýjan Icesave-samning. Málið er flókið en í mjög einfaldaðri mynd snýst valið um það hvort við viljum ljúka málinu með þeim samningi sem nú liggur fyrir, og talinn er sá besti sem fengist getur, eða hvort við viljum láta reyna á dómstóla, innlenda og erlenda, og sjá hvernig okkur skattgreiðendum reiðir af í ólgusjó lögspekinnar. Vissulega eru mörg fleiri sjónarhorn, svo sem hin siðferðilega hlið málsins, sem skiptir marga miklu máli, meðal annars undirritaðan sem vill ekki vera talinn óreiðumaður. Siðaðir menn semja við granna sína. En skoðun mín er ekki tilefni þessa pistils heldur hitt að hvetja kjósendur til að einskorða sig við viðfangsefnið, að segja „já“ eða „nei“ um fyrirliggjandi samning einan. Þessi kosning snýst EKKI um forseta lýðveldisins, ekki um Evrópusambandið, ekki um evruna, ekki um kvótakerfið, ekki um ríkisstjórnina. Enn síður um stjórnlagaráðið og hvernig því reiðir af. Með kosningunni erum við heldur ekki að ná okkur niðri á ráðamönnum Breta og Hollendinga. Kosningin snýst ekki um allt það sem kjósendur kunna að vera fúlir út í. Hún snýst aðeins um eitt mál, Icesave-samninginn.

Hver svo sem úrslitin verða munu þau efalaust verða túlkuð út og suður af lýðskrumurum. Mikilvægara er að vandaðir fræðimenn kanni niðurstöðuna út frá því sem hér er rætt: Stóðst þjóðin prófið? Kynntu kjósendur sér málefnið og létu það eitt ráða atkvæði sínu?

Beint lýðræði er heillandi

Það er heillandi viðauki við fulltrúalýðræðið að þjóðin geti tekið af skarið um mikilvæg lagafrumvörp sem Alþingi hefur afgreitt, jafnvel lagt til lagabreytingar. En þetta krefst áhuga og aga af hálfu þjóðarinnar. Það kemur ekki af sjálfu sér og ekki í einu vetfangi. Við höfum nánast enga reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum. Mest er reynslan í þeim efnum annars vegar í Sviss og hins vegar í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum má rekja upphafið til öndverðrar 17. aldar í fylkjum Nýja-Englands. Síðustu áratugina heyrist einkum af slíkum atkvæðagreiðslum í Kaliforníu, þar sem þróunin hefur verið með ýmsu móti og að margra dómi orðið að eins konar skrílræði. Í Sviss finnast dæmi um beint lýðræði allt aftur til 15. aldar. Í nútímabúningi er þessi ríka lýðræðishefð þeirra frá miðri 19. öld. Síðan 1848 hefur um 500 sinnum verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna í Sviss. Í einstökum sýslum landsins (kantónum) skipta slíkar atkvæðagreiðslur þúsundum. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss var um nýja stjórnarskrá en meðal dæma frá þessari öld er að finna þjóðaratkvæði um bann við akstri bíla einn sunnudag á hverjum ársfjórðungi. Sú tillaga var felld með 62% atkvæða en 49% svissnesku þjóðarinnar létu sig málið það miklu skipta að að þau mættu á kjörstað. Í slíkum atkvæðagreiðslum láta Svisslendingar ekkert trufla sig, til dæmis ekki það hvernig ríkisstjórn reiðir af – enda láta þeir sig yfirleitt litlu skipta hverjir skipa hana.

Vöndum valið

Við væntanlega endurskoðun stjórnarskrár okkar verða ákvæði um þjóðaratkvæði eitt af stóru málunum. Þá verður efalaust dreginn lærdómur af tvennum kosningum um Icesave-málið alræmda. Meðal annars af þeim sökum er mikilvægt að þjóðin hugsi vel sinn gang, mæti á kjörstað og taki afstöðu til þessa eina málefnis – og vandi valið!

Comments are closed.