Fullt gjald fyrir afnot fiskimiðanna

[Birtist í Fréttablaðinu og visir.is 12. október 2017]
Forseti Íslands tók í júlí 2015 við undirskriftum 53.571 kosningabærs Íslendings þar sem skorað var á hann að „…vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir og úthlutar fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnar­skrá og þjóðinni hefur ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra“.

Frá því að þessi áskorun var afhent hefur Alþingi hvorki sett ákvæði um þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá (sem 80% kjósenda kröfðust í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. 2012) né tryggt með öðru móti að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot fiskimiðanna við landið. Í komandi kosningunum gefst kjósendum enn eitt tækifærið til að krefja stjórnmálaflokkana svara um hvernig þeir hyggjast halda á hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli.

Stjórnmálaflokkarnir hafa allir í orði kveðnu sagst vilja tryggja þjóðareign auðlindanna, en mestu skiptir að ákvæðið sem fer í stjórnar­skrá kveði skýrt á um eign þjóðarinnar, þannig að allur afnotaréttur auðlinda sé í umboði hennar og honum verði einungis ráðstafað tímabundið og þá gegn fullu gjaldi.

Útboð tryggir sátt um sjávarútveginn
Gjald fyrir afnot af auðlindum er ekki skattur sem er lagður á eftir efnum og aðstæðum. Þvert á móti er auðlindagjald eins og hvert það gjald sem þarf að inna af hendi fyrir önnur aðföng. Engum dytti í hug að kalla greiðslu fyrir olíu á skipin skatt, jafnvel þótt þjóðin ætti olíuna, eins og tilfellið er hjá Norðmönnum.

Um mikilvægi þess að sátt ríki um sjávarútveginn þarf ekki að fjölyrða. Hlutverk sjávarútvegs í íslensku samfélagi er óumdeilt og mikið til vinnandi að friður ríki um atvinnugreinina. Útboð aflaheimilda er eina færa leiðin til að komast að raun um hvað telst fullt gjald. Aðrar leiðir til gjaldtöku munu ávallt valda deilum og ósætti, sem er afar óheppilegt fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Með útboðum greiðir útgerðin það sem henni þykir sjálfri viðráðanlegt gjald, og væntanlega réttlátt, fyrir afnot af auðlindinni. Slíkt stuðlar að sátt um sjávarútveginn.


Agnar K. Þorsteinsson
Bolli Héðinsson
Guðrún Pétursdóttir
Jón Sigurðsson
Jón Steinsson
Þorkell Helgason
Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.

Aukum rétt kjósenda strax

[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. september 2017]

Traust á stjórnmálunum hefur verið lítið og er nú í lágmarki. Fólki finnst það vera haft að fífli, haldið utan við upplýsingar og ákvörðunartöku. Allur þorri kjósenda vill til dæmis að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nær fimm árum játtu þessu fjórir af hverjum fimm þeirra sem afstöðu tóku. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var hvort menn vildu aukið persónukjör, jafnt vægi atkvæða eða möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Um allt þetta þegir gildandi stjórnarskrá eða er alls ófullnægjandi. Ekki bætir úr skák að stjórnarskráin er ruglingsleg, ef ekki beinlínis villandi, t.d. um valdsvið forseta Íslands eins og núverandi forseti benti réttilega á við setningu Alþingis.

Stjórnlagaráð tók á þessum málum öllum og mörgum fleirum á þann veg að 2/3-hluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu því yfir að þeir vildu sjá nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins. En síðan hefur fátt gerst. Stjórnarskránni verður ekki breytt fyrir komandi kosningar, en Alþingi það sem enn situr getur þó sýnt viðleitni í að auka rétt kjósenda í kjörklefanum.

Breytingar á röð frambjóðenda
Eins og fyrr segir var yfirgnæfandi stuðningur við aukið vægi persónukjörs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, enda er það mörgum lítt að skapi að þurfa að kjósa frambjóðendur í kippum á listum flokkanna, enda leynist oft misjafn sauður í mörgu fé. Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir ná kjöri af listunum var þó talsvert aukið með kosningalögum sem tóku gildi um síðustu aldamót. Kjósendur geta umraðað frambjóðendum á þeim flokkslistum sem þeir merkja við, nú eða strikað út nöfn. En það er eins og þessu sé haldið leyndu og kjósendum gert erfitt um vik að nýta þennan rétt sinn. Kjörseðillinn sjálfur býður þessum merkingum kjósenda ekki heim og yfirvöld gefa engar leiðbeiningar fyrir utan gagnslítil upplýsingaspjöld sem hanga einhvers staðar á kjörstöðunum.

Viðbúið er að margir viti ekki af möguleikunum sem þó eru í boði eða séu hræddir við að ógilda kjörseðilinn með merkingum við frambjóðendur. Það væri strax til bóta að ferningur til merkinga væri framan við nöfn frambjóðenda auk þess sem yfirvöldum kosningamála væri gert skylt að upplýsa með afgerandi hætti hvað kjósendur mega gera og hvað ekki. Úr þessu tvennu væri hægt að bæta með einföldum fyrirmælum í lögum sem hægt væri að samþykkja fyrir komandi kosningar.

Kosningabandalög
Ein ástæða þess að áhugi á kosningum fer dvínandi er sú að kjósendum finnst þeir oft kjósa köttinn í sekknum. Þeir kjósi flokk, sem lofar ýmsu en fer síðan í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum öndverðrar skoðunar og flokkur kjósandans étur loforðin ofan í sig. Flokkarnir ættu að sýna meira á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þeim hugnist að starfa. Ein leið til þess er að flokkar geti spyrt sig saman í kosningabandalög.

Gildandi kosningalög heimila stjórnmálasamtökum að bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Hængurinn er sá að listunum er ekki gert jafn hátt undir höfði. Þetta kemur strax í ljós í listamerkingunum sem verða að vera A, AA, AAA o.s.frv., sem túlka má þannig að sá fyrst nefndi sé aðallistinn og hinir ómerkilegri. Við úthlutun þingsæta eru þó allir listarnir jafn réttháir. Þá heimila lögin ekki að einstakir listar kosningabandalags séu skráðir með nöfnum þeirra flokka sem að þeim standa. Aftur er það lítið mál fyrir Alþingi að bæta úr þessu. Ávinningurinn gæti orðið sá að línur yrðu eitthvað ljósari fyrir kosningar um það hvaða stjórnarmynstur kæmi til greina. Hugsanlega yrðu ekki fleiri en t.d. þrenn til fern stjórnmálasamtök (einstakir flokkar eða bandalög þeirra) í framboði. Eru ekki sumir að kalla eftir stórum fylkingum? Hví ekki að bjóða nú þegar upp á þennan möguleika?

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig veita mætti kjósendum aukna valmöguleika og hugsanlega betri yfirsýn yfir hvað kunni að vera í vændum að kosningum loknum. Þessu getur sitjandi þing breytt og þarf ekki til þess aukinn meirihluta eins og skylt er við breytingar á kjördæmamörkum eða tilhögun á úthlutun þingsæta. Hitt er annað mál að kosningalög þarf að endurskoða í heild sinni, og það ekki seinna en með nýrri stjórnarskrá. En það má stíga fyrstu skref strax.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði


 

Hvaða þingmenn standa tæpast?

Höfundur hefur ritað greinargerðir um úrslit allra þingkosninga á þessari öld, en er enn að dunda sér við að semja þá um kosningarnar 29. október 2016. Kallað hefur verið eftir kaflanum þar sem fjallað er um tæpustu tölur. Þeim kafla má þjófstarta með því að klikka hér: atkvaedabreytingar-2016.

Líta verður á þennan kafla sem drög. Hann kann að breytast eitthvað í lokagerð, en varla efnislega.

Þurfum við ríkisstjórn?

Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi –  að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.

„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.

Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.

Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.

Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði  þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!