by Þorkell Helgason | jún 10, 2018 | Á eigin vefsíðu
Nokkuð hefur verið spurt um það hvernig úthlutun sæta í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum hefði komið út ef beitt hefði verið öðrum aðferðum en þeirri lögbundnu, þeirri sem kennd er við d‘Hondt. Í ljós kemur að d‘Hondt sker sig úr frá þeim öðrum aðferðum sem koma við sögu á myndinni og gefa allar sömu niðurstöðu. Munurinn d‘Hondt á og hinum er sá að d‘Hondt gefur D og S einu sæti fleira, hvorum lista um sig, á kostnað B og J.
Um muninn á þessum aðferðum öllum má lesa á síðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2144. Frekari lýsing verður að bíða rits sem ég vonast til að ljúka á komandi vetri!
Í töflunni hefur listum undir 1000 atkvæðum verið sleppt; þeir fengu engin sæti í neinni aðferðinnui.
|
Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík 2018 |
|
B |
C |
D |
F |
J |
M |
P |
S |
V |
Alls |
Atkv. |
1.870 |
4.812 |
18.146 |
2.509 |
3.758 |
3.615 |
4.556 |
15.260 |
2.700 |
58.966 |
|
Úthlutuð sæti |
|
B |
C |
D |
F |
J |
M |
P |
S |
V |
Alls |
d’Hondt |
|
2 |
8 |
1 |
1 |
1 |
2 |
7 |
1 |
23 |
Sainte-Laguë |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
Norrænn Laguë |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
Hare (stærsta leif) |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
Droop |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
(Um þennan smápistil er fjallað á http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/06/11/dhondt-adferdin-reyndist-framsokn-og-sosialistum-othaegur-ljar-thufu/)
by Þorkell Helgason | sep 26, 2017 | Á eigin vefsíðu
[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. september 2017]
Traust á stjórnmálunum hefur verið lítið og er nú í lágmarki. Fólki finnst það vera haft að fífli, haldið utan við upplýsingar og ákvörðunartöku. Allur þorri kjósenda vill til dæmis að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nær fimm árum játtu þessu fjórir af hverjum fimm þeirra sem afstöðu tóku. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var hvort menn vildu aukið persónukjör, jafnt vægi atkvæða eða möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Um allt þetta þegir gildandi stjórnarskrá eða er alls ófullnægjandi. Ekki bætir úr skák að stjórnarskráin er ruglingsleg, ef ekki beinlínis villandi, t.d. um valdsvið forseta Íslands eins og núverandi forseti benti réttilega á við setningu Alþingis.
Stjórnlagaráð tók á þessum málum öllum og mörgum fleirum á þann veg að 2/3-hluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu því yfir að þeir vildu sjá nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins. En síðan hefur fátt gerst. Stjórnarskránni verður ekki breytt fyrir komandi kosningar, en Alþingi það sem enn situr getur þó sýnt viðleitni í að auka rétt kjósenda í kjörklefanum.
Breytingar á röð frambjóðenda
Eins og fyrr segir var yfirgnæfandi stuðningur við aukið vægi persónukjörs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, enda er það mörgum lítt að skapi að þurfa að kjósa frambjóðendur í kippum á listum flokkanna, enda leynist oft misjafn sauður í mörgu fé. Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir ná kjöri af listunum var þó talsvert aukið með kosningalögum sem tóku gildi um síðustu aldamót. Kjósendur geta umraðað frambjóðendum á þeim flokkslistum sem þeir merkja við, nú eða strikað út nöfn. En það er eins og þessu sé haldið leyndu og kjósendum gert erfitt um vik að nýta þennan rétt sinn. Kjörseðillinn sjálfur býður þessum merkingum kjósenda ekki heim og yfirvöld gefa engar leiðbeiningar fyrir utan gagnslítil upplýsingaspjöld sem hanga einhvers staðar á kjörstöðunum.
Viðbúið er að margir viti ekki af möguleikunum sem þó eru í boði eða séu hræddir við að ógilda kjörseðilinn með merkingum við frambjóðendur. Það væri strax til bóta að ferningur til merkinga væri framan við nöfn frambjóðenda auk þess sem yfirvöldum kosningamála væri gert skylt að upplýsa með afgerandi hætti hvað kjósendur mega gera og hvað ekki. Úr þessu tvennu væri hægt að bæta með einföldum fyrirmælum í lögum sem hægt væri að samþykkja fyrir komandi kosningar.
Kosningabandalög
Ein ástæða þess að áhugi á kosningum fer dvínandi er sú að kjósendum finnst þeir oft kjósa köttinn í sekknum. Þeir kjósi flokk, sem lofar ýmsu en fer síðan í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum öndverðrar skoðunar og flokkur kjósandans étur loforðin ofan í sig. Flokkarnir ættu að sýna meira á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þeim hugnist að starfa. Ein leið til þess er að flokkar geti spyrt sig saman í kosningabandalög.
Gildandi kosningalög heimila stjórnmálasamtökum að bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Hængurinn er sá að listunum er ekki gert jafn hátt undir höfði. Þetta kemur strax í ljós í listamerkingunum sem verða að vera A, AA, AAA o.s.frv., sem túlka má þannig að sá fyrst nefndi sé aðallistinn og hinir ómerkilegri. Við úthlutun þingsæta eru þó allir listarnir jafn réttháir. Þá heimila lögin ekki að einstakir listar kosningabandalags séu skráðir með nöfnum þeirra flokka sem að þeim standa. Aftur er það lítið mál fyrir Alþingi að bæta úr þessu. Ávinningurinn gæti orðið sá að línur yrðu eitthvað ljósari fyrir kosningar um það hvaða stjórnarmynstur kæmi til greina. Hugsanlega yrðu ekki fleiri en t.d. þrenn til fern stjórnmálasamtök (einstakir flokkar eða bandalög þeirra) í framboði. Eru ekki sumir að kalla eftir stórum fylkingum? Hví ekki að bjóða nú þegar upp á þennan möguleika?
Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig veita mætti kjósendum aukna valmöguleika og hugsanlega betri yfirsýn yfir hvað kunni að vera í vændum að kosningum loknum. Þessu getur sitjandi þing breytt og þarf ekki til þess aukinn meirihluta eins og skylt er við breytingar á kjördæmamörkum eða tilhögun á úthlutun þingsæta. Hitt er annað mál að kosningalög þarf að endurskoða í heild sinni, og það ekki seinna en með nýrri stjórnarskrá. En það má stíga fyrstu skref strax.
Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | okt 7, 2016 | Á eigin vefsíðu
Þorkell Helgason og Þórður Höskuldsson
Kjör formanns Samfylkingarinnar fór fram dagana 28. maí til 3. júní 2016. Í framboði voru þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný Harðardóttir.
Við kjörið var beitt aðferð færanlegs atkvæðis (e. STV eða Single Transferable Vote) og var það í fyrsta sinn sem aðferðin var notuð í vali á einstaklingi í opinberu kjöri hér á landi – eftir því sem best er vitað. Samkvæmt aðferðinni var kjósendum gert að velja einn frambjóðanda að aðalvali en síðan gefinn kostur á að raða öðrum, einum eða fleiri, í forgangsröð sem varaval.
Talningin
Ljósi er varpað á uppgjörsaðferðina í meðfylgjandi súluriti. Þar hefur hver frambjóðandi sinn lit.
Fyrsta hrina, sýnir hvernig atkvæði að aðalvali kjósenda skiptist á milli frambjóðenda. Oddný Harðardóttir hlaut 42,1% aðalvalsatkvæða. Þar sem það er ekki hreinn meirihluti mælir talningarreglan fyrir um að sá sem fæst fékk atkvæði, Guðmundur Ari, skuli dæmdur úr leik og atkvæði greidd honum færð til hinna í samræmi við óskir kjósenda að fyrsta varavali. Í annarri hrinu hefur hlutur þeirra þriggja sem eftir eru aukist nokkuð, þó ekki nóg til að neinn þeirra nái hreinum meirihluta. Því verður enn að færa til atkvæði og þá frá þeim frambjóðanda sem nú hefur fæst atkvæði, en það er Helgi Hjörvar. Að því loknu hafa atkvæðin safnast saman á tvo frambjóðendur og úrslitin orðin skýr: Oddný Harðardóttir fær tæp 60% atkvæða en Magnús Orri rúm 40%.
Athyglisvert er hve fá atkvæði fara forgörðum vegna þess að kjósendur hafi ekki tilgreint neitt varaval. Yfir 95% atkvæða skila sér að lokum til tveggja efstu frambjóðendanna.
Niðurstöður
Röð frambjóðendanna breytist ekki við tilfærslu atkvæðanna. Var þessi röðunaraðferð þá óþörf? Svo er ekki. Oddný fékk fékk að vísu flest atkvæði þegar í fyrstu hrinu, að aðalvali kjósenda, en hún náði ekki hreinum meirihluta. Með því að taka tillit til annars (og í örfáum tilvikum þriðja) vals kjósenda má á hinn bóginn með sanni segja að Oddný hafi notið stuðnings 60% kjósenda.
Það er athyglisvert, upp á frekari not þessarar aðferðar, að ekki bar nauðsyn til að krefja kjósendur um að raða öllum frambjóðendum. Í þessu tilviki, þegar þeir voru fjórir, nægir að raða tveimur, að velja annan að aðalvali og hinn til vara.
Prófað var að beita uppgjörsaðferð af öðrum toga, aðferð sem kennd er við Condorcet nokkurn. Þá er röðun kjósenda á frambjóðendum nýtt til samanburðar á sérhverjum tveimur þeirra, og þess freistað að finna þann sem sigrar alla hina í slíkri tvenndarkeppni. Niðurstöðu, sem fæst með því móti, telja margir vera þá mest afgerandi í þessum fræðum. Geta má þess að aðferð af þessu tagi var notuð nýlega í prófkjörum Pírata fyrir komandi þingkosningar. Enn og aftur ber Oddný sigur úr býtum í þvílíku uppgjöri.
Kjör á forseti Íslands fer fram með einföldu meirihlutakjöri; kjósendur fá aðeins einn kross til að tjá val sitt. Æskilegt er að breyta stjórnarskrárákvæðum um forsetakjör þannig að staðfesta megi að kjörinn forseti njóti stuðnings hreins meirihluta. Merking að aðalvali og einu varavali væri einföld og skilvirk aðferð í því skyni.
Ítarlegri greiningu á kjöri formanns Samfylkingarinnar 2016 má finna hér: greining-a-kjori-formanns-samfylkingarinnar-2016.
by Þorkell Helgason | mar 4, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Lítilega endurskoðað í des. 2018]
Stjórnarskrárnefnd sú sem starfaði 2013-2016 skilaði tillögum um nokkrar mikilvægar breytingar á stjórnarskránni. Ein þeirra lýtur að því hvernig kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög frá Alþingi. Þar er settur þröskuldur sem þannig er orðaður:
„Til þess að hnekkja lögum þarf meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur [25%] kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis.“
Slíkt ákvæði um stuðningslágmark órökrétt og styðst ekki við nein viðmið. Hvers vegna ekki 20% eða 30%? Þar nægir ekki að segja að 25% hafi verið málamiðlun í nefndinni. Þá er ávallt sá galli á ákvæði sem þessu að það er verið að gera þeim sem heima sitja upp skoðanir, að þeir séu upp til hópa á annarri skoðun en þeir sem þátt taka. Vafasamt er að þessir kjósendur geri sér grein því hvernig í raun er verið að gera þeim upp skoðun.
Hugmynd um aðra aðferð til að tengja saman atkvæðagreiðslu á þingi og meðal þjóðarinnar hefur verið að þróast. Hugsunin er sú að þeir sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni séu þar með að kalla til baka það umboð sem þeir hafa áður veitt þingmönnum í kosningum til Alþingis. Hinir sem heima sitja séu aftur á móti sáttir við afstöðu þingmanna og það hvernig atkvæði féllu á Alþingi um málið. Kalla má þessa leið samþætta ákvörðun þings og þjóðar en hana má finna með því að styðja hér á þessa nafngift.
Hugmyndin er enn gerjun. Því væri höfundi fengur af málefnalegu áliti lesenda. Þeir eru því beðnir að hafa samband á netfanginu thorkellhelga@gmail.com