by Þorkell Helgason | apr 16, 2013 | Á eigin vefsíðu
[Vefsíðuhöfundur tók eftirfarandi saman fyrir landskjörstjórn eins og lesa má á síðu hennar: http://landskjor.is/kosningamal/kosningakerfi/nr/114]
Um úthlutun þingsæta gilda ákvæði XVI. kafla laga um kosningar til Alþingis, nánar tiltekið greinar 106 til og með 110.
Samkvæmt ákvæðum þessara laga fer úthlutun hinna 63 sæta á Alþingi fram í tveimur meginskrefum. Fyrst er kjördæmissætum úthlutað, en þau eru 54 að tölu. Kjördæmissætunum er alfarið úthlutað á grundvelli fylgis lista í hverju kjördæmi. Landsfylgið kemur ekki við sögu. Það gildir líka einu hvort viðkomandi flokkur hafi boðið fram í öllum kjördæmum eða ekki.
Síðan er jöfnunarsætum úthlutað, en þau eru 9 talsins. Eins og nafn þeirra bendir til er tilgangur þeirra sá að „hver stjórnmálsamtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína“ eins og segir í 31. gr. gildandi stjórnarskrár. Það er ekki þar með sagt að fullur jöfnuður náist. Til þess kunna jöfnunarsætinsætin níu að reynast of fá.
Við úthlutun jöfnunarsæta koma þau og aðeins þau stjórnmálasamtök eða flokkar til álita sem hafa hlotið a.m.k. 5% fylgi samanlagt á landinu öllu. Þessi þröskuldur er tilskilinn skv. fyrrgreindu stjórnarskrárákvæði.
Úthlutun jöfnunarsætanna gerist þannig að þeim er samtímis skipt á milli stjórnmálasamtakanna og um leið ráðstafað til lista þeirra í einstökum kjördæmum.
Þegar sætum hefur þannig verið ráðstafað til lista á eftir að finna hvaða frambjóðendur hvers lista hljóta sætin. Þar ræður mestu uppstillt röð þeirra á listunum, en hún getur þó raskast ef nægilega margir kjósendur nýta sér rétt sinn í kjörklefanum til að breyta. Hér verður ekki vikið frekar að reglum þar að lútandi.
Í eftirfarandi lýsingu á sérstöku pdf.skjali er vísað til úrslita úr þingkosningunum 2009 til skýringar.
by Þorkell Helgason | des 1, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Ritað 2008 og þá birt á vef landskjörstjórnar.]
Hinn 28. september 2008 var kosið til landsþingsins í Bæjaralandi, en það er eitt af fylkjunum, eða „löndunum“ þýsku sem mynda Sambandslýðveldið Þýskaland. Kosningafyrirkomulag í þýsku löndunum 16 dregur dám af fyrirkomulagi kosninga til Sambandsþingsins, en þó er hvert þeirra með sínu lagi. Kjósendur í Bæjaralandi fara með tvö atkvæði, annað til að velja frambjóðanda í einmenningskjördeild, en hitt til að velja frambjóðanda á lista hver í sínu kjördæmi. Þegar Þýskaland var reist af rústum seinni heimsstyrjaldarinnar var keppt að traustri undirbyggingu lýðræðis í ljósi dapurrar reynslu. Því er margt áhugavert og til eftirbreytni í kosningalögum í Þýskalandi, ekki síst í Bæjaralandi.
Pistill um þetta er hér: ÞHKosningar til landsþingsins í Bæjaralandi Leiðr okt2018 (pdf). Hann er lítillega leiðréttur (í október 2018) frá upphaflegri gerð, eins og lýst er í neðanmálsgreinum 1 og 7 í pistlinum sjálfum.
by Þorkell Helgason | okt 20, 2010 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 30. september 2010]
Stjórnlagaþing verður haldið síðla komandi vetrar. Því er ætlað að gera tillögur um endurbætur á stjórnarskránni og verða viss lokahnykkur á því uppgjörs- og umbótaferli sem hefur verið í gangi eftir hrunið. Stjórnlagaþingið verður að vísu aðeins ráðgefandi, Alþingi mun hafa lokaorðið. En þingið getur samt ráðið úrslitum ef þar verður vel unnið og breið samstaða næst. Framboð og kosning til þessa þings er því mikilvægur áfangi á lýðræðisferli okkar.
Kosning til stjórnlagaþingsins, sem fer fram 27. nóvember nk., verður með allt öðrum hætti en tíðkast hefur í almennum kosningum hérlendis. Kosnir verða 25 þingfulltrúar en til að jafna kynjahlutföll kunna allt að sex fulltrúar að bætast við. Þeir sem bjóða sig fram raðast ekki á lista og eru engum skuldbundnir nema eigin samvisku. Landið verður eitt kjördæmi. Vægi atkvæða verður því óháð búsetu. Talningin fer fram miðlægt á vegum landskjörstjórnar og úrslit verða birt fyrir landið í heild, ekki eftir kjördæmum.
Kjósendur hafa mikið svigrúm til að ráðstafa atkvæði sínu. Þeir merkja ekki aðeins við einn frambjóðanda með krossi eins og vaninn hefur verið heldur velja þeir eins marga og hugur þeirra býður, allt að 25. Ekki nóg með það heldur skulu kjósendur raða þeim sem þeir vilja að sitji þingið í forgangsröð. Kjósandinn velur fyrst þann frambjóðanda sem hann leggur mest kapp á að nái kjöri, en að honum frágengnum þann frambjóðanda sem hann vill að þá taki við keflinu og nýti atkvæði sitt o.s.frv.
Með því fyrirkomulagi sem felst í sjálfri talningaraðferðinni er til hins ítrasta leitast við að lesa í vilja kjósenda þannig að atkvæði sem flestra hafi áhrif á lokavalið. Kjósendur þurfa ekki að velja nema einn frambjóðanda en hvetja verður alla til að raða sem flestum í forgangsröð og nýta þannig atkvæði sitt til fulls. Með því er ekki verið að þynna atkvæðið út eða drepa því á dreif. Þvert á móti. Það rýrir aldrei stuðning kjósandans við þá sem á undan eru komnir í forgangsröð hans að bæta fleirum við. Það skaðar t.d. ekki þann sem valinn hefur verið sem 1. val ef bætt er við öðrum að 2. vali. Þetta er mikilvægur eiginleiki aðferðarinnar, e.t.v. sá mikilvægasti.
Lesa má meira um aðferðafræðina á vefsíðunni: http://www.landskjor.is/stjornlagathing/adferdafraedi-vid-kosningu-til-stjornlagathings/.
Kjósendur fá víðtækt vald í til að velja sér verðuga fulltrúa á stjórnlagaþingið með því fyrirkomulagi sem verður við kosninguna. Kjósendur eiga að nýta þetta vald sitt og hafa þannig áhrif á gerð nýrrar stjórnarskrár.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur og ráðgjafi í kosningamálum
by Þorkell Helgason | apr 25, 2009 | Greinar
Í þessari greinargerð er fjallað um úrslit kosninga til Alþingis, sem fóru fram 25. apríl 2009, og um úthlutun þingsæta.
Áður hafa birst greinargerðir af þessu tagi um þingkosningarnar 2003 og 2007 en allar þessar kosningar byggjast á nýjum stjórnarskrár- og lagaákvæðum um kosningar til Alþingis frá síðustu aldamótum.
Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér
by Þorkell Helgason | maí 12, 2007 | Greinar, Vefur landskjörstjórnar
Kosningar til Alþingis fóru fram 12. maí 2007 og var þetta í annað sinn sem reyndi á
ný kosningalög, lög nr. 24/2000.
Í greinargerð þessari er fjallað um kosningaúrslitin og úthlutun þingsæta. Meðal
annars er horft til þess hvernig hin nýja skipan hefur reynst í þessum kosningum.
Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér