Skip to content

Af hverju stjórnlagaráð?

Við búum við stjórnarskrá sem Danakonungur gaf okkur 1874, að vísu með nokkrum breytingum og umbótum, en lýðveldinu Íslandi hefur aldrei verið sett heilsteypt stjórnarskrá. Gildandi stjórnarskrá er að grunni til haldgóð enda á hún rætur að rekja til frelsisanda nítjándu aldar. Hingað til hefur Alþingi glímt við það í 66 ár að móta lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá en án umtalsverðs árangurs. Nú er ætlunin að reyna nýja leið með því að kalla saman stjórnlagaþing. Það verður að vísu aðeins ráðgefandi en takist vel til og breið samstaða verði á þinginu, samstaða um tillögur sem hafi sterkan hljómgrunn með þjóðinni, mun Alþingi vafalítið ljá tillögunni brautargengi. Að lokum þarf að búa svo um hnútana að stjórnarskrártillaga stjórnlagaþingsins verði borin undir þjóðina. Hún er uppspretta alls valds. Það ber að virða.

Miklu máli skiptir að vel takist til með val fulltrúa á stjórnlagaþingið, t.d. að þar fari saman þekking en líka sjónarmið hins almenna þjóðfélagsþegns, karla og kvenna, ungra og roskinna. Vinnubrögðin á þinginu verða að vera með öðrum hætti en tíðkast á Alþingi. Stjórnarskrá getur ekki orðið til þannig að hver haldi sínu sjónarmiði til streitu. Það verður að fara fram rökræða á þinginu, en án karps. Þingfulltrúar eiga ekki að koma til þingsins með niðurnjörvaðar skoðanir og mega ekki vera feimnir við að skipta um skoðun. Það er dyggð en ekki löstur. Þing- og nefndarfundir eiga vissulega að vera opnir og það má varpa frá þeim út. En samræður verða að vera óþvingaðar. Nú reynir á að vel takist til með breytt vinnubrögð á mikilvægu þingi. Það er því ekki aðeins kosningin til stjórnlagaþings sem verður nýmæli heldur og sjálft þinghaldið. Þingið verður tilraun til lýðræðislegrar samræðu, þar reynir á hvort einstaklingar, sem ekki hafa skipað sér í fylkingar, geta unnið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Takist það vel gæti það orðið fyrirmynd um starfshætti á Alþingi og í sveitarstjórnun. Döpur reynsla allra af stjórnmálaumræðunni, störfum Alþingis og ríkisstjórna, sýnir okkur að þörf er nýrrar hugsunar, nýrra aðferða.

Af þessum sökum öllum verður stjórnlagaþingið prófsteinn á lýðræðisþroska okkar.