Skip to content

Skálholtshátíð

Höfundur: Þorkell Helgason, August 3rd, 2014

[Birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 2014.]

Eftir Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Ormar Þór Guðmundsson, Þorkel Helgason og Vilhjálm Bjarnason

clip_image002

Skálholtskirkja, — Morgunblaðið/Brynjar Gauti

“Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja.”

Ísland er líklega eina landið í veröldinni þar sem kristni hefur verið frá upphafi byggðar. Ef til vill voru hér í landi írskir einsetumenn sem iðkuðu trú sína hér fyrir landnám og einnig voru nokkrir landnámsmenn kristnir. Svo var það árið 999 að leiðtogi heiðinna, Þorgeir lögsögumaður, úrskurðaði að einn siður skyldi vera lögtekinn, í þágu þjóðareiningar.

Fyrir kristnum mönnum á þessari örlagastundu fóru Gissur hvíti og Síðu-Hallur. Ísleifur sonur Gissurar hvíta varð biskup og settist að á ættararfleifð sinni í Skálholt. Skálholt varð strax menningarsetur og þar hófst skólahald. Meðal nemenda Ísleifs var Jón helgi Ögmundsson, Hólabiskup. Ávallt síðan hefur Skálholt verið athvarf kristni, menningar og lista.

Þó varð Skálholt um skeið fórnarlamb niðurlægingar vegna þeirra hallæra, sem urðu í kjölfar móðuharðinda. Biskupsstóll og skólahald lögðust af í Skálholti árið 1801 en biskupsstóll lagðist af á Hólum árið 1798. Þá var risin steinkirkja sú er enn stendur á Hólum en allt var hrunið í Skálholti.

Skálholt var ekki gleymt í huga þjóðarinnar. Árið 1948 var Skálholtsfélagið stofnað. Félagið hafði það að markmiði að endurreisa virðingu Skálholts í minningu guðskristni í landinu. 15 árum síðar var dómkirkjan sem nú stendur vígð. Kirkjan er sú tólfta á staðnum.

Vígsla kirkjunnar var ekki aðeins kirkjuvígsla, hún var tákn þess að Ísland var risið úr öskustó Móðuharðinda.

Kirkjan er nú friðuð sem eitt höfuðdjásn byggingalistar á tuttugustu öld. Um friðunina segir: „Í útfærslu sinni á Skálholtskirkju hafði Hörður [Bjarnason] hliðsjón af Brynjólfskirkju sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807, krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum. Hún er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi.“

Til hliðar við kirkjuna stendur Skálholtsskóli sem einnig er friðaður. Um skólann segir í friðuninni: „Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitektarnir [Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson] fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.“

Í táknhyggju Skálholts er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Vissulega verður sólarljósið margbreytilegt þegar það skín um glugga Gerðar Helgadóttur. Þannig er einnig um kristmynd Nínu Tryggvadóttur fyrir altari kirkjunnar. Myndin vekur hugrenningar hjá þeim er hennar njóta.

Í friðuninni segir um verk þeirra: „Að innan er kirkjan einnig látlaus og einföld og því njóta steindir gluggar Gerðar Helgadóttur sín afar vel. Í kirkjunni er mikið af listaverkum en ein helsta prýði hennar verður þó að teljast mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem er í kórnum.“

Þegar kirkjan var risin af grunni fóru þeir heiðursmenn sem höfðu veg og vanda af verkefninu, herra Sigurbjörn Einarsson biskup og Hörður Bjarnason húsameistari, til Skálholts. Biskup ámálgaði það við húsameistara að reistur skyldi garður umhverfis kirkjuna. Húsameistari taldi það af og frá, kirkjan stendur á hæð og umhverfis hana skal ekkert standa sem skyggir á hana. Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja. Á þetta féllst biskup strax. Því hefur ekkert verið gróðursett umhverfis kirkjuna og allir legsteinar í kirkjugarðinum liggja við moldu.

Þannig hefur Skálholtskirkja öðlast virðingarsess í huga þjóðarinnar í einfaldleika sínum. Skálholtskirkja og Skálholtsskóli eru menningarsetur þar sem kristni, fræðimennska og tónlist eru í öndvegi.

En svo gerast ósköpin í einkaframkvæmd. Það er reist hús hornskakkt á kirkjuna. Húsið er án tilgangs, kallað tilgátuhús en án tilgátu. Kennt Þorláki án nokkurra tengsla við heilagan Þorlák. Um friðun bygginga í Skálholti segir: „Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.“

Þorláksbúð hin nýja nýtur því ekki friðunar. Auk þess er hún illilega á skjön við byggingarstíl og yfirbragð þeirra bygginga sem eru friðaðar. Því er nauðsynlegt að húsið verði flutt og fundinn staður þar sem það spillir ekki heilsteyptu yfirbragði Skálholtsstaðar.

Gleðilega Skálholtshátíð.

Eiður er fv. stjórnmálamaður, Hörður er fv. sendiherra, Jón Hákon var framkvæmdastjóri, Ormar Þór er arkitekt, Þorkell er próf. emeritus, Vilhjálmur er alþingismaður.

[Jón Hákon andaðist deginum fyrir birtingu þessarar greinar.]

Comments are closed.