Staksteinar villa um fyrir fólki og forseta

[Birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2015.]

Í Staksteinum Morgunblaðsins 9. júní sl. er spjótum beint að undirskriftasöfnuninni Þjóðareign.is þar sem skorað er á forsetann „að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“ Auk hefðbundinnar aulafyndni í þessum ritstjórnardálki er farið með rangfærslur.

Í fyrsta lagi segir í Staksteinum: „Það er of seint að skora á forsetann að skrifa ekki undir … frumvarp [um makrílkvóta], því að það er hann búinn að gera fyrir löngu, ella hefði það ekki orðið stjórnarfrumvarp.“ Sú undirskrift forseta sem hér um ræðir er formsatriði og hefur forseti enga heimild til að inna hana ekki af hendi. Auk þess birtast stjórnarfrumvörp ekki almenningi fyrr en eftir að forseti hefur skrifað undir framlagningu þeirra en þá væri áskorun á forsetann um að gera það ekki of seint á ferðinni.

Þá segir: „Og of snemmt er að senda áskorun um lögin, því fyrst þarf að samþykkja þau og birta … og þá fyrst geta menn hafið áskoranir.“ Frá samþykkt frumvarps á Alþingi og þar til forseti skrifar undir líða oft ekki nema klukkustundir, í mesta lagi dagar. Það gefur því auga leið að undirskriftasöfnun á þeim örtíma er óframkvæmanleg enda hefur alltaf verið hafist handa við undirskriftir af þessu tagi meðan mál eru enn í umfjöllun Alþingis.

Samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar getur forseti hafnað því að undirskrifa lög frá Alþingi, en því fylgir ekki heimild til að neita að undirrita framlagningu stjórnarfrumvarpa. Enda hefur núverandi forseti með undirskrift sinni staðið að framlagningu þeirra þriggja stjórnarfrumvarpa (um fjölmiðla og tvö um Icesave) sem hann síðan neitaði að staðfesta sem lög frá Alþingi og lagði því í dóm þjóðarinnar.

Hvaða tilgangi þjóna þessar blekkingar í Staksteinum? Er verið að fæla fólk frá því að skrifa undir áskorunina með röngum upplýsingum? Eða er ætlunin að væna forsetann um tvískinnung ef hann, nauðbeygður eða ekki, fellst á framlagningu frumvarps en neitar síðan að skrifa undir þegar frumvarpið er orðið að lögum frá Alþingi?

Höfundur er einn af aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.is

Skálholtshátíð

[Birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 2014.]

Eftir Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Ormar Þór Guðmundsson, Þorkel Helgason og Vilhjálm Bjarnason

clip_image002

Skálholtskirkja, — Morgunblaðið/Brynjar Gauti

„Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja.“

Ísland er líklega eina landið í veröldinni þar sem kristni hefur verið frá upphafi byggðar. Ef til vill voru hér í landi írskir einsetumenn sem iðkuðu trú sína hér fyrir landnám og einnig voru nokkrir landnámsmenn kristnir. Svo var það árið 999 að leiðtogi heiðinna, Þorgeir lögsögumaður, úrskurðaði að einn siður skyldi vera lögtekinn, í þágu þjóðareiningar.

Fyrir kristnum mönnum á þessari örlagastundu fóru Gissur hvíti og Síðu-Hallur. Ísleifur sonur Gissurar hvíta varð biskup og settist að á ættararfleifð sinni í Skálholt. Skálholt varð strax menningarsetur og þar hófst skólahald. Meðal nemenda Ísleifs var Jón helgi Ögmundsson, Hólabiskup. Ávallt síðan hefur Skálholt verið athvarf kristni, menningar og lista.

Þó varð Skálholt um skeið fórnarlamb niðurlægingar vegna þeirra hallæra, sem urðu í kjölfar móðuharðinda. Biskupsstóll og skólahald lögðust af í Skálholti árið 1801 en biskupsstóll lagðist af á Hólum árið 1798. Þá var risin steinkirkja sú er enn stendur á Hólum en allt var hrunið í Skálholti.

Skálholt var ekki gleymt í huga þjóðarinnar. Árið 1948 var Skálholtsfélagið stofnað. Félagið hafði það að markmiði að endurreisa virðingu Skálholts í minningu guðskristni í landinu. 15 árum síðar var dómkirkjan sem nú stendur vígð. Kirkjan er sú tólfta á staðnum.

Vígsla kirkjunnar var ekki aðeins kirkjuvígsla, hún var tákn þess að Ísland var risið úr öskustó Móðuharðinda.

Kirkjan er nú friðuð sem eitt höfuðdjásn byggingalistar á tuttugustu öld. Um friðunina segir: „Í útfærslu sinni á Skálholtskirkju hafði Hörður [Bjarnason] hliðsjón af Brynjólfskirkju sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807, krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum. Hún er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi.“

Til hliðar við kirkjuna stendur Skálholtsskóli sem einnig er friðaður. Um skólann segir í friðuninni: „Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitektarnir [Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson] fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.“

Í táknhyggju Skálholts er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Vissulega verður sólarljósið margbreytilegt þegar það skín um glugga Gerðar Helgadóttur. Þannig er einnig um kristmynd Nínu Tryggvadóttur fyrir altari kirkjunnar. Myndin vekur hugrenningar hjá þeim er hennar njóta.

Í friðuninni segir um verk þeirra: „Að innan er kirkjan einnig látlaus og einföld og því njóta steindir gluggar Gerðar Helgadóttur sín afar vel. Í kirkjunni er mikið af listaverkum en ein helsta prýði hennar verður þó að teljast mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem er í kórnum.“

Þegar kirkjan var risin af grunni fóru þeir heiðursmenn sem höfðu veg og vanda af verkefninu, herra Sigurbjörn Einarsson biskup og Hörður Bjarnason húsameistari, til Skálholts. Biskup ámálgaði það við húsameistara að reistur skyldi garður umhverfis kirkjuna. Húsameistari taldi það af og frá, kirkjan stendur á hæð og umhverfis hana skal ekkert standa sem skyggir á hana. Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja. Á þetta féllst biskup strax. Því hefur ekkert verið gróðursett umhverfis kirkjuna og allir legsteinar í kirkjugarðinum liggja við moldu.

Þannig hefur Skálholtskirkja öðlast virðingarsess í huga þjóðarinnar í einfaldleika sínum. Skálholtskirkja og Skálholtsskóli eru menningarsetur þar sem kristni, fræðimennska og tónlist eru í öndvegi.

En svo gerast ósköpin í einkaframkvæmd. Það er reist hús hornskakkt á kirkjuna. Húsið er án tilgangs, kallað tilgátuhús en án tilgátu. Kennt Þorláki án nokkurra tengsla við heilagan Þorlák. Um friðun bygginga í Skálholti segir: „Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.“

Þorláksbúð hin nýja nýtur því ekki friðunar. Auk þess er hún illilega á skjön við byggingarstíl og yfirbragð þeirra bygginga sem eru friðaðar. Því er nauðsynlegt að húsið verði flutt og fundinn staður þar sem það spillir ekki heilsteyptu yfirbragði Skálholtsstaðar.

Gleðilega Skálholtshátíð.

Eiður er fv. stjórnmálamaður, Hörður er fv. sendiherra, Jón Hákon var framkvæmdastjóri, Ormar Þór er arkitekt, Þorkell er próf. emeritus, Vilhjálmur er alþingismaður.

[Jón Hákon andaðist deginum fyrir birtingu þessarar greinar.]

Stórhátíð að hefjast í Skálholti

[Greinarstúfur þessi birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2014] 

Þorkell Helgason

Þorkell Helgason

Skálholt hefur um aldir verið partur af þjóðarsálinni. Svo er enn eins og sannast hefur á þeim mikla og maklega áhuga sem ópera Gunnars Þórðarsonar hefur vakið, en í henni er fjallað um ástir í meinum á sjálfu biskupssetrinu, ástir þeirra Ragnheiðar og Daða. Sagt hefur verið að Ragnheiður hafi leikið á klavíkord en fátt er þó vitað um tónlistariðkun í Skálholti á öldum áður. Hitt er víst að nú er hafin í fertugasta sinn ein elsta og umfangsmesta tónlistarhátíðin á landinu, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, og í þetta sinn er hún ekki af lakara taginu.

Í tilefni af fertugsafmælinu ljá norrænir sjóðir, samtök og listamenn hátíðinni lið. M.a. verða Sumartónleikar vettvangur þriðju EAR-ly-keppninnar, norrænnar samkeppni ungra tónlistarhópa sem leika forna tónlist á upprunaleg hljóðfæri.

Þá er það sérstakt fagnaðarefni að margir þeir sem voru frumkvöðlar Sumartónleikanna koma nú fram. Meðal þeirra er Ann Wallström fiðluleikari sem kornung kom í Skálholt, sá og sigraði hjörtu áheyrenda. Síðan hefur hún orðið að einum helsta túlkanda barokktónlistar í Svíaríki. Ann mun leika til minningar um Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, stofnanda Sumartónleikanna, bæði að kvöldi 2. júlí og síðdegis hinn 5. júlí.

Annar frumkvöðull er hollenski fiðluleikarinn Jaap Schröder, en enginn erlendur listamaður hefur lagt hátíðinni jafnmikið lið og hann. Svo eru það frumkvöðlarnir Bachsveitin í Skálholti og sönghópurinn góði, Hljómeyki.

Stundum stendur styr um Skálholt. Það sýnir að engum stendur á sama um staðinn, kirkjuna og söguna. Nú er tækifæri til að gleðjast í Skálholti, njóta góðrar tónlistar á fögrum stað á hásumri. Um allt þetta má fræðast nánar á vefsíðunni www.sumartonleikar.is.

Það verður tónaveisla í Skálholti allan júlímánuð og fram á verslunarmannahelgi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis.

Höfundur er stærðfræðingur og áhugamaður um málefni Skálholts.

Skemmdarverk á Skálholti

[Birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.]

Kirkjuráð, sem virðist hafa náð öllum völdum innan þjóðkirkjunnar, hefur ákveðið að leigja veitinga- og gistiþjónustu í Skálholti undir hótelrekstur. Áformum um að slá líka vígslubiskup af virðist þó hafa verið frestað.
Hvað gengur mönnum til? Sagt er að rétta þurfi fjárhag staðarins við. Núverandi vígslubiskup er þegar búinn að því. Hann tók að vísu við allmiklum skuldum en þær verða seint greiddar af staðnum einum. Vissulega hefur fjárhagur þjóðkirkjunnar versnað eftir hrun og taka þarf á því máli. Í þeim efnum er margt sem grípa má til sem veldur ekki þjóðarskaða eins og niðurrif í Skálholti.
Benda má að enn tíðkast það að prestar hirði arð af kirkjujörðum. Ekki þeir sem mestan hafa starfann og ættu e.t.v. launauppbót skilda. Nei, það eru einkum prestar í fámennum prestaköllum sem hafa ómældan arð af laxveiðileyfum, æðarvarpi eða leigutekjum svo að dæmi séu tekin. Þetta er arfleifð frá 19. öld, nokkuð sem löngu er búið að leggja af hjá embættismönnum ríkisins, en kirkjan er hér fórnarlamb harðrar hagsmunagæslu. Þá er engin goðgá að sameina minnstu prestaköllin. Nú er það svo að „sálusorgunarmisvægi‘“ er 1:20 þar sem tala sóknarbarna hvers prests er á bilinu frá 300 til 6000. Margir telja nauðsynlegt að jafna atkvæðisrétt til þingkosninga eftir búsetu en þar er þó misvægið aðeins 1:2. Leigutekjur af Skálholti yrðu vart meiri en það sem sparast gæti við samruna tveggja prestakalla.
Skálholt er ekki bara einhver kirkjustaður. Skálholt var og er miðstöð mennta, menningar og sögu og ekki aðeins fyrir þjóðkirkjufólk heldur þjóðina alla. Ríkisvaldið hefur sýnt það í verki með því að færa þjóðkirkjunni Skálholtsstað og kosta byggingu skólans að verulegu leyti og rekstur hans um hríð. Ráðherra sagði við afhendingu staðarins að þar ætti að starfrækja það sem „sæmdi staðnum“. Og enn eru í gildi lög um Skálholtsskóla. Hefur kirkjan lagalegan rétt til að leigja staðinn, þjóðargjöfina, einkaaðilum? Alla vega ekki siðferðilegan.
Sumir kunna að segja að varla skaði það kirkju- og menningarstarf á Skálholtsstað að þar sé rekin hótelstarfsemi. Það fer allt eftir því hvernig og hvar á staðnum. Vissulega gæti það orðið staðnum upplyfting að meira líf verði í næsta nágrenni, jafnvel hótel. En ekki á hlaðinu við kirkjuna. Skólinn og kirkjan heyra saman og gera hið andlega starf mögulegt. Vart myndi söfnuður leigja burt safnaðarheimili sitt undir fjarskylda starfsemi. Skálholtsskóli er safnaðarheimili við þjóðarkirkju.
Eitt af því sem vel hefur heppnast og haldið nafni Skálholts á lofti eru Sumartónleikar í Skálholtskirkju sem munu fagna fertugasta sumri sínu í ár með glæsilegri dagskrá, og það þrátt fyrir að þjóðkirkjan – að undirlagi kirkjuráðs – sé steinhætt að styrkja starfsemina. Í þetta sinn hefur fengist fé úr norrænum sjóðum til að hafa veglegt norrænt ívaf, enda eru Sumartónleikarnir elsta starfandi barokkhátíð á Norðurlöndum. En að loknu komandi sumri er allt eins víst að hátíðinni verði beint eða óbeint úthýst, hvort sem er af kirkjuráði eða hótelhaldara.
Hvað með virðingu fyrir þeim sem hafa lagt sig fram um heill Skálholts: Sigurbjörn Einarsson biskup, Hörð Bjarnason húsameistara, Bjarna Benediktsson þáverandi kirkjumálaráðherra, Þórarin Þórarinsson lýðháskólafrömuð, Heimi Steinsson fyrsta rektor Skálholtsskóla, Harald Hope prest í Noregi auk fjölda annarra gefenda á Norðurlöndum; eða þá tónlistarmenn sem hafa tekið ástfóstri við Skálholt og kirkjuna með sínum fagra hljómburði? Nefna má Róbert Abraham Ottósson sem stóð fyrir tónmennt í Skálholti í áratugi, Helgu Ingólfsdóttur semballeikara sem stofnaði Sumartónleikana og varði starfsævi sinni í þeirra þágu eða Manúelu Wiesler flautuleikara sem fyllti kirkjuna töfratónum sumar eftir sumar. Allt þetta fólk er látið en einum núlifandi skal bætt í þessa upptalningu: Jaap Schröder heimsfrægum fiðluleikara sem hefur í tvo áratugi leikið og stjórnað á Sumartónleikunum og síðan gefið staðnum umfangsmikið og verðmætt nótnabókasafn sitt.
Hver ber ábyrgð á því skemmdarverki sem nú vofir yfir Skálholti? Er ekki biskup Íslands forseti kirkjuráðs? Er hún sammála? Varla. Er biskup undir ægivaldi sjálfskipaðra æðstupresta? Hverjir eru þessir vandræðamenn? Nýta þeir sér að biskup er nú kona sem vill öllum vel? Hvernig væri þá að kvenprestar, sem brátt komast í meirihluta, styðji stöllu sína og standi gegn karlrembunum?
Það er þungbært að tala um skemmdarverk, en í ljósi þess sem ég hef orðið áskynja er það því miður lýsing á því sem er að gerast í Skálholti. Og þó hef ég í þessari grein ekki fjallað um annað hneyksli, yfirbyggingu yfir svokallaða Þorláksbúð sem verður tafarlaust að fjarlægja.
Skálholt á sinn stað í hjarta þjóðarinnar, rétt eins og Þingvellir. Það má aldrei líðast að fámenn klíka innan kirkjunnar stofni framtíð þessa helgistaðar í voða.
Höfundur er velunnari Skálholts.