Fréttatilkynning send á fjölmiðla 13. október s.l.

„Stjórnarskrá sé vörn gegn græðgi og afglöpum“

Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur ákveðið að gefa kost á sér við kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember en hlutverk þingsins er að gera tillögu um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þorkell hefur starfað sem háskólakennari og við opinbera stjórnsýslu. Hann hefur mikla þekkingu og reynslu af þeim málaflokkum sem koma við sögu við endurgerð stjórnarskrárinnar. Má einkum benda á sérþekkingu hans í kosningafræðum en í þeim efnum er hann helsti sérfræðingur landsins. Nú er einmitt kallað á nýjar leiðir þar sem kjósendur fái meira að segja um val á fulltrúum sínum og þjóðin verði í auknum mæli spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þekking Þorkels er því mikilvæg í starfi stjórnlagaþingsins. Menntun Þorkels er honum gott veganesti til að móta skýra og rökfasta stjórnarskrá á mannamáli.

Þorkell lýsir framboði sínu á eftirfarandi hátt:

Lykilatriði varðandi stjórnarskrána:

  • » Stjórnarskrá sé  þjóðinni vörn gegn græðgi sérhagsmunaseggja og afglöpum í stjórnarháttum.
  • » Stjórnarskráin tryggi lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og virðingu fyrir fólki, allir fái meira að vita, segja og ráða.
  • » Stjórnarskráin þarf að taka mið af smæð þjóðarinnar. Í þeim efnum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti.
  • » Skerpa verður skiptingu valdaþáttanna, Alþingis, ríkisstjórnar og dómstóla sem jafnframt þurfa að hafa eftirlit hver með öðrum.
  • » Til álita kemur að Alþingi stýri framkvæmdarvaldinu og ráði ríkisstjórn á faglegum forsendum.
  • » Hæstiréttur úrskurði um stjórnarskrárgildi laga, verði ígildi stjórnlagadómstóls.
  • » Stjórnarskráin verður að vera vönduð, skiljanleg og rökföst.
  • » Verklag mitt:
  • » Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum.
  • » Samfélagssátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.
  • » Ég hef almannaheill að leiðarljósi.
  • » Ég þigg engin fjárframlög til framboðs míns og dreg ekki taum sérhagsmuna.

Menntun og störf

Þorkell nam stærðfræði í Háskólunum í Göttingen, München og við MIT í Bandaríkjunum. Þaðan lauk hann doktorsprófi 1971. Árin 1971-91 starfaði Þorkell við Háskóla Íslands, síðast sem prófessor í reiknifræði. Hann var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 1991-1993, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum 1993-96 og orkumálastjóri 1996-2007. Þá var hann stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands um átta ára skeið. Þorkell hefur verið ráðgjafi opinberra aðila meðal annars í skattamálum, fiskveiðistjórnun og kosningamálum.