by Þorkell Helgason | mar 17, 2015 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 17. mars 2015.]
Undanfarna daga hefur verið deilt um grundvallarþætti lýðræðisins, um þingræðið og framkvæmdarvaldið í tilefni þess að ríkisstjórnin hefur – að því er virðist – afturkallað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Hefur hún rétt til að gera þetta upp á sitt eindæmi eða þarf hún að leita fulltingis Alþingis? Hér verður ekki farið út í efni þessa einstaka tilviks heldur einblínt á lýðræðisþátt málsins.
Deilur af þessum toga væru í mörgum lýðræðisríkjum útkljáðar fyrir stjórnlagadómstóli. Af alræmdu tilefni ruddu Þjóðverjar brautina eftir stríð og settu á laggirnar stjórnlagadómstól sem vakir yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Síðan hafa fjölmörg Evrópuríki fetað í fótspor þeirra, ekki síst hin nýju lýðræðisríki í Austur-Evrópu.
Vitaskuld verður ekki stjórnlagadómstól komið á nema með breyttri stjórnarskrá. Atvikin undanfarið ættu að sýna okkur hve brýnt er að koma nýrri stjórnarskrá í höfn. Hvers vegna? Forseti þýska stjórnlagadómstólsins hefur svarað þessu skorinort. „Frelsi og lýðræði án stjórnarskrár er óhugsandi,“ sagði dómsforsetinn og bætti við að stjórnarskrá væri handa minnihlutanum. Meirihluti sem ekki byggi við aðhald gæti leiðst til að kúga minnihlutann. Þess vegna þyrfti óvefengjanleg grunnréttindi, þess vegna þyrfti að tjóðra stjórnmálin með réttarreglum og þess vegna væri nauðsynlegt að hafa dómstól, stjórnlagadóm, sem gætti þess að farið væri að grunnreglunum.
Stjórnlagaráð tók að nokkru á þessum vanda og vildi koma á sérstakri úrskurðarnefnd, Lögréttu, sem vísi að stjórnlagadómstól. Trúlega þarf að ganga lengra. Það mætti hugsanlega gera í tengslum við þá áformuðu breytingu á dómskerfinu að koma á millidómstigi. Þá verður Hæstarétti lyft á hærri stall og kynni hann því að geta tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls. En grundvöllurinn verður að vera traustur og byggjast á stjórnarskrárákvæði.
Lærum af reynslunni. Treystum lýðræðið – með endurbættri stjórnarskrá.
by Þorkell Helgason | feb 16, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Ritað 2008 og þá birt á vef landskjörstjórnar.]
Flokkur getur undir vissum kringumstæðum aukið þingstyrk sinn á þýska Sambandsþinginu við það að tapa atkvæðum. Hið öndverða er einnig mögulegt; að flokkur geti tapað sætum á auknu atkvæðafylgi – að öllu öðru óbreyttu. Við kosningar 2005 varð dæmi um þetta bersýnilegt. Þýski Stjórnlagadómstóllinn hefur nú kveðið upp úr með það að þetta gangi ekki lengur og mælir fyrir um að Sambandsþingið verði að betrumbæta kosningalögin. Pistill þessi fjallar um þetta stórmerka mál, sem sagt er að sé eitt athyglisverðasta grundvallarmál sem upp hefur komið í lýðræðissögu Sambandslýðveldisins Þýskalands. Jafnframt er vikið að lærdómi sem draga má af málinu – jafnvel fyrir okkur á Íslandi.
Meira um þetta í skjalinu Þýskur stjórnlagadómur.
——————————————————————————–
by Þorkell Helgason | okt 21, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 21. október 2011, en undir öðru heiti vegna mistaka]
Þjóðverjar héldu upp á sameiningardaginn 3. október s.l. Það er þjóðhátíðardagur þótt Þjóðverjar forðist að nota orðið eins og allt annað sem minnir á þjóðrembu. Stjórnarskráin þýska var þema dagsins. Forseti þýska stjórnlagadómstólsins hélt hátíðarræðu. Þar spurði hann hvað sameini þjóðina. „Hvað á einstæð móðir með tvö ung börn sem situr við kassann í stórmarkaði í Chemnitz [sem hét Karls-Marx-borg í fjóra rauða áratugi!] sameiginlegt með virtum viðskiptalögmanni í München sem ekur á Porsche sportbíl á skrifstofuna sína?“ Þessa spurningu má heimfæra á okkar litla Ísland enda hefur okkur á nokkrum áratugum tekist að elta stórþjóðirnar í ójafnri skiptingu á auði og efnum.
Lítum nánar í ræðuna þýsku.
Fjögur gildi
Dómsforsetinn taldi að þrátt fyrir ójöfnuð og ólíka hagsmuni væri margt sem sameinaði og nefndi hann fernt: a) Frelsi og sjálfsákvörðunarréttur, b) viðleitni til að fara leið hófsemda, að finna meðalveginn, c) fastheldi við evrópuhugsunina og síðast en ekki síst d) hugsjónin um lýðræðislegt ríki sem byggt er á grundvallarreglum. Við hömpum frelsi og fullveldi á tyllidögum en vart öðru af þessum gildum. Er það þjóðarvilji að gæta hófs og fara meðalveginn? Vart fyrir hrunið mikla. Og um evrópumálin erum við klofin í herðar niður. Þessir þættir ræðunnar eru ekki umræðuefnið hér heldur sá síðasti: Hugsjónin um lýðræði á traustum grunni stjórnarskrár.
Hvers vegna stjórnarskrá?
Forseti þýska stjórnlagadómstólsins svaraði því skorinort: „Frelsi og lýðræði án grundvallarlaga er óhugsandi.“ Stjórnarskrá er handa minnihlutanum; meirihluti sem ekki býr við aðhald getur leiðst til að kúga minnihlutann. Þess vegna þarf óvéfengjanleg grunnréttindi, þess vegna þarf að tjóðra stjórnmálin með réttarreglum og þess vegna er nauðsynlegt að hafa dómstól, stjórnlagadóm, sem gætir þess að farið sé að grunnreglunum.
Þjóðverjar eiga í vandræðum með fortíð sína. Þess vegna höfða þeir ógjarnan til þjóðernis, tungu eða menningar þegar þeir skilgreina hvað sameinar þá, nokkuð sem okkur er með réttu tamt að gera. Dómsforsetinn bar fyrir sig annað hugtak þjóðarvitundar, þýska orðið „Verfassungspatriotismus“ sem má etv. snara sem stjórnlagaþjóðrækni. Þá er vitnað til þess hvernig þýska þjóðin hefur keppt að þjóðfélagi grundvallað á rétti, fyrst með tilraun stjórnarskrár 1849, sem tókst þó ekki gæfulega fyrr en réttri öld síðar, eftir að miklar eldar höfðu brunnið. Síðsumars 1948 lagði e.k. stjórnlagaráð grunn að stjórnarskrá fyrir Sambandslýðveldið Þýskaland. Sjálf stjórnarskráin varð svo til og undirrituð næsta vor. Þessi stjórnarskrá hefur orðið mörgum að fyrirmynd, ekki aðeins nýju lýðræðisríkjunum í Austurevrópu, heldur líka okkur í stjórnlagaráðinu íslenska. Þangað sóttum við t.d. hið glæsilega orðalag um virðingu fyrir reisn mannsins, en líka mikilvægt ákvæði um að þjóðþingið skuli beinlínis kjósa forsætisráðherra jafnframt því að honum verði ekki velt úr sessi nema með kjöri eftirmanns. Þannig verði aldrei til stjórnleysi.
Á hinn bóginn heyktumst við í stjórnlagaráðinu á að taka beint upp frá þeim þýsku hugmyndina um stjórnlagadómstól sem dómsforsetinn taldi vera ómissandi. Við stigum að vísu stórt skref með tillögu um úrskurðarnefnd, Lögréttu, sem kveði upp um stjórnarskrárgildi lagafrumvarpa. Meira um þetta í komandi pistli.
Þurfum við lagaþjóðrækni?
Okkur kann að þykja að hin þýska lagahyggja, sem birtist í stjórnlagaþjóðrækninni, komi okkur ekki við. Aldrei höfum við búið við hættulegt byltingarástand eða heimatilbúið einræði. Samt getum við tínt til dæmi þar sem okkur þyki yfirvöld eða einstakir ráðamenn hafa gengið fram á ystu nöf í gerræði, jafnvel fram yfir hana. Allur er því varinn góður. Og við urðum vissulega fyrir barðinu á efnahagslegu hruni fyrir réttum þremur árum, sem hugsanlega hefði orðið vægara ef allur lagagrunnur, ekki síst stjórnalaggrunnur, hefði verið traustari. Þess vegna þurfum við nýja og vandaða stjórnarskrá, sem umfram allt sé fólkinu hjartfólgin, hluti af þjóðernisvitundinni. Þess vegna verður að fara fram ítarleg kynning og umræða um nýja stjórnarskrá. Að lokum verður hún að hljóta óskorðað fulltingi þjóðararinnar í almennri atkvæðagreiðslu.
by Þorkell Helgason | sep 16, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 16. september 2011]
„Brennt barn forðast eldinn.“ Það gera Þjóðverjar – af alræmdu tilefni. Því settu þeir eftir stríð á laggirnar stjórnlagadómstóla sem eiga að vaka yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Slíkir dómstólar eru í hverju „landi“ (fylki) Þýskalands, en sambandsdómstóll dæmir um mál sem snerta allt sambandsríkið og þó einkum um grundvallarréttindi almennings. Í síðustu viku felldi þessi alríkisdómstóll einn af sínum merkustu úrskurðum. Tilefnið var umkvörtun nokkurra borgara þess efnis að ríkisstjórnin í Berlín hefði farið út fyrir valdmörk sín þegar hún hafi gengist í ábyrgðir vegna aðstoðar við Grikkland, án þess að hafa haft nægilegt samráð við sambandsþingið. Niðurstaðan var hálfgerður Salómonsdómur: „Látum gott heita en gerið þetta aldrei aftur án góðs samráðs við þingið.“
Hér verður sjálf niðurstaðan ekki krufin heldur farið yfir rökin fyrir því að kvörtunin var metin dómtæk. Kjarni þeirra raka er sá að allt vald komi frá fólkinu sem kjósi sér sambandsþing. Færist vald frá þinginu meir en góðu hófi gegnir og þingið sniðgengið sé verið að rýra vald hins upphaflega valdhafa, þjóðarinnar. Sérhver borgari hafi því heimild til þess að vera á varðbergi og kvarta til Stjórnlagadómstólsins ef hann telur vald sinna kjörnu fulltrúa vera skert, því að þannig sé kosningarétturinn vanvirtur.
Lærdómsríkir lagakrókar
Þjóðverjar eru lagaflækjumenn. Því er kjarni málsins sá hvaða ákvæðis stjórnarskrárinnar dómstólinn vísar til máli sínu til stuðnings og er þess virði að um það sé farið nokkrum orðum. Dómurinn byggir úrskurð sinn á tilvísun í það grundvallarákvæði að þingmenn „eru kosnir í almennum, beinum, frjálsum og leynilegum kosningum þar sem allir eru jafnir“, í ákvæðið um að „allt ríkisvald komi frá þjóðinni“ og að lokum í það ákvæði að þeim grundgildum sem felast í hinum greinunum tveimur megi ekki raska, ekki einu sinni með stjórnarskrárbreytingu.
Sem sagt: Vald fólksins er friðhelgt, þess vegna verður jafnframt að tryggja vald fulltrúa þess, þingsins.
Hvað kemur þetta okkur við?
Þetta snertir vissulega umræðuefni þessara pistla, en þeir fjalla um þá nýju stjórnarskrá sem stjórnlagaráð leggur til. Í fyrsta lagi er það til eftirbreytni að Þjóðverjar hafa sérstaka dómstóla til að verja stjórnarskrá sína. Við í stjórnlagaráði fjölluðum gaumgæfilega um slíkt fyrirkomulag, en fórum einfaldari leið sem lýst verður síðar.
Að öðru leyti áréttar hinn þýski úrskurður að allt vald komi frá fólkinu sjálfu. Það var líka skoðun okkar í stjórnlagaráði. Þegar í 2. grein frumvarps stjórnlagaráðs birtist það nýmæli að „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar“, en ámóta ákvæði er ekki í gildandi stjórnarskrá. Í framhaldinu er kveðið á um hina tvo valdþættina: „Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið. Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið.“
Hér er það njörvað niður að þjóðin sjálf er uppspretta alls ríkisvalds, að allir aðrir valdhafar starfa í hennar umboði, beint eða óbeint. Við í stjórnlagaráði, ræddum hvort þetta ætti að vera enn skýrara og hafa svipaðan aðdraganda og hjá hinum þýsku, segja beinlínis að„allt ríkisvald komi frá þjóðinni“. Það varð ekki ofaná enda vorum við sparsöm á allt sem kalla mætti „fagurgala“; vildum hafa orðalagið skýrt og sem minnst af óþörfum endurtekningum. Ef til vill hefði þetta þó átt að vera að hætti Þjóðverja. Við erum að vísu ekki jafnbrennd og þeir, en pólitískir eldar geta blossað upp hvar sem er. Allur er varinn góður.