by Þorkell Helgason | jún 27, 2019 | Á eigin vefsíðu
Formenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi munu hafa orðið sammála um að birta og óska eftir athugasemdum við drög að frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.
Ég hef sent inn umsögn (ásamt fylgibréfi) um tillögur flokksformannanna, en í samantekt segi ég:
Samantekt
- Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
- Lýst er áhyggjum af því hvað „einkaeignarréttur“ nákvæmlega þýðir; hvort tryggt sé að þjóðareignir geti ekki orðið að einkaeignum með hjálp þessa hugtaks.
- Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
- Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum. Sum atriði í greinargerð vekja upp efasemdir.
- Það veldur verulegum áhyggjum að ákvæði um gjaldtöku fyrir afnotaheimildir gefur engar vísbendingar um hvers eðlis gjaldtakan skuli vera. Þá er spurt hvaða afleiðingar það kunni að hafa að krafa um gjaldtöku þurfi aðeins að taka til nýtingar í svokölluðu ábataskyni.
- Þess er saknað að hið ráðgerða stjórnarskrárákvæði nái ekki til annarra almannagæða en aðeins náttúrurauðlinda.
- Sérstaklega er krafist svara við því hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda kvótakerfi í sessi og það ásamt með rýrum veiðigjöldum. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu vorið 2015.
- Í heild hljómar hið ráðgerða ákvæði sem snotur viljayfirlýsing en með rýru efnislegu innihaldi. Því leyfir undirritaður sér að stinga upp á lágmarks skerpingu ákvæðisins þannig að eitthvað verði hönd á festandi.
by Þorkell Helgason | jún 1, 2018 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi er umsögn sem ég sendi til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps stjórnarmeirihlutans sem lagt var fram í skyndi um eftirgjöf á veiðigjöldum. Umsagnarfrestur var aðeins rúmur sólarhringur.]
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012, 631. mál á 148. löggjafarþingi 2017–2018.
Sú var tíðin að verð á helstu nauðþurftum var ákveðið af stjórnvöldum eða nefndum á þeirra vegum. Sama gilti um fiskverð. Gengi á krónunni var fest með lögum frá Alþingi og miðaðist nær alfarið við afkomu sjávarútvegsins. Þetta fyrirkomulag fól í sér veiðigjald þó með óbeinum hætti væri, en innheimta þess fór fram í gegnum tolla. Fullkomnun náði þetta kerfi á dögum vinstri stjórnarinnar undir lok sjötta áratugarins, þegar hver grein sjávarútvegsins bjó við sitt gengi.
Þegar þetta miðstýrða fyrirkomulag var aflagt undir lok síðustu aldar og verð á nær öllu (nema landbúnaðarvörum) látið ákvarðast á markaði, hefði strax átt að taka upp markaðstengt veiðigjald. Því miður varð það ekki og því sitjum við enn uppi með eftirhreytur af fyrirkomulagi miðstýrðra ákvarðana, veiðigjaldi sem nú á að fastsetja í krónum og aurum með lögum frá Alþingi.
Ef útgerðin fengi sjálf að ákveða veiðigjaldið á frjálsum markaði gæti hún ekki kvartað um seinagang stjórnvalda við að aðlaga gjaldið breytingu á afkomu útgerðarinnar, en það virðist vera tilefni framlagðs frumvarps. Veiðigjaldið tæki strax mið af stöðunni á hverjum tíma. Þjóðin, eigandi auðlindarinnar, ætti líka að verða sátt enda væri þá greitt markaðsgjald, „fullt gjald“ fyrir veiðiheimildirnar allt eins og tilgreint er í ákvæði um eignarrétt í stjórnarskránni, meira að segja þeirri núverandi.
Í téðu frv. endurspeglast sá reginmisskilningur að veiðigjald sé skattur sem eigi að leggja á eftir efnum og ástæðum, sbr. afsláttinn sem fær heitið „persónuafsláttur“ í greinargerð með frv. Gjaldið er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða en sameiginlega auðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það færi eftir stöðu og stærð útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald, sem síbreytilegur skattur allt eftir því hvernig pólitískir vindar blása, verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi.
Byggðasjónarmið blandast ætíð inn í umræðuna um veiðigjöld. Í stað þess að vera með einhverjar byggðatengingar í veiðigjaldskerfinu sjálfu er mun markvissara að verja drjúgum hluta gjaldsins beint til byggðaaðgerða, jafnvel að eyrnamerkja sjávarútvegsbyggðum tekjupóst af gjaldinu.
Helsta gagnrýnin á markaðstengt veiðigjald er sú að það kunni að kollsigla útgerðinni. Við Jón Steinsson, hagfræðiprófessor tókum árið 2010 saman greinargerð um markaðstengingu veiðigjalds í áföngum fyrir Starfshóp um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Í endurskoðaðri gerð þessarar greinargerðar, sem finna má á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2555, eru leiddar líkur að því að það gæti verið útgerðinni fjárhagslega hagkvæmt að sætta sig við breytt fyrirkomulag, fyrningarleiðina svokölluðu, m.a. í ljósi þess að óvissu um síbreytilegt pólitískt veiðigjald væri eytt.
Sjálfsagt mun umrætt frumvarp ná fram að ganga, enda ekkert tóm til að grundaðrar gagntillögu nú í ljósi hins mikla óðagots í þessu máli. En tilefni er til að hvetja þingmenn til að kynna sér fordæmalaust almennt og nútímalegt fyrirkomulag: Hægfara aðlögun að markaðsbúskap í þessum málum sem öðrum.
Virðingarfyllst, München, 1. júní 2018,
Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor (kt. 021142-4259)
Strönd, 225 Garðabæ
by Þorkell Helgason | jan 11, 2018 | Á eigin vefsíðu
[Birtist á Fréttablaðinu og á visir.is 11. janúar 2018; sjá http://www.visir.is/g/2018180119868/veidigjald-er-ekki-skattur-heldur-afnotagjald-]
Skattar eru lagðir á „eftir efnum og ástæðum“ eins sagt var í gömlum lögum um álagningu útsvars. [i] Þeir sem betur eru settir greiða hlutfallslega meira en hinir. Þetta er gert af félagslegum ástæðum, til tekjujöfnunar. En þetta á aðeins við um skatta á tekjur einstaklinga. Fyrirtæki greiða aftur á móti öll sama hlutfall af hreinum tekjum sínum, óháð efnahag að öðru leyti. Það er hvorki skynsamlegt né framkvæmanlegt að vera þar með einhverjar tekjujöfnunarkúnstir.
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir: „Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu.“ [ii] Í túlkun ráðherra og stjórnarþingmanna undanfarið á þessu ákvæði hefur þetta verið lagt út sem lækkun veiðigjalda með tilliti til „afkomu“; jafnvel afkomu hverrar útgerðar eða a.m.k. útgerðarhópa.
Varhugaverð braut
Hér er farið út á varhugaverða braut af mörgum ástæðum. Slík afkomutenging verður ávallt umdeilanleg, upphaf ágreinings sem mun grafa undan veiðigjaldskerfinu í sífellu þar til fátt verður eftir. Brugðist verður við kveinstöfum með því að slá af gjaldinu, fyrst hjá Jóni en svo líka fyrir séra Jón. Leiðir til að koma útgerðum undir lægri gjöldin munu blasa við, svo sem uppskipting fyrirtækja í misarðbærar einingar. Útgerðir munu fá „framsóknarlag“ svo vísað sé til fyrirbæris fyrr á árum þegar sagað var framan af stefni fiskiskipa til að koma þeim í hentugra hólf réttinda. Hvað gerist við leiguframsal kvóta frá útgerð með lægra veiðigjald til annarrar í hærri gjaldflokki?
Kjarni málsins er sá að veiðigjald er ekki og á ekki að vera skattur, allra síst slíkur sem lagður er á samkvæmt efnum og ástæðum. Veiðigjald er enginn tekjuskattsauki. Það er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða sameignarauðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það eftir afkomu hverrar útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald sem er skilgreint sem síbreytilegur skattur verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi sem grunar að þjóðin sé hlunnfarin, hlustandi á fréttir um drjúgar arðgreiðslur til eigenda útgerðanna.
Eðlilegir viðskiptahættir
Innan þess þjóðskipulags sem við búum við er eðlilegast að útgerðin ákvarði veiðigjaldið sjálf með því að kaupa eða leigja aflaheimildirnar af eigandanum, þjóðinni, á frjálsum samkeppnismarkaði. Þá aðlagast gjaldið sjálfkrafa því hvernig árar í sjávarútvegi hverju sinni og tekur þannig mið af „efnum og ástæðum“ útvegarins í heild, en án pólitískra inngripa. Breytingu í þessa veru má koma á í áföngum með fyrningarleiðinni svokölluðu. [iii] En er ekki hætta á að hinir stóru og sterku hrifsi til sín allar aflaheimildir séu þær seldar á almennum markaði? Við því er hægt að setja ýmsar skorður og beita mótvægisaðgerðum. Þannig mætti t.d. láta tekjur af sölu aflaheimilda renna að drjúgum hluta til þeirra byggða sem eiga mest undir fiskafla svo og til uppbyggingar innviða í dreifðum byggðum landsins.
Vinstri-hægri
Hvers vegna skýtur slík hugmynd um ríkisstýrð og afkomutengd veiðigjöld upp kollinum nú hjá vinstri-hægri stjórn? Það er ein af furðum íslenskra stjórnmála að markaðsleiðir eiga nokkuð jafnt undir högg að sækja hjá þeim sem eru lengst til hægri svo og þeim sem eru á hinum kantinum. Látinn stjórnmálaforingi skýrði þetta þannig að vinstri-hægri ásinn væri í raun skeifulaga; stutt væri á milli endanna. Erum við að upplifa það nú?
Í lokin má minna á að 83% þeirra sem afstöðu tóku voru fylgjandi því að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign í stjórnarskrá. Stjórnlagaráð gerði til tillögu í þeim efnum sem öðrum. Enn situr þó við sama.
_________________________________________________________
[i] Í 4. gr. laga nr. 66 1945 hefst á þessari setningu: „Útsvar skal leggja á eftir efnum og ástæðum.“
[ii] Sjá https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/
[iii] Sjá t.d. https://thorkellhelgason.is/?p=2555.
Höfundur sat í stjórnlagaráði.
by Þorkell Helgason | sep 29, 2017 | Á eigin vefsíðu
Greinargerð um efnið, fyrningarleiðina, var upphaflega samin sumarið 2010 fyrir Starfshóp um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem þáverandi ríkisstjórn setti á laggirnar. Höfundar greinargerðarinnar voru þeir Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor í reiknifræði við Háskóla Íslands, og Jón Steinsson, prófessor í hagfræði við Columbia-háskóla í New York. Þessa eldri gerð er að finna á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=285.
Annar höfundanna, Þorkell Helgason, hefur endurskoðað greinargerðina þar sem m.a. eru felld brott nokkur útfærsluatriði sem áttu sérstaklega við í umræddu pólitísku samhengi. Auk þess er þar nýtt viðhengi þar sem sérstaklega er vikið að því hvers virði það sé fyrir útgerðina að eytt sé óvissu um framtíð aflamarkskerfsins. Nýja gerðin finnst hér: Fyrningarleið 25juni2020
Í hnotskurn er í báðum gerðum greinargerðarinnar reifuð leið um breytt fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar sem grundvallast á hugmynd um hægfara fyrningu aflahlutdeilda, þ.e. endurúthlutun þeirra að stærstum hluta en það sem losnar við fyrninguna sé boðið upp. Fjallað er um afbrigði af grunngerð fyrningarleiðarinnar m.a. með vísan til kosta hennar og galla.
by Þorkell Helgason | mar 6, 2016 | Á eigin vefsíðu
Stjórnarskrárnefnd hefur kynnt tillögur sínar um breytingar á þremur meginþáttum í gildandi stjórnarskrá. Ég tel að endurskoða eigi stjórnarskrána í heild sinni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs eins og 2/3 hluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vildi. Engu að síður hef ég sent nefndinni erindi með umsögn, athugasemdum og betrumbótum á þessum tillögum.
Erindi mitt má kalla fram með því að styðja hér á heiti þess: Athugasemdir Þorkels Helgasonar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar
Meginatriði í athugasemdum mínum við frumvarpsdrög stjórnlaganefndar eru þessi:
Um þjóðaratkvæðagreiðslur
- Ekki er gerður ágreiningur um að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu verði að koma frá a.m.k. 15% kosningabærra manna.
- Sá fjögurra vikna frestur sem gefinn er til að skila undirskriftum er of skammur. Reifuð er málamiðlun í þeim efnum.
- Takmarka ætti það tímarúm sem Alþingi hefur til að stöðva þjóðaratkvæðagreiðslu með afturköllun máls.
- Því er andmælt að settur sé synjunarþröskuldur sem takmarki rétt kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Til málamiðlunar er stungið upp á að lækka þröskuldinn úr 25% í 15% sem svarar þá til þess hlutfalls kjósenda sem þarf til að kalla eftir atkvæðagreiðslunni.
- Bent er á að þess sé krafist að lög um útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum þurfi að samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi. Spurt er hvað gerist ef sá meiri hluti næst ekki? Lögð er til breyting á frumvarpsdrögunum sem tekur á þessum vanda.
Um umhverfisvernd
- Hafðar eru af því áhyggjur hvort raunverulega sé verið að tryggja almannarétt til frjálsrar farar um landið.
Um náttúruauðlindir
- Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
- Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
- Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum.
- Það býður heim deilum og túlkunum út og suður að hafa jafn loðið ákvæði í stjórnarskrá og „[a]ð jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda“.
- Kallað er eftir því að stuðst verði við orðalag stjórnlagaráðs um „fullt gjald“ fyrir afnot af þjóðareignum en það um leið aðlagað sjónarmiðum nefndarinnar.
- Sérstaklega er nefndin krafin svara um það hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda „gjafakvótakerfi“ í sessi. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu á sl. vori.