Meira lýðræði með endurbótum á fyrirkomulagi kosninga

[Eftirfarandi pitill birtist á vefsíðunni visir.is 7. júní 2022, sjá https://www.visir.is/g/20222272463d/meira-lyd-raedi-med-endur-botum-a-fyrir-komu-lagi-kosninga. ]

Í kjölfar nýafstaðinna kosninga til sveitarstjórna hefur farið af stað umræða um fyrirkomulag kosninga. Það er að góðu. Þau mál verða seint fullrædd enda að mörgu að hyggja sem efla megi lýðræðið. Um áramótin tóku ný kosningalög gildi. Þau eru til framfara en í þeim er slegið saman öllum lagaákvæðum um kosningar til Alþingis, sveitarstjórna, kjör forseta Íslands og um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í ljós hafa komið nokkrir tæknilegir ágallar á lögunum og hefur dómsmálaráðuneytið boðað úrbætur; sjá https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3207.

Að mati undirritaðs þarf þó að ganga enn lengra í umbótum á kosningaákvæðum. Á þetta var bent í erindi til Alþingis þegar frumvarp til kosningalaganna var þar til umfjöllunar; sjá https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-1747.pdf. Sumar þeirra ábendinga ásamt nokkrum til viðbótar skulu nú taldar upp sem innlegg í þessa mikilvægu umræðu.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla

Samkvæmt nýju kosningalögunum hefst utankjörfundaratkvæðagreiðsla viku eftir að framboðsfrestur rennur út. Áður var þetta í öfugri röð. Kjósa mátti þótt ekki væri vitað hvað væri í boði. Enn er það þó svo að kjörseðlarnir liggja ekki frammi á utankjörfundarstöðum; ekki einu sinni sýnishorn þeirra. Enn tíðkast sú forneskja að kjósendur fá auðan blaðsnepil til að skrifa eða stimpla á listabókstaf. Því gerist það einatt að kjósendur fara villur vega. Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum höfðu t.d. 23 kjósendur í Garðabæ ekki áttað sig á því að nokkur framboð höfðu runnið saman í eitt og merktu með listabókstöfum forveranna, nokkuð sem kostaði nýja listann missi eins sætis. Ekki er kunnugt um slíka alauða „kjörseðla“ neins staðar í grannlöndunum.

Hvers vegna má ekki, nú á dögum rafrænnar tækni, prenta kjörseðla út á staðnum? Og hví ekki ganga enn lengra og gera engan mun á utankjörfundaratkvæðagreiðslu (hugtak sem vísar til þess þegar kosið var á fundi í heyranda hljóði!) og atkvæðagreiðslu á kjördegi; að kjördagar séu tvær vikur eða svo og auðvitað með alvöru kjörseðlum. Enn fremur má spyrja hví ekki megi kjósa póstkosningu. Í sumum grannlöndum okkar er allt að helmingur atkvæða greiddur þannig.

Það er brýnt að gera það aðgengilegra að kjósa til að bregðast, a.m.k. þannig, við síminnkandi kjörsókn.

Úthlutunarreglur

Allt frá upphafi hlutfallskosninga hér á landi snemma á síðustu öld, hefur sætum í þing- og sveitarstjórnarkosningum verið úthlutað með reglu sem kennd er við D‘Hondt – þó með einu tímabundnu fráviki. Í upphafi voru þingmenn í óvissu um það hver þessi regla væri og hvernig henni skyldi beitt og er það hin spaugilegasta saga. Reglunni var ruglað saman við reglu stærstu leifa svo að úr varð hrærigrautur. Milliþinganefnd var sett á laggirnar til að útfæra dæmi – sem hún réð svo ekki við. Það var ekki fyrr en ráðherrann eini, Hannes Hafstein, reiknaði rétt sem botn komst í málið.

Regla D‘Hondts er trúlega algengasta hlutfallsreglan en hvergi nærri sú eina. Þær helstu aðrar eru leifareglur að hætti Hares og Droops en ekki síður regla Sainte-Laguës. Engin regla er þó fullkomin. Fyrir því eru óumflýjanlegar rökfræðilegar ástæður. T.d. er regla D‘Hondts með innbyggðri bjögun í þeim skilningi að hún hyglir atkvæðameiri framboðum á kostnað hinna minni. Sama á að nokkru við um reglu Droops. Þær einu sem eru hlutlausar að þessu leyti eru reglur Sainte-Laguës og Hares. Því eru þær víða notaðar, og þó einkum Laguë-reglan, svo sem í Noregi og Svíþjóð og almennt í hinum þýska menningarheimi. Þar um slóðir hafa stjórnlagadómstólar jafnvel úrskurðað reglu D‘Hondts ólýðræðislega.

Hlutleysi reglna stærstu leifa og Laguës leiðir óhjákvæmilega til þess að með þeim er ekki tryggt að flokkur sem fær hreinan meirihluta atkvæða fái meirihluta sæta. Regla D‘Hondts er sú eina sem er þeim kosti búin. Í kosningum til þýska Sambandsþingsins er séð við þessu með því að flokkur með meirihluta atkvæða skuli fyrst fá úthlutað helmingi sæta, og einu betur, áður en regla Laguës er sett í gang. Á þetta hefur þó aldrei reynt. Þá hafa reglur stærstu leifa ýmsa tæknilega ágalla svo sem þann að smábreyting á atkvæðum eins lista, það lítil að hún breytir engu um sætatölu þess lista, getur samt hrist upp í úthlutuninni, þ.e. leitt til færslu sæta milli annarra lista enda þótt atkvæði þeirra hafi í engu breyst.

Fara verður yfir kosti og galla þessara reglna og íhuga aðrar reglur en D‘Hondts-reglu. T.d. gæti verið skynsamlegt að beita reglu Sainte-Laguës við úthlutun kjördæmissæta. Með því yrði auðveldara að ná jöfnuði á landsvísu milli flokka enda þótt regla D‘Hondts væri áfram notuð við landsuppgjörið og þá um leið við sveitarstjórnarkosningar.

Aðferð við útdeilingu jöfnunarsæta

Við talningu í kjölfar Alþingiskosninga eru jöfnunarsæti á flakki milli flokka og kjördæma alla talningarnóttina. Sama gerðist eftir endurtalninguna frægu í Norðvesturkjördæmi sl. haust, þegar örfá atkvæði hreyfðu við tíu þingsætum – og hefðu tvö atkvæði dugað til. Það sem er verra að listi getur tapað sæti á því að fá fleiri atkvæði – og öfugt. (Nú nýverið hefur Pétur Ólafur Aðalgeirsson skrifað meistararitgerð um þetta viðfangsefni.)

Þróaðar hafa verið margar aðferðir til að deila út jöfnunarsætum. Þar togast á gæði og flækjustig. Aðeins er til ein meginaðferð í þessu skyni sem sneiðir hjá umræddum göllum svo og ýmsum öðrum vanköntum. Hún þykir flókin enda þótt stærðfræðilega sé hún afar einföld! Henni er beitt í kosningum í sumum kantónum í Sviss.

Jöfnun atkvæðavægis

Atkvæði vega ekki jafnt í þingkosningum. Annars vegar er ósamræmi milli atkvæðavægis eftir búsetu kjósenda og hins vegar eftir því hvaða flokk þeir velja. Það fyrrnefnda er búið að vera viðloðandi frá upphafi kosninga til Alþingis. Enn er það svo að allt að helmingsmunur er á meðaltali kjósenda að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi og í Suðvesturkjördæmi. Er stætt á þessu lengur? Jöfnun þessa vægis leysir líka úr mörgum öðrum vanda eins og þeim að ná jöfnuði milli flokka.

Aðalmarkmið breytinganna á kosningakerfinu 1984-87 var að ná slíkum jöfnuði að fullu. Það tókst allt þar til í þingkosningunum 2013. Í þeim þrennum þingkosningum sem síðan hafa verið haldnar hefur í hvert sinn eitt þingsæti lent hjá röngum flokki. Það nægði til að tryggja einni ríkistjórnanna á tímabilinu meirihluta á Alþingi. Þessu misvægi þarf einnig að eyða. Það næst með því að skilgreina sem flest sætanna, helst öll þeirra, sem jöfnunarsæti. Auðvitað væri enn einfaldara að gera landið að einu kjördæmi.

Landskjör

Vandræðaganginn með flakkið á jöfnunarsætum má leysa með ýmsum hætti. Þau væru óþörf ef landinu væri ekki skipt upp í kjördæmi. Millileið er að hafa jöfnunarsætin alfarið á landslistum, ótengdum kjördæmum. Á því fyrirkomulagi eru til margvíslegar útfærslur. Þar má aftur sækja í smiðju hjá hinum þýskumælandi þjóðum þar sem kjördæmissæti ásamt sérstökum landssætum er meginreglan. Eftir hrun stjórnkerfa kommúnismans breiddist þetta þýskuskotna kerfi út um nær alla Austur-Evrópu – en líka til Nýja-Sjálands. Það er svo önnur saga að með vaxandi einræðistilburðum í sumum þessara landa hefur kerfinu verið misþyrmt – auðvitað til að tryggja völd þeirra sem fyrir sitja á palli.

Kosningabandalög

Einn af fáum kostum einmenningskjördæma, en þau tíðkast víðast hvar í hinum engilsaxneska heimi, er sá að í raun stendur val kjósenda á milli tveggja stjórnarmeirihluta þar sem vart þrífast fleiri en tveir meginflokkar undir þessu fyrirkomulagi – svo lýðræðislegt sem það nú er. Þar sem kosið er með hlutfallskosningum, eins og hjá okkur, kemst að jafnaði drjúgur fjöldi flokka á þing eða í sveitarstjórnir, þ.a. kjósendur vita sjaldnast hvaða meirihlutasamstarf verður ofan á í kjölfar kosninga.

Úr þessu má að nokkru bæta með því að gera það auðvelt að mynda kosningabandalög, þ.e. að sama fylking geti boðið fram tvo eða fleiri jafngilda lista. Þannig gætu flokkarnir gefið kjósendum til kynna hverjir hygðust starfa saman að kosningum loknum. Sums staðar er meira að segja ýtt undir þetta. Í Grikklandi eru 250 þingmenn kosnir með hlutfallskjöri en síðan fær stærsti flokkurinn, eða bandalagið, 50 þingsæti í kaupbæti. Á Ítalíu var um skamma hríð gengið enn lengra og kveðið á um að stærsta fylkingin fengi meirihluta þingsæta og engar refjar. Það fyrirkomulag var raunar runnið undan rifjum Berlusconis sem ætlaði að tryggja sér og sínum slíkan meirihluta. Hann féll á þessu eigin bragði.

Persónukjör

Allt frá upphafi hlutfallskosninga hér á landi hefur verið heimilt að strika yfir nöfn á listum og umraða þeim. Þetta hefur þó verið næsta máttlaust ákvæði og á tímabilinu 1987-2002 var það vita gagnslaust og var svo áfram í sveitarstjórnarkosningum allt þar til nú. Enn er þetta þó aðeins sýndarákvæði. Skoðanakannanir, svo og þjóðaratkvæðagreiðslan 2012, hafa leitt í ljós að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill ganga lengra. Stjórnlagaráð gerði róttæka tillögu þar um, en ekkert af því sem frá ráðinu kom hefur náð fram að ganga.

Forsetakjör

Sá galli er á núverandi fyrirkomulagi forsetakjörs að sjaldnast er ljóst hvort meirihluti kjósenda standi að baki kjöri forsetaefnis. Úr þessu er víða bætt með endurtekinni kosningu milli þeirra tveggja efstu úr frumkosningunni. Til er einfaldari, ódýrari og um margt pólitískt betri aðferð: Að gefa kjósendum kost á að velja eftirlætisframbjóðanda sinn og síðan annan (eða jafnvel fleiri) til vara. Þetta lagði Stjórnlagaráð líka til.

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Um mörg stórmál – svo sem um stjórnarskrá, jöfnun atkvæðavægis, auðlindagjöld, persónukjör og margt fleira – sýna kannanir og fyrrgreind þjóðaratkvæðagreiðsla sterkan vilja þjóðarinnar, en þingmeirihluti hverju sinni skýtur við því skollaeyrum. Lýðræði okkar felst vissulega í því að við kjósum fulltrúa til að ráða málum. Gallinn er sá að kosningar hverfast sjaldnast um einstök stórmál. Valið stendur milli flokka og almenn viðhorf þeirra en ekki um aðskilin málefni. Aðeins einu sinni hafa þingkosningar snúist um afmarkað stórmál. Það var um stjórnarskárbreytingu vorið 1959.

Hví ekki að leyfa þjóðinni stundum að ráða? Einnig það er að finna í söltuðum tillögum Stjórnlagaráðs.

Um gildi kosninga

Samkvæmt ákvæðum gildandi stjórnarskrár hefur Alþingi síðasta orðið um það hverjir hafa náð kjöri. Á þetta reyndi heldur betur eftir þingkosningarnar sl. haust. Þá varð farsæll endir í kjörbréfanefnd þingsins enda vel að verki staðið undir verkstjórn núverandi forseta Alþingis. Engu að síður þykir mörgum undarlegt að menn dæmi í eigin málum. Einnig þessu vildi Stjórnlagaráð breyta.

Að lokum

Höfundur þessa pistils hefur ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum búið til hugbúnað sem gerir kleift að hanna og gæðaprófa ýmsar aðferðir við útdeilingu sæta. Búnaðurinn stendur til boða þegar hafist verður handa við endurbætur á kosningalögum.

Yfirskrift þessarar greinar er að hluta sótt í kjörorð eins helsta stjórnmálaforingja Þjóðverja á seinni hluta síðustu aldar, Willys Brandts: „Mehr Demokratie wagen“ eða „þorum meira lýðræði“.

Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor í stærðfræði og ráðgjafi Alþingis og landskjörstjórnar í kosningamálum. Var og félagi í Stjórnlagaráði.

Skiptir vilji þjóðarinnar máli í komandi kosningum?

[Birtist í Kjarnanum 31. ágúst 2021.]

Ný könnun Gallups sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spurðir voru er hlynntur því „að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum“. Spurningunni svipar til ákvæðisins í stjórnarskrártillögum Stjórnlagaráðs um að greiða skuli „fullt gjald“ fyrir afnot af auðlindum í þjóðareigu.

Meginniðurstaðan úr könnuninni er sú að 77% þeirra sem svöruðu eru hlynntir því að krafist sé markaðsgjalds en einungis 7% eru því andvígir. Afgangurinn, 16%, tók ekki afstöðu. Sé þessum óákveðnu sleppt eru tæplega 92% hlynntir en rúm 8% andvígir. Og þetta er næsta óháð kyni, menntun og tekjum þeirra spurðu. Landsbyggðarfólk er meira hikandi en höfuðborgarbúar, en sé horft fram hjá óákveðnum er munurinn eftir búsetu vart marktækur. Nokkur munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það hyggst kjósa. Þó er meirihluti fólks í öllum flokkum hlynntur markaðsgjaldi, eða frá 54% upp í meira en 90% hjá þremur flokkanna. Sé aftur horft fram hjá hinum óákveðnu er stuðningurinn hjá kjósendum einskis flokks minni en 76%.

Þessi afgerandi niðurstaða kemur svo sem ekki á óvart enda í samræmi við margar kannanir af svipuðum toga og raunar líka við svör kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 um það hvort lýsa eigi náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskrá. Af þeim sem þá tóku afstöðu voru 83% þeirrar skoðunar.

En ekkert gerist

Málið er þæft fram og til baka og út úr því snúið. Sama má segja um ýmis mál önnur þar sem þjóðin virðist mjög á annarri skoðun en þingmeirihlutinn á hverjum tíma. Vissulega kjósum við fulltrúa til að ráða málum okkar. Samt er eitthvað við það bogið þegar þing og þjóð eru gjörsamlega ósammála um mikilvæg grundvallarmál árum og áratugum saman. Hví kjósum við þá ekki þá flokka sem eru sömu skoðunar og við? Hængurinn er sá að flokkar bjóða aðeins upp á einn matseðil hver. Þótt aðalrétturinn kunni að vera girnilegur kjósandanum hefur hann kannski litla lyst á eftirréttinum. Kjósendur ganga ekki að hlaðborði þar sem þeir geta valið sér matseðilinn.

Hví ekki spyrja þjóðina?

Samkvæmt stjórnskipan okkar er nánast aldrei leyft að leita til kjósenda um einstök mál. Hví ekki að leyfa það í einhverjum mæli? Sagt er að þjóðin geti haft rangt fyrir sér? En hver er dómbær í þeim efnum aðrir en þjóðin sjálf? Væri það goðgá að spyrja þjóðina skýrt og skorinort hvort hún vilji að greitt sé fullt gjald, markaðsgjald, fyrir afnot af auðlindum í almannaeigu? Reynist það fá tiltekinn lágmarksstuðning væri stjórnvöldum gert skylt að útfæra ákvæðið og bera lög þar að lútandi aftur undir þjóðina. Þetta gerist þó ekki án stjórnarskrárbreytingar. Stjórnlagaráð var með tillögu í þessum dúr, en það fór á sama veg og annað: Enda þótt tveir þriðju hlutar þeirra sem afstöðu tóku í fyrrgreindri þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu sig því fylgjandi að tillögur ráðsins yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá og enn fleiri, eða nær þrír fjórðu hlutar, vildu að mál gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur tillögunum öllum verið stungið undir stól.

Á meðan þjóðin fær ekki að tjá sig beint verða þeir sem vilja fá fullt afnotagjald fyrir eigur sínar að herja á flokkana í komandi kosningum. Flokkarnir hljóta að taka mark á meirihluta kjósenda sinna.

Höfundur Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði og er félagi í Þjóðareign

Umsögn um hugmyndir flokksformanna um stjórnarskrárákvæði um forsetann

Klúbbur formanna stjórnmálaflokka á Alþingi heldur áfram bútasaum á stjórnarskránni gömlu og lúnu. Nú hafa þeir birt á Samráðsgáttinni hugmyndir um breytingar stjórnarskrárákvæðum um forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds o.fl.  Gefinn var afar stuttur tími til að senda inn umsagnir.

Ég hef þó sent inn allítarlega umsögn sem hér má rekja í heild sinni (eftir leiðréttingu á par ritvillum!): ÞorkellHelgasonUmsognForsetamal.

Einnig má finna þessa umsögn mína (þá nr. #1o8) og aðrar á Samráðgáttinni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2713#advices

Ég spyr þar hvort það samræmist yfirlýstu markmiði um „gagnsæi“ við þetta viðfangsefni að fela tveimur lögfræðingum, þótt mætir séu, að ganga frá þessum hugmyndum og það í frumvarpsformi án þess að fram komi hvað er hvurs, formannanna og lögfræðinganna.

Þá lýsi ég vonbrigðum yfir því að hvergi er hægt að sjá hvort eða hvaða áhrif umsagnir um fyrri hugmyndir formannaklúbbsins hafa haft.

Ég tel að með frumvarpsdrögunum horfi margt til bóta, enda er víða byggt á sjónarmiðum Stjórnlagaráðs. Á hinn bóginn þarf meira til þess að úr verði heilsteypt og samræmd endurskoðun á stjórnarskránni. Því bendi ég enn og aftur á að tillögur Stjórnlagaráðs frá sumrinu 2011 eru eini grundvöllur að stjórnarskrárbótum sem hefur hlotið beina lýðræðislega umfjöllun og þjóðarstuðning.

Nokkrir punktar úr umsögn minni:

  • Hnykkja ætti á því að allt vald komi frá þjóðinni en kjörnir fulltrúar fari með það í hennar umboði.
  • Þess er saknað að ekki skuli tekin upp tillaga Stjórnlagaráðs um raðval til að tryggja að kjörinn forseti njóti á endanum stuðnings meirihluta kjósenda.
  • Spurt er um það ákvæði sem á að takmarka setu forseta við tólf ár. Óljóst er hvort sami maður geti gegnt embættinu enn lengur sé seta hans í stóli ekki samfelld.
  • Tillögur um aðkomu forseta að stjórnarmyndun eru athyglisverðar en verða ekki gagnrýndar innan þess stutta tímafrests sem gefinn er.
  • Dregið er í efa að ríkisráð hafi einhvern tilgang.
  • Því miður eru „þykjustuhlutverk“ forseta ekki afnumin, jafnvel nýjum bætt við.
  • Orðlag um gildistöku nýs ákvæðis um hámark á embættistíð forseta þykir óskýrt.
  • Brýnt er að stjórnarskrá sé öllum læsileg og aðgengileg og verði þjóðinni hjartfólgin. Bútasaumuð stjórnarskrá er ekki til þess fallin.

Umsögn um tillögur flokksformanna um stjórnarskrárákvæði um auðlindir

Formenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi munu hafa orðið sammála um að birta og óska eftir athugasemdum við drög að frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.

Ég hef sent inn umsögn (ásamt fylgibréfi) um tillögur flokksformannanna, en í samantekt segi ég:

Samantekt

  • Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
  • Lýst er áhyggjum af því hvað „einkaeignarréttur“ nákvæmlega þýðir; hvort tryggt sé að þjóðareignir geti ekki orðið að einkaeignum með hjálp þessa hugtaks.
  • Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
  • Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum. Sum atriði í greinargerð vekja upp efasemdir.
  • Það veldur verulegum áhyggjum að ákvæði um gjaldtöku fyrir afnotaheimildir gefur engar vísbendingar um hvers eðlis gjaldtakan skuli vera. Þá er spurt hvaða afleiðingar það kunni að hafa að krafa um gjaldtöku þurfi aðeins að taka til nýtingar í svokölluðu ábataskyni.
  • Þess er saknað að hið ráðgerða stjórnarskrárákvæði nái ekki til annarra almannagæða en aðeins náttúrurauðlinda.
  • Sérstaklega er krafist svara við því hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda kvótakerfi í sessi og það ásamt með rýrum veiðigjöldum. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu vorið 2015.
  • Í heild hljómar hið ráðgerða ákvæði sem snotur viljayfirlýsing en með rýru efnislegu innihaldi. Því leyfir undirritaður sér að stinga upp á lágmarks skerpingu ákvæðisins þannig að eitthvað verði hönd á festandi.

Stjórnarskrárafmæli, þýsk og íslensk

[Eftirfarandi pistill birtist nokkuð styttur í Fréttablaðinu 7. júní 2019 og jafnframt á vefsíðunni https://www.frettabladid.is/skodun/stjornarskrarafmaeli-thysk-og-islensk/.  Hér er pistillinn í upphaflegri lengd.]

 

Mannleg reisn er friðhelg

Þannig hefst fyrsta grein stjórnarskrár eða grundvallarlaga Sambandslýðveldisins Þýskalands; „Die Würde des Menschen ist unantastbar.“ Þetta var skráð fjórum árum eftir að lokið hafði hörmungartímabili í þýskri sögu þar sem mannhelgin var fótum troðin af valdhöfum.

Við setningu grundvallarlaganna var lagt kapp á að fyrirbyggja að sagan endurtæki sig. Var þá tekið mið af því hvað þótti hafa brugðist í þeirri stjórnarskrá sem á undan hafði gilt, Weimar-stjórnarskránni, en í ár er liðin rétt öld frá því að hún tók gildi. Það var líka eftir tímabil eymdar og niðurlægingar upp úr endalokum fyrra stríðs. Sú stjórnarskrá var um margt framsækin, ekki síst hvað mannréttindi varðar. En á henni þóttu gallar og sá einna helstur að forsetinn hafði of mikil völd. Hann gat sett lög og vikið grundvallarákvæðum stjórnarskrárinnar til hliðar á meintum neyðartímum. Það var ógæfa þýsku þjóðarinnar að þurfa að kjósa lýðræðisandstæðing, hershöfðingjann Paul von Hindenburg, á forsætisstól árið 1932 en þá stóð valið um hann eða annan verri. Sá vélaði skömmu síðar forsetann til að veita sér alræðisvald. Afleiðingin var mesti hildarleikur sögunnar.

Hinn 23. maí sl. minntust Þjóðverjar þess að liðin voru 70 ár frá því að grundvallarlög þeirra tóku gildi. Þjóðverjum er annt um þessa stjórnarskrá, enda hefur hún tryggt að mannhelgi hefur verið virt, frelsi og friður ríkt og lýðræði og réttarríki í heiðri haft; allt lengur en nokkurn tímann áður í þýskri sögu. Vonir eru bundnar við að svo verði um ókomna tíð. Raunar eru ákvæðin um breytingar á grundvallarlögunum þýsku þannig að undirstöðunni svo sem um reisn mannsins verður ekki haggað svo lengi sem lýðskrumurum tekst ekki að hrifsa völdin. Í Þýskalandi sem og annars staðar þarf almenningur að sjá í gegnum blekkingar þeirra. Þar þurfa Íslendingar einnig að vera á varðbergi.

Ein mikilvægasta trygging þess að stjórnarskráin þýska standist tímans tönn er það nýmæli hennar er að starfa skuli sérstakur stjórnlagadómstóll þar sem hver og einn getur borið upp mál þyki lög eða stjórnvaldsaðgerðir brjóta í bág við stjórnarskrána. Dómstóllinn er virkur og vakandi. Úrskurða hans, sem eru nánast vikulegir, er beðið af eftirvæntingu og hefur dómstóllinn einatt sett Sambandsþinginu og stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar, svo sem með því að krefjast tvívegis lagfæringa á kosningalögum til aukins jafnræðis milli flokka og til að auka rétt kjósenda. Það er því viðeigandi að aðalhátíðin á þessum afmælisdegi stjórnarskrárinnar var haldin í Karlsruhe þar sem stjórnlagadómstóllinn hefur aðsetur sitt. Forseti stjórnlagadómstólsins, Andreas Voßkuhle, hefur í leit að því sem sameinar þýsku þjóðina eftir hörmungar nasistaríkisins staldrað við þýska orðið Verfassungspatriotismus sem e.t.v. má snara sem stjórnlagastolt. Það er vel við hæfi hjá þjóð sem hafnar þjóðrembu fyrri tíma, kvilla sem hefur leitt þá og margar aðrar þjóðir á villigötur.

Fyrirmynd handa öðrum

Þýska stjórnarskráin hefur orðið fyrirmynd margra þjóða sem hafa losnað undan alræði svo sem á Grikklandi, Spáni, í Portúgal eða Suður-Afríku en ekki síður í ríkjum Austur-Evrópu sem brutust undan einræði í nafni kommúnisma. Það er sorgarsaga að þar er nú óðum verið að hverfa til baka, svo sem með því að grafa undan hinum þýskættuðu stjórnlagadómstólum.

Stjórnlagaráð hafði hliðsjón af þýsku stjórnarskránni þegar það vann að tillögum sínum sumarið 2011. Nefna má ákvæði um afmörkun á valdi forseta lýðveldisins. Annað dæmi er að forsætisráðherra skuli kosinn af Alþingi og að honum verði ekki vikið frá nema með kjöri eftirmanns. (Þetta nefnist „konstrúktíft“ vantraust á erlendum málum.) Ákvæðið byggir á dapurri reynslu Þjóðverja frá Weimar-lýðveldinu þar sem stjórnarkreppur voru tíðar. Margir hafa farið að þessari fyrirmynd Þjóðverja.

Í þýsku stjórnarskránni er vissulega kveðið á um að eignarrétturinn skuli tryggður, en því bætt við að eignum fylgi skyldur í almannaþágu. Þessa viðbót tók Stjórnlagaráð upp nær orðrétta. Reyndar er orðlagið um eignarréttinn í íslensku stjórnarskránni með helgiblæ. Þar er notað orðið „friðhelgur“ sem kemur hvergi annars staðar fyrir í því skjali. Þjóðverjum finnst slíkur hátíðleiki eiga betur við þegar rætt er um reisn mannsins en um jarðneska hluti. Við í Stjórnlagaráði hreyfðum samt ekki við þessu helgikennda orði.

Fleira mætti nefna sem sótt var í þýsku stjórnarskrána svo sem ákvæði um frelsi menningar og mennta. Stjórnlagaráð hikaði við að stinga upp á fullgildum stjórnlagadómstóli en lagði á hinn bóginn til ráðgefandi fastanefnd, Lögréttu, í svipuðu skyni.

Þýska stjórnarskráin er ekki gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Áður hefur verið nefnt að stjórnlagadómstóllinn þýski hefur dæmt lagaákvæði um kosningar til Sambandsþingið stjórnarskrárbrot. Það ræðst m.a. af því að fyrrimælin um kosningar í stjórnarskránni sjálfri eru afar fátækleg. Í tilefni af stjórnarskrárafmælinu hefur einn fremsti stjórnlagafræðingur Þýskalands, Dieter Grimm, bent á þetta. Hann kallar eftir skarpari ákvæðum til að koma í veg fyrir að þingmeirihluti geti hlaðið undir sig þingsætum með kosningalagabrellum. Einmitt það er að gerast í Austur-Evrópu. Grimm tekur dæmi af ríkjandi flokkum í Póllandi og Ungverjalandi. Þannig hafi hinn pólski flokkur PiS náð hreinum meirihluta út á 36% atkvæða og Fidesz-flokkurinn í Ungverjalandi hafi meira en tvo þriðju hluta þingmanna út á aðeins 53% atkvæðafylgi og hafi þar með getað breytt stjórnarskrá að sínu skapi. Hér var Stjórnlagaráð á undan þeim þýsku með tillögu sinni um ítarleg stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag þingkosninga, ekki hvað síst til að fyrirbyggja yfirgang meirihlutans.

Allt til bráðabirgða?

Í ár eru líka merkisafmæli íslenskra stjórnarskráa. Sú frá 1874, konungsgjöfin verður 145 ára og lýðveldisstjórnarskráin frá 1944, sú sem sögð var til bráðabirgða, heldur upp á 75 ára afmæli. Þýsku grundvallarlögin voru reyndar einnig sögð tímabundin. Þau náðu í fyrstu aðeins til Vestur-Þýskalands, til hernámssvæða vesturveldanna. Þetta var ástæða þess að stjórnarskráin frá 1949 hlaut nafnið grundvallarlög. Því skyldi breytt í stjórnarskrá þegar náðst hefði að sameina landið af fúsum og frjálsum vilja þýsku þjóðarinnar. Það varð árið 1990, en þar sem grundvallarlögin höfðu sannað gildi sitt og fest sig í sessi þótti hvorki ástæða til að taka þau til endurskoðunar né hrófla við nafninu. Þó hafði hvoru tveggja verið lofað í upphafi.

Að lokum má benda á að aðeins eru tvö ár til nýs íslensks stjórnarskrárstórafmælis. Þá verða liðin 10 ár frá því að Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis um endurbætta stjórnarskrá með aukinni tryggingu lýðréttinda, allt í anda þess að slá skjaldborg um hina mannlegu reisn. Í því sambandi er gaman að geta sagt frá því að nokkrum dögum fyrir hið nýliðna þýska stjórnarskrárafmæli kom stór sendinefnd frá þýska stjórnlagadómstólnum til Íslands til að kynna sér íslensk stjórnarskrármál, ekki síst tillögur Stjórnlagaráðs. Vonandi verður á 10 ára afmælinu hægt að segja þeim og öðrum að grundvöllur hinnar „nýju stjórnarskrár“ hafi tekið gildi, eins og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 22. október 2012.

Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði


 

Um frumkvæðisrétt kjósenda; hjá Stjórnlagaráði og í Hessen

Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist upp í 16 fylki („lönd“ á þýsku), mjög mismunandi fjölmenn, eða frá 700 þús. íbúum til 18 milljóna. Fylkin fara með mörg mál, sem ekki eru beinlínis á könnu Sambandsþingsins eða sambandsstjórnarinnar í Berlín. Því hefur hvert fylkjanna eigið þing (landsþing) og ríkisstjórn með grundvöll í eigin stjórnarskrá. Þessar stjórnarskrár voru flestar settar strax eftir seinni heimstyrjöld og eru því eldri en grunnlög (stjórnarskrá) sjálfs sambandsríkisins sem eru frá 1949.

Hessen er fimmta fjölmennasta fylkið í Þýskalandi með rúmlega sex milljónir íbúa og er þar með fjölmennari en hvert Norðurlandanna utan Svíþjóðar. Hinn 28. október 2018 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um 15 breytingar eða viðbætur við stjórnarskrá fylkisins. Ein þessara stjórnarskrárbreytinga laut að ákvæðum um frumkvæðisrétt kjósenda. Meginbreytingin er sú að lækka það lágmarkshlutfall kjósenda sem þarf til að þeir geti lagt fram lagafrumvarp og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.  Lágmarkið var 20% en lækkar í 5%.

Ákvæðunum um lagafrumvæði kjósenda, hvort sem er breyttum eða óbreyttum, svipar mjög til samsvarandi ákvæða í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2011 og því áhugaverð fyrir Íslendinga.

Þá má benda á til fróðleiks að stjórnarskráin í Hessen telur 161 grein en í tillögum Stjórnlagaráðs eru þær 116 sem sumum þótti drjúgt!

Stjórnarskrárbreytingarnar voru allar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni með 70-90% stuðningi þeirra sem afstöðu tóku, þ.m.t. sú sem hér er fjallað um, en 86,3% kjósenda guldu henni jáyrði sitt. Kosningaþátttaka var nokkuð góð, en 67,1% kjósenda tóku þátt atkvæðagreiðslu um umrædda spurningu.

Í opinberum gögnum frá Hessen er aðeins gerð grein fyrir innbyrðis skiptingu jáa og neia. Auð eða ógild atkvæði koma þar að sjálfsögðu ekki við sögu. Þetta er öndvert við það sem landskjörstjórn og Hagstofan gáfu upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 um stjórnarskrármálið. Þar var – í fyrstu a.m.k. – tekið upp það nýmæli að telja auð og ógild atkvæði til gildra atkvæða!; sjá http://thorkellhelgason.is/?p=2065.

Í þessu samhengi má rifja upp þá gagnrýni, sem fram kom frá fræðimönnum við íslensku háskólana á tillögur Stjórnlagaráðs, ekki síst á þau ákvæði sem lúta að umræddu beinu lýðræði, þ.e.a.s. 65.-67. gr. í frumvarpstexta ráðsins. Í íslenskum sið var fullyrt að „svona þekktist hvergi“; ja, kannski í Sviss. En ákvæðin í stjórnarskrá Hessen eru nauðalík þeim í tillögum Stjórnlagaráðs.

Í samanburðartöflu er gerð grein fyrir ákvæðunum um lagafrumkvæði kjósenda í stjórnarskrá Hessen í samanburði við hliðstæð ákvæði í tillögum Stjórnlagaráðs. Þá fylgir í síðasta dálki eigin umsögn og er þá ítrekað hversu lík ákvæðin eru hjá Stjórnlagaráði og þau í Hessen.

Jafnframt er neðar í töflunni farið yfir ákvæðin í Hessen og í tillögum Stjórnlagaráðs um það hvernig stjórnarskrá verði breytt.

Fyrirkomulag kosninga er forneskjulegt

[Eftirfarandi pistill birtist í Fréttablaðinu 8. maí 2018 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/g/2018180509166/fyrirkomulag-kosninga-er-forneskjulegt-]

Skammt er til sveitarstjórnarkosninga en framboðsfrestur ekki útrunninn, þegar þetta er skrifað. Engu að síður er löngu byrjað að kjósa í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og er þá kjörseðillinn autt blað. Þess munu vart dæmi um víða veröld að unnt sé að kjósa þannig út í bláinn, enda hefur lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) margsinnis gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Þetta er aðeins eitt dæma um hvað kosningalög okkar eru um margt forneskjuleg, bæði lögin um kosningar til Alþingis svo og þau um kjör sveitarstjórna. Aldrei hefur verið gert hreint í þessum lagabálkum og ákvæðin færð til nútímahorfs. Þannig má t.d. ætla að enn sé kosið á opnum fundum, sbr. hugtakið „utankjörfundaratkvæðagreiðsla“.

Þó liggja hjá Alþingi hugmyndir um verulegar endurbætur á ákvæðum um framkvæmd þingkosninga. En það sama á við um þessi grundvallarlög og sjálfa stjórnarskrána: Alþingi virðist aldrei hafa dugnað til að taka á málinu. Eða skortir pólitískan vilja?

Af nógu er að taka eigi að benda á ákvæði sem laga þarf í kosningalögum. Þegar hefur verið nefndur sá afkáraleiki að framboð liggi ekki fyrir þegar kosning hefst. Þá erum við langt á eftir flestum grönnum okkar í því að auðvelda kjósendum að neyta kosningaréttar síns. Bréfkosningar þekkjast hér ekki, en sums staðar nýtir stór hluti kjósenda sér þá leið. Um rafrænar kosningar er nánast ekkert rætt, hvorki um kosti þeirra né galla.

Ofangreind dæmi lúta að framkvæmd kosninga en lýðræðisþáttur málsins er þó mikilvægastur.

Vita kjósendur að þeir geta nánast engin áhrif haft á röð frambjóðenda á listum við sveitarstjórnarkosningar? Útstrikanir eða umraðanir eru tilgangslausar. Þetta er þó ekki alveg markleysa í þingkosningum, enda var vægi slíkra breytinga aukið talsvert með lögum frá aldamótaárinu. En það hefur „gleymst“ í 18 ár að gera hliðstæðar breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þar gilda enn ákvæði frá 1987 sem gerðu kjósendur nær valdalausa um listabreytingar. Víðast hvar í grannlöndunum er þó kjósendum veitt meira vald til að velja sér frambjóðendur í kosningum til sveitarstjórna en til þjóðþinga. Á Íslandi er þessu öfugt farið! Að mati margra kjósenda skiptir þó meira máli hvaða einstaklingar veljast til sveitarstjórna en hvaða flokk þeir skipa.

Nefna má annað sem hefur dagað uppi í meðferð kosningalaga. Í þingkosningum geta framboð spyrt sig saman í vísi að kosningabandalögum. Ákvæðin eru þó ófullkomin og hafa því ekki verið nýtt. Með slíkum bandalögum væri þó unnt að gefa kjósendum vísbendingu um það hvaða fylkingar gætu staðið saman að myndum ríkisstjórnar eftir kosningar í stað þess að þeim sé haldið í óvissu með tuggunni „að ganga óbundin til kosninga“. Í lögum um sveitarstjórnarkosningar er ekki gefinn kostur á neinum slíkum listasamsteypum. Í þeim fjölda framboða, sem nú stefnir í, a.m.k. í Reykjavík, væri fengur að því fyrir kjósendur að framboðin sýndu lit með því að hópa sig eitthvað saman.

Hér er lítt tóm til að fjalla um brýnar lýðræðisumbætur í lögum um þingkosningar. Nefna má virkt persónukjör, eins og nær 80% kjósenda tjáðu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Eða þá það ranglæti að vægi kjósenda er enn misjafnt. Vildu þó um 2/3 fyrrgreindra kjósenda fullan jöfnuð. ÖSE hefur þrívegis gert alvarlegar athugasemdir við þessi ójöfnu mannréttindi íslenskra kjósenda.

Þá er það ámælisvert að það skuli geta gerst að flokkar fái fleiri þingsæti en landsfylgi þeirra veitir þeim rétt til. Að ekki sé komið í veg fyrir þetta kann að vera stjórnarskrárbrot. En því miður höfum við engan dómstól sem tekur á stjórnlagabrotum með almennum hætti. Þó hefur þessi ójöfnuður milli flokka haft pólitískar afleiðingar. Síðasta ríkisstjórn, sú sem sat lungann úr árinu 2017, hafði eins sætis meirihluta á Alþingi með hjálp þessa lýðræðishalla.

Stjórnlagaráð gerði margvíslegar og útfærðar tillögur um bætt fyrirkomulag kosninga. En þeim, eins og öðrum tillögum ráðsins, hefur verið stungið undir stól. Þó hafa 2/3 hlutar kjósenda í almennri atkvæðagreiðslu kallað eftir nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins.

Höfundur sat í stjórnlagaráði

Aukum rétt kjósenda strax

[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. september 2017]

Traust á stjórnmálunum hefur verið lítið og er nú í lágmarki. Fólki finnst það vera haft að fífli, haldið utan við upplýsingar og ákvörðunartöku. Allur þorri kjósenda vill til dæmis að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nær fimm árum játtu þessu fjórir af hverjum fimm þeirra sem afstöðu tóku. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var hvort menn vildu aukið persónukjör, jafnt vægi atkvæða eða möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Um allt þetta þegir gildandi stjórnarskrá eða er alls ófullnægjandi. Ekki bætir úr skák að stjórnarskráin er ruglingsleg, ef ekki beinlínis villandi, t.d. um valdsvið forseta Íslands eins og núverandi forseti benti réttilega á við setningu Alþingis.

Stjórnlagaráð tók á þessum málum öllum og mörgum fleirum á þann veg að 2/3-hluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu því yfir að þeir vildu sjá nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins. En síðan hefur fátt gerst. Stjórnarskránni verður ekki breytt fyrir komandi kosningar, en Alþingi það sem enn situr getur þó sýnt viðleitni í að auka rétt kjósenda í kjörklefanum.

Breytingar á röð frambjóðenda
Eins og fyrr segir var yfirgnæfandi stuðningur við aukið vægi persónukjörs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, enda er það mörgum lítt að skapi að þurfa að kjósa frambjóðendur í kippum á listum flokkanna, enda leynist oft misjafn sauður í mörgu fé. Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir ná kjöri af listunum var þó talsvert aukið með kosningalögum sem tóku gildi um síðustu aldamót. Kjósendur geta umraðað frambjóðendum á þeim flokkslistum sem þeir merkja við, nú eða strikað út nöfn. En það er eins og þessu sé haldið leyndu og kjósendum gert erfitt um vik að nýta þennan rétt sinn. Kjörseðillinn sjálfur býður þessum merkingum kjósenda ekki heim og yfirvöld gefa engar leiðbeiningar fyrir utan gagnslítil upplýsingaspjöld sem hanga einhvers staðar á kjörstöðunum.

Viðbúið er að margir viti ekki af möguleikunum sem þó eru í boði eða séu hræddir við að ógilda kjörseðilinn með merkingum við frambjóðendur. Það væri strax til bóta að ferningur til merkinga væri framan við nöfn frambjóðenda auk þess sem yfirvöldum kosningamála væri gert skylt að upplýsa með afgerandi hætti hvað kjósendur mega gera og hvað ekki. Úr þessu tvennu væri hægt að bæta með einföldum fyrirmælum í lögum sem hægt væri að samþykkja fyrir komandi kosningar.

Kosningabandalög
Ein ástæða þess að áhugi á kosningum fer dvínandi er sú að kjósendum finnst þeir oft kjósa köttinn í sekknum. Þeir kjósi flokk, sem lofar ýmsu en fer síðan í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum öndverðrar skoðunar og flokkur kjósandans étur loforðin ofan í sig. Flokkarnir ættu að sýna meira á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þeim hugnist að starfa. Ein leið til þess er að flokkar geti spyrt sig saman í kosningabandalög.

Gildandi kosningalög heimila stjórnmálasamtökum að bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Hængurinn er sá að listunum er ekki gert jafn hátt undir höfði. Þetta kemur strax í ljós í listamerkingunum sem verða að vera A, AA, AAA o.s.frv., sem túlka má þannig að sá fyrst nefndi sé aðallistinn og hinir ómerkilegri. Við úthlutun þingsæta eru þó allir listarnir jafn réttháir. Þá heimila lögin ekki að einstakir listar kosningabandalags séu skráðir með nöfnum þeirra flokka sem að þeim standa. Aftur er það lítið mál fyrir Alþingi að bæta úr þessu. Ávinningurinn gæti orðið sá að línur yrðu eitthvað ljósari fyrir kosningar um það hvaða stjórnarmynstur kæmi til greina. Hugsanlega yrðu ekki fleiri en t.d. þrenn til fern stjórnmálasamtök (einstakir flokkar eða bandalög þeirra) í framboði. Eru ekki sumir að kalla eftir stórum fylkingum? Hví ekki að bjóða nú þegar upp á þennan möguleika?

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig veita mætti kjósendum aukna valmöguleika og hugsanlega betri yfirsýn yfir hvað kunni að vera í vændum að kosningum loknum. Þessu getur sitjandi þing breytt og þarf ekki til þess aukinn meirihluta eins og skylt er við breytingar á kjördæmamörkum eða tilhögun á úthlutun þingsæta. Hitt er annað mál að kosningalög þarf að endurskoða í heild sinni, og það ekki seinna en með nýrri stjórnarskrá. En það má stíga fyrstu skref strax.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði


 

Þurfum við ríkisstjórn?

Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi –  að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.

„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.

Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.

Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.

Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði  þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!

 

Valfrelsi kjósenda

[Eftirfarandi grein birtist á vefmiðlinum visir.is  2. júní 2016.]

Segjum að þrír bjóði sig fram til forsetakjörs. Nefnum þá A, B og C. Kjósandi nokkur er hrifnastur af C, en tekur þó mark á skoðanakönnunum sem segja að slagurinn standi á milli A og B. Hvað á hann að gera? Velja C og kasta atkvæði sínu hugsanlega á glæ? Eða velja annan hinna tveggja, þótt þeir séu honum ekki efstir í huga?

Ef farið hefði verið að tillögum Stjórnlagaráðs um fyrirkomulag forsetakjörs væri valið auðvelt fyrir vesalings kjósandann. Hann merkti við sinn mann, C, sem aðalval og við B til vara enda sé hann þó mun skárri kostur en A. Rætist spáin og fái C minnst fylgi flyst atkvæði kjósandans yfir á B, allt að hans ósk. Atkvæði hans fer ekki í glatkistuna.

Stjórnlagaráð lagði líka til að kjósendur fengju stóraukið vald til að velja sér frambjóðendur af lista (jafnvel fleiri en einum) og þyrftu ekki að láta sér nægja að krossa við pakkalausnir flokkanna.

Steypa Fréttablaðsins

Í dálki Fréttablaðsins þann 26. maí s.l., þeim sem ber heitið „Frá degi til dags“, er það talin undarleg barátta „í þágu lýðræðisins“ að vilja báðar ofangreindar breytingar á fyrirkomulagi kosninga. (Að vísu miðar þá blaðið við tvær kosningahrinur í forsetakjöri en ekki þá forgangsaðferð að sama marki, sem reifuð er að ofan og er af mörgum talin betri.) Blaðið segir það „áhugavert sniðmengi fólks“ sem beri þessar tvær umbætur fyrir brjósti. [Sjá https://timarit.is/files/41369329 ]

Nú vill svo til að nær 80% þeirra, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um nýmæli í stjórnarskrá, lýstu stuðningi við aukið vægi persónukjörs. Jafnframt vildu tveir þriðjuhlutar kjósenda byggja nýja stjórnarskrá á tillögum Stjórnlagaráðs þar sem m.a. er lögð til sú breyting á fyrirkomulagi forsetakjörs sem lýst er að ofan. Þetta „sniðmengi fólks“ sem virðist vera með vafasamar skoðanir á lýðræðinu er þá býsna stórt.

Í leiðaragrein blaðsins hinn 19. maí s.l. segir undir fyrirsögninni „Steypa leiðrétt“ að „stundum er borin á borð slík vitleysa í opinberri umræðu að manni fallast hreinlega hendur“. Er ekki umfjöllunin í dálkinum umrædda um meinta mótsögn þess að auka valfrelsi kjósenda í forsetakjöri sem og í þingkosningum „steypa“ af þessu tagi? Eða á þetta að vera (aula)fyndni?