by Þorkell Helgason | okt 31, 2016 | Á eigin vefsíðu
Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi – að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.
„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.
Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.
Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.
Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!
by Þorkell Helgason | mar 13, 2015 | Á eigin vefsíðu
Erlendir fjölmiðlar segja frá myrkraverki ríkisstjórnarinnar um afturköllun ESB-umsóknarinnar gætir þá einatt misskilnings. Í SPIEGEL ONLINE er t.d. fullyrt er að afturköllunin sé á grundvelli lagaheimildar frá Alþingi. Ég fann mig knúinn til að leiðrétta þetta með innleggi þannig:
„[D]ie Regierung in Island … nahm ihren Antrag auf einen Beitritt zur Europäischen Union zurück“, steht in Ihrer Nachricht und weiter: „Die regierende Fortschrittspartei und ihre ebenfalls euroskeptischen Koalitionspartner der Unabhängigkeitspartei einigten sich am Freitag auf ein Gesetzesvorhaben, mit dem die 2010 eingereichte Kandidatur wieder zurückgezogen werden soll.“ Der wesentliche Punkt hier ist, dass es kein „Gesetzesvorhaben“ gibt. Die Regierung hat die Verhandlungen ohne Zustimmung des Parlaments ausgesetzt, sogar ohne Konsultation mit dem Außenpolitischen Ausschuss des Parlaments, die ausdrücklich gesetzlich vorgeschrieben ist. Wie sie in einem früheren Bericht erwähnten, ist das Volk auch nicht befragt worden, wie die Regierungsparteien im letzten Wahlkampf versprochen haben. Vielmehr wurde die Öffentlichkeit vor vollendete Tatsachen gestellt. Der Grund für diese feige Nacht- und Nebelaktion der Regierung ist wohl die Angst, dass der Verhandlungsabbruch keine Mehrheit hat – weder beim Volk noch im Parlament.
Í netútgáfu Münchenarblaðsins Süddeutsche Zeitung er líka fjallað um málið og sendi ég þeim þessa umsögn:
Die isländische Regierung hat die Verhandlungen mit EU ohne Zustimmung des Parlaments ausgesetzt, sogar ohne Konsultation mit dem Außenpolitischen Ausschuss des Parlaments, die ausdrücklich gesetzlich vorgeschrieben ist. Das Volk ist auch nicht befragt worden, wie die Regierungsparteien im letzten Wahlkampf versprochen haben. Vielmehr wurde die Öffentlichkeit jetzt vor vollendete Tatsachen gestellt. Der Grund für diese feige Nacht- und Nebelaktion der Regierung ist wohl die Angst, dass der Verhandlungsabbruch keine Mehrheit hat – weder beim Volk noch im Parlament.
by Þorkell Helgason | apr 8, 2014 | Á eigin vefsíðu
[Höfundur hefur sent Alþingi eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu o.fl., þingskjal 635 — 340. mál, lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.]
Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu byggir að mestu leyti á efnahagslegum rökum; á því hvort við hefðum þann ábata af inngöngu sem þyki réttlæta aðild. Þetta er vissulega mikilvægt, en að mati undirritaðs ekki meginmálið. Það eru hin siðferðilegu og menningarlegu rök sem eru mun mikilvægari.
Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í þjóðfélagi sem grundvallast á lýðræði, réttarríki og samfélagslegri ábyrgð. Þetta er engan veginn sjálfgefið enda ekki nema að takmörkuðu leyti okkur sjálfum að þakka; mun frekar því að höfum verið menningarlega fóstruð í þeim heimshluta þar sem þessi gildi eru í hávegum höfð. Við höfum fyrst og fremst sótt okkur fyrirmyndir og forsjá til granna okkar á Norðurlöndum svo og í öðrum næstu Evrópuríkjum.
Evrópusambandið varð vissulega til utan um efnahagsumgjörð, en á bak við lá og liggur mun meira; þ.e. vilji þjóða bandalagsins að vernda og styrkja fyrrgreind samfélagsgildi í friði og með samvinnu. Evrópusambandið er þó engan veginn gallalaust frekar en önnur mannanna verk, en með virkri þátttöku aðildarríkjanna er sífellt verið leita leiða til að búa um betur.
Að mati undirritaðs er það hvorki kleift né æskilegt að við, þessi örsmáa þjóð, treysti á eigin mátt og megin. Miklu heldur getum við varið þau gildi sem við viljum vernda með því að tengjast böndum þeim sem eru sama sinnis. Þetta gerum við með þátttöku í samstarfi Evrópuríkja; með inngöngu í Evrópusambandið. Við eigum heima með grönnum okkar í Evrópu, síður þeim í vestri en engan veginn með risaríkjum enn lengra í burtu þar sem grunngildi okkar samfélags eru fótum troðin.
Samþykkt og framkvæmd á þeirri þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu getur leitt til einangrunar þjóðarinnar um langan aldur. Málinu væri ekki aðeins skotið á frest til umþóttunar heldur verið að skella aftur hurðum. Komist þjóðin að því síðar að rétt væri að taka aftur upp þráðinn er viðbúið að þá yrði tregða til að hlíða nýju kalli frá okkur. Skrefið sem stigið yrði með þingsályktuninni kynni því að binda hendur heillar kynslóðar, jafnvel fleiri; kynslóða sem vildu ekki vera utan gátta í samstarfi evrópskra vinaþjóða.
Af þessum sökum leyfi ég mér, sem þegn þessa lands, að mælast til þess við þingmenn að þeir felli umrædda þingsályktunartillögu.
by Þorkell Helgason | nóv 23, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 23. nóv. 2011, en án myndarinnar.]
Skálholt var höfuðstaður í þjóðlífinu um aldir, ekki aðeins í andlegum efnum heldur einnig veraldlegum. Alkunna er hver urðu örlög staðarins, niðurníðsla af náttúrunnar- og mannavöldum. Fyrir tilstilli mætra manna hefur staðurinn verið endurvakinn. Skálholtskirkja reis fyrir hálfri öld, fögur og tilkomumikil þar sem hún gnæfir yfir umhverfið. Jafnframt hafa verið reist í Skálholti húsakynni sem gert hafa ýmsa menningarstarfsemi mögulega. En hús, jafnvel kirkjur, þarf að glæða lífi. Það hefur vissulega verið gert. Auk kirkjuhaldsins sjálfs hefur tónlistarstarf ekki síst varpað ljóma á staðinn enda býður Skálholtskirkja upp á einna bestan hljómburð hér á landi fyrir þá tónlist sem hæfir guðshúsi. Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið haldnir í nær fjóra áratugi og er hátíðin ein elsta og umfangsmesta tónlistarstarfsemi á landinu, smiðja nýrrar tónlistar en líka miðstöð í túlkun á tónlist fyrri alda. Menningarsetrið Skálholtsskóli hefur einnig í sívaxandi mæli haslað sér völl sem vettvangur andlegra starfsemi jafnframt því að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni.
Hvert stefnir nú? Kirkjan sem og margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins þurfa að draga saman seglin eftir óáran af mannavöldum. Öllum starfsmönnum Skálholtsskóla hefur verið sagt upp. Framtíð Sumartónleikanna er í óvissu. En á sama tíma er brambolt í gangi til að reisa hús utan í kirkjunni sjálfri og það sagt vera til að endurreisa rúst Þorláksbúðar, sem lítið er þó vitað um. Undirritaður skrifaði um þessa ósvinnu grein í Morgunblaðið 25. ágúst s.l. undir heitinu Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju og vitnaði þar í hliðstæða „höfuðósmíð fyrir vestan“ sem kemur við sögu í Kristnihaldi undir jökli. Síðan hafa margir tjáð sig um fyrirbærið og gripið hefur verið til skyndifriðunar til að stöðva verknaðinn. Henni þarf að fylgja eftir og tryggja að menningarslys verði ekki á staðnum. Kirkjuráð þarf að sjá sig um hönd og stöðva framkvæmdir endanlega.
Sumir telja það lausn á deilunni um Þorláksbúð að færa bygginguna. Hvað með stofn- og rekstarkostnað? Sagt er að fé komi úr vösum svokallaðra áhugamanna um verkefnið en trúlegra er að reikningurinn verði sendur á kirkjuna og ríkissjóð. Að mörgu leiti var rekið smiðshögg á hina veraldlegu uppbyggingu í Skálholti í tíð Sigurðar vígslubiskups Sigurðarsonar heitins. Skólahúsið var stækkað, reistur sýningarskáli og aðkoma að staðnum stórbætt. Nú er ekki brýnast að festa meira fé í byggingum, allra síst tilgangslítið tildurhús, á sama tíma og sjálft lífið á staðnum, helgihald, menningarstarfsemi og tónlist, á í vök að verjast. Þeir sem ráða yfir Skálholti eiga að beina kröftum sínum að vörslu þess sem er og hefur sannað gildi sitt.
Í Hinu ljósa mani Halldórs Laxnes segir: „Þennan haustdag var alt kyrt í Skálholti, og einginn vissi að neitt hefði gerst, en byrjað að frjósa, og þar með dregið úr fnykri þeim af sorpi og svaði sem einkendi staðinn.“ Betur væri að allt væri kyrrt í Skálholti og enginn fnykur af fjárskorti og smekklausum framkvæmdum.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur er áhugamaður um málefni Skálholts.
[Vona að höfundur myndarinnar, sem ég veit ekki hver er, afsaki að ég hef tekið hana traustataki.]
by Þorkell Helgason | mar 31, 2011 | Á eigin vefsíðu, Greinar
[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 1. apríl 2011]
Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Eftir langan aðdraganda og ýmis skakkaföll hefur Alþingi nú falið sérstöku Stjórnlagaráði, skipuðu 25 konum og körlum, það verkefni að semja frumvarp að nýjum sáttmála utan um þjóðskipulag okkar. Stjórnlagaráðið er nú fullskipað og tekur til starfa í næstu viku. Ég er einn þeirra sem hafa tekið sæti í ráðinu.
Nú er lag
Vissulega þurftum við að spyrja okkur ýmissa samviskuspurninga áður en við þáðum boð um setu í ráðinu, ekki síst í ljósi úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningar til Stjórnlagaþings. Bent hefur verið á alvarlegar rökvillur í þeim úrskurði en ákvörðun dómaranna var engu að síður endanleg. Við sem munum sitja í Stjórnlagaráði berum hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til úrskurðarins né heldur á þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Við höfum einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem okkur er falið. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þetta má lesa út úr talningu landskjörstjórnar sem Hæstiréttur hefur ekki borið brigður á. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.
Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.
Ákvörðun mín um að taka sæti í ráðinu byggðist ekki síst á því að nú býðst langþráð tækifæri. Gangi það okkur úr greipum er hætt við að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert minna vera. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.
Snúa þarf að við blaðinu
Ónot eru í mörgum landsbúum yfir ásigkomulagi þjóðarinnar nú rúmum tveimur árum eftir hrunið mikla. Væntingar um breytt og bætt þjóðfélag í kjölfar hrunsins voru miklar. Öndvert við það sem gerst hefur víða annars staðar tók almenningur á sig verulega kjaraskerðingu nánast möglunarlaust, enda vissu allir að svokallað góðæri árin á undan hruninu var byggt á sandi. Vissulega hefur margt áunnist þessi tvö erfiðu ár. Tekist hefur að hemja afleiðingar hrunsins og atvinnuleysi varð ekki eins mikið og óttast var. En siðbótin hefur látið standa á sér. Enn er beðið eftir því að sannleikurinn um forkólfa hrunsins verði dreginn fram í dagsljósið fyrir dómstólum. Sumir þeirra sem gengu frjálslega um fjárhirslur bankanna eru aftur farnir að berast mikið á. Mörgum finnst verklag hjá stjórnvöldum og á Alþingi lítt hafa breyst til batnaðar. Svo mætti lengi telja.
Það er í þessu umhverfi sem Stjórnlagaþing hefst handa við að betrumbæta stjórnarskrána. Vonandi fagna flestir þessu skrefi, en svo eru öfl sem reyna að gera starfið tortryggilegt. Það verður því á brattann að sækja. Við sem höfum tekið verkefnið að okkur verðum að reynast trausts verð, við verðum að vinna þannig að sómi sé að og skila frá okkur lokaskjali sem hljóti hylli þjóðarinnar. Að þessu verðum við verðum við að einbeita okkur.