Umsögn um frumvarp um jöfnun atkvæðavægis

Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um fulla jöfnun atkvæðavægis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins bað mig um umsögn, sem ég gerði og lagði talsverða vinnu í með aðstoð Péturs Ólafs Aðalgeirssonar stærðfræðings. Umsögn mín er á faglegum nótum með ábendingum um hvað megi tæknilega betur fara í frumvarpstextanum. Jafnframt geng ég ögn lengra og reifa þann möguleika að skipta Suðvesturkjördæmi í tvennt til að jafna að nokkru stærð kjördæmanna.

Ég var kallaður á fjarfund nefndarinnar 16. nóv. 2020 til að reifa umsögnina og svara spurningum. Í kjölfar fundarins endurskoðaði ég umsögnina með hliðsjón af athugasemdum nefndarmanna. Þessa endurskoðuðu gerð er að finna á síðu Alþingis, https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-418.pdf. Enn fremur hér: Umsögn um frv. um jöfnun atkvæðavægis ÞH endurskoðuð.

Á nefndarfundinum fór ég yfir efni umsagnar minnar með glærusýningu, sem forvitnir geta fundið hér: YfirlitViðreisnFrvUmsögn.

 

Ég hef á öðrum vettvangi ekki farið leynt með þá skoðun mína að jafnt vægi atkvæða heyri til grundvallarmannréttinda. Þetta var og sjónarmið okkar í Stjórnlagaráði.

Í fyrstu umræðu um frumvarpið var ekki að heyra neina efnislega andstöðu. Þvert á móti. T.d. sagðist Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og sérfræðingur í þessum málaflokki, „get[a] tekið undir öll meginmarkmið frumvarpsins“ og bætti við: „Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt markmið að jafna atkvæðisréttinn.“

Geta þingmenn ekki þetta sinn náð saman um stórmál hvað sem flokkslínum líður?

Kosningahermir kynntur

Þróaður hefur verið hugbúnaður, kosningahermir, til prófunar á eiginleikum og gæðum kosningakerfa. Þetta er verkfæri til að kanna mismunandi skipan kjördæma og með hinum ýmsu úthlutunaraðferðum.

Hægt er að fræðast nánar um herminn með því að renna yfir þessar glærur: Kosningakerfishermir kynning oktober 2019

 

Með herminum má prófa hugmyndir um fyrirkomulag kosninga á grundvelli raunverulegra kosningaúrslita en ekki síður með tilbúnum hendingakenndum úrslitum sem fengnar eru með  tölfræðilegum hætti.

Kostir og gallar hvers kerfis eru mældir á ýmsan hátt, t.d. því hve hlutfallsleg úrslitin eru eða hvort jöfnunarsæti riðla um of úthlutun innan hvers kjördæmis.

Hugbúnaðurinn er ekki sérsniðinn að Íslandi. Alþingkosningar eru hafðar í huga en búnaðurinn fellur að kosningakerfum flestra grannríkja.

Kosningahermirinn verður gerður aðgengilegur öllum, fræðimönnum, stjórnmálamönnum og öðrum áhugamönnum um grunnstoð lýðræðisins: Fyrirkomulag kosninga.

Ennfremur er á glærunum sagt lauslega frá bók sem er í smíðum um viðfangsefnið (en ekki þó herminn sérstaklega). Bókin gengur undir vinnuheitinu „Kosningafræðarinn“.

[Glærurnar lítillega endurbættar 16. okt. 2019.]

Um bestu aðferðir við úthlutun þingsæta

Ég hélt erindi (sem má finna með því að smella hér í málstofu í stærðfræðideild Tækniháskólans í München hinn 14. janúar 2019 undir heitinu “Bidimensional Election Systems: Apportionment methods in theory and practice”.

Erindið fjallaði um það sem ég og félagar mínir hafa lengi verið að bauka við, það stærðfræðilega viðfangsefni að úthluta þingsætum þegar úthlutunin er bundin í báða skó: Kjördæmin verða að fá sín sæti og engar refjar en flokkarnir sæti í samræmi við landsfylgi.

Þetta er hvergi nærri einfalt viðfangsefni. Þó er til ein, en aðeins ein, gerð úthlutana sem uppfyllir eðlilegar lágmarks gæðakröfur; svo sem að það má aldrei koma fyrir að listi fái fleiri sæti fækki atkvæðum hans; eða öfugt. En þetta getur gerst í flestum raunverulegum kosningakerfum, t.d. því sem er í kosningalögum á Íslandi.

Aðferðafræðin sem skilar hinni fullkomnu úthlutun þykir löggjafanum væntanlega of flókin. Þó er hún notuð í sumum kantónukosningum í Sviss. Því höfum við í svonefndum “Kosningafræðiklúbbi” verið að hugsa upp góðar nálgunaraðferðir og þróa hermilíkön til prófunar á kosningakerfum. Um þetta fjallaði erindi mitt.

Áheyrendur voru um fimmtán; stærð- og tölvunarfræðingar, bæði kennarar og doktorsnemar úr viðkomandi deildum Tækniháskólans, en hann er sá fremsti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað. Það var gagnlegt að eiga skoðanaskipti við þessa sérfræðinga.

Greining á úrslitum þingkosninga og úthlutun þingsæta á þessari öld

Höfundur hefur á liðnum árum ritað skýrslur þar sem greind eru úrslit og úthlutun þingsæta í kosningum til Alþingis á þessar öld. Slíkar skýrslur um kosningarnar 2003, 2007, 2009 og 2013 voru unnar fyrir landskjörstjórn.

Nú hefur höfundur (á eigin ábyrgð) bætt við skýrslum um kosningarnar 2016 og 2017 en einnig stutt gerð með nokkrum lykilatriðum.

Greiningarskýrslurnar í heild er að finna hér:

Í skýrslunum eru dregnir fram ágallar á úthlutunaraðferðinni í gildandi kosningalögum:

  • Jöfnuður milli þingflokka er engan veginn tryggður, enda náðist hann ekki í neinum af þrennum síðustu kosningum; hvorki 2013, 2016 né heldur 2017.
  • Smávægilegar breyting á fylgi eins lista getur leitt til mikils hringlanda í skiptingu þingsæta milli annarra lista.
  • Aðferðin getur leitt til nykurs, getur leitt til „nykurs“, þ.e.a.s. að atkvæðaaukning lista getur haft för með sér fækkun sæta eða öfugt minnki fylgið. Þetta fyrirbæri má finna bæði í niðurstöðum kosninganna 2009 og 2017.

Því þarf að taka upp betri aðferð við úthlutun jöfnunarsæta. Ein slík er „forgangsregla“ sem er nær oftast að finna þá úthlutun sem er fræðilega best í vissum, skilgreindum skilningi.

Þröskuldur með sveigjanleika

Í þingkosningunum fer hluti atkvæða forgörðum vegna ákvæða um þröskuld, um lágmarksfylgi við úthlutun jöfnunarsæta, en flokkur á ekki rétt á slíkum sætum fái hann ekki a.m.k. 5% gildra atkvæða á landinu öllu. Sérstaklega voru áhrif þessa áberandi í kosningunum 2013. Við þessu má sjá með því að kjósendum verði gert kleift að tilgreina flokk til vara þannig að atkvæði þurfi ekki að daga uppi áhrifalaus nái sá flokkur er hann helst kýs ekki tilskildu lágmarksfylgi. Reifuð er útfærsla á slíku fyrirkomulagi í pistlinum „Þröskuldur með sveigjanleika“.