by Þorkell Helgason | júl 22, 2020 | Á eigin vefsíðu
Klúbbur formanna stjórnmálaflokka á Alþingi heldur áfram bútasaum á stjórnarskránni gömlu og lúnu. Nú hafa þeir birt á Samráðsgáttinni hugmyndir um breytingar stjórnarskrárákvæðum um forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds o.fl. Gefinn var afar stuttur tími til að senda inn umsagnir.
Ég hef þó sent inn allítarlega umsögn sem hér má rekja í heild sinni (eftir leiðréttingu á par ritvillum!): ÞorkellHelgasonUmsognForsetamal.
Einnig má finna þessa umsögn mína (þá nr. #1o8) og aðrar á Samráðgáttinni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2713#advices
Ég spyr þar hvort það samræmist yfirlýstu markmiði um „gagnsæi“ við þetta viðfangsefni að fela tveimur lögfræðingum, þótt mætir séu, að ganga frá þessum hugmyndum og það í frumvarpsformi án þess að fram komi hvað er hvurs, formannanna og lögfræðinganna.
Þá lýsi ég vonbrigðum yfir því að hvergi er hægt að sjá hvort eða hvaða áhrif umsagnir um fyrri hugmyndir formannaklúbbsins hafa haft.
Ég tel að með frumvarpsdrögunum horfi margt til bóta, enda er víða byggt á sjónarmiðum Stjórnlagaráðs. Á hinn bóginn þarf meira til þess að úr verði heilsteypt og samræmd endurskoðun á stjórnarskránni. Því bendi ég enn og aftur á að tillögur Stjórnlagaráðs frá sumrinu 2011 eru eini grundvöllur að stjórnarskrárbótum sem hefur hlotið beina lýðræðislega umfjöllun og þjóðarstuðning.
Nokkrir punktar úr umsögn minni:
- Hnykkja ætti á því að allt vald komi frá þjóðinni en kjörnir fulltrúar fari með það í hennar umboði.
- Þess er saknað að ekki skuli tekin upp tillaga Stjórnlagaráðs um raðval til að tryggja að kjörinn forseti njóti á endanum stuðnings meirihluta kjósenda.
- Spurt er um það ákvæði sem á að takmarka setu forseta við tólf ár. Óljóst er hvort sami maður geti gegnt embættinu enn lengur sé seta hans í stóli ekki samfelld.
- Tillögur um aðkomu forseta að stjórnarmyndun eru athyglisverðar en verða ekki gagnrýndar innan þess stutta tímafrests sem gefinn er.
- Dregið er í efa að ríkisráð hafi einhvern tilgang.
- Því miður eru „þykjustuhlutverk“ forseta ekki afnumin, jafnvel nýjum bætt við.
- Orðlag um gildistöku nýs ákvæðis um hámark á embættistíð forseta þykir óskýrt.
- Brýnt er að stjórnarskrá sé öllum læsileg og aðgengileg og verði þjóðinni hjartfólgin. Bútasaumuð stjórnarskrá er ekki til þess fallin.
by Þorkell Helgason | jún 18, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi grein birtist á vefmiðlinum visir.is 2. júní 2016.]
Segjum að þrír bjóði sig fram til forsetakjörs. Nefnum þá A, B og C. Kjósandi nokkur er hrifnastur af C, en tekur þó mark á skoðanakönnunum sem segja að slagurinn standi á milli A og B. Hvað á hann að gera? Velja C og kasta atkvæði sínu hugsanlega á glæ? Eða velja annan hinna tveggja, þótt þeir séu honum ekki efstir í huga?
Ef farið hefði verið að tillögum Stjórnlagaráðs um fyrirkomulag forsetakjörs væri valið auðvelt fyrir vesalings kjósandann. Hann merkti við sinn mann, C, sem aðalval og við B til vara enda sé hann þó mun skárri kostur en A. Rætist spáin og fái C minnst fylgi flyst atkvæði kjósandans yfir á B, allt að hans ósk. Atkvæði hans fer ekki í glatkistuna.
Stjórnlagaráð lagði líka til að kjósendur fengju stóraukið vald til að velja sér frambjóðendur af lista (jafnvel fleiri en einum) og þyrftu ekki að láta sér nægja að krossa við pakkalausnir flokkanna.
Steypa Fréttablaðsins
Í dálki Fréttablaðsins þann 26. maí s.l., þeim sem ber heitið „Frá degi til dags“, er það talin undarleg barátta „í þágu lýðræðisins“ að vilja báðar ofangreindar breytingar á fyrirkomulagi kosninga. (Að vísu miðar þá blaðið við tvær kosningahrinur í forsetakjöri en ekki þá forgangsaðferð að sama marki, sem reifuð er að ofan og er af mörgum talin betri.) Blaðið segir það „áhugavert sniðmengi fólks“ sem beri þessar tvær umbætur fyrir brjósti. [Sjá https://timarit.is/files/41369329 ]
Nú vill svo til að nær 80% þeirra, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um nýmæli í stjórnarskrá, lýstu stuðningi við aukið vægi persónukjörs. Jafnframt vildu tveir þriðjuhlutar kjósenda byggja nýja stjórnarskrá á tillögum Stjórnlagaráðs þar sem m.a. er lögð til sú breyting á fyrirkomulagi forsetakjörs sem lýst er að ofan. Þetta „sniðmengi fólks“ sem virðist vera með vafasamar skoðanir á lýðræðinu er þá býsna stórt.
Í leiðaragrein blaðsins hinn 19. maí s.l. segir undir fyrirsögninni „Steypa leiðrétt“ að „stundum er borin á borð slík vitleysa í opinberri umræðu að manni fallast hreinlega hendur“. Er ekki umfjöllunin í dálkinum umrædda um meinta mótsögn þess að auka valfrelsi kjósenda í forsetakjöri sem og í þingkosningum „steypa“ af þessu tagi? Eða á þetta að vera (aula)fyndni?
by Þorkell Helgason | maí 12, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 12. maí 2016 svo og á visir.is undir heitinu „Bessastaðir og Mansion House“; sjá http://www.visir.is/bessastadir-og-mansion-house/article/2016160519728. Hér er hún birt lítillega breytt, einkum í ljósi þess að mér var bent á að borgarstjórinn umræddi byggi ekki í Mansion House! ]
Hvað er sameiginlegt með þessu tvennu? Það eitt að kosið er almennum kosningum til ábúðar á Bessastöðum og til forsætis Lundúnaborgar. En það er þó gjörólíkt hvernig menn komast til valda á þessum tveimur stöðum. Framundan er að velja næsta bónda á Bessastöðum. Það verður gert með svokallaðri meirihlutakosningu. Sá vinnur sem flest fær atkvæðin, óháð því hvort hann nær meirihluta atkvæða eða ekki. Nú kunna allmargir að takast á um forsetaembættið. Þá er undir hælinn lagt hver stuðningurinn verður við vinningshafann. Borgarstjórinn í London er á hinn bóginn kjörinn á þann hátt að meiri líkur eru á því en minni að hann njóti stuðnings meirihlutans. Lítum nánar á kosninguna sem fram fór í London 5. maí sl.
Kjósandi í London merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, allt eins og hér. En að auki býðst honum að merkja við annan til vara. Uppgjörið fer þannig fram að fyrst eru talin saman atkvæði í aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn borgarstjóri. Ef ekki er einblínt á þá tvo sem fengu flest atkvæði að aðalvali. Atkvæði anarra frambjóðenda eru færð til annars þessara efstu frambjóðenda í samræmi við varaval hvers þessara kjósanda. Að því loknu er sá valinn sem hefur flest atkvæði, sín upphaflegu að viðbættum þeim færðu. Hvernig voru úrslitin fengin í London?
Tólf buðu sig fram í borgarstjóraembættið. Þeir sem flest atkvæði hlutu í aðalvali kjósenda voru frambjóðendur Verkamannaflokksins annars vegar og Íhaldsmanna hins vegar, þeir Sadiq Khan og Zac Goldsmith. Fylgi þeirra tveggja kemur fram í tveimur fyrstu talnadálkunum í meðfylgjandi töflu.
Af töflunni sést að enginn frambjóðandi hlaut hreinan meirihluta atkvæða í aðalvali kjósenda. Ef þetta væru forsetakosningar á Íslandi væri hér með amen eftir efninu og Khan kjörinn út á 44% fylgi. Atkvæði þeirra tæplega 21% kjósenda, sem völdu einhvern hinna tíu – en þeir eru spyrtir saman í töflunni – myndu detta niður dauð og ómerk. Þau réðu engu um það hvort Khan eða Goldsmith yrði að lokum valinn. Þó er ljóst að þau ættu að geta ráðið úrslitum.
Í London er því ekki látið staðar numið heldur rýnt í varaval kjósenda þeirra frambjóðenda sem reka lestina og atkvæðin færð til í samræmi við vilja kjósenda. Lokaniðurstaðan er sýnd í fjórða talnadálki töflunnar.
Atkvæði og tilfærslur |
Atkvæði í aðalvali |
Hlutföll af gildum atkvæðum
|
Færð atkvæði |
Atkvæði að loknum tilfærslum |
Hlutföll af gildum atkvæðum |
Sadiq Khan |
1.148.716
|
44,2% |
161.427 |
1.310.143 |
50,4%
|
Zac Goldsmith |
909.755
|
35,0% |
84.859 |
994.614 |
38,3%
|
Hinir tíu frambjóðendurnir |
538.490
|
20,7%
|
|
|
|
Ófæranleg atkvæði |
|
|
|
292.204 |
11,3%
|
Gild atkvæði alls |
2.596.961
|
100,0% |
246.286 |
2.596.961 |
100,0%
|
Að loknum tilfærslum atkvæða í varavali sést að Khan nær hreinum meirihluta gildra atkvæða, þótt naumur sé eða 50,4%. Úr lokadálki töflunnar má lesa að einungis 11,3% kjósenda hafa engin áhrif á það hvor þeirra efstu náði kjöri. Án varavalsins væru þessir áhrifalausu nær helmingi fleiri eða 20,7%. Ástæður þess, að tiltölulega mörg atkvæði – eða 246.286 – fara forgörðum þrátt fyrir varavalið, eru einkum tvær. Annars vegar sú að kjósendur hirtu ekki um að velja varamann en hins vegar vegna þess að tiltölulega margir völdu sama frambjóðanda sem aðal- og varamann og gerðu þar með varaval sitt marklaust. Hjá þessu síðarnefnda hefði mátt komast með betri útfærslu kjörseðilsins en það er önnur saga.
Aðferðafræðin í þessum bresku borgarstjórakosningum er vel þekkt. Svipuð aðferð hefur verið notuð í nær heila öld á Írlandi, m.a. við forsetakjör, og hún var notuð í kosningunum til Stjórnlagaþingsins sáluga 2010 og henni mun verða beitt við kjör á formanni Samfylkingarinnar nú á næstunni. Kosningin á borgarstjóranum í London og kosningin til Stjórnlagaþingsins eiga fleira sameiginlegt, m.a. að í báðum var talið rafrænt. En munurinn er sá að Hæstiréttur leyfði sér að úrskurða íslensku kosninguna ólöglega.
Stjórnlagaráð lagði til margvíslegar umbætur á fyrirkomulagi forsetakosninga, svo sem um fjölgun meðmælenda svo og að kjósendur gætu forgangsraðað frambjóðendum svipað og í þessari bresku kosningu. En allt hefur þetta dagað uppi. Því sitjum við líka uppi með það að forseti lýðveldisins getur veitt „…undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til“; eins og segir í hinum gildandi grundvallarlögum okkar, bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944.
Er ekki tími til kominn að fólk kynni sér stjórnarskrármálið?
by Þorkell Helgason | mar 24, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu, 23. mars 2016 á bls. 19. Einnig á vefsíðunni http://www.visir.is/forsetakosningarnar-mega-ekki-verda-markleysa/article/2016160329696 ásamt viðbót sem athugasemd.]
Forsetakosningar verða haldnar í lok júní. Þegar hefur á annan tug karla og kvenna tilkynnt um framboð og fleiri liggja undir feldi. Einhverjir kunna að heltast úr lestinni en engu að síður gætu kjósendur þurft að velja á milli 10 til 20 frambjóðenda. Hætt er við því að margir fórni höndum og láti hjá líða að kjósa. Enn verra er að forseti kynni að verða valinn með litlum stuðningi kjósenda, e.t.v. um 15% þeirra sem þátt taka í kosningunni, og enn lægra hlutfalli kosningabærra manna.
Ákvæði stjórnarskrárinnar mæla fyrir um að „[s]á, sem flest fær atkvæði […] er rétt kjörinn forseti.“ Lögin, sem útfæra þetta nánar, veita kjósendum það verkfæri eitt að merkja með einum krossi. Þessi aðferð kallast meirihlutakosning – sem getur reynst hreinasta öfugmæli. Margoft hefur verið bent á nauðsyn þess að breyta ákvæðunum og taka upp aðferð sem geri það líklegt að kjörinn forseti njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Greinarhöfundur hefur skrifað um þetta blaðagreinar og sent stjórnarskrárnefnd þeirri sem skipuð var 2005 ítarlegt erindi þar um. Og vitaskuld tók stjórnlagaráðið, sem starfaði sumarið 2011, á málinu – en ekkert hefur gerst.
Hvað er til ráða?
Stjórnarskránni verður vart breytt fyrir kosningarnar. En spyrja má hvort stjórnarskrárákvæðið sé svo þröngt að ekki megi kanna hug kjósenda nánar en með einum krossi? Að vísu kemur fram í umfjöllun um málið á Alþingi 1944 að einföld meirihlutakosning hafi þá verið höfð í huga enda sé það gert í trausti þess, eins og segir í nefndaráliti, að „þjóðinni takist að fylkja sér þannig um forsetaefni að atkvæði dreifist eigi úr hófi fram.“ Jafnframt skiptir máli að þeir 1.500 meðmælendur, sem krafist er í stjórnarskránni frá 1944, voru þá ríflega þrefalt hærra hlutfall kjósenda en nú. Það verður því að nýta svigrúm stjórnarskrárinnar til að koma í veg fyrir að forsetakosningarnar verði markleysa. Enn er tóm til að breyta kosningalögum í því skyni. Benda má á betri aðferðir sem ættu að rúmast innan ákvæða stjórnarskrárinnar:
- Nefna má svokallaða samþykktarkosningu þar sem kjósandi fær að krossa við alla þá sem hann treystir til að gegna embættinu. Allt eins og í einfaldri meirihlutakosningu nær sá kjöri „sem flest fær atkvæði“ svo að vitnað sé í stjórnarskrárákvæðið. Rannsóknir benda til þess að í samþykktarkosningu veljist sá frambjóðandi sem einna mest eining ríkir um.
- Enn betri er aðferð aðal- og varavals. Kjósandinn merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, og við annan til vara. Fyrst eru talin saman atkvæði að aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn forseti Íslands. Ef ekki, kemur sá frambjóðandi sem fær fæst aðalatkvæði ekki lengur til greina. Atkvæði hans færast til hinna frambjóðendanna í samræmi við varaval hvers kjósanda og þá sem aðalvalsatkvæði. Þetta er svo endurtekið þar til fundinn er sá eini sem nær meirihluta þeirra atkvæða sem enn eru gild. Hann hefur þannig hlotið „flest atkvæði“. Lesa má um aðferðina og langa reynslu af henni á Írlandi á vefsíðunni thorkellhelgason.is/?p=.
Vitaskuld þarf að gaumgæfa hvort að ofangreindar aðferðir séu í samræmi við stjórnarskrá. Hæstiréttur úrskurðar um lögmæti forsetakjörs og ætti því að bera skylda til upplýsa Alþingi um stjórnarskrárlögmæti ráðgerðra lagaákvæða í þessu efni. Fyrir slíku er fordæmi. (Stjórnlagaráð tók á vanda af þessu tagi með því að leggja til skipan Lögréttu.)
Þyki lagabreyting ófær ættu lýðræðisunnendur að taka sig saman um að efna til vandaðrar skoðanakönnunar á hug kjósenda til frambjóðenda. Best færi á því að kjósendur yrðu spurðir bæði um aðal- og varaósk þeirra. Niðurstaðan gæti orðið leiðbeinandi, bæði frambjóðendum, sem kynnu að draga sig í hlé, en líka kjósendum sem sæju hvaða frambjóðendur kæmu helst til greina. En þetta er þrautaleið. Æskilegast væri að sjálft fyrirkomulag kosninganna væri slíkt að atkvæði kjósenda dagi ekki uppi.
Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði
Umsögn á vefsíðu Vísis: http://www.visir.is/forsetakosningarnar-mega-ekki-verda-markleysa/article/2016160329696
Við þessa grein mína verður að bæta því að stjórnvöld hafa formlega birt auglýsingu um forsetakosningarnar. Því er það siðferðilega og ef til vill lagalega erfiðara að breyta einhverju í fyrirkomulagi kosninganna. Þetta er eitt af því sem þyrfti að gaumgæfa sé vilji til að breyta lögum eins og sem reifað í grein minni.
by Þorkell Helgason | jún 15, 2015 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2015.]
Í Staksteinum Morgunblaðsins 9. júní sl. er spjótum beint að undirskriftasöfnuninni Þjóðareign.is þar sem skorað er á forsetann „að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“ Auk hefðbundinnar aulafyndni í þessum ritstjórnardálki er farið með rangfærslur.
Í fyrsta lagi segir í Staksteinum: „Það er of seint að skora á forsetann að skrifa ekki undir … frumvarp [um makrílkvóta], því að það er hann búinn að gera fyrir löngu, ella hefði það ekki orðið stjórnarfrumvarp.“ Sú undirskrift forseta sem hér um ræðir er formsatriði og hefur forseti enga heimild til að inna hana ekki af hendi. Auk þess birtast stjórnarfrumvörp ekki almenningi fyrr en eftir að forseti hefur skrifað undir framlagningu þeirra en þá væri áskorun á forsetann um að gera það ekki of seint á ferðinni.
Þá segir: „Og of snemmt er að senda áskorun um lögin, því fyrst þarf að samþykkja þau og birta … og þá fyrst geta menn hafið áskoranir.“ Frá samþykkt frumvarps á Alþingi og þar til forseti skrifar undir líða oft ekki nema klukkustundir, í mesta lagi dagar. Það gefur því auga leið að undirskriftasöfnun á þeim örtíma er óframkvæmanleg enda hefur alltaf verið hafist handa við undirskriftir af þessu tagi meðan mál eru enn í umfjöllun Alþingis.
Samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar getur forseti hafnað því að undirskrifa lög frá Alþingi, en því fylgir ekki heimild til að neita að undirrita framlagningu stjórnarfrumvarpa. Enda hefur núverandi forseti með undirskrift sinni staðið að framlagningu þeirra þriggja stjórnarfrumvarpa (um fjölmiðla og tvö um Icesave) sem hann síðan neitaði að staðfesta sem lög frá Alþingi og lagði því í dóm þjóðarinnar.
Hvaða tilgangi þjóna þessar blekkingar í Staksteinum? Er verið að fæla fólk frá því að skrifa undir áskorunina með röngum upplýsingum? Eða er ætlunin að væna forsetann um tvískinnung ef hann, nauðbeygður eða ekki, fellst á framlagningu frumvarps en neitar síðan að skrifa undir þegar frumvarpið er orðið að lögum frá Alþingi?
Höfundur er einn af aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.is