by Þorkell Helgason | nóv 22, 2010 | Á eigin vefsíðu
Allmargir kjósendur hafa spurt um afstöðu mína í orku- og auðlindamálum, ekki síst í ljósi þess að ég var ráðuneytisstjóri í ráðuneyti orkumála og síðan orkumálastjóri alls í umfimmtán ár. Í þessum pistli fer ég stuttlega yfir sögu mína í þessum efnum en í öðrum pistli reifa ég sjónarmið mín til takmarkaðra náttúrugæða og umhverfismála, að svo miklu leyti sem það snertir endurgerð stjórnarskrár.
Áður en lengra er haldið vil ég benda á að í báðum umræddum störfum var ég embættismaður sem bar að þjóna mínum ráðherra til þeirra verka sem hann fýsti að hrinda í framkvæmd. Þetta er talin almenn skylda embættismanna að mati flestra lögspekinga sem um málið hafa fjallað. Ég tel nú, að fenginni reynslu, að þessu ætti að breyta að nokkru leyti þannig að embættismenn ættu að eiga ríkar skyldur við almenning og Alþingi, ekki síst um að veita upplýsingar, jafnvel að fyrra bragði. Á embættistíma mínum hafði ég tvennt að leiðarljósi um orkumálin: Að stuðla að sáttum milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða og að hvetja til þess að auðlindirnar yrðu verðlagðar eðlilega.
Sem ráðuneytisstjóri átti ég hlut að gerð tveggja skýrslna um nýtingu og verndargildi. Í annarri var farið yfir virkjunarkostina í heild sinni en í þeirri seinni var sérstaklega farið yfir allar hugmyndir um virkjanakosti norðan Vatnajökuls. Í ársbyrjun 1997, nokkrum mánuðum eftir að ég var skipaður orkumálastjóri, hélt ég erindi á náttúruverndarþingi þar sem ég fjallaði m.a. um lykilatriði eins og sjálfbæra nýtingu orkulinda svo og virkjanakosti og verndargildi. Í seinna umfjöllunarefninu reifaði ég aðferðafræði þar sem borið er saman útreiknaður ábati af virkjanakostum og skaðsemi hvers kosts fyrir umhverfið. Þar sagði ég m.a.:
- „Til einföldunar á viðfangsefninu geng ég … út frá því að unnt sé að flokka virkjunarkosti eftir því hve miklum náttúruspjöllum þeir valda. Þar með væri komin tvívíð flokkun á virkjunarkostunum, annars vegar eftir hagkvæmni, þ.e.a.s. eftir kostnaði á orkueiningu, og hins vegar eftir þeim spjöllum sem af virkjun kynni að leiða.“
Þessi aðferðafræði varð síðar grunnhugsunin í Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ári síðar, eða haustið 1998, átti ég síðan frumkvæði að því við Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri auðlindadeildar Orkustofnunar og Árni Bragason forstjóri Náttúruverndar ríkisins fórum í kynnisferð til Osló til að læra af Norðmönnum um gerð slíkrar rammaáætlunar um nýtingu og vernd vatnsfalla. Um þetta skrifuðum við ítarlega skýrslu. Um vorið 1999 hleypti þáverandi iðnaðaráðherra gerð íslenskrar áætlunar af stað. Enn er verið að vinna að Rammaáætluninni og því miður hefur hún ekki enn fengið lagastoð en svo verður vonandi brátt.
Hitt meginefnið sem ég beitti mér fyrir var á mörkum þess sem ég mátti, enda var það ekki alltaf í takt við sjónarmið ríkisstjórnar, en það var hvatning til stjórnvalda um að verðleggja auðlindanotkun í almannaeigu. Um þetta mál fjallaði ég oft í ræðu og riti, t.d. oft á ársfundum Orkustofnunar að ráðherra áheyrandi. Í einu síðasta erindi mínu sem orkumálastjóri sagði ég á ársfundi Samorku vorið 2007 eftirfarandi:
- „Embættismaðurinn, orkumálastjóri, er kannski kominn út á hálan ís talandi um auðlindaarð, hvar hann myndast og hvar hann skilar sér. En þetta hef ég þó leyft mér í velflestum ræðum mínum á ársfundum Orkustofnunar liðinn áratug. Ég hef gert þetta til þess að vekja athygli á vanda sem mér hefur þótt vera í uppsiglingu, en stjórnmálamenn flestir leitt hjá sér að ræða. Þjóðin er í aldarfjórðung búin að vera klofin í fylkingar um eignarhald og auðlindaarð af auðlindum sjávar. … Viljum við deila um eign og arð af orkulindum í aldarfjórðung og síðan verði niðurstaðan kannski tilviljunarkennd, ekki afleiðing af markaðri stefnu? Er ekki ráð að taka meðvitaðar ákvarðanir um nýtingu orkuauðlindanna, um orkustefnu, og um allt fyrirkomulag í þeim efnum. …
- Öll gæði sem eru takmörkuð eða þarf að skammta með einhverjum hætti fá á sig verðmæti. … [F]arsælasta leiðin til að kljást við loftslagsmálin væri að það kæmust á víðtækir losunarkvótar sem verða virtir til fjár. … Verði kvótakerfi á losun víðtækt í heiminum og þrengt að losuninni svo einhverju nemur fá þessir kvótar hátt verðgildi. …
- Ef almennt losunarkvótakerfi kemst á hver á þá að njóta ábatans af því að markaðsstaða raforkugeirans og áliðnaðarins hérlendis kann að batna umtalsvert? Mér finnst ekki nóg svar að segja: “Ja, fyrst skulum við nú sjá ágóðann verða til, áður en við förum að ráðstafa honum” eins og sagt var fyrir aldarfjórðungi um hugsanlegan fiskveiðiarð. Er ekki betra að ræða um leikreglurnar áður en mönnum fer að hitna í hamsi!
Í niðurlaginu hér var ég að vísa í orð ráðherra þegar ég minntist á það við hann strax eftir að kvótakerfinu var komið á í byrjun níunda áratugarins að kvótar myndu fá á sig verðmæti og þá myndu samstundis skapast deilur.
Samandregið sagði ég síðan í þessu erindi:
„Okkur skortir heildstæða orkustefnu um það hvað við viljum nýta og í hvaða áföngum. Um það hvernig við viljum útdeila orkugæðunum og hvað á að verða um vaxandi arð af þeirri nýtingu? Sama á við um losunarkvóta. Við þurfum strax að móta heildarstefnu um útdeilingu þeirra.“
Ég nefni þennan pistil Játningar fyrrverandi. orkumálastjóra og geri það til að ögra lesendum en ekki síður sjálfum mér. Nú þegar ég horfi yfir farinn veg tel ég að skýrt megi vera að ég barðist fyrir tvennu, eftir því sem staða mín sem embættismanns leyfði:
- Að fundin yrði málamiðlun milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða með fræðilegum aðferðum eins og síðan varð með Rammaáætluninni. Það sem á skortir er að sú áætlun fái lagagildi.
- Að útdeiling á aðgengi að auðlindum í almannaeigu sé með sanngjörnum hætti og fyrir nýtinguna komi eðlilegt gjald.
Hvað kemur þetta stjórnarskránni, stjórnlagaþinginu og kosningunni til þess við? Meira um það rétt strax.
by Þorkell Helgason | mar 30, 2008 | Á eigin vefsíðu
Greinargerð um notkun innlendrar orku í stað innflutts eldsneytis
Höfundar Þorkell Helgason og Andrés Svanbjörnsson, iðnaðarráðuneyti, Ágústa Steinunn Loftsdóttir og Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun.
Úr inngangi þessarar skýrslu:
„Við Íslendingar þurfum að flytja inn nær alla þá orku sem við þurfum til að knýja hreyfanleg tól og tæki: bíla, vinnuvélar, skip, fiskibáta og flugvélar. Ekki síður verður að huga að hinni sívaxandi kröfu um að dregið sé úr útblæstri eða losun gróðurhúslofttegunda. Notkun á jarðefnaeldsneyti, einkum á bensíni og olíu, er einn aðalorsakavaldur í þeim efnum hérlendis. Hvað er til ráða? Í greinargerð þessari verður farið yfir helstu kosti í stöðunni. Fyrst verða þó markmiðin greind. Ekki ber að líta á þessa greinargerð sem tæknilega úttekt; fremur sem innlegg í stefnumótun í málinu.“
by Þorkell Helgason | sep 9, 2007 | Greinar
Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Sunnudaginn 9. september, 2007
UMRÆÐA um rafbíla er að aukast. Lengi vel var þá aðeins átt við bíla sem ganga alfarið fyrir rafmagni sem geymt er á rafhlöðum í bílunum. Þróun í gerð rafhlaðna í því skyni hefur þó ekki verið sem skyldi; rafhlöðurnar hafa ekki getað geymt nægilegt rafmagn til að akstursvegalengd á milli endurhleðslna væri viðunandi. En með gerð svokallaðra tvinnbíla hafa skapast ný viðhorf. Á útlensku kallast þeir „hýbrid-bílar“, en það eru bílar sem ganga í raun fyrir bensíni eða olíu, en nota jafnframt rafhreyfil og rafhlöðu til að auka nýtni eldsneytisins. Talsverður fjöldi slíkra bíla er þegar á götum hér á landi. En nú er skammt í næsta þrep í þessari þróun. Rafhlaðan í tvinnbílunum verður stækkuð þannig að hún nægi fyrir akstri á rafmagninu einu nokkra tugi kílómetra. Og það sem meira er, geymana má endurhlaða með rafmagni úr almenna rafkerfinu. Notkunarmunstur venjulegra einkabíla hérlendis er þannig að ætla má að tvinnbílar af þessari gerð geti gengið að þremur fjórðu hlutum fyrir innlendu rafmagni, en aðeins um fjórðungur orkunnar þurfi að koma úr innfluttu eldsneyti.
Í Morgunblaðinu og Blaðinu 7. sept. sl. eru fróðlegar frásagnir af þessum væntanlegu bílum. En þar eru þeir kallaðir „tengitvinnbílar“. Enska heitið á þessum bílum, „Plug-in Hybrids“, vísar til þess mikilvæga eiginleika þeirra að orkan í þá, rafmagnið, kemur í gegnum venjulega raftengla. Við á Orkustofnun höfum um nokkurt árabil fylgst með þessari þróun og fyrir tæpu ári var skrifuð skýrsla m.a. um slíka bíla. Áður en skýrslan var birt veltu málhagir menn á stofnuninni fyrir sér heiti á þessa gerð bíla og niðurstaðan var sú að kalla þá „tengiltvinnbíla“, þ.e.a.s. vísa skýrt til raftengilsins í heitinu. Án l-sins í nafninu þótti hætta á að heitið yrði tengt við annað orð sem hefur hlotið sess, „tengivagn“, og sá misskilningur kynni jafnvel að komast á kreik að rafhlöðurnar væru hangandi aftan í bílunum á e.k. tengivögnum!
Við mælum því með „tengiltvinnbílum“ þar til hugmynd um enn þjálla orð kemur upp.
ÞORKELL HELGASON
orkumálastjóri.
Frá Þorkeli Helgasyni
by Þorkell Helgason | mar 7, 2007 | Greinar
Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Miðvikudaginn 7. mars, 2007
Þorkell Helgason gerir athugasemdir við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins
Í REYKJAVÍKURBRÉFI Morgunblaðsins 3. mars sl. eru athyglisverð skrif um nauðsyn þess að draga úr hvers konar mengun af völdum bílaumferðar, þar með talin losun bíla á gróðurhúsalofttegundum. Ritari Reykjavíkurbréfsins hvetur til aðgerða af hálfu hins opinbera og segir m.a.: „Í ljósi þess að ríkisvaldið getur með skattlagningu sinni ráðið miklu um útsöluverð bifreiða er nærtækt að spyrja af hverju sé ekki byrjað að undirbúa það í fjármálaráðuneytinu að breyta innflutningsgjöldum á bifreiðum til sama horfs og í Noregi.“ Framar í bréfinu hafði bréfritari nefnt að Norðmenn hefðu „ákveðið að innflutningsgjöld á bifreiðar fari eftir útblástursgildi“. Í leiðara Morgunblaðsins hinn 20. febrúar sl. hafði verið hvatt til hins sama, en þar er lagt til að „gjöldum á bifreiðar verði [hagað] þannig að það ýti undir kaup á bílum sem losa minna af gróðurhúsaloftegundum.“
Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi að breyting Norðmanna tók gildi um sl. áramót en er ekki jafnróttæk og sagt er í Reykjavíkurbréfinu; aðeins hluti innflutningsgjaldanna er gerður háður útblæstrinum. En hitt er mikilvægara að leiðrétta, að það sem Morgunblaðið leggur til að stjórnvöld geri er nú þegar á fleygiferð. Á Orkustofnun hefur um rúmlega þriggja ára skeið verið í gangi verkefni undir heitinu Vettvangur um vistvænt eldsneyti með það að markmiði að móta og samræma aðgerðir stjórnvalda til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og stuðla að nýtingu innlendrar orku í samgöngum og sjávarútvegi. Fyrir verkefninu fer stýrihópur sex ráðuneyta og er breið aðkoma að verkinu þannig tryggð. Í desember sl. var gengið frá skýrslu um stefnu Íslendinga í eldsneytismálum einkabifreiða. Tillögur um aðgerðir stjórnvalda. Iðnaðarráðherra og forsvarsmenn Vettvangsins kynntu skýrsluna á blaðamannafundi 5. febrúar sl. Skýrsluna er að finna á vef Orkustofnunar ásamt kynningarefni, sjá www.os.is/page/vve.
Á bls. 32 í skýrslunni eru settar fram eftirfarandi tillögur:
Í tillögunum er gengið mun lengra en Norðmenn gera. Burtséð frá nauðsynlegri gjaldtöku vegna notkunar á vegakerfinu er lagt til að öll gjöld á bíla og notkun þeirra verði beintengd við „útblástursgildi“. Í þessu felst að af bílum sem ekkert losa (rafbílum, metanbílum, vetnisbílum) eru hvorki greidd stofngjöld, árlegir bílaskattar né eldsneytisgjöld (fyrir utan áðurnefnd veggjöld). Í skýrslunni eru sýnd dæmi um hugsanlega (varfærnislega) útfærslu á þessari kerfisbreytingu á gjaldtöku. Tillögurnar voru ræddar í ríkisstjórn og hlutu þar góðan hljómgrunn og hafa einstakir ráðherrar tjáð sig á opinberum vettvangi fylgjandi þessari stefnumótun. Undirbúningur er þegar hafinn að því að hrinda slíkri breytingu í framkvæmd.
Kerfisbreyting í þessa veru gæfi öllum, erlendum framleiðendum, innflytjendum og neytendum, skýr skilaboð um að það sé allra hagur að velja vistvæna bíla. Mikilvægur þáttur í tillögunum er að slíkir skattalegir hvatar hygla ekki einni tækni eða eldsneytistegund fram yfir aðra; enda er sama hvaðan gott kemur. Það er ekki ríkisins að velja tæknilausnina heldur á slíkt val að fara fram á markaði.
Um leið og Morgunblaðinu er þakkað frumkvæði þess í fyrrgreindum skrifum er blaðið hvatt til að kynna tillögur stýrihóps Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem virðast því miður hafa týnst í fjölmiðlafári um önnur mál. Hiklaust má telja að Ísland verði í fararbroddi í baráttu fyrir samdrætti í útblæstri frá umferð þegar þessar tillögur eru komnar til framkvæmda. Innleiðing tillagnanna ætti að verða meðal stefnuþátta ríkisstjórnar að loknum kosningum.
Aths. ritstj.
Málsgreinin í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem Þorkell Helgason vitnar til, var byggð á því, sem haft var eftir Þorsteini Þorgeirssyni, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, í umfjöllun blaðsins 19. febrúar sl. Þar sagði m.a.: „Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, segir „hlutfall bifreiða með dísilvélar síðan hafa aukist.“
Hann segir aðspurður þennan málaflokk vera í sífelldri endurskoðun. Hvað varði aðgerðir Norðmanna sé ekkert í bígerð sem stendur.“
Höfundur er orkumálastjóri og formaður stýrihóps Vettvang um vistvænt eldsneyti.
by Þorkell Helgason | des 10, 2005 | Greinar
Grein fengin af Mbl.is – Laugardaginn 10. desember, 2005
Þorkell Helgason fjallar um orkunotkun og orkusparnað: „Mikilvægast er að draga úr eldsneytisnotkun.“
Oft er því haldið fram að óþarft sé að spara orku á Íslandi; hér sé slík ofgnótt að sparnaður skipti engum sköpum. Vissulega er Ísland orkuríkt land, en auðlindirnar eru ekki ótakmarkaðar og því felst ávinningur í því að fara vel með þær og sóa þeim ekki. Jafnvel þótt frumuppsprettan, hvort sem það er jarðhiti eða rafmagn, sé til í ríkum mæli kostar það mikla fjármuni að afla orkunnar og miðla henni. Og fyrir innflutta orku, þ.e. bensín og olíu, greiðum við dýrum dómum.
Ráðstefna um orkusparnað
Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið efndu fyrir skömmu til ráðstefnu á Akureyri þar sem orkusparnaður og bætt orkunýting var til umræðu. Tilefnið var efling útibús Orkustofnunar á Akureyri, en þar eru tveir nýir starfsmenn að taka til starfa og mun annar sinna almennum orkusparnaðarverkefnum undir hatti svonefnds Orkuseturs sem er samstarfsvettvangur Orkustofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Samorku en með stuðningi Evrópusambandsins og KEA. Hinn starfsmaðurinn tekur við verkefni sem ber heitið Vistvænt eldsneyti og er samstarfsverkefni margra ráðuneyta um upplýsingaöflun, stefnumótun og aðgerðir til að stuðla að bættri nýtingu innflutts eldsneytis svo og leiðir til að drýgja það eða leysa af hólmi með innlendum orkugjöfum.
Á ráðstefnunni bar margt á góma sem á erindi til almennings en fyrirlestrarnir eða myndefni þeirra er aðgengilegt á vef Orkustofnunar:
http://www.os.is/page/radstefna_orkunotkun. Meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni um orkusparnaðarmál er þetta:
Langstærsti útgjaldaliðurinn í orkukaupum heimila eru olía og olíuafurðir.
Íslendingar horfa frekar til stofnkostnaðar en rekstrarkostnaðar þegar keypt eru orkufrek tæki, hvort sem það eru bílar eða heimilistæki.
Almenn raforkunotkun heimila hefur aukist undanfarin ár, sem skýrist m.a. af aukinni lýsingu og af sívaxandi fjölda heimilistækja. En lítill hvati er til sparnaðar.
Í ýmsum iðnaði er raunhæft að spara orku, en líka vatn, um 10-35%, og í sumum greinum, eins og t.d. fiskeldi, er hægt að gera enn betur. Náðst hefur að draga úr eldsneytisnotkun fiskiskipa um 8-12% með orkustjórnunarkerfum.
Raflýsingu í gróðurhúsum, sem getur meira en tvöfaldað uppskeru, má stýra eftir dagsbirtu. Þá má spara með því að nota réttar perur og lýsa á milli plantnanna frekar en að hengja ljósin upp.
Tökum okkur tak
Glöggt er gests augað. Erlendir sérfræðingar á sviði orkumála, sem sækja okkur heim, hafa margir orð á því að við sólundum orku; ofkyndum húsnæði og látum ljósin loga að ógleymdum fjallabílunum sem við notum til snattferða innanbæjar. Staðreyndin er sú að við Íslendingar notum mjög mikla orku – og það þótt orkunotkun stóriðjunnar sé undanskilin. Þetta gildir jafnt um heimilisnotkun, orkunotkun fyrirtækja, fiskiskipa og annarra skipa svo og flugflotans. Margt af þessu á sér réttmætar skýringar, svo sem að við búum á norðlægum slóðum í stóru eylandi. En engu að síður getum við tekið okkur tak í bættri umgengni við orkuna.
Mikilvægast er að draga úr eldsneytisnotkun. Kemur þar einkum tvennt til: Annars vegar getur heimsmarkaðsverð á eldsneyti ekki stefnt annað en upp á við þegar til lengdar lætur, enda er hér um mjög takmarkaðar auðlindir að ræða. Hins vegar bendir flest til þess að brennsla eldsneytis valdi þeim veðurfarsbreytingum sem bersýnilega eru að koma í ljós. Því verður sívaxandi þrýstingur á okkur sem og aðra jarðarbúa að hemja brennsluna.
Leiðir til þess að draga úr eldsneytisnotkun eru margvíslegar. Til lengdar kann að verða kleift að nota tilbúið eldsneyti, sem þá væri óbeint unnið úr okkar ríkulegu endurnýjanlegu orkulindum. Flestir horfa þar til vetnis sem milliliðs en fleira kemur til álita. Ákjósanlegast væri ef unnt væri að nota raforkuna beint á farartækin, en þróun í geymslu rafmagns gengur hægt. Þessar langtímalausnir báðar eru þó ekki handan við hornið og allmörg ljón í veginum.
En við getum gripið til aðgerða í samgöngumálum okkar sem hrífa strax. Einfaldasta lausnin er einfaldlega að nota sparneytna bíla. Þeir eru til og framboð á þeim mun fara vaxandi svo sem með samþættingu rafmótora og sprengihreyfla, eins og gert er í svokölluðum tvinnbílum. Fleira getur komið til svo sem notkun hreyfilhitara, en þeir eru næsta óþekktir hér en mikið notaðir annars staðar á Norðurlöndum. Og síðan ættu menn auðvitað ekki að fara einmana í einkabílum, heldur deila fari með öðrum og helst að nota almenningssamgöngutæki. Fróðlegt væri að kortleggja eldsneytiskostnað við að koma okkur til vinnu. Ekki kæmi á óvart ef hann mætti lækka um helming með bættri hegðan og hagkvæmari samsetningu á bílaflotanum. En til þess að Íslendingar dragi úr eldsneytisnotkun þarf breytta hugsun; það er enn í tísku að eiga sem stærsta einkabíla.
Það sem hér hefur verið drepið á og margt fleira verður viðfangsefni Orkusetursins og Vettvangsins um vistvænt eldsneyti á Akureyri.
Höfundur er orkumálastjóri.