Umsögn um frumvarp um jöfnun atkvæðavægis

Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um fulla jöfnun atkvæðavægis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins bað mig um umsögn, sem ég gerði og lagði talsverða vinnu í með aðstoð Péturs Ólafs Aðalgeirssonar stærðfræðings. Umsögn mín er á faglegum nótum með ábendingum um hvað megi tæknilega betur fara í frumvarpstextanum. Jafnframt geng ég ögn lengra og reifa þann möguleika að skipta Suðvesturkjördæmi í tvennt til að jafna að nokkru stærð kjördæmanna.

Ég var kallaður á fjarfund nefndarinnar 16. nóv. 2020 til að reifa umsögnina og svara spurningum. Í kjölfar fundarins endurskoðaði ég umsögnina með hliðsjón af athugasemdum nefndarmanna. Þessa endurskoðuðu gerð er að finna á síðu Alþingis, https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-418.pdf. Enn fremur hér: Umsögn um frv. um jöfnun atkvæðavægis ÞH endurskoðuð.

Á nefndarfundinum fór ég yfir efni umsagnar minnar með glærusýningu, sem forvitnir geta fundið hér: YfirlitViðreisnFrvUmsögn.

 

Ég hef á öðrum vettvangi ekki farið leynt með þá skoðun mína að jafnt vægi atkvæða heyri til grundvallarmannréttinda. Þetta var og sjónarmið okkar í Stjórnlagaráði.

Í fyrstu umræðu um frumvarpið var ekki að heyra neina efnislega andstöðu. Þvert á móti. T.d. sagðist Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og sérfræðingur í þessum málaflokki, „get[a] tekið undir öll meginmarkmið frumvarpsins“ og bætti við: „Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt markmið að jafna atkvæðisréttinn.“

Geta þingmenn ekki þetta sinn náð saman um stórmál hvað sem flokkslínum líður?

Fyrirkomulag kosninga er forneskjulegt

[Eftirfarandi pistill birtist í Fréttablaðinu 8. maí 2018 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/g/2018180509166/fyrirkomulag-kosninga-er-forneskjulegt-]

Skammt er til sveitarstjórnarkosninga en framboðsfrestur ekki útrunninn, þegar þetta er skrifað. Engu að síður er löngu byrjað að kjósa í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og er þá kjörseðillinn autt blað. Þess munu vart dæmi um víða veröld að unnt sé að kjósa þannig út í bláinn, enda hefur lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) margsinnis gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Þetta er aðeins eitt dæma um hvað kosningalög okkar eru um margt forneskjuleg, bæði lögin um kosningar til Alþingis svo og þau um kjör sveitarstjórna. Aldrei hefur verið gert hreint í þessum lagabálkum og ákvæðin færð til nútímahorfs. Þannig má t.d. ætla að enn sé kosið á opnum fundum, sbr. hugtakið „utankjörfundaratkvæðagreiðsla“.

Þó liggja hjá Alþingi hugmyndir um verulegar endurbætur á ákvæðum um framkvæmd þingkosninga. En það sama á við um þessi grundvallarlög og sjálfa stjórnarskrána: Alþingi virðist aldrei hafa dugnað til að taka á málinu. Eða skortir pólitískan vilja?

Af nógu er að taka eigi að benda á ákvæði sem laga þarf í kosningalögum. Þegar hefur verið nefndur sá afkáraleiki að framboð liggi ekki fyrir þegar kosning hefst. Þá erum við langt á eftir flestum grönnum okkar í því að auðvelda kjósendum að neyta kosningaréttar síns. Bréfkosningar þekkjast hér ekki, en sums staðar nýtir stór hluti kjósenda sér þá leið. Um rafrænar kosningar er nánast ekkert rætt, hvorki um kosti þeirra né galla.

Ofangreind dæmi lúta að framkvæmd kosninga en lýðræðisþáttur málsins er þó mikilvægastur.

Vita kjósendur að þeir geta nánast engin áhrif haft á röð frambjóðenda á listum við sveitarstjórnarkosningar? Útstrikanir eða umraðanir eru tilgangslausar. Þetta er þó ekki alveg markleysa í þingkosningum, enda var vægi slíkra breytinga aukið talsvert með lögum frá aldamótaárinu. En það hefur „gleymst“ í 18 ár að gera hliðstæðar breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þar gilda enn ákvæði frá 1987 sem gerðu kjósendur nær valdalausa um listabreytingar. Víðast hvar í grannlöndunum er þó kjósendum veitt meira vald til að velja sér frambjóðendur í kosningum til sveitarstjórna en til þjóðþinga. Á Íslandi er þessu öfugt farið! Að mati margra kjósenda skiptir þó meira máli hvaða einstaklingar veljast til sveitarstjórna en hvaða flokk þeir skipa.

Nefna má annað sem hefur dagað uppi í meðferð kosningalaga. Í þingkosningum geta framboð spyrt sig saman í vísi að kosningabandalögum. Ákvæðin eru þó ófullkomin og hafa því ekki verið nýtt. Með slíkum bandalögum væri þó unnt að gefa kjósendum vísbendingu um það hvaða fylkingar gætu staðið saman að myndum ríkisstjórnar eftir kosningar í stað þess að þeim sé haldið í óvissu með tuggunni „að ganga óbundin til kosninga“. Í lögum um sveitarstjórnarkosningar er ekki gefinn kostur á neinum slíkum listasamsteypum. Í þeim fjölda framboða, sem nú stefnir í, a.m.k. í Reykjavík, væri fengur að því fyrir kjósendur að framboðin sýndu lit með því að hópa sig eitthvað saman.

Hér er lítt tóm til að fjalla um brýnar lýðræðisumbætur í lögum um þingkosningar. Nefna má virkt persónukjör, eins og nær 80% kjósenda tjáðu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Eða þá það ranglæti að vægi kjósenda er enn misjafnt. Vildu þó um 2/3 fyrrgreindra kjósenda fullan jöfnuð. ÖSE hefur þrívegis gert alvarlegar athugasemdir við þessi ójöfnu mannréttindi íslenskra kjósenda.

Þá er það ámælisvert að það skuli geta gerst að flokkar fái fleiri þingsæti en landsfylgi þeirra veitir þeim rétt til. Að ekki sé komið í veg fyrir þetta kann að vera stjórnarskrárbrot. En því miður höfum við engan dómstól sem tekur á stjórnlagabrotum með almennum hætti. Þó hefur þessi ójöfnuður milli flokka haft pólitískar afleiðingar. Síðasta ríkisstjórn, sú sem sat lungann úr árinu 2017, hafði eins sætis meirihluta á Alþingi með hjálp þessa lýðræðishalla.

Stjórnlagaráð gerði margvíslegar og útfærðar tillögur um bætt fyrirkomulag kosninga. En þeim, eins og öðrum tillögum ráðsins, hefur verið stungið undir stól. Þó hafa 2/3 hlutar kjósenda í almennri atkvæðagreiðslu kallað eftir nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins.

Höfundur sat í stjórnlagaráði

Aukum rétt kjósenda strax

[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. september 2017]

Traust á stjórnmálunum hefur verið lítið og er nú í lágmarki. Fólki finnst það vera haft að fífli, haldið utan við upplýsingar og ákvörðunartöku. Allur þorri kjósenda vill til dæmis að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nær fimm árum játtu þessu fjórir af hverjum fimm þeirra sem afstöðu tóku. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var hvort menn vildu aukið persónukjör, jafnt vægi atkvæða eða möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Um allt þetta þegir gildandi stjórnarskrá eða er alls ófullnægjandi. Ekki bætir úr skák að stjórnarskráin er ruglingsleg, ef ekki beinlínis villandi, t.d. um valdsvið forseta Íslands eins og núverandi forseti benti réttilega á við setningu Alþingis.

Stjórnlagaráð tók á þessum málum öllum og mörgum fleirum á þann veg að 2/3-hluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu því yfir að þeir vildu sjá nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins. En síðan hefur fátt gerst. Stjórnarskránni verður ekki breytt fyrir komandi kosningar, en Alþingi það sem enn situr getur þó sýnt viðleitni í að auka rétt kjósenda í kjörklefanum.

Breytingar á röð frambjóðenda
Eins og fyrr segir var yfirgnæfandi stuðningur við aukið vægi persónukjörs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, enda er það mörgum lítt að skapi að þurfa að kjósa frambjóðendur í kippum á listum flokkanna, enda leynist oft misjafn sauður í mörgu fé. Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir ná kjöri af listunum var þó talsvert aukið með kosningalögum sem tóku gildi um síðustu aldamót. Kjósendur geta umraðað frambjóðendum á þeim flokkslistum sem þeir merkja við, nú eða strikað út nöfn. En það er eins og þessu sé haldið leyndu og kjósendum gert erfitt um vik að nýta þennan rétt sinn. Kjörseðillinn sjálfur býður þessum merkingum kjósenda ekki heim og yfirvöld gefa engar leiðbeiningar fyrir utan gagnslítil upplýsingaspjöld sem hanga einhvers staðar á kjörstöðunum.

Viðbúið er að margir viti ekki af möguleikunum sem þó eru í boði eða séu hræddir við að ógilda kjörseðilinn með merkingum við frambjóðendur. Það væri strax til bóta að ferningur til merkinga væri framan við nöfn frambjóðenda auk þess sem yfirvöldum kosningamála væri gert skylt að upplýsa með afgerandi hætti hvað kjósendur mega gera og hvað ekki. Úr þessu tvennu væri hægt að bæta með einföldum fyrirmælum í lögum sem hægt væri að samþykkja fyrir komandi kosningar.

Kosningabandalög
Ein ástæða þess að áhugi á kosningum fer dvínandi er sú að kjósendum finnst þeir oft kjósa köttinn í sekknum. Þeir kjósi flokk, sem lofar ýmsu en fer síðan í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum öndverðrar skoðunar og flokkur kjósandans étur loforðin ofan í sig. Flokkarnir ættu að sýna meira á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þeim hugnist að starfa. Ein leið til þess er að flokkar geti spyrt sig saman í kosningabandalög.

Gildandi kosningalög heimila stjórnmálasamtökum að bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Hængurinn er sá að listunum er ekki gert jafn hátt undir höfði. Þetta kemur strax í ljós í listamerkingunum sem verða að vera A, AA, AAA o.s.frv., sem túlka má þannig að sá fyrst nefndi sé aðallistinn og hinir ómerkilegri. Við úthlutun þingsæta eru þó allir listarnir jafn réttháir. Þá heimila lögin ekki að einstakir listar kosningabandalags séu skráðir með nöfnum þeirra flokka sem að þeim standa. Aftur er það lítið mál fyrir Alþingi að bæta úr þessu. Ávinningurinn gæti orðið sá að línur yrðu eitthvað ljósari fyrir kosningar um það hvaða stjórnarmynstur kæmi til greina. Hugsanlega yrðu ekki fleiri en t.d. þrenn til fern stjórnmálasamtök (einstakir flokkar eða bandalög þeirra) í framboði. Eru ekki sumir að kalla eftir stórum fylkingum? Hví ekki að bjóða nú þegar upp á þennan möguleika?

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig veita mætti kjósendum aukna valmöguleika og hugsanlega betri yfirsýn yfir hvað kunni að vera í vændum að kosningum loknum. Þessu getur sitjandi þing breytt og þarf ekki til þess aukinn meirihluta eins og skylt er við breytingar á kjördæmamörkum eða tilhögun á úthlutun þingsæta. Hitt er annað mál að kosningalög þarf að endurskoða í heild sinni, og það ekki seinna en með nýrri stjórnarskrá. En það má stíga fyrstu skref strax.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði


 

Umbætur á kosningakerfinu: IV. Útdeiling jöfnunarsæta

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: IV Útdeiling jöfnunarsæta, er fjórði og síðasti efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í framhaldi af yfirlitsgrein um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Í inngangi pistilsins segir m.a.:

Með kosningalögum þeim sem komu til framkvæmda 1934 var þingsætum skipt í tvo hópa, kjördæmissæti og jöfnunarsæti (þá nefnd uppbótarsæti). Kjördæmissætunum var og er alfarið úthlutað á grundvelli úrslita innan hvers kjördæmis en jöfnunarsætum er úthlutað innan hvers kjördæmis með tilliti til úrslita á landinu öllu. Allt til kosninganna 1987 gat tala sæta hvers kjördæmis sveiflast talsvert allt eftir úrslitunum í heild. Frá og með kosningunum 1987 er það á hinn bóginn lögbundið og ljóst fyrir hverjar kosningar hve mörg sæti hvert kjördæmi skal frá.

Útdeiling jöfnunarsæta til einstakra lista er flókið viðfangsefni og var eitt örðugasta úrlausnarefnið við breytingarnar sem stóðu yfir árin 1983-1987. 17 Þegar hér er komið sögu í úthlutun þingsæta er vitað hvernig jöfnunarsætin eiga að skiptast á milli flokkanna og hve mörg jöfnunarsæti (eitt eða tvö samkvæmt núgildandi lögum) eiga heima í hverju kjördæmi. Jafnframt er það sjálfgefið markmið að jöfnunarsæti hvers kjördæmis séu eftir föngum í samræmi við atkvæðastyrk, séu sem sagt sem líkust því að vera framhald af úthlutun kjördæmissæta. Þetta markmið stangast einatt á við hinar gefnu forsendur um sæti hvers flokks og hvers kjördæmis.

Í grundvallaratriðum er útdeiling jöfnunarsæta viðfangsefni kosningalaga á öllum Norðurlöndunum, nema í Finnlandi þar sem ekki eru nein jöfnunarsæti. Fyrirkomulagið í Skandinavíu, en þó einkum Noregi, svipar mjög til þess sem er hér á landi.

Þetta viðfangsefni … hefur í vaxandi mæli verið til umræðu meðal fræðimanna síðustu áratugi. Brautryðjendur voru þeir Balinski og Demange (1989a og 1989b). Þeir stilla upp gæðakröfum sem sérhver útdeilingaraðferð jöfnunarsæta ætti að uppfylla.

Umbætur á kosningakerfinu: III. Úthlutunarreglur

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: III. Úthlutunarreglur, er sá þriðji fjögurra efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í framhaldi af yfirlitsgrein um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Upphaf pistilsins er þannig:

Í þessum kafla er fjallað um grundvallaratriði, þ.e.a.s. reiknireglur við úthlutun sæta, ekki endilega vegna þess að lagt sé til að skipt verði um aðferðir í íslenska kosningakerfinu, heldur hins að fróðleikur um þær skiptir máli í allri umfjöllun um kosningar.

Úthlutun sæta til framboðslista á grundvelli atkvæðatalna kemur víða við sögu. Hérlendis þekkjum við viðfangsefnið þegar kosið er til Alþingis og sveitarstjórna en líka við kosningar í stjórnir félaga (t.d. á hluthafafundum). Flóknast er viðfangsefnið við úthlutun þingsæta. Þar kemur slík grunnúthlutun við sögu með tvennum hætti. Annars vegar þegar kjördæmissætum er úthlutað en hins vegar þegar jöfnunarsætum er skipt á milli þingflokka.

Viðfangsefnið er hvernig umbreyta megi atkvæðum greiddum listum í sæti handa sömu listum þannig að úthlutunin sé í sem bestu hlutfalli við atkvæðaskiptinguna. Fullkomið samræmi næst aldrei – nema þá að sætin séu jafnmörg og kjósendurnir! Sérhver úthlutunaraðferð byggir því á málamiðlun. Til er mýgrútur aðferða og allmargar eru í notkun. Umfjölluninni hér er ekki ætlað að gera þessu sérstaka viðfangsefni nein fullnægjandi skil, enda hefur margt og mikið hefur verið ritað um slíkar reiknireglur. Tilgangurinn með undirkaflanum er einvörðungu að miðla grundvallarupplýsingum um efnið, enda er val á reiknireglu við úthlutun sæta hvarvetna talið stór þáttur í gerð kosningakerfa. Sjá t.d. yfirlitsrit IDEA-stofnunarinnar, IDEA 2005.