Lok á ráðgjafarstarfi fyrir landskjörstjórn

Ég hef verið viðriðin kosningamál allt frá árinu 1982; fyrst sem stærðfræðilegur ráðgjafi við endurskoðun ákvæða um kosningar til Alþingis, bæði á árabilinu 1982-87 og aftur um og fyrir s.l. aldamót. Jafnfram hef ég liðsinnt landskjörstjórn við úthlutun þingsæta í öllum kosningum frá og með þeim árið 1987 til og með þeirra 2013.

Þegar ég af aldurssökum hætti að þjónusta landskjörstjórn eftir þingkosningarnar 2013 sendi ég henni e.k. kveðjubréf sem mig langar að halda til haga einmitt nú (2019) þegar endurskoðun kosningalaga stendur fyrir dyrum. Bréfið var þannig:

Til landskjörstjórnar.

Ég hóf afskipti af kosningamálum haustið 1982 en þá varð e.k. ráðgjafi flokksformanna sem þá voru að undirbúa breytingu á ákvæðum um kosningar til Alþingis. Síðan 1987 hef ég verið ráðgjafi landskjörstjórnar við úthlutun þingsæta. Nú er mál að linni og búið er að finna traustan eftirmann minn. Að vísu vænti ég þess að geta lokið mínu starfi með heildargreiningu á kosningaúrslitunum eins og ég hef gert á þrennum síðustu þingkosningum.

Ég vil með bréfi þessum þakka landskjörstjórn, fyrr og síðar, fyrir einkar ánægjulegt samstarf. En jafnframt vil ég með bréfinu hvetja til að allt fyrirkomulag kosninga verði tekið til endurskoðunar. Þar er ekki átt við hina pólitísku þátta málsins heldur um framkvæmdina alla. Kosningalög hafa ekki verið endurskoðuð í heild um afar langa hríð. Að hluta til má rekja ákvæðin öld aftur í tímann, jafnvel lengur.

Ég hef kynnt mér erlendar fyrirmyndir og ráðleggingar alþjóðastofnana og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að vera einn lagabálkur um allar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, en vitaskuld með sérákvæðum um einstakar kosningar. Mikilvægur þáttur í þeim lögum ætti að vera að styrkja stöðu landskjörstjórnar og koma húsbóndavaldinu á eina hönd, hjá landskjörstjórn. Af erlendum fyrirmyndum vil ég sérstaklega benda á slík heildarkosningalög í Noregi.

Í kjölfar endurskoðunar er síðan brýnt að endurskoða allt gagnaflæði og gagnvinnslu og fella þetta saman í eitt kerfi. Á meðf. fylgiskjali, „Gagnaflæði við þingkosningar 2013“ , er þetta sýnt fyrir nýliðnar kosningar.

Eitt markmiða með endurbættu fyrirkomulagi og heilstæðu gagnakerfi ætti að vera að lækka kostnað við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, enda viðbúið að þeim muni fjölga á komandi árum.

Enda þótt formlegu starfi mínu fyrir landskjörstjórn sé að ljúka er ég reiðubúinn til að ljá þessum endurbótum lið, sé eftir því óskað.

Virðingarfyllst,

(sign. Þorkell Helgason)

Greining á úrslitum þingkosninga og úthlutun þingsæta á þessari öld

Höfundur hefur á liðnum árum ritað skýrslur þar sem greind eru úrslit og úthlutun þingsæta í kosningum til Alþingis á þessar öld. Slíkar skýrslur um kosningarnar 2003, 2007, 2009 og 2013 voru unnar fyrir landskjörstjórn.

Nú hefur höfundur (á eigin ábyrgð) bætt við skýrslum um kosningarnar 2016 og 2017 en einnig stutt gerð með nokkrum lykilatriðum.

Greiningarskýrslurnar í heild er að finna hér:

Í skýrslunum eru dregnir fram ágallar á úthlutunaraðferðinni í gildandi kosningalögum:

  • Jöfnuður milli þingflokka er engan veginn tryggður, enda náðist hann ekki í neinum af þrennum síðustu kosningum; hvorki 2013, 2016 né heldur 2017.
  • Smávægilegar breyting á fylgi eins lista getur leitt til mikils hringlanda í skiptingu þingsæta milli annarra lista.
  • Aðferðin getur leitt til nykurs, getur leitt til „nykurs“, þ.e.a.s. að atkvæðaaukning lista getur haft för með sér fækkun sæta eða öfugt minnki fylgið. Þetta fyrirbæri má finna bæði í niðurstöðum kosninganna 2009 og 2017.

Því þarf að taka upp betri aðferð við úthlutun jöfnunarsæta. Ein slík er „forgangsregla“ sem er nær oftast að finna þá úthlutun sem er fræðilega best í vissum, skilgreindum skilningi.

Greining á úthlutun þingsæta eftir alþingiskosningarnar 27. apríl 2013

Í þessari greinargerð er fjallað um úrslit kosninga til Alþingis, sem fóru fram 27. apríl 2013, og um úthlutun þingsæta.

Áður hafa birst greinargerðir af þessu tagi um þingkosningarnar 2003, 2007 og 2009 en allar þessar kosningar byggjast á nýjum stjórnarskrár- og lagaákvæðum um kosningar til Alþingis frá síðustu aldamótum.

Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér

Um útreikning á atkvæðahlutföllum í þjóðaratkvæðagreiðslum

Ég hef sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis minnisblað um réttan og rangan útreikning á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 þegar þjóðin var spurð um tillögur stjórnlagaráðs. Sjá pdf-skjalið Minnisblað um útreikninga þjóðaratkvæðagreiðslna.

Í inngangi minnisblaðsins segir eftirfarandi:

„Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 var þjóðin spurð ráða um sex aðskilin atriði um gerð og efni nýrrar stjórnarskrár.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa verið birt á vefsíðum landskjörstjórnar og innanríkisráðuneytisins. Ennfremur hefur Hagstofan gert þeim skil í sérhefti svo og á vefsíðu sinni. Það er álit undirritaðs að hlutfallstölur um úrslit þessarar atkvæðagreiðslu eins og þær hafa verið birtar í annarri af tveimur tilkynningum landskjörstjórnar, hjá innanríkisráðuneytinu svo og sem aðalniðurstaða í riti Hagstofunnar séu villandi.

Rangfærslan byggist á því að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða varðandi viðkomandi spurningu og hlutfallstölur reiknaðar í samræmi við það. Samtala hlutfalla já-svara og nei-svara er því ekki 100%. Þannig getur það gerst, samkvæmt þessari túlkun, að tillaga sem borin væri undir þjóðaratkvæðagreiðslu teljist hvorki hafa verið samþykkt né að henni hafi verið hafnað. Hlutfallstölurnar sem hafa verið birtar gefa því ekki þá mynd sem löggjafinn hlýtur að hafa verið að leita eftir, þar sem fram eigi að koma vilji þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig, og þeirra einna.

Birting úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með ofangreindum hætti er nýlunda í íslenskri kosningasögu, enda eru fylgishlutföll lista í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna ætíð reiknuð þannig að þau safnast saman í 100%. Sama á við um forsetakosningar. Í öllum öðrum skýrslum Hagstofunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur er ennfremur hið sama uppi á teningnum. Fyrst með þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 eru niðurstöður kynntar með hinum nýja hætti.

Úrslitin með umræddum hlutfallstölum hafa verið tekin sem viðtekinn sannleikur og t.d. ratað í fyrstu áfangaskýrslu starfandi stjórnarskrárnefndar. Aðferðafræðin getur haft fordæmisgildi og boðið heim hættu á misnotkun þjóðaratkvæðagreiðslna.

Því ber viðkomandi stjórnvöldum að leiðrétta þessa rangfærslu, en löggjafinn taki af allan vafa með lagabreytingu sé þess talin þörf.