by Þorkell Helgason | apr 24, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 17. apríl 2012.]
Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.
Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.
Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem þessum þjóðfundi er lokið.
Úrvinnsla
Að fengnu áliti þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti, verður Alþingi, og einkum stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þess, að bretta upp ermarnar og ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá byggðu á tillögum stjórnlagaráðs en að teknu tilliti til þeirra valkosta sem þjóðin – eða staðgenglar hennar – hafa ótvírætt valið. Tímin er naumur, ekki síst í ljósi þess að á síðasta misseri fyrir þingkosningar vill hugur þingmanna snúast um margt annað en uppbyggilega málavinnu.
Í ljósi upphaflegra áforma um að stjórnlagaþing starfaði í hrinum með samráði við Alþingi á milli, tel ég viturlegt að stjórnlagaráð vinni með þingnefndinni að lokafrágangi stjórnarskrárfrumvarpsins. Þetta er ekki sagt af vanvirðu við þingið, heldur af umhyggju fyrir málefninu. Það yrði að sjálfsögðu þingnefndin sem bæri lokaábyrgð á frumvarpinu og legði það fram fyrir þingheim allan, sem síðan fer einn með málið.
Staðfesting þjóðarinnar
Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að framvegis verði stjórnarskrárbreytingar að hljóta staðfestingu þjóðarinnar. Sama hafa fyrri stjórnlaganefndir lagt til. Flestir, ef ekki allir, vilja að eins verði farið með stjórnarskrárumbætur nú, að þær hljóti bindandi staðfestingu kjósenda.
Ákvæðin í gildandi stjórnarskrá eru þannig að fyrst samþykkir Alþingi tillögu um hina nýju stjórnarskrá. Þá skal þing rofið og efnt til kosninga. Fyrsta mál nýs þings er síðan að staðfesta hina fyrri samþykkt – nú eða hafna stjórnarskránni sé sá gállinn á þinginu.
En hvernig má láta þjóðina fá völdin nú? Fyrirmynd má sækja í lýðveldisstjórnarskrána 1944. Hún fór í þjóðaratkvæði, enda var svo fyrir mælt í fyrri stjórnarskrárbreytingu. Aðstæður eru því ekki eins. Engu að síður mætti nýta sömu hugsun og bæta við skilyrði í viðkomandi ákvæði í frumvarp stjórnlagaráðs. Viðbótin, sem hér er feitletruð, er sótt nær orðrétt í lýðveldisstjórnarskrána:
Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau í samræmi við ákvæði stjórnarskipunarlaga nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum enda hafi meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt ályktun Alþingis þar að lútandi.
Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér um ræðir gæti farið fram strax eftir að þingið hefur samþykkt það í fyrra sinnið, enda má engu breyta eftir það.
Þrátt fyrir efasemdir um að blanda megi saman kosningum tel ég hafa mætti slíka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þingkosningunum vorið 2013. Við það vinnst margt:
- Trygging fyrir góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri.
- Kjósendur geta valið flokka og frambjóðendur til þings óháð afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinnar.
- Minni tilkostnaður þar sem tvennum kosningum er slegið saman.
Stjórnarskrármálið má ekki daga uppi einu sinni enn
Stjórnarskrá er í senn sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið erindisbréf hennar til stjórnvalda, þar með til Alþingis, um réttar lýðræðislegar leikreglur. Stjórnarskrá á því að vera sprottin frá þjóðinni.
Hér hefur verið reifað ferli þess að þjóðin eignist vandaða stjórnarskrá í sátt við sem flesta. Stiklað hefur verið á stóru en nánar má lesa um málið á vefsíðu höfundar; sjá thorkellhelgason.is.
by Þorkell Helgason | apr 16, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2012.]
Stjórnarskrármálið hefur rekið á sker. Til stóð að spyrja þjóðina um afstöðu til frumvarps stjórnlagaráðs og nokkur álitaefni í því sambandi samhliða forsetakosningu 30. júní nk. Nú bendir flest til að svo verði ekki. Til þess að koma málinu aftur á skrið er brýnt að marka leiðina sem fylgja skuli allt til lykta. Grunnþáttur þess er að þjóðin verði spurð með viðeigandi hætti. Hér verður reifuð sýn höfundar á slíkt heildarferli.
Þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum?
Hæpið er að stefna lengur á forsetakosningu sem tækifæri til að spyrja þjóðina um annað mál, stjórnarskrána.
Lögbundin tímamörkin eru liðin og tíminn orðinn of knappur til að vanda megi til spurninga, kynningar og annars undirbúnings. Það orkar líka mjög tvímælis að spyrða saman forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslu, sem snýst m.a. um hlutverk forsetans.
Þá liggur beinast við að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu í haust en tímaskorturinn er næstum sá sami enda yrði að ganga frá öllu á yfirstandandi þingi sem lýkur í maílok. Þá er vafamál hvort takast megi að kynna málið og vekja áhuga þjóðarinnar á sumartíma, í besta falli snemma hausts. Hætt er við dræmri kjörsókn og því að kjósendur yrðu lítt undirbúnir. Ekki má heldur gleyma kostnaði við sérstaka kosningu.
Þetta merkir ekki að hætta eigi að leita ráða hjá þjóðinni, þvert á móti.
Hvað með skoðanakönnun?
Í stað þjóðaratkvæðagreiðslu mætti gera vandaða skoðanakönnun til að greina afstöðu þjóðarinnar til álitamálanna. Á undan yrði að fara almenn og ítarleg kynning. Væntanlega þyrfti að ganga á eftir svörum með símtölum eða jafnvel heimsóknum.
Annmarkar eru þó á þessari leið. T.d. má draga í efa að kjósendur væru almennt búnir að kynna sér málin og undirbúa svör ef þeir lentu í könnunarúrtaki. Svörin yrðu því talsverðum hendingum háð.
Það verður þó að telja þessari leið það til tekna að hún er trúlega ódýrust þeirra sem hér eru reifaðar.
Stungið upp á nýjum þjóðfundi
Hér verður stungið upp á annarri leið, þeirri að endurtaka þjóðfundinn 2010 til að fá fram skoðun þjóðarinnar í gegnum sérvalið úrtak kjósenda sem yrði eins konar kviðdómur um stjórnarskrármálið. Tölfræðileg rök sýna að slíkur þjóðfundur getur talað fyrir hönd þjóðarinnar, nema atkvæði falli næsta jafnt. Sami fyrirvari á vitaskuld við um skoðanakönnun og líka um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þátttaka væri ekki sem skyldi.
Þjóðfundarhugmyndin er þessi:
- Kallaður verði saman þúsund manna hópur kjósenda um eina helgi á komandi hausti. Hópurinn verður að vera þverskurður af þjóðinni, allt eins og var 2010.
- Fyrir þjóðfundinn verði lagðar spurningar um álitamálin, en að undangenginni málefnalegri kynningu á valkostunum og það á fundinum sjálfum.
- Atkvæði verði greidd leynilega um hvern valkost fyrir sig og án umræðna.
Til fróðleiks mætti spyrja í upphafi um afstöðu þjóðfundarins til frumvarps stjórnlagaráðs, og síðan aftur í lokin. Í seinna skiptið yrði spurt um stuðning við stjórnarskrárfrumvarpið að því gefnu að því verði breytt í takt við vilja meirihlutans um hvert álitamálanna.
- Kostirnir við þetta fyrirkomulag eru m.a. þessir:
- Með kynningu á valkostunum á sjálfum þjóðfundinum væru þeir sem þar greiða atkvæði mun betur upplýstir en bæði kjósendur í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu svo og útdregnir þátttakendur í skoðanakönnun.
- Tækifæri gefst til að mæla og bera saman fylgi við stjórnarskrártillögurnar í heild sinni fyrir og eftir að svör fást við álitamálunum. Þetta væri ógerlegt hvort sem er í almennri kosningu eða í skoðanakönnun.
- Aðstefnd þátttaka er fyrirfram tryggð. Eins og 2010 yrði ekki linnt látum fyrr en fengist hefðu þúsund manns eða svo. Að því leyti er þjóðfundur marktækari en skoðanakönnun, jafnvel marktækari en almenn kosning með dræmri þátttöku – og slakri forkynningu.
Helsta gagnrýnin yrði sú að deilt muni verða um niðurstöðuna og hvaða áhrif hún eigi að hafa. Það sama gildir um allar leiðirnar að valkostirnir sem spurt er um verða að vera skýrt orðaðir og ótvíræðir.
Um framhaldið verður fjallað í öðrum pistli.