Veiðigjald er ekki skattur heldur afnotagjald

 

[Birtist á Fréttablaðinu og á visir.is 11. janúar 2018; sjá http://www.visir.is/g/2018180119868/veidigjald-er-ekki-skattur-heldur-afnotagjald-]

Skattar eru lagðir á „eftir efnum og ástæðum“ eins sagt var í gömlum lögum um álagningu útsvars. [i] Þeir sem betur eru settir greiða hlutfallslega meira en hinir. Þetta er gert af félagslegum ástæðum, til tekjujöfnunar. En þetta á aðeins við um skatta á tekjur einstaklinga. Fyrirtæki greiða aftur á móti öll sama hlutfall af hreinum tekjum sínum, óháð efnahag að öðru leyti. Það er hvorki skynsamlegt né framkvæmanlegt að vera þar með einhverjar tekjujöfnunarkúnstir.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir: „Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu.“ [ii] Í túlkun ráðherra og stjórnarþingmanna undanfarið á þessu ákvæði hefur þetta verið lagt út sem lækkun veiðigjalda með tilliti til „afkomu“; jafnvel afkomu hverrar útgerðar eða a.m.k. útgerðarhópa.

Varhugaverð braut

Hér er farið út á varhugaverða braut af mörgum ástæðum. Slík afkomutenging verður ávallt umdeilanleg, upphaf ágreinings sem mun grafa undan veiðigjaldskerfinu í sífellu þar til fátt verður eftir. Brugðist verður við kveinstöfum með því að slá af gjaldinu, fyrst hjá Jóni en svo líka fyrir séra Jón. Leiðir til að koma útgerðum undir lægri gjöldin munu blasa við, svo sem uppskipting fyrirtækja í misarðbærar einingar. Útgerðir munu fá „framsóknarlag“ svo vísað sé til fyrirbæris fyrr á árum þegar sagað var framan af stefni fiskiskipa til að koma þeim í hentugra hólf réttinda. Hvað gerist við leiguframsal kvóta frá útgerð með lægra veiðigjald til annarrar í hærri gjaldflokki?

Kjarni málsins er sá að veiðigjald er ekki og á ekki að vera skattur, allra síst slíkur sem lagður er á samkvæmt efnum og ástæðum. Veiðigjald er enginn tekjuskattsauki. Það er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða sameignarauðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það eftir afkomu hverrar útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald sem er skilgreint sem síbreytilegur skattur verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi sem grunar að þjóðin sé hlunnfarin, hlustandi á fréttir um drjúgar arðgreiðslur til eigenda útgerðanna.

Eðlilegir viðskiptahættir

Innan þess þjóðskipulags sem við búum við er eðlilegast að útgerðin ákvarði veiðigjaldið sjálf með því að kaupa eða leigja aflaheimildirnar af eigandanum, þjóðinni, á frjálsum samkeppnismarkaði. Þá aðlagast gjaldið sjálfkrafa því hvernig árar í sjávarútvegi hverju sinni og tekur þannig mið af „efnum og ástæðum“ útvegarins í heild, en án pólitískra inngripa. Breytingu í þessa veru má koma á í áföngum með fyrningarleiðinni svokölluðu. [iii] En er ekki hætta á að hinir stóru og sterku hrifsi til sín allar aflaheimildir séu þær seldar á almennum markaði? Við því er hægt að setja ýmsar skorður og beita mótvægisaðgerðum. Þannig mætti t.d. láta tekjur af sölu aflaheimilda renna að drjúgum hluta til þeirra byggða sem eiga mest undir fiskafla svo og til uppbyggingar innviða í dreifðum byggðum landsins.

Vinstri-hægri

Hvers vegna skýtur slík hugmynd um ríkisstýrð og afkomutengd veiðigjöld upp kollinum nú hjá vinstri-hægri stjórn? Það er ein af furðum íslenskra stjórnmála að markaðsleiðir eiga nokkuð jafnt undir högg að sækja hjá þeim sem eru lengst til hægri svo og þeim sem eru á hinum kantinum. Látinn stjórnmálaforingi skýrði þetta þannig að vinstri-hægri ásinn væri í raun skeifulaga; stutt væri á milli endanna. Erum við að upplifa það nú?

Í lokin má minna á að 83% þeirra sem afstöðu tóku voru fylgjandi því að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign í stjórnarskrá. Stjórnlaga­ráð gerði til tillögu í þeim efnum sem öðrum. Enn situr þó við sama.

_________________________________________________________

[i] Í 4. gr. laga nr. 66 1945 hefst á þessari setningu: „Útsvar skal leggja á eftir efnum og ástæðum.“

[ii] Sjá https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/

[iii] Sjá t.d. https://thorkellhelgason.is/?p=2555.

Höfundur sat í stjórnlagaráði.

 

 

Kvótakerfið er gott – en byggt á siðferðilegum sandi

Kvótakerfið er gott - en byggt á siðferðilegum sandi
ÞORKELL HELGASON SKRIFAR

Vart er lengur um það deilt að stjórna þarf aðgengi að takmörkuðum auðlindum eins og veiðum úr fiskistofnun. Takmörkun á afla getur verið með ýmsu móti en flestir hag- og fiskifræðingar virðast orðnir sammála um að skilvirkasta kerfið er kvótakerfi. Hagkvæmnin í veiðunum er best tryggð með því að kvótarnir séu eins og hver önnur aðföng, t.d. olía og veiðarfæri, sem afla má á markaði allt eftir því sem framboð leyfir.

Engum dytti í hug að skammta olíu úr hnefa stjórnvalda og afhenda langt undir markaðsverði. En einmitt þar stendur hnífurinn í kúnni með kvótakerfið. Kvótunum var upphaflega úthlutað ókeypis en hafa síðan gengið kaupum og sölum. Það hefur þjóðin ekki getað sætt sig við – og gerir ekki enn. Því hefur útgerðin ekki getað notið til fulls kosta kvótafyrirkomulagsins og eilíft búið við óvissu um framtíð þess. Ástæðan er sú að það skortir siðferðilegan grundvöll undir kvótakerfið, grundvöll sem bæði þjóðin og þeir sem að sjávarútvegi starfa geta við unað.

Strax í upphafi var bent á þennan vanda og á þá lausn að hin takmörkuðu gæði væru falboðin af hinu opinbera fyrir hönd eigendum þeirra, þjóðarinnar. Sjá t.d. grein eftir undirritaðan í Morgunblaðinu 4. nóvember 1987. Því er þar spáð að „ókeypis úthlutun [muni valda] eilífum ágreiningi. Sífellt verður reynt að lappa upp á úthlutunarreglurnar og tekið tillit til æ fleiri sjónarmiða, þar til kerfið er orðið óskapnaður. Þrátt fyrir það verður það aldrei sanngjarnt. Út úr þessum ógöngum er ekki nema ein fær leið: að hið opinbera selji kvótana á markaðsverði, jafnvel á eins konar uppboði.“[1] Allt á þetta enn við. Einmitt hefur verið lappað upp á kerfið og hefði það verið kórónað með svokölluðu „pottakerfi“ sem þriðji síðasti sjávarútvegsráðherra lagði til.

Margir vilja leysa siðferðisvandann með því að banna eða a.m.k. takmarka framsal á kvótum. Það er afleit leið af tvennum sökum. Í fyrsta lagi vegna þess að vandinn er ekki leystur með slíku banni. Takmörkuð gæði verða ævinlega að verðmætum og viðskipti með þau losna alltaf einhvern veginn úr viðjum. Ef ekki má framselja kvótana fá skip með kvótum aukið markaðsverð og það jafnvel þótt um ryðkláfa sé að ræða. En í öðru lagi er hagræðing í útgerð stórlega skert með hindrunum af hverju tagi.

Siðlegt kvótakerfi
Nú er kvótakerfið búið að vera við lýði í rúma þrjá áratugi. Kvótar hafa skipt um eigendur þrátt fyrir óvissu um framtíð kerfisins. Því væri ekki sanngjarnt að innkalla alla kvóta fyrirvaralaust. En það er til millileið sem í senn tryggir fyllstu hagkvæmni, stóreykur jafnræði í aðgangi að veiðunum og veitir núverandi útgerðum og þar með kvótahöfum eðlilega aðlögun um leið og tekið er tillit til forsögunnar hvort sem það eru fyrri kvótakaup eða uppsöfnuð veiðireynsla. Og það sem mestu máli skiptir: Lausnin færir auðlindirnar smám saman til baka til eigandans, þjóðarinnar, sem þá nýtur sanngjarns arðs af sinni eign.

Þessi leið hefur gengið undir ýmsum nöfnum en verður hér nefnd markaðsleið. Þar er gengið út frá núverandi stöðu, þeirri að nú eru kvótarnir í höndum tiltekinna útgerða. Aflahlutdeildum er síðan endurúthlutað frá ári til árs en þær skertar lítillega um leið, segjum 5-10% á hverju ári. Það sem þá situr eftir skal selt á opinberu uppboði og háð fyrrnefndum skerðingum strax árið eftir. Þeir sem fyrir eru og vilja halda sínum hlut óskertum þurfa því árlega að kaupa það sem nemur umræddri skerðingu, þ.e. 5-10% af eigin kvóta, en þeir sem vilja koma nýir í útgerð geta aflað sér kvóta á þessum uppboðsmarkaði. Sýna má fram á með núvirðisreikningum að þessi leið fetar þann meðalveg að núverandi kvótahafar og þjóðin skipta á milli sín verðmæti aflahlutdeildanna nokkurn vegin til helminga. Jafnframt er líklegt að verðmæti kvótanna hækki við upptöku markaðsleiðarinnar þar sem hún rennir stoðum siðferðis undir allt fyrirkomulagið sem ætti því að geta orðið til frambúðar. Lögspekingar hafa talsvert fjallað um það hvort kominn sé hefðarréttur á kvótaeignina. Almenna niðurstaðan er sú að ekki megi innkalla kvótana að fullu og það fyrirvaralítið en sú endurúthlutunarleið sem hér er nefnd sé lögmæt og leiði ekki til réttar á skaðabótum.

Þeir sem sjá ofsjónum yfir sköttum og gjöldum til að standa undir velferðarsamfélaginu hamra með nokkrum rétti á því að allar álögur á atvinnuvegina skapi hættu á atvinnuleysi þar sem fyrirtækin kunni að þurfa að draga saman seglin þeirra vegna. Gjöld sem ákvörðuð eru á markaði fyrir afnot af takmörkuðum auðlindum eru ekki háð þessum annmörkum. Uppboð á kvótum leiðir ekki til þess að fiskveiðar dragist saman. Uppboðshaldarinn, ríkið, mun taka öllum tilboðum þar til allt það sem er til ráðstöfunar gengur út. Ári illa í sjávarútvegi verða tilboðin sem því nemur lægri, en allt mun að lokum seljast. Auðlindagjöld með uppboði er því í senn efnahagslega skaðlaus en um leið sveiflujafnandi fyrir útgerðina.

Hugmyndin um þessa markaðsleið er nánast jafngömul kvótakerfinu og á sér auk þess erlendar fyrirmyndir. Hún var ítarlega kynnt í svokallaðri „sáttanefnd“ í tíð fyrrverandi ríkistjórnar (pottanefndinni) í skýrslu sem við Jón Steinsson hagfræðingur sömdum, en hún sem annað í þeirri nefnd dagaði uppi.[2] En nú hefur hreyfingin Viðreisn hafið merkið á loft, sbr. t.d. grein forvígismanns hennar, Benedikts Jóhannessonar, í Fréttablaðinu 30. apríl s.l.

Makrílfrumvarpið er ógæfuspor sem verður að stöðva
Stjórnarfrumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um úthlutun makrílkvóta. Úthlutunin á að mestu að byggja á veiðireynslu s.l. þrjú ár. Það er í stíl við það sem verið hefur. Nýmælið er að aflahlutdeildum er ekki lengur úthlutað eitt ár í senn án frekari skuldbindinga. Í þess stað er úthlutunin í raun ótímabundin nema hvað stjórnvöld geta afturkallað hana, en til þess þarf sex ára aðdraganda. Eigi að segja ákvæðinu upp þarf meiri hluti á Alþingi að vera sama sinnis í tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð og a.m.k. einar kosningar á milli. Breyttur meiri hluti á þingi getur dregið uppsögnina til baka hvenær sem er. Það er því jafnvel erfiðara að afturkalla makrílúthlutunina en að breyta sjálfri stjórnarskránni.

En hættan af þessu óheillafrumvarpi er enn meiri. Segjum að ákvæði um auðlindir í almannaeign komist loks í stjórnarskrá, eins og og stjórnlagaráð lagði til og um þrír fjórðu hlutar kjósenda studdu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Þá væri samt ekki unnt að hrófla við makrílúthlutuninni næstu sex til sjö árin á eftir án þess að skapa ríkissjóði hættu á risaháum skaðabótakröfum. Ennfremur er eins víst að handhafa kvóta í öðrum tegundum myndu í krafti jafnræðis krefjast sömu bóta. Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur raunar sagt að sex ára uppsagnarfrestur sé of stuttur[3] enda hafði hann fyrr reifað hugmyndir um að kvótahafar fái almennt að halda kvótunum óáreittir í 23 ár og það með sjálfvirkri framlengingu. Það er því augljóst að það stefnir í varanlegt afsal þjóðarinnar á fiskimiðunum sé ekki spornað kröftuglega við. Á móti kemur að vísu veiðigjald en það er sýnd veiði en ekki gefin. Gjaldið verður ákveðið af stjórnarmeirihluta á hverjum tíma allt eins og pólitísku kaupin gerast á eyrinni, en gjaldið nú svarar ekki nema til brots af markaðsvirði kvótanna.

Í stað tillögu sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun á makrílkvótunum væri kjörið að beita nú framangreindri fyrningar- og uppboðsleið á þessar veiðar. Veiðireynsla, sem þó er ekki löng, væri virt í byrjunarstöðunni og því sársaukalítið fyrir útgerðina að fara þessa markaðsleið og hljóta að launum stuðning þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.

Makrílfrumvarpið er ekki smámál um smáan fisk. Óbreytt mun frumvarpið ryðja brautina að endanlegri einkavæðingu fiskimiðanna við Íslandsstrendur. Því er frumvarpið ógæfuspor sem verður að stöðva. Lesandinn getur lagt sitt af mörkum með því að styðja undirskriftasöfnun á thjodareign.is



[2] Fylgiskjal 8 „Ráðstöfun aflahlutdeilda með samþættingu endurúthlutunar og tilboðsmarkaðar“með skýrslu um endurskoðun á stjórn fiskveiða, rit sjávarútvegsráðuneytisins nr. 53/2010; sjá http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Skyrslur/Fylgiskjal8_Tilbodsleid.pdf.
[3] Hádegisfréttir í ríkisútvarpinu 1. maí 2015, http://www.ruv.is/frett/makrilkvoti-til-sex-ara-mjog-stuttur-timi

Um útreikning á atkvæðahlutföllum í þjóðaratkvæðagreiðslum

Ég hef sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis minnisblað um réttan og rangan útreikning á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 þegar þjóðin var spurð um tillögur stjórnlagaráðs. Sjá pdf-skjalið Minnisblað um útreikninga þjóðaratkvæðagreiðslna.

Í inngangi minnisblaðsins segir eftirfarandi:

„Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 var þjóðin spurð ráða um sex aðskilin atriði um gerð og efni nýrrar stjórnarskrár.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa verið birt á vefsíðum landskjörstjórnar og innanríkisráðuneytisins. Ennfremur hefur Hagstofan gert þeim skil í sérhefti svo og á vefsíðu sinni. Það er álit undirritaðs að hlutfallstölur um úrslit þessarar atkvæðagreiðslu eins og þær hafa verið birtar í annarri af tveimur tilkynningum landskjörstjórnar, hjá innanríkisráðuneytinu svo og sem aðalniðurstaða í riti Hagstofunnar séu villandi.

Rangfærslan byggist á því að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða varðandi viðkomandi spurningu og hlutfallstölur reiknaðar í samræmi við það. Samtala hlutfalla já-svara og nei-svara er því ekki 100%. Þannig getur það gerst, samkvæmt þessari túlkun, að tillaga sem borin væri undir þjóðaratkvæðagreiðslu teljist hvorki hafa verið samþykkt né að henni hafi verið hafnað. Hlutfallstölurnar sem hafa verið birtar gefa því ekki þá mynd sem löggjafinn hlýtur að hafa verið að leita eftir, þar sem fram eigi að koma vilji þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig, og þeirra einna.

Birting úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með ofangreindum hætti er nýlunda í íslenskri kosningasögu, enda eru fylgishlutföll lista í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna ætíð reiknuð þannig að þau safnast saman í 100%. Sama á við um forsetakosningar. Í öllum öðrum skýrslum Hagstofunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur er ennfremur hið sama uppi á teningnum. Fyrst með þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 eru niðurstöður kynntar með hinum nýja hætti.

Úrslitin með umræddum hlutfallstölum hafa verið tekin sem viðtekinn sannleikur og t.d. ratað í fyrstu áfangaskýrslu starfandi stjórnarskrárnefndar. Aðferðafræðin getur haft fordæmisgildi og boðið heim hættu á misnotkun þjóðaratkvæðagreiðslna.

Því ber viðkomandi stjórnvöldum að leiðrétta þessa rangfærslu, en löggjafinn taki af allan vafa með lagabreytingu sé þess talin þörf.

 

Umsögn sexmenninga um 1. áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar hinnar nýju

[Við, sex félagar úr stjórnlagaráðinu sáluga, Ari Teitsson, Illugi Jökulsson, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Gunnarsson, Þorkell Helgason og Vilhjálmur Þorsteinsson sendum hinn 30. sept. 2014 stjórnarskránefndinni nýjustu umsögn um fyrstu áfangaskýrslu hennar. Hér á eftir sést inngangsbréf okkar til nefndarinnar en umsögnin í heild er í skjalinu Umsögn sexmenninga um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar]

Við undirrituð, sem öll sátum í stjórnlagaráði, viljum með erindi þessu bregðast við ósk stjórnarskrárnefndar um athugasemdir við 1. áfangaskýrslu nefndarinnar og svara að nokkru spurningum þeim og álitamálum sem nefndin setur fram í undirköflum skýrslunnar merktum x.6.

Við fögnum því að viðfangsefnið — endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands — sé á dagskrá og væntum þess og vonum að hin nýja nefnd sinni því af alúð, enda er okkur málið hjartfólgið.

Eins og öllum er kunnugt fór fram umfangsmikil og lýðræðisleg vinna að nýrri stjórnarskrá í stjórnlagaráði 2011 og í aðdraganda þess með þjóðfundinum 2010, svo og með gagnaöflun og fræðivinnu stjórnlaganefndar sem undirbjó starf ráðsins. Þá unnu starfsmenn stjórnlagaráðs og ráðgjafar, sem leitað var til, mikið starf, og sama gildir um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili og sérfræðinga á hennar snærum. Fullyrða má að ekki hafi verið jafn mikið í lagt í neinni af hinum mörgu fyrri tilraunum til að setja lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá.

Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 skapar þessari stjórnarskrárlotu sögulega sérstöðu. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru mjög afgerandi um helstu lykilatriði í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar kom líka fram ósk tveggja þriðju hluta kjósenda sem afstöðu tóku um að tillögur ráðsins skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.[1]

Að öllu þessu virtu verður að telja að hinni nýju stjórnarskrárnefnd beri lýðræðisleg skylda til að leggja niðurstöður hins mikla starfs í undanfarinni lotu til grundvallar verki sínu og tillögugerð, í stað þess að hefja að nýju umræðu á breiðum grundvelli um efnisatriði stór og smá. Rökrétt er, og vænlegast til árangurs og sátta, að nefndin einbeiti sér að því að halda áfram umbótum og útfærslum á „grundvelli“ tillagna stjórnlagaráðs, eins og tveir þriðju kjósenda hafa kallað eftir.

Í samræmi við það sem þegar hefur verið sagt tjáum við undirrituð okkur í viðaukum 1-4 um einstakar spurningar á áfangaskýrslunni í ljósi þess sem stjórnlagaráð lagði til. Einnig höfum við hliðsjón af frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og breytingartillögum hans. Við víkjum þó frá þessum meginviðmiðum þegar við metum það svo, í ljósi umræðu og upplýsinga sem fram hafa komið, að rétt sé að kveða öðru vísu að. Árétta ber að svör þessi og athugasemdir eru sett fram í okkar nafni sem einstaklinga en ekki í nafni annarra fyrrum félaga okkar í stjórnlagaráði.

 



[1] Hér verður að skjóta því inn að atkvæðahlutföll þau úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram koma í áfangaskýrslunni eru villandi þar sem auð svör við einstökum spurningum eru talin til gildra atkvæða. Hlutföll já- og nei-svara leggjast því ekki saman í 100%. Þetta er öndvert við vilja löggjafans eins og hann birtist í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, svo og hefðir um birtingu niðurstaðna úr þjóðaratkvæðagreiðslum og kosningum, sbr. t.d. töflu 10 í Hagtíðindum 2013:1.

Kjörheftir kjósendur

[Birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2014.]

Framundan eru kosningar til sveitarstjórna á Íslandi. Ímyndum okkur að kosningakerfið væri þannig að á kjörseðlinum stæðu einungis nöfn flokka en engir væru frambjóðendurnir. Að kosningum loknum væri það hlutverk flokkanna sjálfra að velja fulltrúa til að skipa þau sæti sem kæmu í hvers hlut.

Varla þætti okkur þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? En þannig er kerfið í raun. Hjá þeim sem kjósa utan kjörfundar er „kjörseðillinn“ meira að segja autt blað. Kjósendur sem kjósa fyrir kjördag vita lengst af ekki einu sinni hvaða flokkar eru í framboði. En jafnvel þótt kosið sé á kjördegi stendur kjósandinn aðeins frammi fyrir vali milli lista. Hann sér að vísu hvernig listarnir eru mannaðir, en getur vart haft áhrif á það hverjir munu skipa sætin. Það hafa flokkarnir ákveðið fyrirfram.

Að vísu voru áhrif útstrikana talsvert aukin með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis um aldamótaárið. Þessi breyting hefur leitt til þess að í fjögur skipti hefur frambjóðandi færst niður um sæti. En þessu er ekki að heilsa í sveitarstjórnarkosningum. Alþingi hefur ekki komið því í verk að gera hliðstæðar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Þar er vald kjósenda til breytinga á framboðslistum enn aðeins áhrifalaus sýndarmennska.

Stuðningur nær 80 prósenta
Allt bendir þó til að kjósendur séu mjög áfram um að fá nokkru um það ráðið hvaða persónur veljast sem fulltrúar þeirra. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 um tillögur Stjórnlagaráðs hlaut spurning um aukið persónukjör stuðning nær 80% kjósenda. En síðan hefur ekkert gerst.

Óvíða er jafn víðtækt persónukjör og í Bæjaralandi þar sem þessi greinarstúfur er ritaður. Framboðslistum er í kynningarskyni stillt upp í forgangsröð en kjósendur ráða því samt alfarið hverjir veljast á landsþing eða í sveitarstjórnir. Til þess hafa þeir mikið valfrelsi. Þeir geta valið sér frambjóðendur, og það þvert á lista. Um leið, eða í staðinn, geta þeir merkt við lista, jafnvel allt að þremur. Kjósendur hafa þó allir sama kosningarétt. Dreifi þeir atkvæðinu á marga frambjóðendur eða flokka þynnist það út í sama mæli.

Stjórnlagaráð lagði til ákvæði um persónukjör við kosningar til Alþingis, en þó ekki jafn galopið og hér í Suður-Þýskalandi. Engu að síður stóð ekki á fullyrðingum ýmissa stjórnmálafræðinga um að persónukjör að hugmynd ráðsins þekktist hvergi. Einn þeirra sagði að það að atkvæði gæti skipst á milli flokka væri brot á mannsréttindasáttmálum.

Aðrir fræðingar telja persónukjör stórhættulegt lýðræðinu. Ekki verður þó annað séð en það virki mæta vel hér um slóðir. Þarf að matreiða frambjóðendur ofan í íslenska kjósendur? Eru þeir vanhæfari en t.d. þýskir að velja sér fulltrúa af viti?

Þorkell Helgason sat í Stjórnlagaráði