by Þorkell Helgason | okt 29, 2024 | Á eigin vefsíðu
Lögum um kosningar til þýska Sambandsþingsins í Berlín var breytt í veigamiklum atriðum á árinu 2023. Með því var þingið að bregðast í þriðja sinn við úrskurði samþýska stjórnlagadómstólsins frá árinu 2008; sjá vefsíðu mína: Þýski stjórnlagadómstóllinn dæmir kosningakerfið ótækt
Meðan málið var í undirbúningi á árinu 2022 í tilheyrandi sérnefnd Sambandsþingsins sendum við ég, Kristján Jónasson prófessor og Lilja Steinunn Jónsdóttir jarðeðlisfræðingur nefndinni álitsgerð um málið. Í þessu skyni höfðum við þróað sérstaka gerð af Kosningaherminum í þessu skyni; um herminn sjá Kosningahermir kynntur
Ásamt með greiningu og hermisprófun á þeim hugmyndum sem voru á döfinni í þingnefndinni stungum við upp á nokkrum betrumbótum á megintillögu þingnefndarinnar.
Álitsgerðin fylgir hér: Anwendung
Þingnefndin þakkaði fyrir sig – en síðan ekki meir!
by Þorkell Helgason | okt 14, 2019 | Á eigin vefsíðu
Þróaður hefur verið hugbúnaður, kosningahermir, til prófunar á eiginleikum og gæðum kosningakerfa. Þetta er verkfæri til að kanna mismunandi skipan kjördæma og með hinum ýmsu úthlutunaraðferðum.
Hægt er að fræðast nánar um herminn með því að renna yfir þessar glærur: Kosningakerfishermir kynning oktober 2019
Með herminum má prófa hugmyndir um fyrirkomulag kosninga á grundvelli raunverulegra kosningaúrslita en ekki síður með tilbúnum hendingakenndum úrslitum sem fengnar eru með tölfræðilegum hætti.
Kostir og gallar hvers kerfis eru mældir á ýmsan hátt, t.d. því hve hlutfallsleg úrslitin eru eða hvort jöfnunarsæti riðla um of úthlutun innan hvers kjördæmis.
Hugbúnaðurinn er ekki sérsniðinn að Íslandi. Alþingkosningar eru hafðar í huga en búnaðurinn fellur að kosningakerfum flestra grannríkja.
Kosningahermirinn verður gerður aðgengilegur öllum, fræðimönnum, stjórnmálamönnum og öðrum áhugamönnum um grunnstoð lýðræðisins: Fyrirkomulag kosninga.
Ennfremur er á glærunum sagt lauslega frá bók sem er í smíðum um viðfangsefnið (en ekki þó herminn sérstaklega). Bókin gengur undir vinnuheitinu „Kosningafræðarinn“.
[Glærurnar lítillega endurbættar 16. okt. 2019.]
by Þorkell Helgason | maí 12, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 12. maí 2016 svo og á visir.is undir heitinu „Bessastaðir og Mansion House“; sjá http://www.visir.is/bessastadir-og-mansion-house/article/2016160519728. Hér er hún birt lítillega breytt, einkum í ljósi þess að mér var bent á að borgarstjórinn umræddi byggi ekki í Mansion House! ]
Hvað er sameiginlegt með þessu tvennu? Það eitt að kosið er almennum kosningum til ábúðar á Bessastöðum og til forsætis Lundúnaborgar. En það er þó gjörólíkt hvernig menn komast til valda á þessum tveimur stöðum. Framundan er að velja næsta bónda á Bessastöðum. Það verður gert með svokallaðri meirihlutakosningu. Sá vinnur sem flest fær atkvæðin, óháð því hvort hann nær meirihluta atkvæða eða ekki. Nú kunna allmargir að takast á um forsetaembættið. Þá er undir hælinn lagt hver stuðningurinn verður við vinningshafann. Borgarstjórinn í London er á hinn bóginn kjörinn á þann hátt að meiri líkur eru á því en minni að hann njóti stuðnings meirihlutans. Lítum nánar á kosninguna sem fram fór í London 5. maí sl.
Kjósandi í London merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, allt eins og hér. En að auki býðst honum að merkja við annan til vara. Uppgjörið fer þannig fram að fyrst eru talin saman atkvæði í aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn borgarstjóri. Ef ekki er einblínt á þá tvo sem fengu flest atkvæði að aðalvali. Atkvæði anarra frambjóðenda eru færð til annars þessara efstu frambjóðenda í samræmi við varaval hvers þessara kjósanda. Að því loknu er sá valinn sem hefur flest atkvæði, sín upphaflegu að viðbættum þeim færðu. Hvernig voru úrslitin fengin í London?
Tólf buðu sig fram í borgarstjóraembættið. Þeir sem flest atkvæði hlutu í aðalvali kjósenda voru frambjóðendur Verkamannaflokksins annars vegar og Íhaldsmanna hins vegar, þeir Sadiq Khan og Zac Goldsmith. Fylgi þeirra tveggja kemur fram í tveimur fyrstu talnadálkunum í meðfylgjandi töflu.
Af töflunni sést að enginn frambjóðandi hlaut hreinan meirihluta atkvæða í aðalvali kjósenda. Ef þetta væru forsetakosningar á Íslandi væri hér með amen eftir efninu og Khan kjörinn út á 44% fylgi. Atkvæði þeirra tæplega 21% kjósenda, sem völdu einhvern hinna tíu – en þeir eru spyrtir saman í töflunni – myndu detta niður dauð og ómerk. Þau réðu engu um það hvort Khan eða Goldsmith yrði að lokum valinn. Þó er ljóst að þau ættu að geta ráðið úrslitum.
Í London er því ekki látið staðar numið heldur rýnt í varaval kjósenda þeirra frambjóðenda sem reka lestina og atkvæðin færð til í samræmi við vilja kjósenda. Lokaniðurstaðan er sýnd í fjórða talnadálki töflunnar.
Atkvæði og tilfærslur |
Atkvæði í aðalvali |
Hlutföll af gildum atkvæðum
|
Færð atkvæði |
Atkvæði að loknum tilfærslum |
Hlutföll af gildum atkvæðum |
Sadiq Khan |
1.148.716
|
44,2% |
161.427 |
1.310.143 |
50,4%
|
Zac Goldsmith |
909.755
|
35,0% |
84.859 |
994.614 |
38,3%
|
Hinir tíu frambjóðendurnir |
538.490
|
20,7%
|
|
|
|
Ófæranleg atkvæði |
|
|
|
292.204 |
11,3%
|
Gild atkvæði alls |
2.596.961
|
100,0% |
246.286 |
2.596.961 |
100,0%
|
Að loknum tilfærslum atkvæða í varavali sést að Khan nær hreinum meirihluta gildra atkvæða, þótt naumur sé eða 50,4%. Úr lokadálki töflunnar má lesa að einungis 11,3% kjósenda hafa engin áhrif á það hvor þeirra efstu náði kjöri. Án varavalsins væru þessir áhrifalausu nær helmingi fleiri eða 20,7%. Ástæður þess, að tiltölulega mörg atkvæði – eða 246.286 – fara forgörðum þrátt fyrir varavalið, eru einkum tvær. Annars vegar sú að kjósendur hirtu ekki um að velja varamann en hins vegar vegna þess að tiltölulega margir völdu sama frambjóðanda sem aðal- og varamann og gerðu þar með varaval sitt marklaust. Hjá þessu síðarnefnda hefði mátt komast með betri útfærslu kjörseðilsins en það er önnur saga.
Aðferðafræðin í þessum bresku borgarstjórakosningum er vel þekkt. Svipuð aðferð hefur verið notuð í nær heila öld á Írlandi, m.a. við forsetakjör, og hún var notuð í kosningunum til Stjórnlagaþingsins sáluga 2010 og henni mun verða beitt við kjör á formanni Samfylkingarinnar nú á næstunni. Kosningin á borgarstjóranum í London og kosningin til Stjórnlagaþingsins eiga fleira sameiginlegt, m.a. að í báðum var talið rafrænt. En munurinn er sá að Hæstiréttur leyfði sér að úrskurða íslensku kosninguna ólöglega.
Stjórnlagaráð lagði til margvíslegar umbætur á fyrirkomulagi forsetakosninga, svo sem um fjölgun meðmælenda svo og að kjósendur gætu forgangsraðað frambjóðendum svipað og í þessari bresku kosningu. En allt hefur þetta dagað uppi. Því sitjum við líka uppi með það að forseti lýðveldisins getur veitt „…undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til“; eins og segir í hinum gildandi grundvallarlögum okkar, bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944.
Er ekki tími til kominn að fólk kynni sér stjórnarskrármálið?
by Þorkell Helgason | maí 8, 2014 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2014.]
Framundan eru kosningar til sveitarstjórna á Íslandi. Ímyndum okkur að kosningakerfið væri þannig að á kjörseðlinum stæðu einungis nöfn flokka en engir væru frambjóðendurnir. Að kosningum loknum væri það hlutverk flokkanna sjálfra að velja fulltrúa til að skipa þau sæti sem kæmu í hvers hlut.
Varla þætti okkur þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? En þannig er kerfið í raun. Hjá þeim sem kjósa utan kjörfundar er „kjörseðillinn“ meira að segja autt blað. Kjósendur sem kjósa fyrir kjördag vita lengst af ekki einu sinni hvaða flokkar eru í framboði. En jafnvel þótt kosið sé á kjördegi stendur kjósandinn aðeins frammi fyrir vali milli lista. Hann sér að vísu hvernig listarnir eru mannaðir, en getur vart haft áhrif á það hverjir munu skipa sætin. Það hafa flokkarnir ákveðið fyrirfram.
Að vísu voru áhrif útstrikana talsvert aukin með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis um aldamótaárið. Þessi breyting hefur leitt til þess að í fjögur skipti hefur frambjóðandi færst niður um sæti. En þessu er ekki að heilsa í sveitarstjórnarkosningum. Alþingi hefur ekki komið því í verk að gera hliðstæðar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Þar er vald kjósenda til breytinga á framboðslistum enn aðeins áhrifalaus sýndarmennska.
Stuðningur nær 80 prósenta
Allt bendir þó til að kjósendur séu mjög áfram um að fá nokkru um það ráðið hvaða persónur veljast sem fulltrúar þeirra. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 um tillögur Stjórnlagaráðs hlaut spurning um aukið persónukjör stuðning nær 80% kjósenda. En síðan hefur ekkert gerst.
Óvíða er jafn víðtækt persónukjör og í Bæjaralandi þar sem þessi greinarstúfur er ritaður. Framboðslistum er í kynningarskyni stillt upp í forgangsröð en kjósendur ráða því samt alfarið hverjir veljast á landsþing eða í sveitarstjórnir. Til þess hafa þeir mikið valfrelsi. Þeir geta valið sér frambjóðendur, og það þvert á lista. Um leið, eða í staðinn, geta þeir merkt við lista, jafnvel allt að þremur. Kjósendur hafa þó allir sama kosningarétt. Dreifi þeir atkvæðinu á marga frambjóðendur eða flokka þynnist það út í sama mæli.
Stjórnlagaráð lagði til ákvæði um persónukjör við kosningar til Alþingis, en þó ekki jafn galopið og hér í Suður-Þýskalandi. Engu að síður stóð ekki á fullyrðingum ýmissa stjórnmálafræðinga um að persónukjör að hugmynd ráðsins þekktist hvergi. Einn þeirra sagði að það að atkvæði gæti skipst á milli flokka væri brot á mannsréttindasáttmálum.
Aðrir fræðingar telja persónukjör stórhættulegt lýðræðinu. Ekki verður þó annað séð en það virki mæta vel hér um slóðir. Þarf að matreiða frambjóðendur ofan í íslenska kjósendur? Eru þeir vanhæfari en t.d. þýskir að velja sér fulltrúa af viti?
Þorkell Helgason sat í Stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | nóv 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Í eftirfarandi skjali er að finna kosningaákvæði í stjórnarskrám Norðurlanda í samanburði við frv. stjórnlagaráðs og dæmi stjórnlaganefndar. Athyglisvert er hve mismunadi ítarleg ákvæðin eru. Sjá II ítarefni Kosningakerfi Norðurlanda (augljós afritunarskekkja leiðrétt 3. des. 2012).