Um frumkvæðisrétt kjósenda; hjá Stjórnlagaráði og í Hessen

Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist upp í 16 fylki („lönd“ á þýsku), mjög mismunandi fjölmenn, eða frá 700 þús. íbúum til 18 milljóna. Fylkin fara með mörg mál, sem ekki eru beinlínis á könnu Sambandsþingsins eða sambandsstjórnarinnar í Berlín. Því hefur hvert fylkjanna eigið þing (landsþing) og ríkisstjórn með grundvöll í eigin stjórnarskrá. Þessar stjórnarskrár voru flestar settar strax eftir seinni heimstyrjöld og eru því eldri en grunnlög (stjórnarskrá) sjálfs sambandsríkisins sem eru frá 1949.

Hessen er fimmta fjölmennasta fylkið í Þýskalandi með rúmlega sex milljónir íbúa og er þar með fjölmennari en hvert Norðurlandanna utan Svíþjóðar. Hinn 28. október 2018 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um 15 breytingar eða viðbætur við stjórnarskrá fylkisins. Ein þessara stjórnarskrárbreytinga laut að ákvæðum um frumkvæðisrétt kjósenda. Meginbreytingin er sú að lækka það lágmarkshlutfall kjósenda sem þarf til að þeir geti lagt fram lagafrumvarp og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.  Lágmarkið var 20% en lækkar í 5%.

Ákvæðunum um lagafrumvæði kjósenda, hvort sem er breyttum eða óbreyttum, svipar mjög til samsvarandi ákvæða í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2011 og því áhugaverð fyrir Íslendinga.

Þá má benda á til fróðleiks að stjórnarskráin í Hessen telur 161 grein en í tillögum Stjórnlagaráðs eru þær 116 sem sumum þótti drjúgt!

Stjórnarskrárbreytingarnar voru allar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni með 70-90% stuðningi þeirra sem afstöðu tóku, þ.m.t. sú sem hér er fjallað um, en 86,3% kjósenda guldu henni jáyrði sitt. Kosningaþátttaka var nokkuð góð, en 67,1% kjósenda tóku þátt atkvæðagreiðslu um umrædda spurningu.

Í opinberum gögnum frá Hessen er aðeins gerð grein fyrir innbyrðis skiptingu jáa og neia. Auð eða ógild atkvæði koma þar að sjálfsögðu ekki við sögu. Þetta er öndvert við það sem landskjörstjórn og Hagstofan gáfu upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 um stjórnarskrármálið. Þar var – í fyrstu a.m.k. – tekið upp það nýmæli að telja auð og ógild atkvæði til gildra atkvæða!; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=2065.

Í þessu samhengi má rifja upp þá gagnrýni, sem fram kom frá fræðimönnum við íslensku háskólana á tillögur Stjórnlagaráðs, ekki síst á þau ákvæði sem lúta að umræddu beinu lýðræði, þ.e.a.s. 65.-67. gr. í frumvarpstexta ráðsins. Í íslenskum sið var fullyrt að „svona þekktist hvergi“; ja, kannski í Sviss. En ákvæðin í stjórnarskrá Hessen eru nauðalík þeim í tillögum Stjórnlagaráðs.

Í samanburðartöflu er gerð grein fyrir ákvæðunum um lagafrumkvæði kjósenda í stjórnarskrá Hessen í samanburði við hliðstæð ákvæði í tillögum Stjórnlagaráðs. Þá fylgir í síðasta dálki eigin umsögn og er þá ítrekað hversu lík ákvæðin eru hjá Stjórnlagaráði og þau í Hessen.

Jafnframt er neðar í töflunni farið yfir ákvæðin í Hessen og í tillögum Stjórnlagaráðs um það hvernig stjórnarskrá verði breytt.

Athugasemdir við tillögur stjórnarskrárnefndar

Stjórnarskrárnefnd hefur kynnt tillögur sínar um breytingar á þremur meginþáttum í gildandi stjórnarskrá. Ég tel að endurskoða eigi stjórnarskrána í heild sinni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs eins og 2/3 hluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vildi. Engu að síður hef ég sent nefndinni erindi með umsögn, athugasemdum og betrumbótum á þessum tillögum.

Erindi mitt má kalla fram með því að styðja hér á heiti þess: Athugasemdir Þorkels Helgasonar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar

Meginatriði í athugasemdum mínum við frumvarpsdrög stjórnlaganefndar eru þessi:

Um þjóðaratkvæðagreiðslur

  • Ekki er gerður ágreiningur um að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu verði að koma frá a.m.k. 15% kosningabærra manna.
  • Sá fjögurra vikna frestur sem gefinn er til að skila undirskriftum er of skammur. Reifuð er málamiðlun í þeim efnum.
  • Takmarka ætti það tímarúm sem Alþingi hefur til að stöðva þjóðaratkvæðagreiðslu með afturköllun máls.
  • Því er andmælt að settur sé synjunarþröskuldur sem takmarki rétt kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Til málamiðlunar er stungið upp á að lækka þröskuldinn úr 25% í 15% sem svarar þá til þess hlutfalls kjósenda sem þarf til að kalla eftir atkvæðagreiðslunni.
  • Bent er á að þess sé krafist að lög um útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum þurfi að samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi. Spurt er hvað gerist ef sá meiri hluti næst ekki? Lögð er til breyting á frumvarpsdrögunum sem tekur á þessum vanda.

Um umhverfisvernd

  • Hafðar eru af því áhyggjur hvort raunverulega sé verið að tryggja almannarétt til frjálsrar farar um landið.

Um náttúruauðlindir

  • Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
  • Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
  • Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum.
  • Það býður heim deilum og túlkunum út og suður að hafa jafn loðið ákvæði í stjórnarskrá og „[a]ð jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda“.
  • Kallað er eftir því að stuðst verði við orðalag stjórnlagaráðs um „fullt gjald“ fyrir afnot af þjóðareignum en það um leið aðlagað sjónarmiðum nefndarinnar.
  • Sérstaklega er nefndin krafin svara um það hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda „gjafakvótakerfi“ í sessi. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu á sl. vori.

 

Ný stjórnarskrá: Samfélagssáttmáli í boði

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. desember 2011]

Allt frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá hinn 29. júlí s.l. hef ég með nær vikulegum pistlum í Fréttatímanum leitast við að skýra út og rökstyðja tillögurnar. Pistlana má alla finna á vefsíðu minni: thorkellhelgason.is. Nú er mál að linni, a.m.k. að sinni.

Árið framundan skiptir sköpum um framvindu stjórnarskrármálsins. Þingið, en ekki síst þjóðin, verður að koma því í höfn að við eignumst nýjan samfélagssáttmála.

Hvað er í boði?

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja íslenska stjórnarskrá er afrakstur mikillar vinnu ráðsfulltrúa og sérfræðinga stjórnlagaráðs þar sem byggt er á ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar og starfi fyrri nefnda um málið. Þrátt fyrir vafasaman úrskurð Hæstaréttar um ógildingu á stjórnlagaþingskosningunni hafa fulltrúar ráðsins hlotið stuðning kjósenda og síðan Alþingis til verksins. Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er m.a. boðið upp á eftirfarandi:

  • Ákvæði um mannréttindi eru stórefld, m.a. ný ákvæði um rétt til upplýsinga og um frelsi fjölmiðla.
  • Náttúruvernd er gert hærra undir höfði en áður. Tekið er af skarið um að auðlindir í þjóðareigu megi ekki selja, en einungis leigja og þá gegn fullu gjaldi.
  • Gjörbreytt ákvæði um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um jafnan atkvæðisrétt óháðan búsetu svo og því að kjósendur geti valið sér þingmannsefni. Einnig ákvæði um að landskjörstjórn úrskurði um gildi kosninga, en ekki þingið sjálft eins og nú.
  • Staða Alþingis er styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að öll frumvörp séu mótuð á Alþingi. Eftirlitsvald þingsins er eflt.
  • Ítarleg ný ákvæði eru um beint lýðræði, það að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp og jafnvel lagt fram eigin þingmál.
  • Stjórnarskráin er vernduð með skipun Lögréttu sem gefi álit um stjórnarskrárgildi lagafrumvarpa að ósk Alþingis, og þarf ekki meirihluta þess til.
  • Ákvæði um forseta Íslands eru gerð skýr en felldar burt marklausar greinar um hlutverk hans. Honum er aftur á móti ætlað að veita öðrum valdhöfum traust aðhald.
  • Lögð eru til heilstæð ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn en slík ákvæði hefur skort. Með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra er tekinn er af allur vafi um þingræðið.
  • Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum og öðrum æðstu embættismönnum eru styrkt.
  • Sveitarfélögunum er lyft á stall í sérstökum kafla.
  • Í fyrsta sinn eru stjórnarskrárákvæði um utanríkismál, t.d. um að ekki megi afsala vald til alþjóðlegra samtaka, svo sem Evrópusambandsins, án skýrs vilja þjóðarinnar.
  • Og að lokum, að framvegis verður þjóðin að staðfesta stjórnarskrárbreytingar.

Við, sem sátum í stjórnlagaráði, erum sannfærð um að sú stjórnarskrá sem við gerum tillögu um sé til mikilla bóta, enda stóðum við saman að frumvarpinu í heild.

Árið 2012 verði stjórnarskránni til heilla

Nú er tækifærið til treysta lagalegan grundvöll samfélagsins. Eftir tækifærinu hefur verið beðið allan lýðveldistímann. Notum komandi ár, árið 2012, til að ljúka málsmeðferðinni. Ný stjórnarskrá ætti þá að sjá dagsins ljós eftir kosningar 2013 að fengnu samþykki þings – en ekki síst með beinni staðfestingu þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.

Ný stjórnarskrá: Lög að frumkvæði almennings

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. september 2011]

Áfram verður haldið að lýsa tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði; um það hvernig flétta megi það saman við fulltrúalýðræðið. Nú verður fjallað um frumkvæðisrétt þjóðarinnar, hvernig hún getur samið og fengið sett lög.

Lög frá grasrótinni

Djarfasta nýmælið í tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði felst í ákvæðum um frumkvæði kjósenda. Þar er tvennt lagt til. Annars vegar að 2% kjósenda geti lagt hvað eina mál fyrir Alþingi. Það kemst þá á dagskrá þingsins, en engin fyrirmæli eru um afdrif málsins. Hin frumkvæðisleiðin er formlegri. Samkvæmt henni getur tíundi hluti kjósenda lagt fram fullbúið frumvarp til laga fyrir Alþingi. Svo er um hnútana búið að þingið getur leitað til talsmanna kjósendahópsins um málmiðlun vilji það ekki fallast á frumvarpið óbreytt. Ef ekki nær saman fer frumvarp kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, og einnig gagntillaga sem þingið kann að leggja fram. Alþingi getur falið þjóðinni að taka af skarið með því að gera atkvæðagreiðsluna bindandi, ella er hún þinginu til ráðgjafar um lyktir málsins. Markmiðið er ekki í sjálfu sér að haldin sé þjóðaratkvæðagreiðsla heldur er keppikeflið að sem breiðust samstaða náist um mál sem liggur þjóðinni á hjarta. Nánari fyrirmæli eru um alla þessa málsmeðferð í tillögum stjórnlagaráðs. Fyrirmynd er einkum sótt til Sviss, en þar er reynslan sú að fæst slíkra mála enda í þjóðaratkvæði; að jafnaði finnst lausn sem sættir nást um.

Lýðræðisblanda

Umræða er víða um heim um þróun lýðræðisins. Athyglisverð er t.d. hugmynd um það sem kallað er á útlensku „fljótandi lýðræði“, en „flæðiræði“ væri styttra. Með því er t.d. átt við að hver einstakur kjósandi geti gripið fram fyrir hendurnar á þingmönnum og greitt (rafrænt) atkvæði um þingmál þegar honum býður svo við að horfa. Þar með dregur hann til baka það atkvæðisbrot sem hann hafði framselt fulltrúunum. Þeir kjósendur sem ekki beita þessum rétti fela þinginu að fara áfram með umboð sitt. Þetta fyrirkomulag hefur þann kost umfram almenna þjóðaratkvæðagreiðslu að þeir sem ekki taka afstöðu eru samt ekki hafðir útundan. Þingmenn fara áfram með umboð þeirra. Þar með er byggt fyrir hugsanlegt gerræði þeirra sem afstöðu taka, þótt útfærslan megi heldur ekki verða slík að hinir virku séu gerðir máttvana. Ekki er vitað til þess að slík lýðræðisblanda hafi nokkurs staðar verið innleidd, en umræðuna má rekja á veraldarvefnum undir ensku leitarorðunum „liquid democracy“ eða ámóta á öðrum málum.

Er beint lýðræði hættulegt?

Sagt er að þjóð geti verið tækifærissinnaðri en fulltrúar hennar, t.d. að þjóðin veigri sér við að taka óþægilegar en þó brýnar ákvarðanir. Varnagli er sleginn í tillögum stjórnlagaráðs varðandi þetta þar sem vissir málaflokkar eru undanskyldir í hinu beina lýðræði, svo sem skattamál. Þá er mikilvægt að Alþingi er falið að setja lög um framkvæmdina, m.a. um að vandað sé til undirskriftasöfnunar en ekki unnt að riðjast fram með vafasamri netsöfnun.

Heimspekingurinn Karl Jaspers segir í einu rita sinna að áhætta sé tekin með lýðræðinu, allt eins og með allri tilvist mannsins. Meirihlutinn, hvort sem er fulltrúa eða kjósenda, geti hæglega tekið óheillavænlegar ákvarðanir. Engin trygging sé til, en valddreifing sé helsti varnaglinn. Hæfileg blanda af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði fólksins sé þáttur í slíkri valddreifingu en umfram allt verði að styrkja og síðan treysta á skynsemi fólks og ráðamanna, segir heimspekingurinn. Við getum ekki annað en treyst því að skynsemin blundi í öllum og lýðræðið sé leiðin til að virkja skynsemina til farsællar stjórnar á þjóðfélaginu, svo að lagt sé út af hugsun Karls Jaspers.

Með tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði er stigið skref, en ekki bundinn endahnútur. Tillögur ráðsins um starf stjórnmálaflokka, svo og um aðferð við val á þingmönnum, eru líka þáttur í eflingu lýðræðisins. Lýðræðið er og verður í þróun.

 

Ný stjórnarskrá: Hvernig getur þjóðin gripið inn í störf Alþingis og ógilt lög?

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 23. september 2011]

Á Íslandi, svo og almennt í grannlöndum okkar, felur fólkið vald sitt í hendur kjörinna fulltrúa hvort sem þeir sitja á forsetastóli, á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Almenn samstaða er um kosti þessa fyrirkomulags. Á hinn bóginn er vilji til þess, bæði hér og víða erlendis, að flétta fulltrúalýðræðið saman við beint lýðræði þannig að þjóðin sjálf geti gripið inn í störf hinna kjörnu fulltrúa með neitunarvaldi en líka með frumkvæði að lagasetningu.

Við Íslendingar höfum verið aftarlega á merinni í þessari þróun, líklega einna íhaldssamastir í okkar heimshluta. Í stjórnarskrá okkar er einungis kveðið á um inngrip þjóðarinnar í löggjafarstarf með þeim hætti að forseti lýðveldisins geti falið þjóðinni að taka við staðfestingarvaldi sínu, það er að segja falið henni að veita lögum frá Alþingi endanlegt gildi eða hafna þeim ella. (Að auki er ákvæði um að hafa skuli þjóðaratkvæðagreiðslu sé kirkjuskipaninni breytt.) Sumir lögspekingar töldu ákvæðið um málskot forseta dautt. Undir þá speki verður ekki tekið, en slíkt óvirkt ákvæði væri þó í takt við margt annað sem er marklaust í stjórnarskránni. Málskot forseta er aftur á móti sprelllifandi fyrirbæri þessi misserin.

Alþingi fól stjórnlagaráði að fjalla sérstaklega um framkvæmd beins lýðræðis og endurspeglast það í frumvarpi ráðsins til nýrrar stjórnarskrár. Fjallað verður um tillögur ráðsins þar að lútandi í þessum og næsta pistli.

Hverjir eiga að kalla þjóðina til ráða?

Spurningin er hvenær og með hvaða hætti kjósendur skuli fá vald til að úrskurða um frambúðargildi laga frá Alþingi. Í stjórnlagaráði var rætt um þrjár leiðir í þessu skyni: Að hluti kjósenda sjálfra geti kallað eftir þjóðaratkvæði um staðfestingu á lögum, að minnihluti þings fái svipaðan rétt, og að lokum að forseti lýðveldisins geti vísað samþykktu lagafrumvarpi til þjóðarinnar eins og verið hefur.

Stjórnlagaráðsmönnum þótti of mikið í lagt að nýta allar þrjár leiðirnar. Nær allir ráðsmenn vildu taka upp fyrstu leiðina; að þjóðin sjálf geti tekið sér það vald að synja lögum staðfestingar. Deilt var um hve marga þyrfti til að hefja slíkt mál. Gild rök voru færð fyrir ýmsum tölum á bilinu 5% til 25% kjósenda. Niðurstaðan varð 10%, það er að segja að tíund kjósenda geti með undirskriftasöfnun krafist þjóðaratkvæðis.

Meirihluta ráðsmanna þótti rétt að halda í síðustu leiðina, málskotsrétt forseta. Sá réttur hefði haslað sér völl og bersýnilega væri það vilji þjóðarinnar að viðhalda honum. Á hinn bóginn ætti að kveða á um vissa formfestu við beitingu ákvæðisins til að girða fyrir tækifærismennsku. Í mörgum lýðveldisríkjum hefur forseti vald til að vefengja lög frá þjóðþinginu. Nefna má Finnland, Írland og Þýskaland sem nærtæk dæmi. Réttinum hefur verið beitt í þessum löndum en þó sem varnagla, einkum ef þjóðhöfðinginn telur lagafrumvarp stangast á við stjórnarskrá.

Þriðja leiðin, sú að minni hluti þings gæti vísað máli til þjóðarinnar, varð útundan sakir þess að talin var hætta á að þingið gæti orðið óstarfhæft vegna misnotkunar slíks málskotsákvæðis.

Liggur allt undir?

Mikilvægt er að stjórnlagaráð hefur vissa fyrirvara á um neitunarvald kjósenda. Þannig verður mál sem kjósendur vilja fá lagt undir þjóðina að varða almannahag. Hvorki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, skattamálefni né heldur um samninga við erlend ríki, svo helstu dæmin séu tekin. (Þetta breytir því ekki að annars staðar í tillögum stjórnlagaráðs er krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samninga eins og hugsanlega Evrópusambandsaðild.) Lög sem Alþingi hefur samþykkt taka strax gildi og halda því svo lengi sem þjóðin hefur ekki hafnað þeim. Jafnframt er mikilvægt að Alþingi skal setja lög um alla framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem um hvernig staðið skuli að undirskriftasöfnun, hverju megi til kosta o.s.frv.

Í næsta pistli verður fjallað um frumkvæðisrétt þjóðarinnar, hvernig hún getur samið og fengið sett lög.