Núgildandi stjórnarskrá er barn síns tíma

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er, eins og allir vita, komin til ára sinna. Upphaflega fengu Íslendingar hana frá Kristjáni IX. Danakonungi, þeim sem stendur á stalli fyrir framan stjórnarráðshúsið „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og skáldið kvað. Aldurinn þarf ekki að vera stjórnarskrá til hnjóðs. Nægir að nefna stjórnarskrá Bandaríkjanna eða Noregs sem eru báðar um eða yfir tvö hundruð ára gamlar.

Lýðveldisstjórnarskráin er í grundvallaratriðum byggð á „frelsiskránni“ þó þannig að orðinu „kóngur“ er skipt út fyrir orðið „forseti“. Síðan hafa einkum verið gerðar á henni breytingar af þrennum toga: Ákvæðum um kjördæmaskipan og kosningamál hefur þrisvar sinnum verið breytt, skipan og starfshættir Alþingis hafa verið endurskoðaðir, ákvæði um mannréttindi hafa verið aukin og bætt, einkum nýmæli um félagsleg réttindi sem voru  væntanlega sett í kjölfar aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvernig er stjórnarskráin uppbyggð? Hún er sem betur fer ekki mjög löng, telur 81 grein (sú áttugasta að vísu fallin út) auk úreltra ákvæða til bráðabirgða. Stjórnarskráinni er skipt í kafla á  eftirfarandi hátt:

  • I.       1.-2. gr. Grunnskipting valdsins
  • II.      3.-30. gr. Forsetinn
  • III.     31.-34 gr. Alþingi
  • IV.    35.-58. gr. Alþingi
  • V.     59.-61. gr. Dómsvald
  • VI.    62.-64. gr. Trúmál
  • VII.   65.-81. gr. Mannréttindi o.fl.
  • Ákvæði til bráðabirgða

Kaflaheiti eru engin, efnisorðin er mín. Margt vekur athygli, nefna má eftirfarandi:

  • Engar forsendur eru gefnar eins og þær að valdið sé allt frá þjóðinni komið.
  • Þrír fjórðuhlutar skrárinnar fjalla um stjórnskipanina, aðeins einn fjórðungur um réttindi fólksins.
  • Forsetanum er gert hátt undir höfði en þriðjungur stjórnarskrárgreinanna fjalla um hann og hlutverk hans. Þó gerir ein greinin, sú 13., flestar hinn ómerkar þar sem hún er talin segja að forsetinn hafi í reynd lítil völd.
  • Kaflar um Alþingi eru tveir og heldur tætingslegir.
  • Ráðherra og ráðuneyti kemur rétt aðeins við sögu, en ríkisstjórn er hvergi nefnd, hvað þá starfshættir hennar, nema ef vera skyldi ákvæði um ríkisráð sem er þó í raun aðeins puntsamkoma.
  • Sameignir þjóðarinnar, landið, hafið, auðlindirnar, tungan og margt fleira kemur ekki við sögu.
  • Aðhald að valdinu er ekki nefnt nema ef vera skyldi málsskotsréttur forsetans. Almenn ákvæði um þjóðaratkvæði eru engin.

Með þessari upptalningu, sem þó er ekki tæmandi, er ekki ætlunin að gera lítið úr stjórnarskránni. Hún hefur í meginatriðum gagnast okkur vel. En hvort sem menn vilja breyta henni mikið eða lítið er nauðsynlegt að endurskrifa hana þó ekki væri nema til að hún verði á betra máli, aðgengilegri og yfirhöfuð læsileg hverju barni.

Í næstu pistlum mun ég reifa hvað mér liggur á hjarta varðandi stórbætta stjórnarskrá. En fyrst vil ég hamra á því sem segir í framboðskynningu minni: Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum. Sátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.

Stjórnarskráin í stórsókn

Stórmerkur fundur var haldinn í Stjórnarskrárfélaginu kvöldið 20. október. Fundarmenn voru um hundrað talsins, þar af nær fimmtíu frambjóðendur sem allir fluttu ávörp. Konur voru áberandi margar í þessum hópi, allt að helmingur.

Það er bersýnilega góður hópur af fólki sem býður sig fram af heilum huga.
Mikill einhugur virtist um helstu stefnumál. Eftirfarandi er samantekt mín á þeim stefnumálum sem fengu umfjöllun og stuðning, í flestum tilvikum hjá miklum meirihluta þessara frambjóðenda. Atriðin eru hér upptalin í eins konar efnisröð:

Stjórnarskráin á að vera þjóðarsáttmáli, en sú hugsun var á margra vörum.
Allt vald komi frá þjóðinni sem er ein meginforsendan og komi fremst í stjórnarskrána.
Skýr og skilmerkileg stjórnarskrá, helst þannig að hvert barn geti lesið hana.
Virðing fyrir lýðræðinu en fram kom einlæg ást á lýðræðinu sem er auðvitað grunnforsenda framboðanna.
Mannleg reisn er friðhelg eins og svo fallega er komist að orði í inngangi þýska stjórnarskrárinnar. Þetta endurtóku þó nokkrir í einhverri mynd.
Vörn gegn græðgi og afglöpum eins og ég orða það í minni stefnuskrá. Annar sagði að stjórnarskráin ætti að vera þegnunum skjól gegn valdi hvaðan sem það kemur. Einn ræðumanna taldi þó öll tormerki á því að stjórnarskráin geti verið slíkt haldreipi.
Mannréttindi komi fremst í stjórnskrána og þeim sé með öðrum hætti gert hærra undir höfði en nú, bæði borgaralegum og félagslegum réttindum. Orð eins og réttlæti og sanngirni voru nefnd í þessu samhengi.
Trúfrelsi var orð sem allmargir nefndu en fóru mislangt út í það hvað það ætti að merkja.
Þjóðin geti komið að ákvarðanatöku svo sem með þjóðaratkvæðagreiðslu en líka með nútíma tölvutækni.
Persónukjör var nánast á vörum allra. Kosningin til stjórnlagaþings verður stóra tilraunin í þá veru. Hún verður að takst vel.
Landið eitt kjördæmi eða einhver önnur leið til að ná fram fullum jöfnuði atkvæðisréttar.
Auðlindir í þjóðareigu og ekki aðeins að nafninu til heldur að þjóðin njóti góðs af auðlindum landsins.
Þrískipting valdsins verði raunveruleg ekki síst með styrkingu Alþingis. Sumir töluðu fyrir því að framkvæmdarvaldið væri kosið beint af þjóðinni með einhverjum hætti.
Ráðherrar sitji ekki á þingi. Sumir útfærðu þetta nánar eins og að framkvæmdarvaldið væri alfarið undir stjórn Alþingis.
Seta í valdastólum takmörkuð t.d. við tvö kjörtímabil. Sumir vildu jafnvel að þjóðin gæti afturkallað umboð fulltrúanna og það á miðju kjörtímabili.
Ríkistjórn verðifjölskipað stjórnvald þannig að einstakir ráðherrar geti ekki farið sínu fram. Ekki er síður mikilvægt að ráðherrar geti ekki skotið sér undan ábyrgð með því að vísa hver á annan.
Varnaglar gegn valdinu t.d. þannig að hver valdaþátturinn í hinu þrískipta ríkisvaldi hafi eftirlit með hinum, jafnvel sjálfstætt eftirlitsvald.
Opnari stjórnsýsla og aðgengi að upplýsingum var mál velflestra. Gegnsæi var orð af sama toga.
Umhverfis- og náttúruvernd var mörgum ofarlega í huga.

Margt fleira bar á góma. Nær allir voru sammála um að nú væri einstakt tækifæri til að sameina þjóðina og styrkja grundvöll hennar. Þetta tækifæri kæmi ekki aftur í bráð, því verður að grípa það.

Ég get tekið undir velflest meginsjónarmiðin sem þarna komu fram. Nái ég kjöri hlakka ég til að vinna með fulltrúunum á stjórnlagaþinginu verði þeir jafn heilshugar og málefnalegir og þeir frambjóðendur sem tóku til máls á þessum fundi Stjórnarskrárfélagsins.

Nú þurfum við að líta upp frá dægurþrasinu og hefjast handa við uppbyggingu betra og réttlátara samfélags. Endurbætt stjórnarskrá verður okkur traust viðspyrna á þeirri vegferð. Því þurfa frambjóðendur og kjósendur að leggjast á eitt um að kosningarnar 27. nóvember verði sigur fyrir lýðræðið.

Stjórnarskráin sem vörn gegn græðgi og afglöpum

Kosið verður til stjórnlagaþings 27. nóvember. Þinginu er ætlað að hefja störf um miðjan febrúar á næsta ári. Alþingi hefur glímt við það í 66 ár að móta lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá en án umtalsverðs árangurs. Stjórnlagaþing er því mikilvægt nýmæli til að koma málinu í höfn. Brýnt er að þjóðin grípi tækifærið og láti sig það sem framundan er miklu varða, þjóðfundinn, kosninguna til stjórnlagaþings og síðan þinghaldið sjálft.

Er þörf á endurbættri stjórnarskrá? Svo er vissulega þótt núverandi stjórnarskrá sé að grunni til gott skjal enda mótað af frelsisanda nítjándu aldar. En hún hefur hvorki verið vörn gegn græðgi sérhagsmunaseggja né heldur hefur hún spornað við afglöpum í stjórnarháttum. Það náðist ekki að hemja þá sem kollsigldu bankakerfinu að stjórnvöldum áhorfandi. Hugsanlega hefði mátt stemma stigu við óförunum með stjórnarskrárbundnu aðhaldi þar sem valdaþættirnir vaka hver yfir öðrum, ekki síst með auknu sjálfstæði Alþingis. Einkavæðing bankanna hefði þá farið fram með siðaðri hætti en raunin var og Alþingi geta gripið í taumana þegar vöxtur þeirra fór úr böndunum.

Stjórnarskrá er þó ekki fyrir fortíðina heldur framtíðina. Hana þarf að styrkja sem sáttmála um lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Þetta eiga að vera grunngildi í samfélagi þar sem manninum sé sýnd virðing og allir fái meira að vita og hafa áhrif. Til þess að mistök fortíðarinnar endurtaki sig ekki þarf að gera hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar skýrara. Á að skilja alfarið milli löggjafarvalds – Alþingis – og framkvæmdarvalds – ríkisstjórnar – með því að forsætisráðherra sé kosinn af almenningi? Eða á að fara þveröfuga leið og auka vald og virðingu Alþingis með því að það stjórni framkvæmdarvaldinu beint og ráði jafnvel fagmenn til að stýra ráðuneytunum? Ætti ekki að fela Hæstarétti hlutverk stjórnlagadómstóls? Hlutverk forseta Íslands þarf að yfirfara gaumgæfilega. Til álita kemur að forsetinn geti skotið lögum frá Alþingi til Hæstaréttar leiki vafi á því að lögin samrýmist stjórnarskrá. Þetta og margt fleira þarf að gaumgæfa á stjórnlagaþingi.

Við endurgerð stjórnarskrárinnar verður að engu að síður gæta hófs. Efalaust munu koma fram óskir um mörg nýmæli sem kunna að leiða til umfangsmeiri stjórnsýslu en nú er. Við því verður að gjalda varhug. Við verðum að skapa okkur stjórnkerfi sem hentar lítilli þjóð. Til dæmis hafa komið fram hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið, landshlutastjórnir á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Mikilvægara er að fá þjóðarsáttamála sem dregur úr hrepparíg og þjappar þessari litlu þjóð saman.

Smæð þjóðarinnar veitir okkur á hinn bóginn tækifæri til beinnar þátttöku almennings í vali á fulltrúum sínum og aukinnar aðildar að ákvarðanatöku með almennum atkvæðagreiðslum. Meðal þess sem hyggja þarf að er hvernig kosið er til þings og sveitarstjórna. Persónukjör í stað listakjörs er tvímælalaust kall tímans. Kosningin framundan til stjórnlagaþings er stórmerkur áfangi á þeirri leið. Þar eru einstaklingar í framboði og kosningarkerfið þannig útfært að kjósendur fá miklu ráðið með atkvæði sínu. Því er brýnt að kosningarþátttaka verði góð og kjósendur nýtti sé valrétt sinn til fullnustu.

Ég býð mig fram til setu á stjórnlagaþingi. Nái ég kjöri mun ég m.a. halda fram ofangreindum sjónarmiðum en ég mun hlusta á viðhorf annarra og taka rökum. Samfélagssátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina. Ég mun hafa almannaheill að leiðarljós. Ég þigg engin fjárframlög til framboðs míns og dreg ekki taum neinna sérhagsmuna.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur – frambjóðandi til stjórnlagaþings