by Þorkell Helgason | apr 6, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Pitill þessi birtist í Fréttablaðinu 6. apríl 2016]
Greinarhöfundur fjallaði hér í Fréttablaðinu 2. apríl sl. um innihaldið í frumvarpsdrögum stjórnarskrárnefndar sem kynnt hafa verið. (Því miður hefur uppsetningin brenglast lítillega í blaðinu en rétt upp setta má finna greinina á vefsíðunni visir.is;http://www.visir.is/hvad-sagdi-stjornlagarad-um-tillogur-stjornarskrarnefndar-/article/2016160409845.)
Nú verður haldið áfram og hugað að framvindu málsins.
Staðan nú
Nú, nær fimm árum eftir að stjórnlagaráð lagði fram heildardrög að nýrri stjórnarskrá, búum við enn við þá gömlu, óbreytta. Við, sem viljum nýja stjórnarskrá byggða á þeim grundvelli sem stjórnlagaráð lagði, verðum að spyrja okkur hvort við teljum tillögur stjórnarskrárnefndar spor í rétta átt, áfangasigur, sem beri að fagna, eða leiðarenda málsins og um leið blindgötu. Hvort tillögurnar séu viðunandi áfangi fer að talsverðu leyti eftir því hvernig nefndin tekur á þeim ábendingum um lagfæringar sem hún hefur fengið.
Verði niðurstaðan sú að endanlegar tillögur nefndarinnar séu kráka í hendi ber þá ekki að fagna því og þiggja? Hinar krákurnar tvær í skógi ættu að geta náðst síðar. Ef ekki, er þá ekki þessi eina í hendi skárri en engin? Látum svörin bíða þess sem fram vindur.
Hvað svo?
En jafnvel þótt stjórnarskrárnefndin nýja skili af sér viðunandi tillögum, er kálið ekki sopið þó að í ausuna sé komið. Við tekur umfjöllun á Alþingi og atkvæðagreiðsla þar. Frumvörp stjórnarskrárnefndar verða að fá stuðning 2/3 hluta greiddra atkvæði á þinginu, atkvæði 42 þingmanna, ef hinir 21 eru allir á móti. Það eitt kallar á stuðning minnst þriggja þingflokka. Þingmenn kunna að vera andvígir umræddum stjórnarskrárbreytingum, bæði þeir sem vilja sem minnstu breyta svo og hinir sem telja of skammt gengið. Að málinu yrði því sótt úr tveimur áttum.
Hljóti frumvörpin, eitt, tvö eða öll þrjú, tilskilin stuðning á þingi fer málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þar eru líka settar skorður. Ekki nægir að meiri hluti þeirra, sem þátt taka, ákveði endanlega um afdrif breytingarfrumvarpanna heldur verða 40% kjósenda á kjörskrá að styðja hvert frumvarpanna til að það teljist samþykkt. Þetta er strangt skilyrði. Jafnvel þótt kosningaþátttaka yrði þokkaleg, segjum 60%, þurfa 2/3 þeirra sem þátt taka að vera fylgjandi breytingunni. Rúmur þriðjungur nær á hinn bóginn að fella málið. Eins og á þingi kynnu þá andstæðingar að sameinast gegn breytingunum.
Til þess að slíkar stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga, þarf því að virkja stóran hluta kjósenda til þátttöku og megnið af þeim verður að sannfærast um ágæti frumvarpanna.
Hvenær?
Af þessu sést að brýnt er að undirbúa hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu vel, hafa góða kynningu – með og móti – og síðast en ekki síst að velja réttan tíma. Að mínu mati væri, úr því sem komið er, æskilegast að hafa atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða næstu þingkosningum. Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga verða þingkosningar að fara fram í síðasta lagi 29. apríl 2017. Bráðabirgðaákvæðið um verklagið við stjórnarskrárbreytingu, sem til stendur að nýta, fellur úr gildi degi síðar, eða 30. apríl 2017. Þannig væri enn borð fyrir báru.
Nú kann að vera sagt að óheppilegt sé að tengja saman þjóðaratkvæðagreiðslu og þingkosningar. Forseti lýðveldisins hefur tekið svo stórt upp í sig að segja það „jafnvel andlýðræðislegt í eðli sínu“ að þjóðaratkvæðagreiðsla blandaðist komandi forsetakosningum. Ekki verður tekið undir þá skoðun auk þess sem hér er ólíku saman að jafna. Það er einmitt tilvalið að spyrða saman þingkosningar og stjórnarskrármál. Stjórnarskráin mun þá verða einna efst á baugi í aðdraganda þingkosninganna. Þjóðinni gefst þannig tækifæri til að hafa samræmi í gerðum sínum, að taka afstöðu til stjórnarskrárbreytinga og kjósa jafnframt þá á þing sem vilja fylgja eftir frekari stjórnarskrárbreytingum – jafnvel á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Hinir sem vilja sem fæstu breyta kjósa þá kyrrstöðuflokka.
Þessi þráður verður ekki spunninn lengra að sinni. Nú er þess að bíða að stjórnarskrárnefnd skili af sér – og þá vonandi bættum tillögum.
Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | apr 3, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu, 2. apríl 2016. Uppsetningin er þar lítilega brengluð, en hér rétt.]
Stjórnarskrárnefnd sú er skipuð var 2013 hefur lagt fram drög að frumvörpum um breytingar á þremur meginþáttum núgildandi stjórnarskrár; nánar tiltekið um þjóðaratkvæðagreiðslur, umhverfisvernd og náttúruauðlindir.
Stjórnlagaráð sem starfaði sumarið 2011 fjallaði um öll þessi atriði og tók á þeim í frumvarpsdrögum sínum. Ítarlegan samanburð á tillögum nefndarinnar og ráðsins er að finna á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2395. Um margt gengur stjórnarskrárnefnd skemur en stjórnlagaráð.
Nefndin og ráðið
Undirritaður hnýtur einkum um eftirfarandi atriði þar sem stjórnlagaráð og stjórnarskrárnefnd greinir á:
- Stjórnlagaráð lagði til að 10% kosningabærra manna gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu til að hnekkja nýsamþykktum lögum frá Alþingi. Í tillögum stjórnarkrárnefndar er þetta hlutfall hækkað í 15%.
- Stjórnlagaráð gekk út frá því að meirihluti þeirra sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni ráði örlögum laganna, staðfestingu þeirra eða höfnun. Stjórnarskrárnefnd gerir þeim sem vilja hafna lögunum erfiðara fyrir. Auk þess að skipa hreinan meirihluta verði þeir að samsvara a.m.k. fjórðungi kosningabærra manna.
- Stjórnarskrárnefndin leggur til þetta um greiðslu fyrir nýtingu á auðlindum í þjóðareigu, svo sem fyrir aflaheimildir: „Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign.“ Stjórnlagaráð vildi kveða skýrt að orði og tala um „fullt gjald“ í þessu sambandi.
Stjórnarskrárnefnd hefur fengið dágóðan fjölda athugasemda, m.a. frá undirrituðum (sjá https://thorkellhelgason.is/?p=2417) og eru þar nokkrar ábendingar um breytingar sem kynnu að brúa bilið milli tillagna stjórnarskrárnefndar og stjórnlagaráðs. Minnt skal á að í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 voru 2/3 þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, því hlynntir að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.
Afnotagjöld að jafnaði
Hér verður staldrað við síðasta punktinn hér að framan; þann sem snýr að gjaldtöku fyrir auðlindaafnot.
Í 72. gr. gildandi stjórnarskrár er kveðið á um friðhelgi eignarréttarins. Þar segir: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Stjórnlagaráð hélt þessu ákvæði um eignarréttinn óbreyttu en taldi jafnframt að sama grundvallaratriði ætti að gilda um þjóðareignir. Því er freistandi að samræma í hina áttina og færa orðalag stjórnarskrárnefndar um eignarrétt þjóðarinnar yfir á hinn almenna eignarrétt. Þá yrði þetta sagt um eignarnámsbætur: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi að jafnaði eðlilegt verð fyrir.“ Varla þætti þetta góð latína. Er hún eitthvað betri þegar hún er látin taka til þjóðareigna?
Heildarendurskoðunar er þörf
Í núgildandi stjórnarskrá vantar ekki aðeins öll þau þrjú atriði, sem stjórnarskrárnefnd tekur nú til umfjöllunar, heldur og margt annað. Auk þess eru í stjórnarskránni andlýðræðisleg ákvæði eins og ójafnt vægi atkvæða. Og ekki má gleyma því að gildandi ákvæði um kjör forseta Íslands er með öllu ótækt. Viðbúið er að næsti forseti verði kjörinn með atkvæðum lítils hluta kjósenda. Kveða verður á um fyrirkomulag sem tryggir að forsetinn njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Á því tókum við í stjórnlagaráði, en það sem annað hefur dagað uppi.
Bútasaumur á plagginu frá 1944, sem er grundvallað á konungsgjöf frá næst síðustu öld dugar því skammt. Núgildandi stjórnarskrá er full af hortittum og innra ósamræmi og gæti orðið enn grautarlegri með nýjum pjötlum hér og þar. Allir sæmilega læsir menn verða að geta lesið og skilið grundvallarlög hvers ríkis. Þar á ekki að þurfa langar útskýringar meintra sérfræðinga. Í slíku skjali má ekki standa staðhæfingin „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“ Allir vita að þetta er ekki svo, enda er forsetanum ætlað að skilja ákvæðið – eins og svo margt annað – í samhengi við annað ákvæði þar sem segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“, sem er í senn torskilin og vond íslenska. Eða þá að forsetinn hefur heimild til að veita „[…] annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“ Vonandi tekur enginn forsetaframbjóðandi mark á þessari forneskju.
Um allt þetta – og margt fleira – fjallaði stjórnlagaráð og gerði tillögur til bóta.
Rætt verður áfram um stjórnarskrármálið í næstu grein undir heitinu: Er ein kráka í hendi betri en tvær í skógi?
Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | mar 6, 2016 | Á eigin vefsíðu
Stjórnarskrárnefnd hefur kynnt tillögur sínar um breytingar á þremur meginþáttum í gildandi stjórnarskrá. Ég tel að endurskoða eigi stjórnarskrána í heild sinni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs eins og 2/3 hluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vildi. Engu að síður hef ég sent nefndinni erindi með umsögn, athugasemdum og betrumbótum á þessum tillögum.
Erindi mitt má kalla fram með því að styðja hér á heiti þess: Athugasemdir Þorkels Helgasonar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar
Meginatriði í athugasemdum mínum við frumvarpsdrög stjórnlaganefndar eru þessi:
Um þjóðaratkvæðagreiðslur
- Ekki er gerður ágreiningur um að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu verði að koma frá a.m.k. 15% kosningabærra manna.
- Sá fjögurra vikna frestur sem gefinn er til að skila undirskriftum er of skammur. Reifuð er málamiðlun í þeim efnum.
- Takmarka ætti það tímarúm sem Alþingi hefur til að stöðva þjóðaratkvæðagreiðslu með afturköllun máls.
- Því er andmælt að settur sé synjunarþröskuldur sem takmarki rétt kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Til málamiðlunar er stungið upp á að lækka þröskuldinn úr 25% í 15% sem svarar þá til þess hlutfalls kjósenda sem þarf til að kalla eftir atkvæðagreiðslunni.
- Bent er á að þess sé krafist að lög um útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum þurfi að samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi. Spurt er hvað gerist ef sá meiri hluti næst ekki? Lögð er til breyting á frumvarpsdrögunum sem tekur á þessum vanda.
Um umhverfisvernd
- Hafðar eru af því áhyggjur hvort raunverulega sé verið að tryggja almannarétt til frjálsrar farar um landið.
Um náttúruauðlindir
- Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
- Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
- Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum.
- Það býður heim deilum og túlkunum út og suður að hafa jafn loðið ákvæði í stjórnarskrá og „[a]ð jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda“.
- Kallað er eftir því að stuðst verði við orðalag stjórnlagaráðs um „fullt gjald“ fyrir afnot af þjóðareignum en það um leið aðlagað sjónarmiðum nefndarinnar.
- Sérstaklega er nefndin krafin svara um það hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda „gjafakvótakerfi“ í sessi. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu á sl. vori.
by Þorkell Helgason | feb 20, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Samanburðarskjalið sem hér er vísað til hefur verið snyrt og einfaldað nokkuð 21. feb. 2016, eftir ábendingar frá glöggum lesendum. Vinsamlega látið vita ef þið rekist á eitthvað sem betur má fara.]
Stjórnarskrárnefndin sem skipuð var 2013 hefur nú birt drög að þrennum breytingum á stjórnarskránni.
Hér er samanburður gerður á þessum tillögum og samsvarandi ákvæðum í tillögum stjórnlagaráðs, bæði þeim upphaflegu svo og eins og þær lágu fyrir eftir breytingar þær sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði á þeim í meðförum þingsins á s.l. kjörtímabili. Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin er til þriðjudagsins 8. mars 2016. Athugasemdir sendist á netfangið postur@for.is.
by Þorkell Helgason | feb 8, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Endurskoðað 9. febrúar 2016.]
Stjórnarskrárnefndin sem skipuð var 2013 starfar mjög leynt. Þó hefur lekið út hvað hún er að bauka. Vísa ég þar til skjals sem Píratar hafa birt.
Hér er samanburður gerður á þessum tillögum og samsvarandi ákvæðum í tillögum stjórnlagaráðs, bæði þeim upphaflegu svo og eins og þær lágu fyrir eftir breytingar þær sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði á þeim í meðförum þingsins á s.l. kjörtímabili.
Auk samanburðarins geri ég í fyrsta dálki skjalsins athugasemdir og spyr spurninga um þessar tillögur stjórnarskrárnefndarinnar.
Fólk er hvatt til að kynna sér málið! Látið mig líka vita ef þið hnjótið um einhver mistök í samanburðinum.