Skip to content

Ný stjórnarskrá: Grunnur að traustara samfélagi

Höfundur: Þorkell Helgason, August 5th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 5. ágúst 2011]

„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“ Það var Freyja Haraldsdóttir, hin ötula baráttukona í stjórnlagaráði fyrir rétti lítilmagna, sem lagði þessa grein til í nýja stjórnarskrá og hún var samþykkt samhljóða í ráðinu. Er þetta einungis merkingarlaus fagurgali? Nei, þetta er ein viljayfirlýsinga um að öll viljum við bæta samfélagið. Þau okkar sem njóta heilbrigðis og bjargálna eiga að leggja sitt af mörkum, hvert eftir sinni getu, til að létta undir með þeim sem minna mega sín. Samfélagssáttmáli, sem stjórnarskrá er, veitir okkur ekki aðeins réttindi, svo sem til eignaverndar, réttlætis eða kosningaréttar. Með því að búa í samfélagi um samhyggju tökum við líka á okkur skyldur, sem við uppfyllum með því að inna af hendi skatta og skyldur, til að hlúa megi að velferð allra. Hver veit hvenær við sjálf þurfum á umhyggju að halda?

Dæmigerð málamiðlun?

Við í stjórnlagaráði höfum skilað af okkur frumvarpi til nýrra stjórnskipunarlaga, eins og skjalið heitir á fínu máli, með öðrum orðum: Drög að glænýrri stjórnarskrá. Við vorum einum rómi sammála um niðurstöðuna. Efnisgreinarnar voru í heild samþykktar með atkvæðum allra tuttugu og fimm stjórnlagaráðsfulltrúanna. Þá kann að vera sagt: „Þegar allir eru sammála hlýtur niðurstaðan að vera rýr, dæmigerð málamiðlun þar sem eitt rekst á annars horn.“ Ég fullyrði að svo er ekki. Við höfðum að vísu knappan tíma, tæpa fjóra mánuði, en nýttum hann vel til að fara yfir sem flestar hliðar hvers máls. Þetta var gert fyrir opnum tjöldum á vefsetri ráðsins. Allir gátu séð hvernig við vorum smám saman að nálgast það sem okkur þótti að lokum það besta, að teknu tilliti til sjónarmiða hvers annars. Sjálfur skipti ég oft um skoðun í ýmsum málum – og skammast mín ekki fyrir það. Ég sá einfaldlega að stundum höfðu aðrir betri rök en ég. Ég hygg að svo hafi farið fyrir okkur öllum. Þess vegna er niðurstaðan betri en sú sem fengist hefði ef eitthvert eitt okkar hefði ráðið ferðinni. Betur sjá augu en auga.

Í þessu sambandi verður líka að hafa í huga að við komum ekki tómhent til starfa í apríl sl. Í fyrsta lagi höfðum við strax sl. haust, þegar við buðum okkur fram til stjórnlagaþingsins, sökkt okkur ofan í málið. Hæstiréttur gaf okkur svo óvænt lengri umþóttunartíma. Síðast en ekki síst var búið að vinna mikla undirbúningsvinnu sem var starf stjórnlaganefndar er hófst fyrir ári. Vinna nefndarinnar hvíldi jafnframt á mörgu því sem á undan var gengið; stjórnlaganefndum sem höfðu starfað nær allan lýðveldistímann, síðast velþenkjandi nefnd sem Jón Kristjánsson stýrði.

Boltinn er hjá þjóðinni

Nú ríður á að þjóðin sjálf, ekki bara þingmenn og svokallaðir sérfræðingar, kynni sér tillögur okkar í þaula. Stjórnarskrá er sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið leiðsögn handa öllum þeim sem fara með vald í hennar umboði. Þegar verið er að umskrifa stjórnarskrána í heild eins og nú er gert, verður þjóðin að koma að málum, kynna sér tillögurnar, benda á það sem betur mætti fara og að lokum að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá. Hvenær og hvernig er sérstakt umræðuefni sem ég mun ræða í seinni pistli.

Okkur sem urðum, fyrir tilstilli kjósenda, þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna þetta uppbyggingarstarf ber skylda til að aðstoða þjóðina við að koma þessu grundvallarmáli í höfn.

Comments are closed.