Skip to content

Ný stjórnarskrá: Landið eitt kjördæmi – eða hvað?

Höfundur: Þorkell Helgason, August 12th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum  12. ágúst 2011]

Eitt meginverkefni okkar sem sátum í stjórnlagaráði var að leggja til stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag kosninga til Alþingis. Þingið hafði beinlínis kallað eftir því. Sama gerði þjóðfundurinn haustið 2010. Meginatriðin í tillögum ráðsins eru nýskipan kjördæma og persónukjör. Um þetta mikilvæga viðfangsefni verður fjallað í þessum og næstu pistlum.

Kjördæmi, eitt eða fleiri?

Mörg okkar vildum leggja niður kjördæmin og viðhafa landskjör einvörðungu. Fyrir því færðum við ýmis rök, svo sem að þingmenn sem kosnir eru á landsvísu hugsi best um hagsmuni heildarinnar. Aðrir töldu nauðsynlegt að tengja framboð afmörkuðum kjördæmum, ella myndu tengsl þingmanna við kjósendur sína rofna. Niðurstaða ráðsins var beggja blands. Landið verður eitt kjördæmi nema Alþingi nýti sér heimild til að skipta því upp í allt að átta kjördæmi. Hér verður gert ráð fyrir að skipt verði upp í kjördæmi, a.m.k. um hríð.

Kjördæmin fá nýja merkingu. Listar verða boðnir fram á kjördæmavísu en einnig verða landslistar. Frambjóðandi á kjördæmislista má jafnframt vera á landslista síns flokks eða samtaka, en þar geta líka vera frambjóðendur sem ekki bjóða sig fram í ákveðnu kjördæmi. Kjósandi getur merkt við einn lista af hvorri tegundunni sem er. Hann getur líka valið einstaklinga, jafnvel af mörgum listum, eins og skýrt verður út í næsta pistli. Gagnvart kjósendum er landið því sem eitt kjördæmi.

Frambjóðandi hlýtur að jafnaði að tala til kjósenda í kjördæmi sínu en líka höfða til allra landsmanna, vilji hann hljóta stuðning utan kjördæmis síns. Þess er vænst að þannig náist kostir landskjörs, sem er ábyrgð þingmanna gagnvart öllum landslýð, en um leið sé trygging fyrir því að rödd hverrar byggðar heyrist á þingi.

Tvískiptur kjörseðill

KjörseðillVerði hugmynd ráðsins að veruleika verða kjörseðlar tvískiptir. Hér er sýndur ímyndaður og einfaldur kjörseðill, þar sem aðeins tvö samtök koma við sögu og kjördæmi eru tvö, Austurvesturkjördæmi (AV) og Norðursuðurkjördæmi (NS). Efri hlutinn verður eins og verið hefur, með kjördæmislistum hlið við hlið. Kjósandi í Austvesturkjördæmi getur merkt við einn af listunum þremur. T.d. getur hann merkt við Z-lista íþróttamanna, eins og sýnt er á myndinni, og hefur hann þá um leið gefið þeim tveimur mönnum sem eru á listanum jafna hlutdeild í atkvæði sínu.

Neðri helmingur kjörseðilsins tilgreinir lista sem eru í boði á öllu landinu og lítur því eins út í öllum kjördæmum. Frambjóðendur á kjördæmislistum mega jafnframt vera á landslista sömu samtaka. Frambjóðandinn Inga á lista íþróttamanna í AV-kjördæmi nýta sér þetta, en ekki Hreiðar sem vill ekkert gera hosur sínar grænar utan síns kjördæmis. Á landslista íþróttamanna er auk þess Anna sem ekki er á neinum kjördæmislista. Listamannasamtökin bjóða aðeins fram á landsvísu. Kjósandi hvar sem er, t.d. í Austvesturkjördæmi, getur samt merkt við landslista þeirra.

Hér er einungis fjallað um listakjör, ekki persónukjör. Það bíður næsta pistils

Flókið?

Flest virðist flókið við fyrstu sýn. Þingmönnum fannst listakjör í stað einstaklingskjörs illskiljanlegt þegar það var tekið upp fyrir rúmri öld. Fullyrða má að kosningafyrirkomulag það sem hér er reifað er ekki flókið. Það er til í ýmsum gerðum erlendis, t.d. í Hollandi. Bland af kjördæmis- og landslistakjöri tíðkaðist líka hér á landi um áratugaskeið um miðbik liðinnar aldar.

Undirritaður reifaði í framboði sínu til stjórnlagaþings, og aftur í stjórnlagaráði, sáraeinfalt kerfi þar sem kosið væri persónukjöri og einvörðungu á landsvísu. Hugmyndin náði ekki fram að ganga en með góðu fólki í stjórnlagaráði varð sátt um ofangreinda lausn sem vissulega er nokkru flóknari – en nær flestum markmiðum.

Comments are closed.