Skip to content

Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju

Höfundur: Þorkell Helgason, August 25th, 2011
Mynd af Skálholtskirkju og Þorláksbúðum

Myndina af Skálholtskirkju tók Eiður Guðnason 12. ágúst 2011. Norðaustan við kirkjuna sést upphleðsla sú sem þegar er komin ofan á tóft Þorláksbúðar. Innfelda myndin sýnir hýsið sem stendur til að rísi þarna á kirkjuhólnum og kynnt er á spjaldi sem grillir í norðan við tóftina.

[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2011]

Í Kristnihaldi undir Jökli hefur Umbi eftir biskupi „að risin væri höfuðósmíð fyrir vestan“ en þar er sú kirkja sem séra Jón Prímus telst þjóna. Umbi staðfestir þetta: „Það er eitt fyrir sig að ekki hafa þeir getað látið þetta ferlíki standa samhliða kirkjunni, heldur hornskakt á hana. Annaðhvort höfðu þeir sem reistu ekki tekið eftir að þarna var kirkja, ellegar vildu troða kirkjunni um tær.“

Slík „höfuðósmíð“ er að rísa norðan við Skálholtskirkju, hornskakkt á kirkjuna. Kannski er það ekki „ferlíki“ en treður Skálholtskirkju vissulega um tær. Sagt er að verið sé að endurreisa „fornar rústir“ Þorláksbúðar, tóftar sem enginn veit mikil deili á. Tóftin má vera í friði, en að fara að búa þar til gervifornminjar er „til merkis um … inkongrúens, … í því fólginn að vera ójafn að stærð og lögun við alla hluti í kríngum sig“ eins og Umbi skráir um „skrauthýsi sem próf. dr. Godman Sýngmann hefur látið reisa hornskakt á kirkjuna (fylgir mynd).“ Lesendur Kristnihaldsins fá ekki að sjá myndina sem Umbi tók fyrir vestan, en meðfylgjandi mynd varpar ljósi á ósmíðina í Skálholti.

Hver ber ábyrgð?
Margt er á huldu um það hverjir beri ábyrgð á þessum verknaði.

Í fundargerð kirkjuráðs 15. apríl 2010 segir að félag áhugafólks hafi „í hyggju að byggja upp búð með grjóthleðslu og timbri á rúst hinnar gömlu Þorláksbúðar.“ Hinn 15. desember sama ár veitir kirkjuráð 1,5 m.kr. á ári í þrjú ár til verkefnisins, en fram kemur að kostnaðaráætlun sé upp á 38 m.kr. Gögn voru ekki fullnægjandi og ráðið „heimilar ekki frekari verklegar framkvæmdir við Þorláksbúð í Skálholti uns framangreind gögn liggja fyrir og hafa fengið staðfestingu og samþykki kirkjuráðs.“ Bersýnilegt er á þessu að framkvæmdir eru þá hafnar án allra leyfa, sbr. það sem síðar segir. Næsta bókun kirkjuráðs finnst 2. mars 2011. Þar kemur fram að bókunin frá 15. desember hafi verið kynnt fyrirsvarsmanni Þorláksbúðarfélagsins, Árna Johnsen. Mánuði síðar, 6. apríl, virðist umræddur fyrirsvarsmaður hafa náð sínu fram, en þá samþykkir kirkjuráð að sækja um leyfi til framkvæmdarinnar.

Hinn 20. apríl 2010 er málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd svæðisins þar sem málaleitan um „uppbygging[u] á Þorláksbúð“ er samþykkt með skilyrðum. Fram kemur að mannvirkið sé 90,1 m2 eða 244,7 m3. Byggingarfulltrúi frestar afgreiðslu málsins á fundi 28. apríl „vegna ófullnægjandi gagna“. Leit á vef byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu gefur engar frekari vísbendingar. Hefur byggingarleyfi verið veitt? Engu að síður „heimilar kirkjuráð að framkvæmdir við húsið haldi áfram í Skálholti“ eins og fram kemur í bókun ráðsins 6. apríl 2011.

Arkitekt Skálholtsskóla, Manfreð Vilhjálmsson, hefur aldrei verið spurður um framkvæmdirnar, né heldur Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt staðarins sem hefur séð um skipulagsmál þar. Garðar Halldórsson, síðasti húsameistari ríkisins, kannast heldur ekkert við málið en hann fer með umsjá yfir arfleifð þess sem teiknaði kirkjuna, Harðar Bjarnasonar húsameistara. Á túninu umhverfis kirkjuna hefur til skamms tíma ekkert risið upp fyrir grassvörðinn annað en lágreist leiði. Hörður Bjarnason vildi bersýnilega að kirkjan fengi að standa ein og óáreitt fyrir öðrum mannvirkjum.

Hver er Godman Sýngmann ?
Hugsanlega var það Byron lávarður sem fyrstur benti á að sannleikurinn sé einatt undarlegri en nokkur skáldskapur. Það er eins og Halldór Laxness hafi séð firringuna í Skálholti fyrir sér, en úr yfirheyrslu Umba yfir séra Jóni Prímusi má lesa: „Umbi: Hvað viljið þér segja um þessa annarlegu húsasmíði hér á staðnum? Séra Jón: Þeir geta lagt á stað með þetta stykki fyrir mér hvenær sem þeir vilja, hvert á land sem er. Ég lít á það sem tjald. Umbi: Má bóka að þetta mannvirki hafi verið reist án leyfis prestsins og megi kirkjuyfirvöldin flytja það af staðnum þegar þau vilji? Séra Jón: Þér bókið það sem yður sýnist.“

„Upptimbranir af þessu tagi eru ytra kallaðar búngalóar, hvaða túnga sem það kann að vera og hvað sem það kann að merkja. Venjulega á orð þetta við lágreist sveitahús einsog ríkir menn hvítir í nýlendum hafa smíðað sér til að herma eftir húsagerð innborinna“. Þetta færði Umbi í skýrslu sína til biskups. Slíkan búngaló er nú verið að reisa utan í Skálholtskirkju.

Smekkleysuna í Skálholti verður að stöðva tafarlaust og færa tóftina til fyrra horfs; „megi kirkjuyfirvöldin flytja það af staðnum“ eins og Halldór Laxness lætur Umba bóka. Godman Sýngmann á ekkert erindi í Skálholt.

Þorkell Helgason, stærðfræðingur, áhugamaður um málefni Skálholts.

Comments are closed.