Skip to content

Ný stjórnarskrá: Umræðan komin á skrið

Höfundur: Þorkell Helgason, November 11th, 2011

[Pistill þessi birtist í Fréttatímanum 4. nóvember 2011]

Umræða um frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er komin á skrið. Alþingi reið á vaðið í októberbyrjun með sérstökum þingfundi um málið. Í kjölfarið fór málið til nýrrar þingnefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hún er byrjuð að kalla inn viðmælendur, t.d. fulltrúa úr stjórnlagaráði. Jafnframt hefur nefndin auglýst eftir athugasemdum við frumvarpið. Vart verður meiri skrifa og umræðna um málið, lagdeildir háskólanna efna til málstofa o.s.frv.

Hlutverk almennings

Nú verður almenningur að fylgja málinu eftir. Því miður skortir aðgengileg gögn. Stjórnvöld ættu að sjá til þess að senda tillögur stjórnlagaráðs í hvert hús. Gildandi stjórnarskrá mætti gjarnan fylgja með, helst þannig að ákvæðin væru sett upp hlið við hlið til að auðvelda fólki samanburð. Nálgast má slík samanburðarskjöl á vefsíðu minni; sjá http://thorkellhelgason.is/?p=1175. Í meðf. úrklippu er dæmi um það sem lesa má úr þeim samanburði. Dæmið sýnir ákvæði um upplýsingaskyldu ráðherra.

Þá má benda á að einstaklingur hefur gefið út frumvarp ráðsins í snotru kveri sem fæst í helstu bókabúðum. Það er þakkarvert.

Hvetja verður fólk, leika sem lærða, til að senda þingnefndinni ábendingar. Þær geta bæði verið um einstök ákvæði sem menn telja að ættu að vera með öðrum hætti. En hví ekki að senda nefndinni líka jákvæða umsögn? Að einstök atriði, heilu kaflarnir, nú eða plaggið í heild sinni sé harla gott.

Skoðun þjóðarinnar

En það er ekki nóg að almenningur, einstaklingar, félög eða samtök láti þingnefndina í sér heyra. Kjósendur verða allir að koma að því að gefa stjórnarskránni endanlegt gildi. Þetta hefur verið áréttað í umræðunni, á þingi og utan þess. Hugmyndir um þetta eru þó nokkuð á reiki. Eins og ég hef reifað áður tel ég afarasælast að framgangsmátinn yrði í líkingu við þetta:

  • Þingnefndin standi fyrir kynningu á frumvarpi stjórnlagaráðs, afli umsagna, fari ítarlega yfir frumvarpið og skili rökstuddu áliti.
  • Stjórnlagaráð verði kallað saman, helst formlega, til að fara yfir umsagnir frá almenningi svo og álit þingnefndarinnar. Ráðið geri eftir atvikum breytingar á frumvarpi sínu horfi þær til bóta. Í samræmi við vinnubrögð sem kveðið er á um í 66. og 67. gr. frumvarps ráðsins verði leitast eftir að ná samhljómi með þingnefndinni.
  • Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ef þörf krefur. Aftur skal vísað til fyrrgreindra frumvarpsákvæða. Verði ráðið og þingið ekki á eitt sátt verður þjóðin að taka af skarið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem vitaskuld getur þó aðeins orðið ráðgefandi. Þingið á síðasta orðið.
  • Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla verði um það frumvarp sem þingið samþykkir að lokum. Gjörbreytt stjórnarskrá verður að hafa hlotið blessun þjóðarinnar með formlegum hætti.
  • Staðfesting Alþings að loknum þingkosningum eins og gildandi stjórnarskrá mælir fyrir um.

Kallar þetta á tvær þjóðaratkvæðagreiðslur með tilheyrandi kostnaði? Ekki endanlega. Í fyrsta lagi gæti orðið svo góður samhljómur með þinginu og ráðinu að ekki þyki ástæða til fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunnar, aðeins hinnar seinni. Ég hef bent á leið til að endanlega atkvæðagreiðslan fari fram samtímis kosningum til þess seinna þings sem þarf að staðfesta stjórnarskrána.

Farsæl stjórnarskrá verður að komast í höfn!

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði

Stjórnarskrá
lýðveldisins Íslands
Frumvarp stjórnlagaráðs
54. gr. 93. gr.
Upplýsinga- og sannleiksskylda.
Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd
allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni
sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara
samkvæmt lögum.
Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra
með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska
eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í
lögum.
Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi,
nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar,
viðeigandi og fullnægjandi.
Heimilt er alþingismönnum,
með leyfi Alþingis, að óska
upplýsinga ráðherra eða svars
um opinbert málefni með því að
bera fram fyrirspurn um málið
eða beiðast
um það skýrslu.
Skrá: ÞH Tafla 11 nov.xlsm Síða: Úrklippa Bls.: 1

Comments are closed.