Skip to content

Stjórnarskrárumbætur: JÁ tryggir framhald, NEI leiðir til kyrrstöðu

Höfundur: Þorkell Helgason, October 19th, 2012

Umræða á Alþingi í gær um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrármálið var afar mikilvæg og tímabær. Þar kom skýrt fram hjá forsætisráðherra svo og formanni þeirrar þingnefndar, sem fer með stjórnarskrármálið, að Alþingi mun taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar eins og vera ber.

Tillögur stjórnlagaráðs eru afrakstur mikillar vinnu, ekki aðeins ráðsins sjálfs heldur í öllu því sem á undan er gengið, stjórnarskrárnefndar en ekki síst þjóðfundar. Engu að síður má bæta tillögurnar með nokkurri yfirlegu. Það á Alþingi að gera. Því var lýst yfir í gær.

Stóra spurningin í atkvæðagreiðslunni á morgunn er sú fyrsta; hún er um það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera grundvöllur handa Alþingi til að byggja á og ljúka málinu. Forsætisráðherra sagði jafnframt að kjósendur ættu síðan að fá að leggja blessun sína yfir endanlega gerð endurbættrar stjórnarskrár í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.

JÁ við fyrstu spurningunni er hvatning til Alþingis að halda málinu áfram á þessum grundvelli.

NEI mun því miður leiða til kyrrstöðu, til þess að stjórnarskrármálið fari aftur á byrjunarreit þar sem það hefur verið í nær sjö áratugi.

Hver svo sem úrslitin verða er þess óskandi að málið komist upp úr skotgröfum flokkanna og þingmenn leggi sig sameiginlega fram um að ljúka málinu fyrir næstu þingkosningar.

Comments are closed.