Skip to content

Um kosningabandalög: Hvernig deilast sæti út til lista sömu stjórnmálasamtaka?

Höfundur: Þorkell Helgason, February 20th, 2013

Á fésbók og bloggi hafa verið á ferðinni villandi eða beinlínis rangar frásagnir af ákvæðum  um úthlutun sæta þegar sömu stjórnmálasamtökin bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi.

Slíkir listar samtaka sem fá listabókstafinn A yrðu þá merktir sem  A, AA, AAA o.s.frv. T.d. hefur verið sagt: “atkvæði ganga bara í aðra áttina”, þ.e.a.s. gefið í skyn að listarnir hafi forgang að sætum samtakanna í þessari stafrófsröð.

Án þess að tekin sé afstaða til slíkra fjöllistaframboða er nauðsynlegt að ekki sé ruglað með leikreglurnar. Um þær má lesa í lögum um kosningar til Alþingis.

Kjarni málsins er sá að það eru allir listar jafn réttháir þegar kemur að úthlutun þingsæta.

Við úthlutun kjördæmissæta gildir einu hvort listi er í slagtogi með öðrum eða ekki, sjá 106. gr. laganna.

Þegar kemur að skiptingu jöfnunarsæta milli stjórnmálasamtaka (flokka) eru atkvæði allra lista sömu samtaka lögð saman og ræður summutalan því hvort samtökin komast yfir 5% þröskuldinn eða ekki og því hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut samtakanna. Síðan þegar sætum hverra samtaka er deilt út til lista þeirra standa listar þeirra innan hvers kjördæmis jafnir að vígi, en að sjálfsögðu að teknu tilliti til þess að einhverjir þeirra kunna þegar að hafa hlotið kjördæmissæti.

Þetta má allt sjá í  107. gr. laganna.

Comments are closed.