Skip to content

Sorgarsaga stjórnarskrármálsins

Höfundur: Þorkell Helgason, March 17th, 2013

Stjórnarskrármálið fór glæsilega af stað á vorþinginu 2009 með frumvarpi um bindandi stjórnlagaþing og flutt var fyrir hönd þeirra þriggja flokka sem studdu þáverandi ríkisstjórn. Síðan tók við hrakfallaferli sem hófst strax þá um vorið með málþófi sem drap þetta frumvarp. Sögu stjórnarskrármálsins verður að skrá í smáatriðum því hún verður að vera þjóðinni lærdómsrík.

Grundvöllur þjóðfélagsins hefur verið mér hugleikinn allt frá unglingsárum. Því bauð ég mig fram til stjórnlagaþings haustið 2010, náði góðu kjöri og tók sæti í stjórnlagaráði. Þar reyndi ég, eins og við öllum sem þar sátum, að vinna vel og af heilindum. Ég hef helgað mig þessu máli í nær þrjú ár.  En allt þetta virðist hafa verið unnið fyrir gíg.

Úr því sem komið er verð ég að viðurkenna að það skásta sem hægt er að gera nú er að Alþingi samþykki þá tvíþættu tillögu sem lögð hefur verið fram af þremur flokksformönnum – væntanlega fyrir hönd meirihluta þingmanna – um nýtt breytingarákvæði og þingsályktun um framhald málsins á næsta þingi.

Þessi sami meirihluti mun ekki samþykkja fyrirliggjandi stjórnarskrárfrumvarp í heild sinni. Tillaga þremenninganna er því eini vonarneistin um framhald, þótt daufur sé.

Ég kom því reyndar á framfæri í viðeigandi herbúðum að farinn yrði sá millivegur að samþykkja stjórnarskrárpakkann nú í heild en með því mikilvæga ákvæði til bráðbirgða að ný stjórnarskrá taki fyrst gildi eftir ár, t.d. á sjötíuára afmæli lýðveldisins. Breytingarákvæðið taki þó strax gildi, þ.e.a.s. ákvæðið um að héðan í frá fari stjórnarskrárbreytingar, sem Alþingi hefur samþykkt, rakleiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég taldi þetta geta verið málamiðlun milli þeirra sem vilja umbæturnar afgreiddar nú og hinna sem vilja betra tóm. Á næsta vetri væru tök á að koma fram með lagfæringar þar sem stjórnarskráin væri í eins konar biðstöðu, yrði lagfæringa talin þörf. Slíkar breytingar yrði þá að bera undir þjóðina, sem mætti útfæra sem bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í heild sinni.

Meginkosturinn við þessa leið er að framhald er tryggt, nema þá að nýtt þing felldi allt strax í upphafi. En það gæti nýr þingmeirihluti ekki gert með þeim rökum að ekki sé tækifæri til að lagfæra eða bæta stjórnarskrána.

En ég hef engin viðbrögð fengið við þessari hugmynd; játa mig sigraðan og finnst skömminni skást að þingið samþykki tillögu þremenninganna.

Comments are closed.