Skip to content

Hvernig á ekki að breyta stjórnarskrá

Höfundur: Þorkell Helgason, March 27th, 2013

Viðbót síðdegis 27. mars 2013:

Nú er “samkomulagið” komið fram; sjá http://www.althingi.is/altext/141/s/1367.html.

Eins og ég sagði í lok pistils míns hér neðar vonaði ég að þetta væri ekki alveg eins svart og sagt var í netmiðlum. Hin framlagða gerð er eilítið skárri. Í fyrsta lagi er þetta bráðbirgðaákvæði, í öðru lagi þarf ekki samþykki tveggja þinga og enn fremur virðist mega breyta stjskr. áfram upp á gamla mátann líka. En eitt er verra í hinni framlögðu tillögu: Það þarf 2/3 meirihluta á Alþingi, ekki bara 60% eins sögusagnir hermdu. Ég stend því við það að stjórnarskrárbreytingar verða með þessu lagi handan við dönsku öfgarnar.

Í skýrslu sinni, CDL-AD(2010)001, ON CONSTITUTIONAL AMENDMENT, tekur Feneyjarnefndin Danmörku sem dæmi um land þar sem einna erfiðast sé að breyta stjórnarskrá. Þar þarf samþykki tveggja þinga og kosningar á milli og síðan samþykki meirihluta kjósenda en þó minnst 40% þeirra sem eru á kjörskrá. Jafnframt nefna þeir Svíþjóð og Íslands sem dæmi um land þar sem auðvelt sé að breyta, þ.e.a.s. einfaldur meirihluti á tveimur þingum með kosningum á milli.

Nú, á hádegi 27. mars 2013, er sagt að „samkomulag“ sé á Alþingi um að fara úr einum öfgunum í aðrar, að taka upp danska fyrirkomulagið, en með því viðbótarskilyrði að það eigi líka að þurfa aukinn meirihluta á fyrra þinginu, 60% herma sumir.

Hvaða rannsókn skyldi nú hafa farið fram? Hvaða siðferðilegan rétt hefur þetta þing á lokadögum að binda komandi kynslóðir og gera þeim illmögulegt að komast út úr bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944? Er verið að hafa þá að fífli sem mættu á þjóðfundinn 2010, þá sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og tóku síðan sæti í stjórnlagaráði, og ekki síst þjóðina sem sagði skýrt álit sitt 20. október 2012?

Vita þingmenn hvað þeir eru að gera? Enn er von til að sögusagnirnar um „samkomulagið“ séu orðum auknar. Held í þá von, en bið samt alla að hafa varann á sér.

Comments are closed.