Skip to content

Grafarþögn um Þorláksbúð

Höfundur: Þorkell Helgason, November 9th, 2013

 [Þessi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2013, eru eftir  Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Vilhjálm Bjarnason og Þorkel Helgason.]

Eins og kunnugt er hefur bygging verið reist ofan á svokallaðri Þorláksbúð, skáhallt á hina formfögru Skálholtskirkju. Þessi yfirbygging er ranglega sögð tilgátuhús, en Þorláksbúð hefur engin söguleg tengsl við Þorlák biskup helga. Þetta er skemmd á allri ásýnd Skálholtsstaðar og vanvirða við þá sem stóðu að gerð þeirrar kirkju, sem átti hálfrar aldar vígsluafmæli á liðnu sumri. Fram hefur komið í umræðunni að kofinn við kirkjuvegginn er byggður á ósannindum og rangfærslum. Þjóðkirkjan íslenska má ekki una því. Þögn hefur ríkt um málið að undanförnu. Mörgum spurningum er enn ósvarað.

Við bygginguna ofan á Þorláksbúð hafa lög og reglugerðir ítrekað verið brotin.

1. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að grafarró væri raskað í kirkjugarðinum í Skálholti? Tilgátuhúsið er byggt ofan á grafir frá fyrri tímum. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað hvers vegna hún leyfði þessa fordæmalausu framkvæmd.

2. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að byggt væri ofan á friðlýstar fornminjar við vegg dómkirkjunnar í Skálholti og þeim raskað? Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað því.

3. Byggingarleyfi Bláskógabyggðar fyrir torfkofanum sem nú er risinn var gefið út þegar framkvæmdum var nánast lokið. Hvernig stóð á því?

4. Fjárveitingar komu til verksins úr ríkissjóði. Samtals 9,4 milljónir á árunum 2008 til 2011. Aldrei hefur verið gerð grein fyrir því hvernig þeim fjármunum úr vösum almennings var ráðstafað. Bað Alþingi aldrei um endurskoðaða ársreikninga? Hversvegna hefur Ríkisendurskoðun ekki gengið eftir svörum um það hvernig þessum fjármunum var varið?

5. Hefur kirkjuráð gert grein fyrir því hvernig fjármunum kirkjunnar sem runnu til byggingar Þorláksbúðar var varið? Það voru 3 milljónir króna á árunum 2008 til 2011. Hefur kirkjuráð óskað eftir uppgjöri eða endurskoðuðum ársreikningum fyrir árin 2011 og 2012?

6. Hve mikið fé hefur runnið samtals til Þorláksbúðarfélagsins frá Alþingi og frá Kirkjuráði fyrir og eftir 2012?

7. Í bréfi Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis 28. júní 2012 kom fram að Þorláksbúðarfélag ætti von á reikningum „upp á nokkrar milljónir“ vegna þegar unninna verka. Hefur Ríkisendurskoðun fylgt því máli eftir?

8. Hefur sá sem byggði húsið fengið greitt fyrir sína vinnu og efnisframlag?

9. Í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (141. löggjafarþing, 2013) segir orðrétt: „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvetur Ríkisendurskoðun til að ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið. Nefndin telur það ekki varpa ljósi á ráðstöfun fjárins að nokkrar milljónir króna séu útistandandi og að óvissa ríki um fjárhagsstöðu félagsins eins og fram kom í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 28. júní 2012. Telur nefndin að í því efni skipti engu þó að byggingin verði ekki afhent Skálholtsstað fyrr en skuldir hennar hafa verið gerðar upp. Nefndin hvetur Ríkisendurskoðun til að ráðast í þetta verkefni hið fyrsta.“ Hvað hefur Ríkisendurskoðun gert í þessu máli? Hefur Ríkisendurskoðun sinnt þessum tilmælum Alþingis? Af hverju þessi þögn?

Ríkisendurskoðun, Minjastofnun Íslands og kirkjuráð þurfa að rjúfa þögnina sem ríkt hefur um þetta mál áður en það verður enn óþægilegra fyrir biskup Íslands og íslensku þjóðkirkjuna. Þjóðin á rétt á því að vita hvernig fé úr opinberum sjóðum er ráðstafað. Yfir því á ekki að vera neinn leyndarhjúpur.

Ekki er nóg að svör fáist við þessum spurningum, heldur verður að bæta fyrir þessi staðarspjöll með því að finna hinu meinta tilgátuhúsi annan stað.

Höfundar eru áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar. 

Comments are closed.