Skip to content

Umbætur á kosningakerfinu: I. Jöfnun atkvæðavægis

Höfundur: Þorkell Helgason, January 27th, 2015

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: I. Jöfnun atkvæðavægis, er sá fyrsti fjögurra efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í kjölfar yfirlitsgreinar um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla (Þorkell Helgason, 2014) og mun síðar birtast á prenti.

Ég vek sérstaklega athygli á því í pistlinum að það er ekkert því til fyrirstöðu að jafna atkvæðavægið að fullu með lagabreytingu einni. Til þess þarf ekki breytingu á stjórnarkrá. Hitt er annað mál að Stjórnlagaráð taldi það tryggara að ekki sé aðeins heimilt að gera öllum kjósendum jafnt undir höfði, heldur skuli það vera stjórnarskrárbundin skylda.

Upphaf pistilsins er þannig:

Alkunna er að kjósendur hafa mismikið atkvæðavægi eftir því í hvaða kjördæmi þeir búa. Eins og vikið er að í inngangi hefur svo verið alla tíð, a.m.k. frá því að fyrst var kosið til löggjafarþings 1874. Ekki er þó einhlítt hvernig slíkt misvægi skal mælt. Á að mæla það sem tölu kjósenda að baki hverju kjördæmissæti eða að baki hverju þingsæti sama kjördæmis hvort sem sætin teljast kjördæmis- eða jöfnunarsæti? Hængurinn við seinni mælikvarðann er sá að þá er sögulegur samanburður örðugur. Auk hinna kjördæmiskjörnu voru framan af líka konungskjörnir þingmenn sem síðan urðu að landskjörnum, en hvorir tveggja voru óháðir kjördæmum. Frá og með kosningunum 1934 hafa að vísu allir þingmenn verið tengdir kjördæmum, en með óbundnum hætti allt til og með kosningunum 1983. Fyrst frá kosningunum 1987 má segja að þingmenn séu allir fastbundnir kjördæmum. Sögulegt yfirlit er því vart mögulegt með öðrum hætti en þeim að bera aðeins saman kjördæmissætin.

Comments are closed.