“45 þúsund skrifa undir áskorun: Ný stjórnarskrá hefði tryggt auðlindir í þjóðareign”
[Eftirfarandi pistill með viðtali birtist á vefmiðlinum Stundin 31. maí 2015. Hann er hér endurbirtur án mynda, en skjalið með myndum má finna á Viðtal við ÞH á Stundinni]
Undirskriftarsöfnun farið fram úr björtustu vonum, segir Þorkell Helgason prófessor. „Stóru vonbrigðin voru að niðurstöður stjórnlagaráðs hafa algjörlega dagað uppi.“
- maí 2015, kl. 18:15
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
ingibjorg@stundin.is
Meira en 45 þúsund hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu öllum lögum sem myndu heimila ráðstöfun fiskveiðiheimilda til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.
Líkt og bent var á í frétt RÚV um málið hafa fleiri skrifað undir þessa áskorun en skrifuðu undir undirskriftalista vegna seinni Icesave-laga árið 2011 og fjölmiðlalaga árið 2004. Forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum á þeim forsendum að gjá væri á milli þings og þjóðar.
Þorkell Helgason stærðfræðingur er einn þeirra sem stendur að baki undirskriftasöfnuninni. Hann segir að hún hafi gengið vonum framar og sýni hversu alvarlegt málið sé. „Við erum fjarska ánægð með þessar undirtektir. Við getum þó ekki sagt að við höfum stefnt að neinu sérstöku markmiði af því að forsetinn metur hvernig hann bregst við. Við höfum engin áhrif á það.“
Árángurinn sé sérstaklega góður í ljósi þess að hópurinn sem að baki undirskriftarstöfnuninni stendur hafði ekki úr neinu fé að spila, nákvæmlega engu. „Þannig að við höfum ekki getað stundað neinar auglýsingaherferðir, annað en að vera virk á veðmiðlum, blogga og þvíumlíkt. En það er nú ekki aðalatriðið, heldur hitt. Það sem við erum að leggja kapp á er að menn hugsi nú sinn gang. Makrílfumvarpið í sjálfu sér kann að virðast lítið og meinlaust og vel meint af ráðherans hálfu, en við óttumst að þarna geti lítil þúfa velt þungu hlassi – að þetta sé upphafið að því að það verði ekki aftur snúið, að kvótarnir verði endanlega einkavæddir.“
Skorar á forsetann Þorkell Helgason prófessor er á meðal þeirra sem standa að baki undirskriftasöfnuninni. Hann átti einnig sæti í stjórnlagaráði og segir stærstu vonbrigðin þau að tillögur ráðsins náðu ekki fram að ganga.
Þjóðin ætti að fá eðlilegt gjald
Þorkell bendir á að vissulega sé kominn viss hefðarréttur á úthlutun kvótans og því ekki hægt að innkalla hann á augabragði. „Það þarf eðlilegan aðdraganda. Svo ég tali nú bara fyrir sjálfan mig, þá sé ég það fyrir mig að nú ættu menn að setjast niður og hugsa sinn gang. Ég held að fyrir útgerðina gæti verið mjög hagkvæmt að reyna að ná sáttum á þeim nótum sem stór meirihluti þjóðarinnar virðist vera á. Samkvæmt skoðanakönnun 2012 sögðust yfir áttatíu prósent styðja það að það yrði tekið eðlilegt gjald fyrir kvótann.
„Samkvæmt skoðanakönnun 2012 sögðust yfir áttatíu prósent styðja það að það yrði tekið eðlilegt gjald fyrir kvótann.“
Ég held að það ætti að vera auðvelt að ná samkomulagi sem bæði þjóðin og útgerðin ætti að geta verið sátt við. Slíkt samkomulag fælist í því að skerða kvótana hægt og bítandi, um lítið hlutfall árlega og bjóða upp það sem losnar. Þessi hugmynd hefur verið á kreiki í aldarfjórðung og hefur gengið undir ýmsum nöfnum, firningarleið, tilboðsleið eða uppboðsleið, og verið útfærð á nokkra mismunandi vegu.
Það má færa rök fyrir því að það að fara þessa leið sé síst óhagkvæmara fyrir útgerðina heldur en að vera í óvissu um framhaldið. Það hefur nú komið fram hjá talsmönnum útgerðarinnar að þeir eru orðnir órólegir yfir því að geta ekki verið vissir um framtíðarskilmálana.“
Umdeilt frumvarp Þorkell væntir þess að Sigurður Ingi dragi í land með makrílfrumvarpið í ljósi andstöðunnar við það.
Erfiðara en að breyta stjórnarskránni
Á meðal þess gagnrýnt er að samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra er gert ráð fyrir að úthluta kvótanum til sex ára í senn og framlengist úthutunin sjálfkrafa á hverju ári.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur hins vegar sagt að sex ár séu jafnvel of stuttur tími til að tryggja stöðugleika í greininni.
„Bíðum nú við, eigum við ekki að fá sömu góðu kjörin, eilífðareign á kvótanum“
Um það segir Þorkell: „Það sem við erum að benda á er að til þess að segja þessu upp þarf að minnsta kosti sex ára aðdraganda. Það þarf því að vera meirihluti á Alþingi fyrir uppsögn á úthlutun makrílkvótanna, sem spannar yfir einar, jafnvel tvennar, kosningar.
Það er erfiðara að draga í land með þá úthlutun sem væri gerð á grundvelli þessa frumvarps heldur en að breyta stjórnarskránni. Ef þessu verður komið á er afar ólíklegt að það verði nokkurn tímann dregið til baka. Þá muna þeir sem eru að fiska aðrar tegundur segja; „Bíðum nú við, eigum við ekki að fá sömu góðu kjörin, eilífðareign á kvótanum“.
Málinu verður að ljúka með sátt
Í ljósi þess hve margir hafa skrifað undir áskorunina væntir Þorkell þess að frumvarpið verði ekki afgreitt á Alþingi, heldur muni daga þar uppi eða verða dregið til baka. „Ráðherra hefur sagt að það sé nauðsynlegt að afgreiða þetta með einhverjum hætti því að þurfi að vera einhver ráð til að útdeila makrílkvótanum, en hann hefur gildandi lög til þess og þarf í sjálfu sér engin ný lög. Það er hægt að gera það með sama hætti og gildir um aðrar fiskveiðar, en það er engin endanleg lausn á málinu. Það er bara verið að slá því á frest.
„Það er búið að deila um kvótamálið í þrjá áratugi og það þarf að fara að ljúka því en það verður að ljúka því með breiðri sátt.“
Það er búið að deila um kvótamálið í þrjá áratugi og það þarf að fara að ljúka því en það verður að ljúka því með breiðri sátt, líkt og þessi undirskrifarsöfnun sýnir. Ég þori nú ekki að tala fyrir hönd þjóðarinnar en skoðanakannanir sýna að mikill meirihluti hennar er sama sinnis.“
Boðað var til byltingar á Austurvelli þann 24. maí og fólki gefnar 99 ástæður til þess að mæta. Um sjö þúsund manns boðuðu komu sína og af þeim sögðust 1.300 ætla að mæta vegna makrílfrumvarpsins. Þá er undirskriftarsöfnunin er komin á lista yfir stærstu undirskriftarsafnanir landsins, með áskorun um að halda flugvellinum í Reykjavík í Vatnsmýrinni, áskorun um áframhald ESB-viðræðna og gegn Icesave, sölunni á HS Orku.
Setti málið í nefnd Framsóknarfokkurinn lagði áherslu á nýja stjórnarskrá, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðildarviðræður við Evrópusambandið í aðdraganda þingkosninganna 2009. Málið var síðan sett í nefnd eftir að flokkurinn komst til valda.
Vilja ekki vera niðurrifsmenn
Forsetinn hefur þrisvar sinnum synjað lögum, annars vegar um fjölmiðlafrumvarpið og hins vegar um skuldbindingar Íslands vegna Icesave á árunum 2010 og 2011.
Nú er skorað á hann að gera það aftur. „Forsetinn hefur reyndar fært mismunandi rök fyrir því í þessi þrjú skipti sem hann hefur vísað málum til þjóðarinnar. Hann hefur nú ekki verið alveg samkvæmur sjálfum sér þar, að mínu mati. Þannig að hann verður að meta það sjálfur hvað hann gerir. En ég hugsa að þessi 45 þúsund sem eru þegar búin að skrifa undir verði fyrir miklum vonbrigðum með hann ef hann vísar þessu ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég er nú að vona að það verði aldrei, að málið komist aldrei svo langt heldur verði makrílfrumvarpið dregið til baka eða lagt til hliðar.
„Við erum ekki að gera þetta til að skapa úlfúð í samfélaginu heldur til að hægt sé að finna lausn.“
Þá gefst tími til að finna lausn. Við viljum ekki vera niðurrifsmenn. Við erum ekki að gera þetta til að skapa úlfúð í samfélaginu heldur til að hægt sé að finna lausn, sem við teljum að sé í augsýn og geti þjónað hagsmunum útgerðarinnar og rennt þeim siðferðilegu stoðum undir kvótakerfið sem nauðsynlegt er til að þjóðin sé sátt við það, og telji sig hafa fengið eitthvað fyrir snúð sinn, fyrir að eiga auðlindina.
Um leið myndi það þýða að nýliðar gætu fengið aukin tækifæri. Eitt af því sem menn finna núverandi kvótakerfi til foráttu er að menn eigi erfitt með að hasla sér völl í greininni. Þeir verði að kaupa kvóta af núverandi handhöfum kvótans. Með leiðinni sem ég var að reifa gætu þeir keypt kvóta á uppboðum, það er að segja rétt til langtímaleigu sem lítur vissum skilmálum.“
Ný stjórnarskrá hefði tryggt auðlindir í almannaeigu
Þorkell átti sæti í stjórnlagaráði, þar sem lagt var til að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign í nýrri stjórnarskrá. Þann 20. október 2012 fór þjóðaratkvæðagreiðsla fram um tillögur stjórnlagaráðs. Þar kom fram að meirihluti þjóðarinnar vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Þá vildu 74 prósent að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign.
„Það merkti það líka að þjóðin fengi eðlilegan arð og fullt gjald fyrir þessar auðlindir sem hún á.“
„Við höfðum alveg skýra stefnu í því máli. Að það ætti að staðfesta það í stjórnarksránni að auðlindir í almannaeigu væru það í raun og veru, ekki bara í orði heldur líka á borði. Að það væri ekki bara einhver fagurgali að auðlindirnar væru þjóðareign, eins og segir í fyrstu málsgrein fiskveiðistjórnarlaga. Það merkti það líka að þjóðin fengi eðlilegan arð og fullt gjald fyrir þessar auðlindir sem hún á.
En við vitum hvernig fór um þá vegferð, stjórnarskrármálið. Ég segi ekki það sé dautt en það sem við gerðum í stjórnlagaráði náði ekki fram að ganga á Alþingi, því miður.“
Þjóðin hefði getað krafist þjóðaratkvæðagreiðslu
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom einnig fram að meirihluti þjóðarinnar var samþykktur þeirri tillögu stjórnlagaráðs að tiltekið hlutfall kosningabærra manna gæti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í tillögum stjórnlagaráðs var þetta hlutfall tíu prósent, sem er mun minna en fjöldi þeirra sem hafa þegar skrifað undir áskorun til forsetans um að vísa makrílfrumvarpi til þjóðarinnar.
„Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom fram að tveir þriðju hlutar kjósanda vildu að byggt yrði á tillögum stjórnlagaráðs. Alþingi gerði lítið með það.“
„Við vorum kannski með svolítið lága tölu en við gerðum ráð fyrir því að tíu prósent kosningabærra manna gætu ekki bara kallað eftir kosningum heldur gert þá kröfu að það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lög sem Alþingi væri búið að setja.
Við vorum sum í stjórnlagaráði sem töldum það kannski heldur lágt og vildum miða við 15 prósent. Tíu prósent kjósenda er um 27 þúsund kjósendar. Við erum að nálgast 20 prósent og erum langt yfir þeirri kröfu sem gerð var í tillögum stjórnlagaráðs.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom fram að tveir þriðju hlutar kjósanda vildu að byggt yrði á tillögum stjórnlagaráðs. Alþingi gerði lítið með það,“ segir Þorkell.
Viðsnúningur Framsóknarflokksins
Ný stjórnarskrárnefnd var skipuð af forsætisráðherra þann 6. nóvember 2013. Í nefndinni eru fjórir fulltrúar ríkisstjórnarinnar og fjórir fulltrúar stjórnarandstöðunnar.
Þess bera að geta að Framsóknarfokkurinn lagði áherslu á nýja stjórnarskrá, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðildarviðræður við Evrópusambandið í aðdraganda þingkosninganna 2009. Raunar var eitt af skilyrðum flokksins fyrir því að verja minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna falli, að komið yrði á stjórnlagaþingi með það að markmiði að semja nýja stjórnarskrá.
Það hefur hins vegar farið lítið fyrir hugmyndum um nýja stjórnarskrá innan flokksins síðan Framsóknarmenn beittu málþófi í umræðum um stjórnlagaráð.
Vill kjósa aftur Bjarni lagði til að kosið yrði um breytingartillögur á stjórnarskrá samhliða forsetakosningum. Þjóðin hefur þegar kosið um þau atriði sem Bjarni vill kjósa um.
Sporin hræða
Í síðustu viku skrifaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra grein í Morgunblaðið þar sem hann lagði til að kosið yrði um breytingar á stjórnarskránni samhliða forsetakosningunum á næsta ári. Á meðal þess sem hann vill að verði kosið um ákvæði sem lýsa auðlindir í náttúru Íslands þjóðraeign, þjóðaratkvæðagreiðslu og takmarkað framsal valdheimilda til alþjóðastofnana. Allt eru þetta atriði sem voru í tillögum stjórnlagaráðs, sem 64 prósent landsmanna samþykktu að byggja á árið 2012. Um 32 prósent greiddu atkvæði á móti.
„Við ræddum það í stjórnlagaráði hvort það ætti að stigaskipta þessu og taka nokkur atriði fyrir í einu. Við óttuðumst að ef við tækjum einhver fá en mikilvæg atriði fyrst fyrir þá yrði ekkert meira gert. Það hefur verið krafa um það allt frá lýðveldisstofnun að taka stjórnarskrána í heild til endurskoðunar.
Þar með er ég ekki að segja að það þurfi að fleygja núverandi stjórnarskrá, síður en svo. Ég held að við höfum haldið í megnið af ákvæðum gildandi stjórnarskrár. Við breyttum orðalagi og röð sum staðar, en kjarninn í stjórnarskránni er sá hinn sami, með mikilvægum breytingum þó. Eins og um auðlindarmálin og kosningamál, jafnvægi atkvæða, persónukjör og fleira slíkt og svo um þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Allir vita að lögfræðingar tortryggja hugtakið þjóðareign og túlka það út og suður.“
Bjarni týnir til nokkur atriði og vill kjósa um þau. Það er virðingarvert og betra en ekkert. Þegar stjórnmálamenn segja hins vegar að það sé samstaða á meðal þeirra um að það eigi að koma ákvæði um auðlindir í almannaeigu í stjórnarskránna þá er ekki sama hvernig það er gert. Það er gangslaust að segja bara í stjórnarskránni að auðlindir séu í eigu þjóðarinnar ef því fylgir ekkert meira. Allir vita að lögfræðingar tortryggja hugtakið þjóðareign og túlka það út og suður.
Þannig að við í stjórnlagaráði lögðum ríka áherslu á að það yrði að fylgja meira með. Það yrði að vera innihald í því ákvæði. Bjarni nefndi það ekki í sinni blaðagrein, en við skulum sjá til. Það er allavega gott að málið sé í umræðu en sporin hræða.
Ég man ekki hvað þessi núverandi þingkjörna stjórnarskrárnefnd er í röðinni, ég held að þær nefndir fari ekki að nálgast tuginn frá lýðveldisstofnun og engar tillögur hafa náð fram að ganga. Jú, stjórnarskránni hefur verið breytt, fyrst og fremst til að laga kosningakerfið að breyttu íbúamynstri og svo kom mannréttindaákvæði inn árið 1995, en það hefur engin heildarendurskoðun fari fram.
Ég óska þessari starfandi nefnd alls góðs en óneitanlega er maður hræddur um að árangurinn verði heldur rýr. Stóru vonbrigðin voru að niðurstöður stjórnlagaráðs hafa algjörlega dagað uppi.“
Comments are closed.