Skip to content

Hugleiðingar um stöðu stjórnarskrármálsins í kjölfar fundar Stjórnarskrárfélagsins á Sólon 21. feb. 2018

Höfundur: Þorkell Helgason, February 26th, 2018

Ég sé ekki til lands í stjórnarskrármálinu í þeim skilningi að ný stjórnarskrá byggð á tillögu Stjórnlagaráðs nái fram að ganga á mínum ævidögum. Vera má að þetta sé svartsýni mín (gamals manns!). Á fundinum var bent á að þjóðin, eða amk. stór meirihluti hennar, lýsi sig nú sem fyrr fýsandi þess að fá nýja stjórnarskrá. Þetta fer eftir því hvernig spurt er, en ég vil þó eins og jásystkin mín trúa því að þjóðin meini þetta. Á sama tíma kýs þjóðin nú sem fyrr flokka sem annað hvort eru berlega á móti breytingum eða segjast vilja breytingar, en meina samt ekkert með því, eins og Jón Ólafsson sagði skilmerkilega á fundinum.

Hvernig er málið statt nú?

Allir áhugamenn um stjórnarskrármálið vita í hvaða farveg málið er komið hjá núverandi ríkisstjórn. Enn ein nefndaskipunin og langt ferli með alls kyns farartálmum. Því fáum við ekki breytt og verðum þá að gera það upp við samvisku okkar hvort við eigum að fara í fýlu og agnúast út í þá sem nú fara með völdin. Það hefur lítinn tilgang annan en að styrkja okkur í trúnni, en mun ekki hafa nein afgerandi áhrif á framvinduna. Eins og Birgitta Jónsdóttir nefndi réttilega á umræddum fundi er það líka andstætt markmiðum okkar og starfsháttum að úthúða þingmönnum og stjórnmálamönnum og setja þá alla undir sama hatt sem svikula þjóðníðinga, svo ég spari nú ekki orðin.

Með sama hætti var það ekki uppbyggilegt þegar stjórnlagaráð hafði skilað tillögum sínum að heimta af Alþingi, eins og sum okkar gerðu, að frumvarp ráðsins yrði afgreitt skilmálalaust, að ekki mætti stafkrók breyta, nema bara til að leiðrétta ritvillur. Það hleypti illu blóði í marga sem voru okkur þó vinveittir. Sem betur fer ber nú minna á þessum sjónarmiðum. Allir vitna nú í það að þjóðin samþykkti 2012 að leggja skuli tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá, en ekki skjalið óbreytt.

Það er mikið vatn runnið til sjávar frá sumrinu 2011 þegar ráðið skilaði af sér og nokkur óbein prófun komin á tillögur ráðsins. Ég hygg að flest okkar sem sátu í ráðinu gætu bent á atriði, sem þau studdu eða unnu að, sem mætti eftir á að hyggja orða betur, án þess þó hróflað sé við „grundvellinum“. Þannig skal ég játa að ákvæðin um kosningar til Alþingis, sem ég átti stóran þátt í að móta, mætti einfalda en halda samt í kjarna þeirra: Jafnan kosningarétt allra og persónukjör að grunni til.

En hver hefur umboð til að breyta tillögum stjórnlagaráðs? Stjórnskipulega séð enginn nema Alþingi. Hvort sem okkur líkar það betur eða ver, þá liggur valdið þar, ekki hjá þjóðinni – nema með leyfi Alþingis. Í þessu ljósi verðum við að meta stöðu málsins nú. Forsætisráðherra ætlar að setja á laggirnar fimm manna sérfræðinganefnd sem starfi undir yfirstjórn formanna flokkanna sem sæti eiga á þingi. Við skulum virða það til málsbóta að þetta eru þó allir flokksformenn, ekki aðeins formenn stjórnarflokkanna. En vitaskuld mun það verða svo að stjórnarflokkarnir munu ráða ferðinni.

Á margnefndum fundi Stjórnarskrárfélagsins var mönnum tíðrætt um skipun forsætisráðherra í starf verkefnisstjóra. Ég  fagna því að sett skuli slík verkstjórn. Hana skorti í öllu stjórnarskrárferlinu 2009-2013. Slík stjórnun hefði átt að vera á vegum forsætisráðuneytisins en ekki í höndum þingsins sem hafði málið ekki í sínum höndum fyrr en síðar. Vitaskuld hefðum við helst viljað sjá í þessu mikilvæga starfi einhvern fagmann sem allir gætu treyst. Nú, en kona var valin úr röðum stjórnmálamanna, eða fyrrverandi slíkra. Þótt ég vilji forðast að persónugera þessi mál, vil ég þó láta í ljós væntingar til þeirrar konu sem valin var, Unnar Brár Konráðsdóttur. Þótt hún hafi í þingræðum gegnt meintum flokkskyldum sínum og fett fingur út í tillögur stjórnlagaráðs hefur hún líka sýnt sjálfstæði í þingstörfum sínum sem og í stól forseta Alþingis. Hvernig væri að hvetja hana til dáða, en jafnframt veita henni öflugt aðhald?

Hvað er til ráða?

Mörg áhugasamtök, eins og Stjórnarskrárfélagið, hafa tilhneigingu til að leggjast í naflaskoðun, að boða trúboð meðal hinna trúuðu. Það þokar málinu lítt áfram að berja okkur á brjóst og tala um hvað tillögur stjórnlagaráðs séu góður grundvöllur að traustri stjórnarskrá – sem þær eru – en það sem standi vegi séu ill öfl á Alþingi – sem er mikil einföldun. Við verðum að reyna að breiða fagnaðarerindi okkar út meðal almennings, skapa raunhæfan þrýsting en veita þeim á þingi og annars staðar, sem vinna að framgangi málstaðarins, stuðning en líka aðhald. Vandinn er hvernig við náum að gera þetta.

Hér og nú liggur fyrir að þjarma þarf að forsætisráðherra og verkefnisstjóranum en á uppbyggilegan hátt, svo sem með því að greina minnisblað forsætisráðherra, gagnrýna það sem þar er ámælisvert, nú eða bara flausturslegt. Og koma með uppbyggilegar tillögur. Ein slík var nefnd á fundinum, af Katrínu Oddsdóttir formanni Stjórnarskrárfélagsins. Hún lagði til að fyrsta verkefnið í endurskoðun stjórnarskrárinnar yrði að endurskoða ákvæði 79. gr. núgildandi stjórnarkrá um hvernig henni megi breyta. Breytt eigi ákveðið að kveða á um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli ávallt fara fram um breytingar á stjórnarskrá. Rök Katrínar eru góð og gild. Með því að ganga fyrst frá þessu ákvæði sé stjórnarmeirihlutinn neyddur til að viðurkenna lokavald þjóðarinnar.

En það er alls ekki sama hvernig nýtt breytingarákvæði er. Það sem batt enda á stjórnarskrárferlið vorið 2013 var samþykkt þingsins á bráðabirgðaákvæði við stjórnarskrána einmitt um þetta atriði. Þar var kveðið á um ákvæði til bráðabirgða þess efnis að stjórnarskránni mætti breyta þannig að fyrst þyrfti breytingin að vera samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi en síðan að hljóta samþykki meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó með atkvæðum minnst 40 af hundraði allra kosningarbærra manna. Ef þetta ákvæði hefði verið samþykkt sem ótímabundið og eina ákvæðið um gildistöku stjórnarskrárbreytinga hefði minni hluti Alþingis eða þjóðar fengið neitunarvald. Þá væri trúlega tómt mál að tala um nú um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, nema þá í einhverju bitlausu og útþynntu formi. Sem sagt: „Aðgát skal höfð í nærveru afturhaldsaflanna“ svo að lagt sé út af orðum langafa Katrínar formanns.

(Þetta er ritað 25. febrúar 2018)

Comments are closed.