Skip to content

Um frumkvæðisrétt kjósenda; hjá Stjórnlagaráði og í Hessen

Höfundur: Þorkell Helgason, November 6th, 2018

Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist upp í 16 fylki („lönd“ á þýsku), mjög mismunandi fjölmenn, eða frá 700 þús. íbúum til 18 milljóna. Fylkin fara með mörg mál, sem ekki eru beinlínis á könnu Sambandsþingsins eða sambandsstjórnarinnar í Berlín. Því hefur hvert fylkjanna eigið þing (landsþing) og ríkisstjórn með grundvöll í eigin stjórnarskrá. Þessar stjórnarskrár voru flestar settar strax eftir seinni heimstyrjöld og eru því eldri en grunnlög (stjórnarskrá) sjálfs sambandsríkisins sem eru frá 1949.

Hessen er fimmta fjölmennasta fylkið í Þýskalandi með rúmlega sex milljónir íbúa og er þar með fjölmennari en hvert Norðurlandanna utan Svíþjóðar. Hinn 28. október 2018 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um 15 breytingar eða viðbætur við stjórnarskrá fylkisins. Ein þessara stjórnarskrárbreytinga laut að ákvæðum um frumkvæðisrétt kjósenda. Meginbreytingin er sú að lækka það lágmarkshlutfall kjósenda sem þarf til að þeir geti lagt fram lagafrumvarp og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.  Lágmarkið var 20% en lækkar í 5%.

Ákvæðunum um lagafrumvæði kjósenda, hvort sem er breyttum eða óbreyttum, svipar mjög til samsvarandi ákvæða í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2011 og því áhugaverð fyrir Íslendinga.

Þá má benda á til fróðleiks að stjórnarskráin í Hessen telur 161 grein en í tillögum Stjórnlagaráðs eru þær 116 sem sumum þótti drjúgt!

Stjórnarskrárbreytingarnar voru allar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni með 70-90% stuðningi þeirra sem afstöðu tóku, þ.m.t. sú sem hér er fjallað um, en 86,3% kjósenda guldu henni jáyrði sitt. Kosningaþátttaka var nokkuð góð, en 67,1% kjósenda tóku þátt atkvæðagreiðslu um umrædda spurningu.

Í opinberum gögnum frá Hessen er aðeins gerð grein fyrir innbyrðis skiptingu jáa og neia. Auð eða ógild atkvæði koma þar að sjálfsögðu ekki við sögu. Þetta er öndvert við það sem landskjörstjórn og Hagstofan gáfu upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 um stjórnarskrármálið. Þar var – í fyrstu a.m.k. – tekið upp það nýmæli að telja auð og ógild atkvæði til gildra atkvæða!; sjá http://thorkellhelgason.is/?p=2065.

Í þessu samhengi má rifja upp þá gagnrýni, sem fram kom frá fræðimönnum við íslensku háskólana á tillögur Stjórnlagaráðs, ekki síst á þau ákvæði sem lúta að umræddu beinu lýðræði, þ.e.a.s. 65.-67. gr. í frumvarpstexta ráðsins. Í íslenskum sið var fullyrt að „svona þekktist hvergi“; ja, kannski í Sviss. En ákvæðin í stjórnarskrá Hessen eru nauðalík þeim í tillögum Stjórnlagaráðs.

Í samanburðartöflu er gerð grein fyrir ákvæðunum um lagafrumkvæði kjósenda í stjórnarskrá Hessen í samanburði við hliðstæð ákvæði í tillögum Stjórnlagaráðs. Þá fylgir í síðasta dálki eigin umsögn og er þá ítrekað hversu lík ákvæðin eru hjá Stjórnlagaráði og þau í Hessen.

Jafnframt er neðar í töflunni farið yfir ákvæðin í Hessen og í tillögum Stjórnlagaráðs um það hvernig stjórnarskrá verði breytt.

Comments are closed.