Skip to content

Núgildandi stjórnarskrá er barn síns tíma

Höfundur: Þorkell Helgason, October 27th, 2010

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er, eins og allir vita, komin til ára sinna. Upphaflega fengu Íslendingar hana frá Kristjáni IX. Danakonungi, þeim sem stendur á stalli fyrir framan stjórnarráðshúsið „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og skáldið kvað. Aldurinn þarf ekki að vera stjórnarskrá til hnjóðs. Nægir að nefna stjórnarskrá Bandaríkjanna eða Noregs sem eru báðar um eða yfir tvö hundruð ára gamlar.

Lýðveldisstjórnarskráin er í grundvallaratriðum byggð á „frelsiskránni“ þó þannig að orðinu „kóngur“ er skipt út fyrir orðið „forseti“. Síðan hafa einkum verið gerðar á henni breytingar af þrennum toga: Ákvæðum um kjördæmaskipan og kosningamál hefur þrisvar sinnum verið breytt, skipan og starfshættir Alþingis hafa verið endurskoðaðir, ákvæði um mannréttindi hafa verið aukin og bætt, einkum nýmæli um félagsleg réttindi sem voru  væntanlega sett í kjölfar aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvernig er stjórnarskráin uppbyggð? Hún er sem betur fer ekki mjög löng, telur 81 grein (sú áttugasta að vísu fallin út) auk úreltra ákvæða til bráðabirgða. Stjórnarskráinni er skipt í kafla á  eftirfarandi hátt:

 • I.       1.-2. gr. Grunnskipting valdsins
 • II.      3.-30. gr. Forsetinn
 • III.     31.-34 gr. Alþingi
 • IV.    35.-58. gr. Alþingi
 • V.     59.-61. gr. Dómsvald
 • VI.    62.-64. gr. Trúmál
 • VII.   65.-81. gr. Mannréttindi o.fl.
 • Ákvæði til bráðabirgða

Kaflaheiti eru engin, efnisorðin er mín. Margt vekur athygli, nefna má eftirfarandi:

 • Engar forsendur eru gefnar eins og þær að valdið sé allt frá þjóðinni komið.
 • Þrír fjórðuhlutar skrárinnar fjalla um stjórnskipanina, aðeins einn fjórðungur um réttindi fólksins.
 • Forsetanum er gert hátt undir höfði en þriðjungur stjórnarskrárgreinanna fjalla um hann og hlutverk hans. Þó gerir ein greinin, sú 13., flestar hinn ómerkar þar sem hún er talin segja að forsetinn hafi í reynd lítil völd.
 • Kaflar um Alþingi eru tveir og heldur tætingslegir.
 • Ráðherra og ráðuneyti kemur rétt aðeins við sögu, en ríkisstjórn er hvergi nefnd, hvað þá starfshættir hennar, nema ef vera skyldi ákvæði um ríkisráð sem er þó í raun aðeins puntsamkoma.
 • Sameignir þjóðarinnar, landið, hafið, auðlindirnar, tungan og margt fleira kemur ekki við sögu.
 • Aðhald að valdinu er ekki nefnt nema ef vera skyldi málsskotsréttur forsetans. Almenn ákvæði um þjóðaratkvæði eru engin.

Með þessari upptalningu, sem þó er ekki tæmandi, er ekki ætlunin að gera lítið úr stjórnarskránni. Hún hefur í meginatriðum gagnast okkur vel. En hvort sem menn vilja breyta henni mikið eða lítið er nauðsynlegt að endurskrifa hana þó ekki væri nema til að hún verði á betra máli, aðgengilegri og yfirhöfuð læsileg hverju barni.

Í næstu pistlum mun ég reifa hvað mér liggur á hjarta varðandi stórbætta stjórnarskrá. En fyrst vil ég hamra á því sem segir í framboðskynningu minni: Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum. Sátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.

Comments are closed.