Játningar fyrrverandi orkumálastjóra!
Allmargir kjósendur hafa spurt um afstöðu mína í orku- og auðlindamálum, ekki síst í ljósi þess að ég var ráðuneytisstjóri í ráðuneyti orkumála og síðan orkumálastjóri alls í umfimmtán ár. Í þessum pistli fer ég stuttlega yfir sögu mína í þessum efnum en í öðrum pistli reifa ég sjónarmið mín til takmarkaðra náttúrugæða og umhverfismála, að svo miklu leyti sem það snertir endurgerð stjórnarskrár.
Áður en lengra er haldið vil ég benda á að í báðum umræddum störfum var ég embættismaður sem bar að þjóna mínum ráðherra til þeirra verka sem hann fýsti að hrinda í framkvæmd. Þetta er talin almenn skylda embættismanna að mati flestra lögspekinga sem um málið hafa fjallað. Ég tel nú, að fenginni reynslu, að þessu ætti að breyta að nokkru leyti þannig að embættismenn ættu að eiga ríkar skyldur við almenning og Alþingi, ekki síst um að veita upplýsingar, jafnvel að fyrra bragði. Á embættistíma mínum hafði ég tvennt að leiðarljósi um orkumálin: Að stuðla að sáttum milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða og að hvetja til þess að auðlindirnar yrðu verðlagðar eðlilega.
Sem ráðuneytisstjóri átti ég hlut að gerð tveggja skýrslna um nýtingu og verndargildi. Í annarri var farið yfir virkjunarkostina í heild sinni en í þeirri seinni var sérstaklega farið yfir allar hugmyndir um virkjanakosti norðan Vatnajökuls. Í ársbyrjun 1997, nokkrum mánuðum eftir að ég var skipaður orkumálastjóri, hélt ég erindi á náttúruverndarþingi þar sem ég fjallaði m.a. um lykilatriði eins og sjálfbæra nýtingu orkulinda svo og virkjanakosti og verndargildi. Í seinna umfjöllunarefninu reifaði ég aðferðafræði þar sem borið er saman útreiknaður ábati af virkjanakostum og skaðsemi hvers kosts fyrir umhverfið. Þar sagði ég m.a.:
- „Til einföldunar á viðfangsefninu geng ég … út frá því að unnt sé að flokka virkjunarkosti eftir því hve miklum náttúruspjöllum þeir valda. Þar með væri komin tvívíð flokkun á virkjunarkostunum, annars vegar eftir hagkvæmni, þ.e.a.s. eftir kostnaði á orkueiningu, og hins vegar eftir þeim spjöllum sem af virkjun kynni að leiða.“
Þessi aðferðafræði varð síðar grunnhugsunin í Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ári síðar, eða haustið 1998, átti ég síðan frumkvæði að því við Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri auðlindadeildar Orkustofnunar og Árni Bragason forstjóri Náttúruverndar ríkisins fórum í kynnisferð til Osló til að læra af Norðmönnum um gerð slíkrar rammaáætlunar um nýtingu og vernd vatnsfalla. Um þetta skrifuðum við ítarlega skýrslu. Um vorið 1999 hleypti þáverandi iðnaðaráðherra gerð íslenskrar áætlunar af stað. Enn er verið að vinna að Rammaáætluninni og því miður hefur hún ekki enn fengið lagastoð en svo verður vonandi brátt.
Hitt meginefnið sem ég beitti mér fyrir var á mörkum þess sem ég mátti, enda var það ekki alltaf í takt við sjónarmið ríkisstjórnar, en það var hvatning til stjórnvalda um að verðleggja auðlindanotkun í almannaeigu. Um þetta mál fjallaði ég oft í ræðu og riti, t.d. oft á ársfundum Orkustofnunar að ráðherra áheyrandi. Í einu síðasta erindi mínu sem orkumálastjóri sagði ég á ársfundi Samorku vorið 2007 eftirfarandi:
- „Embættismaðurinn, orkumálastjóri, er kannski kominn út á hálan ís talandi um auðlindaarð, hvar hann myndast og hvar hann skilar sér. En þetta hef ég þó leyft mér í velflestum ræðum mínum á ársfundum Orkustofnunar liðinn áratug. Ég hef gert þetta til þess að vekja athygli á vanda sem mér hefur þótt vera í uppsiglingu, en stjórnmálamenn flestir leitt hjá sér að ræða. Þjóðin er í aldarfjórðung búin að vera klofin í fylkingar um eignarhald og auðlindaarð af auðlindum sjávar. … Viljum við deila um eign og arð af orkulindum í aldarfjórðung og síðan verði niðurstaðan kannski tilviljunarkennd, ekki afleiðing af markaðri stefnu? Er ekki ráð að taka meðvitaðar ákvarðanir um nýtingu orkuauðlindanna, um orkustefnu, og um allt fyrirkomulag í þeim efnum. …
- Öll gæði sem eru takmörkuð eða þarf að skammta með einhverjum hætti fá á sig verðmæti. … [F]arsælasta leiðin til að kljást við loftslagsmálin væri að það kæmust á víðtækir losunarkvótar sem verða virtir til fjár. … Verði kvótakerfi á losun víðtækt í heiminum og þrengt að losuninni svo einhverju nemur fá þessir kvótar hátt verðgildi. …
- Ef almennt losunarkvótakerfi kemst á hver á þá að njóta ábatans af því að markaðsstaða raforkugeirans og áliðnaðarins hérlendis kann að batna umtalsvert? Mér finnst ekki nóg svar að segja: “Ja, fyrst skulum við nú sjá ágóðann verða til, áður en við förum að ráðstafa honum” eins og sagt var fyrir aldarfjórðungi um hugsanlegan fiskveiðiarð. Er ekki betra að ræða um leikreglurnar áður en mönnum fer að hitna í hamsi!
Í niðurlaginu hér var ég að vísa í orð ráðherra þegar ég minntist á það við hann strax eftir að kvótakerfinu var komið á í byrjun níunda áratugarins að kvótar myndu fá á sig verðmæti og þá myndu samstundis skapast deilur.
Samandregið sagði ég síðan í þessu erindi:
„Okkur skortir heildstæða orkustefnu um það hvað við viljum nýta og í hvaða áföngum. Um það hvernig við viljum útdeila orkugæðunum og hvað á að verða um vaxandi arð af þeirri nýtingu? Sama á við um losunarkvóta. Við þurfum strax að móta heildarstefnu um útdeilingu þeirra.“
Ég nefni þennan pistil Játningar fyrrverandi. orkumálastjóra og geri það til að ögra lesendum en ekki síður sjálfum mér. Nú þegar ég horfi yfir farinn veg tel ég að skýrt megi vera að ég barðist fyrir tvennu, eftir því sem staða mín sem embættismanns leyfði:
- Að fundin yrði málamiðlun milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða með fræðilegum aðferðum eins og síðan varð með Rammaáætluninni. Það sem á skortir er að sú áætlun fái lagagildi.
- Að útdeiling á aðgengi að auðlindum í almannaeigu sé með sanngjörnum hætti og fyrir nýtinguna komi eðlilegt gjald.
Hvað kemur þetta stjórnarskránni, stjórnlagaþinginu og kosningunni til þess við? Meira um það rétt strax.
Comments are closed.