Skip to content

Umhverfið og auðlindir í almannaeigu

Höfundur: Þorkell Helgason, November 22nd, 2010

Ég hef nær alla starfsæfi mína komið að stefnumótun um nýtingu náttúruauðlinda. Í pistlinum  Játningar fyrrverandi orkumálastjóra geri ég grein fyrir aðkomu minni að orku- og umhverfismálum. En ég hef líka langa reynslu af fiskveiðistjórnunarmálum. Bæði var að ég sinnti ýmissi reiknilíkanagerð á því sviði á prófessorsárum mínum en var einnig í vinnuhópum og nefndnum sem mótuðu kvótakerfið á fyrstu árum þess. Síðastliðið sumar var ég fenginn til að útfæra svokallaða tilboðsleið við útdeilingu á kvótum fyrir stjórnskipaða nefnd um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Í báðum þessum málaflokkum hef ég reynt að beita mér fyrir því tvennu að auðlindirnar séu nýttar af varfærni og með sjálfbærni í huga og hins vegar að aðgengi að nýtingu þeirra sé á jafnréttisgrundvelli og að eigandinn, þjóðin, njóti eðlilegs arðs. Þetta hvort tveggja er lífsnauðsynlegt  til að friður geti skapast í þjóðfélaginu og að viðkomandi atvinnugreinar geti fengið starfsfrið okkur öllum til hagsbóta.

Ég nefndi það strax í upphafi við ráðamenn sjávarútvegsmála að kvótakerfið myndi leiða til þess að kvótarnir fengju umtalsvert verðgildi og nauðsynlegt væri að ákveða fyrirfram hvernig þeim verðmætum yrði skipt milli útgerðar og þjóðarinnar. Viðbrögðin voru þau að fyrst skyldum við sjá arðinn verða til, áður en við færum að ráðstafa honum. Ég svaraði að þá yrði það of seint; þá væru illdeilurnar hafnar. Ég hef því miður reynst sannspár. Ég er sannfærður um að hin erfiða staða sjávarútvegs nú væri mun betri hefði kvótunum strax verið ráðstafað með tilboðum, með eðlilegum forgangi þeirra sem voru þá í útgerð. Þá hefði kvótaverðið og þar með skuldsetning útgerðarinnar ekki farið út fyrir öll velsæmismörk.

Hvað vil ég þá nú fá sett í stjórnarskrá? Áður en ég svara vil ég benda á að það eru fleiri gæði sem þarf að takmarka aðgang að en orkulindir og fiskimið. Nefna má losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum  og fjarskiptarásir af ýmsu tagi. Og fleiri tilvik munu koma til þar sem gæðunum þarf að skipta.

Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um friðhelgi eignarréttarins. Í þá grein vil ég halda. En hvernig væri að næst á eftir henni kæmi önnur grein sem kvæði á um eign á almannagæðum?  Ég ætla mér ekki þá dul að geta einn og óstuddur fært slíkt ákvæði í endanlegt letur; um það og allt annað sem ég mun leggja til, nái ég kjöri á stjórnlagaþing,  vil ég hafa samráð við félaga á þinginu, sérfræðinga og almenning. En efnislega vil ég að greinin sé víðtæk en einföld og kveði á um þetta:

Takmörkuðum gæðum í eigu eða undir forsjá almannavaldsins má ekki ráðstafa varanlega. Heimilt er að framselja tímabundinn nýtingarrétt á þeim enda komi fullt verð fyrir. Þó er skylt að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem hafa fært sér gæðin í nyt áður en slík gjaldtaka er tekin upp.

Orðlagið „komi fullt verð fyrir“ er sótt beint í eignarnámsákvæði 72. greinarinnar.

Margs er að gæta við slíkt ákvæði, ekki síst fyrirvarans í seinni málsliðnum. Til útskýringar er best að taka fiskveiðikvótana sem dæmi. Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar að það ætti að bjóða þá upp. Það má gera að settum ýmsum skilyrðum svo sem um tengsl við sjávarbyggðir. En auðvitað má spyrja hvort ekki sé orðið of seint að taka slíkt kerfi upp nú einkum í ljósi þess að margir hafa keypt sér kvóta dýrum dómum af öðrum útgerðarmönnum. Hvort þá verði ekki ranglætið ekki tvöfalt með því að innkalla þá kvóta og láta menn síðan kaupa þá aftur á uppboði. Það er með þetta eins og t.d. lausnina á skuldavanda heimilanna að það er engin lausn til sem getur ekki virst ranglát gagnvart einhverjum. En af þessum sökum tel ég að innköllun á núverandi fiskveiðikvótum verði að vera varfærnisleg. Í mínum huga hefur innköllunin fremur táknræna merkingu, þá að staðfesta að fiskimiðin séu þjóðareign, en að innheimta eigi umtalsverðan auðlindaarð til þjóðarinnar. Því gæti ég séð fyrir mér að innköllunarhlutfallið væri mjög lágt, t.d. 3% á ári.

Nú hef ég reifað ákvæði í stjórnarskrá um ráðstöfun á nýtingarrétti á takmörkuðum gæðum. Þá er ekki nema hálf sagan sögð. Nýting auðlinda stangast í flestum tilfellum á við viðhald og vernd náttúrugæða. Málamiðlun í þessum efnum er óhjákvæmileg og bráðnauðsynleg. Við erum þegar búin að ganga á náttúruna þó ekki væri nema með byggð, ræktun og vegagerð. Flest af þessu er landgæðanýting sem við viljum ekki vera án.

Þetta breytir því ekki að ég styð að í stjórnarskrá komi ákvæði um umhverfismál og náttúruvernd. Ég er ekki sérfræðingur í þeim málum og mun þar hlusta gaumgæfilega á tillögur annarra.  Sem viðmið vil ég hafa orðalag úr frumvarpi til breytingar á stjórnarskránni sem foringjar fjögurra flokka lögðu fram á vorþinginu 2008, en þar segir m.a.

„Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“

Samandregið er afstaða mín í öllum þessum efnum skýr:

  • Ég vil að aðgengi að takmörkuðum gæðum í almannaeigu sé á jafnræðisgrundvelli og háð eðlilegu afnotagjaldi. Þessu tvennu tel ég best fyrir komið með markaðsleiðum, uppboðsaðferð, fremur en með loðnum ákvæðum og ráðherravaldi.
  • Samhliða tel ég rétt og skylt að allar breytingar séu varfærnislegar og sérstaklega að sé ekki traðkað á þeim sem hafa aflað sér aðgengisins dýrum dómum með kaupum frá öðrum sem var gert með leyfi stjórnvalda.
  • Ég vil málamiðlun og sættir milli nýtingar- og verndarsjónarmiða.
  • Ég styð ákvæði í stjórnarskrá um sjálfbæra þróun.
  • Ég vil ákvæði í stjórnarskrá um rétt almennings til heilbrigðs umhverfis svo og rétt til þátttöku í ákvarðanatöku í þeim efnum.

Comments are closed.