Skip to content

Hvers vegna sat fólk heima?

Höfundur: Þorkell Helgason, November 29th, 2010

Þátttaka í kosningunni til stjórnlagaþings hefði vissulega mátt vera meiri. Einungis 36% kjósenda tóku afstöðu. Ég var vondaufur viku fyrir kosninguna og spáði 30-40% kjörsókn en svo fannst mér áhuginn vera að glæðast og gerði mér orðið vonir um að helmingur kjósenda myndi neyta kosningarréttar síns. Svo varð ekki. Hvað veldur?

Ég náði að tala við marga í stórmörkuðum, í háskólunum og á einum vinnustað. Af þessum kynnum að dæma svo og almennt af umræðunni í þjóðfélaginu tel ég ástæðurnar einkum vera þessar og í þessari mikilvægisröð:

  1. Almenn vonbrigði með stjórnarfarið. Margir viðmælendur voru einfaldlega búnir að missa trúna á allt kerfið. „Það þarf að sópa út af Alþingi“ „Burt með allt hyskið“, „Vil ekki taka þátt í svona vitleysu“ o.s.frv. Viðmælendur sögðust því ekki vilja taka þátt í kosningu sem væri bara einhvers konar andlitslyfting „pakksins við Austurvöll“. Þetta væri allt sama sukkið og svínaríið. Ég benti á að í kosningunni væru einstaklingar í boði, ekki flokkslistar, að nú gæfist tækifæri til að „hrista upp í kerfinu“ svo ég tali sömu tungu og viðmælendurnir. Sumir áttuðu sig þá á því að það væri ekki samhengi í því að hafa allt á hornum sér en vilja ekki freista þess að fá úr því bætt. Þá var því einatt svarað að stjórnlagaþingið fengi engu breytt, „flokkarnir“ myndu sjá til þess. Því væri tímasóun að kjósa. Einn viðmælandi gekk lengra en aðrir og sagðist búinn að gefa upp alla von og væri ákveðinn í að flýja land. Ég spurði hvort hann vildi ekki hjálpa okkur, sem eftir sætum með því að kjósa. Hann svaraði því til að okkur væri ekki við bjargandi. Það er hörmulegt til þess að vita hvað margt fólk segist búið að missa trúna á allar stoðir samfélagsins. Þessu verður að snúa við. Vonandi nær stjórnlagaþingið að glæða vonina á ný, enda þótt vissulega þurfi meira til.
  2. Endurbætur á stjórnarskrá eru ekki það sem á okkur brennur nú. Margir segjast sjá eftir fjármunum í kosninguna og þinghaldið; nær væri að verja þeim í sjúkrahúsin. Gagnrök bitu ekki á þessa viðmælendur; eins og að lýðræðið kostaði sitt, þetta væri þó ekki meiri kostnaður en svaraði til par mánaða reksturs Alþingis, sem við vildum þó viðhalda; eða að þegar væri búið að ákveða að halda þingið, útgjöldin væru þegar ráðin.
  3. Fólki fallast hendur frammi fyrir því að velja á milli fimm hundruð frambjóðenda. Ýmist sagðist fólk hvorki hafa tíma né nennu til að kynna sér alla þessa frambjóðendur eða að það hefði þegar gert það en gæti ómögulega tínt hina réttu út úr. Stúdent sagi það misþyrmingu á lýðræðinu að ætla fólki að velja úr svo fjölmennum hópi. Þó hann hefði strax að loknum framboðsfresti einhent sér í að kynna sér frambjóðendur myndi tíminn ekki nægja til að velja á milli þeirra á jafnréttisgrundvelli. Því væri ólýðræðislegt og ósanngjarnt að velja einhverja út úr. Af þeim sökum ætlaði hann ekki að kjósa. Ég reyndi að benda honum á að yrði hann ástfanginn af stúlku léti hann hana ekki róa af því að hann væri þá að gera upp á milli kvenþjóðarinnar. Þetta fundust honum heldur billeg rök!
  4. Vanþekking, áhugaleysi. Allmargir, einkum ungt fólk, vissi lítið um hvað stæði til, hvað stjórnlagaþing væri, varla hvað stjórnarskrá væri og kærði sig kollótt um.
  5. Stjórnarskráin er ágæt, best að láta hana í friði. Mér fannst erfiðast að komast í talsamband við fólk með þessa skoðun. Það vildi ógjarnan rökræða málið. Þegar það tókst var samt ýmislegt sem það vildi sjá fært til betri vegar í stjórnarskránni. Sama er raunar upp á teningnum þegar skoðuð er framboðskynning þeirra frambjóðenda sem segjast vera að verja stjórnarskrána óbreytta. Ég tel því ekki vera verulegan ágreining um þörfina á því að ljúka gerð lýðveldisstjórnarskrárinnar. Sumir segja að nú sé ekki rétti tíminn, aðrir að nú sé einmitt sá tími kominn.
  6. Fjölmiðlaumfjöllun lítil og sumpart afar neikvæð. Álitsgjafar hafa sumir agnúast út í kosningarfyrirkomulagið án þess að hafa þó kynnt sér málið nema á yfirborðskenndan hátt. Fjölmiðlarnir gátu ekki efnt til hanaslags milli frambjóðenda eins og vaninn er í aðdraganda kosninga. Við það komst kosningin ekki fremst í fréttaröðina, því miður.
  7. Flókið að kjósa, flókin kosningaraðferð, ótti við biðraðir á kjörstað. Mótbáran um flókna kosningu var all algeng framan af en mér fannst hún síðan hjaðna. Svo mikið er víst að atkvæðagreiðsla á kjörstað gekk snurðulaust. Illu heilli tókst ekki jafnvel til með utankjörfundaratkvæðagreiðsluna. Myndir af biðröðum daginn fyrir kosninguna kunna að hafa fælt frá.
  8. Engin auglýsingaherferð. Það voru einungis frambjóðendur sem auglýstu og kynntu og höfðu flestir til þess takmörkuð fjárráð. Engar „kosningarmaskínur“ voru að verki í þetta sinn.

Þessar skýringar eru byggðar á persónulegri reynslu og mati og eru ekki tæmandi. Vonandi taka fræðingar sér það fyrir hendur að greina kosninguna, aðdraganda hennar, úrslitin og ástæður þess sem gerðist.

Meginástæða þess hvernig til hefur tekist er vitaskuld sú að allur aðdragandi og undirbúningur þessa stjórnarskrármáls hefur verið í skötulíki. Þar er ég ekki að sakast við embættismenn þá sem hafa staðið að undirbúningnum, þeir hafa lagt sig fram eftir bestu getu en í miklu tímahraki. Það var einfaldlega of mikið flaustur og óðagot á Alþingi við lokaafgreiðslu málsins. Stjórnaskrárfélagið sendi Alþingi þegar í lok september áskorun um að framlengja framboðsfrestinn (sem þá var hafinn) um nokkra mánuði og kjósa ekki fyrr en næsta vor. Á meðan ætti stjórnlaganefnd að standa fyrir öflugri umræðu í öllu þjóðfélaginu um stjórnarskrármálið. Þessari tillögu var ekki svarað, því miður.

En nú má ekki fyllast bölsýni. Stjórnarskráin að það skilið að við horfum bjartsýn fram á veg.

Comments are closed.