Skip to content

Horfum bjartsýn fram til stjórnlagaþings

Höfundur: Þorkell Helgason, November 29th, 2010

Þátttaka í kosningunni til stjórnlagaþings var dræm, tæp 37% kjósenda mættu á kjörstaði. Vissulega eru það vonbrigði. En þeir sem ekki mættu veittu þá þeim sem kusu vald til að taka afstöðu fyrir sína hönd. Þeim stóð sjálfum til boða að fara með atkvæði sitt. Þeir kusu að gera það ekki. Þannig virkar lýðræðið.

Er framtíð stjórnlagaþingsins nú í hættu; hefur það umboð þjóðarinnar og verður mark tekið á því? Hugum að þessu:

  • Yfir 80 þúsund raddir. Þrátt fyrir allt hafa yfir 80 þúsund Íslendingar lýst því í verki að þeim er umhugð um grundavallarsáttmála þjóðarinnar, stjórnarskrána, og varið til þess tíma í önnum undanfarinna daga, þegar jólaundirbúningur er kominn á skrið. Sá hluti þjóðarinnar sem stóð að þessu ákalli er ekki minni en einatt gerist í kosningum erlendis. Í ljósi þess hve viðfangsefnið var sértækt og allt fyrirkomulag kosninganna óhjákvæmilega nýmæli verður að telja þetta dágóðan árangur.
  • Sama umboð þingmanna og á Alþingi. Að meðaltali eru 2.971 gild atkvæði að baki hverjum hinna 63 þingmanna sem kjörnir voru til Alþingis síðast þegar kosið var, árið 2009. Nú munu 83.576 hafa kosið í kosningunni til stjórnlagaþings. Gild atkvæði verða eitthvað færri, t.d. 82.335. Kosnir voru 25 fulltrúar ástjórnlagaþingið. Að meðaltali eru því 3.293 gild atkvæði að baki hverjum þeirra sem er meiri bakhjarl en hver þingmaður hefur á Alþingi Íslendinga. (Tölur hafa verið uppfærðar að kosningunni lokinni.)
  • Stjórnlagaþing með beint umboð. Hingað til hefur verið glímt við endurskoðun stjórnarskrárinnar innan fámennra nefnda sem hafa verið valdar af Alþingi. Árangurinn hefur verið rýr. Nú tekur við ný og víðfeðm „nefnd“ skipuð 25-31 fulltrúum og hún hefur beint umboð frá almenningi.
  • Þjóðfundur. Á undan kosningunni var haldinn þjóðfundur eitt þúsund landsmanna sem valdir voru af handahófi og fóru yfir alla grunnþætti stjórnarskrármálsins. Þar ríkti mikill einhugur og eindreginn vilji til að leggja grunn að betra samfélagi. Á þessu getur stjórnlagaþingið byggt.
  • Þjóðarsátt. Stjórnlagaþingið verður að vinna sér traust þjóðarinnar í störfum sínum, einsetja sér að gera tillögu um stjórnarskrá sem er í senn vönduð og líkleg til að breið samstaða náist um hana. Í því sambandi er brýnt að þingið fái að taka sér fjóra mánuði til verksins, ekki aðeins tvo. Jafnframt að þessum fjórum mánuðum verði skipt í tvennt með góðu hléi á milli, hálfu til heilu ári. Hléið verði notað til að kynna þjóðinni drög að stjórnarskrá sem þarf þá að liggja fyrir eftir fyrri þinghrinuna. Kallað verði eftir athugasemdum sem stjórnlagaþingið taki síðan til skoðunar í seinni hrinunni.
  • Þjóðaratkvæðagreiðsla. Nýju stjórnarskrána verður að bera undir þjóðaratkvæði. Þetta er enn mikilvægara en ella þar sem stjórnlagaþingið hefur ekki staðfestan stuðning meirihluta þjóðarinnar. Það er lagatæknilegt úrlausnarefni hvort slík þjóðaratkvæðagreiðsla getur orðið bindandi eða aðeins ráðgefandi fyrri Alþingi. Ég tel bindandi staðfestingu þjóðarinnar nauðsynlega.

Unnendur lýðræðisins, horfum bjartsýn fram á veg!

Comments are closed.