Örhugvekja í ársbyrjun
Árið 2011 er hafið. Megi það verða ár endursköpunar í þjóðlífi okkar. Árið þar sem fjallað verði um grundgildi og undirstöður þjóðfélagsins.
Það verður hlutverk stjórnlagaþings að leggja línurnar en meira þarf til, ekki síst vakningu og umræðu meðal allrar þjóðarinnar. Mikið er undir því komið hvernig okkur, sem skipum stjórnlagaþingið, tekst að nálgast og ræða saman. Við verðum að innleiða ný vinnubrögð í þjóðfélgasumræðu. Þjóðin er orðin langþreytt á því karpi sem tíðkast hefur um langt árabil sem er eins og leikrit þar sem hver fer með sína rullu. Á fjögurra ára fresti er skipt um leikendur en hlutverkin breytast ekki. Við erum orðin leið á leikritinu, kunnum textann utanað og stendur orðið á sama um hverjir fara með hlutverkin. Mörgum finnst raunar að leikararnir standi sig ekki ýkjavel.
Vonandi var þessu leikriti fleygt á áramótabálkestina. Hefjum nýja, ferska umræðu þar sem málin er krufin og komist að niðurstöðu með rökræðu en ekki með því að lesa fyrirfram skrifað leikrit.
Ég óska kjósendum mínum og öðrum velunnurum komandi stjórnlagaþings vonar og bjartsýni á nýbyrjuðu ári.
Comments are closed.