Skip to content

Dálítil deila við dómarana

Höfundur: Þorkell Helgason, January 27th, 2011

Ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings vekur blendnar tilfinningar. Hið jákvæða er að það skuli vera dómstóll sem kveður á um réttmæti kosninga og að hann geri strangar kröfur um leynd þeirra. Þessu er ekki þannig varið um kosningar til Alþingis. Þar liggur hið endanlega ákvörðunarvald um gildi kosninganna hjá þinginu sjálfu sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er meðal þess sem ég vil fá breytt fái ég lagt á ráðin. Hefði þótt eðlilegt að við fulltrúarnir 25 hefðum dæmt í eigin “sök”, fellt úrskurð um það hvort kjörbréf okkar væru gild? Varla.

Til gamans en líka til íhugunar í þessu sambandi má nefna alþingskosningarnar 2003 en þá reyndi í fyrsta sinn á skiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Sem kunnugt er fylgja mörkin í fyrstu Hringbraut og Miklubraut. Kontóristar borgarinnar höfðu flaskað á því að Framnesvegur sker Hrinbrautina og eru nokkur hús sunnan hennar. Þeir höfðu sett allan Framnesveginn í norðurkjördæmið. Nokkrir tugir kjósenda höfðu kosið í röngu kjördæmi. Var kosningin þá ógild? Kjósendur gátu að vísu kosið sömu flokka í báðum kjördæmum en ekki sömu frambjóðendur. Það var t.d. brotið þannig á þessum kjósendum að þeir fengu ekki að strika út þá frambjóðendur sem þeir höfðu hugsanlega ætlað sér að gera. E.t.v. beittu þeir spjótum sínum að frambjóðendum í röngu kjördæmi, en mikið var um útstrikanir í norðurkjördæminu. Hvað gerði Alþingi? Ógiltu þingmenn eigin kosningu vegna þessara mistaka? Nei, þeir fóru að mínu mati skynsömu leiðina. Prófað var á alla kanta að gera þessum villuráfandi kjósendum upp skoðanir um það hvaða flokka þeir hefðu hugsanlega kosið og aðgætt hvort skipan þingsins gæti breyst af þeim sökum. Svo reyndist ekki vera og þar með staðfestu þingmenn öll eigin kjörbréf. En þeir spurðu ekki hvort útstrikanir hefðu haft einhver áhrif. Svo var raunar ekki.  Þingmenn gerðu sér heldur ekki rellu út af því að kosningaúrslit í þessum tveimur kjördæmum voru röng sem nemur tugum atkvæða í hvoru þeirra. Hefði Hæstiréttur farið eins að?

Vík ég þá að einu atriði í ákvörðun Hæstaréttar sem ég tel mig hafa sérstakt vit á. Kært var að kosningaraðferðin hafi með einhverjum þeim hætti verið mistúlkuð að einungis 11 fulltrúar hafi verið rétt kjörnir en hinir 14 farið inn á fölskum forsendum. Þetta er hin mesta firra. Þar sem mér er málið skylt, sem þáverandi ráðgjafi stjórnvalda í kosningafræðum, tók ég þetta atriði upp í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti 14. janúar s.l. Í ályktunarorðum Hæstaréttar er ítarlega vikið að þessu kæruatriði og svo virðist sem rétturinn taki undir vörn landskjörstjórnar. Þó er það eins og margt annað í ályktunarorðum réttarins að erfitt er að greina á milli tilvitnana í rök annarra og eigin orða dómaranna. Alla vega er þó ljóst að dómararnir sex telja þetta atriði ekki eitt af annmörkum á kosningunni. Betra hefði verið að hann hefði tekið af skarið og hafnað þessu ákæruatriði til að ekki leiki neinn vafi á um þetta verði aðferðinni aftur beitt.

Íhuga mætti fleiri þætti í ályktunarorðum Hæstaréttar en hér verður látið staðar numið í svipinn.

Hæstaréttur hefur úrskurðað. Kom mér ályktun réttarins á óvart? Já. Til að skýra það svar vil ég nefna frægt dæmi um mat á gildi ríkiskosninga. Árið 2007 dæmdi stjórnlagadómstóll Þýskalands þau kosningalög, sem beitt var við kosningar til Sambandsþingsins árið 2005, brjóta í grundvallaratriðum í bág við stjórnarskrána. Svo slæmt var það ekki með stjórnalagaþingskosninguna! Lögunum hafði verið beitt áratugum saman með hinum umdeildu ákvæðum. Hvað þá? Átti dómstóllinn að reka þingið heim, ógilda öll lög sem hið ólöglega þing hafði sett og setja svo kanslarann Angelu Merkel af (þýska þingið kýs kanslarann)? Dómstóllinn veltir þessu fyrir sér í dómsorði sínu en kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé ófær leið. Í stað þess skikkaði hann Sambandsþingið til að lagfæra lögin og hafa þau á hreinu fyrir kosningarnar 2013. Þingið fær þannig góðan tíma, enda eru Þjóðverjar þekktir að vandvirkni. En þetta merkir að þingið sem kosið var fyrir rúmu ári, haustið 2009, situr í krafti kosningalaga sem vitandi vits standast ekki stjórnarskrá?

Ég hafði sannast sagna vænst þess að Hæstiréttur felldi slíkan Salómonsdóm. Hann myndi setja ofan í við þingið og framkvæmdarvaldið, segja þeim að standa sig betur næst, en láta kosninguna gilda þar sem engin rök hafa verið færð fyrir því að hnökrarnir á kosningunum hafi haft áhrif á úrslitin. Það eru alvarleg inngrip að ógilda heilar landskosningar. Rétturinn hefur því tekið á sig pólitíska ábyrgð. Það hefur hann efalaust íhugað vandlega.

Hæstiréttur hefur talað. Ekki dugir að deila við dómarann. En hvað svo?

Comments are closed.