Ályktun Hæstaréttar er hættuleg lýðræðinu
[Pistill þessi var saminn 30. janúar 2011 en ekki birtur fyrr en 16. apríl s.á.]
Hæstaréttur hefur ályktað að kosning til stjórnlagaþings 27. nóv. s.l. sé ógild. Hver eru kæruatriðin og rök dómaranna:
- “Kjörseðlar hafi verið auðkenndir með strikamerki og númeri á bakhlið.” “[Þ]annig [væri] hægt að rekja atkvæði til einstakra kjósenda.” Dómararnir gefa í skyn í ákvörðun sinni að rekja hefði mátt atkvæði einstakra kjósenda, án þess þó sýna á nokkurn hátt hvernig það hefði átt að gerast. Af þessu álykta þeir að um “verulegan annmarka á framkvænmd kosninganna [sic] sé að ræða.” Ég sýni fram á í fyrri vefsíðugrein að þessi rök haldi ekki vatni.
- Þeirri kæru “að kjósendur hafi verið sviptir rétti til að kjósa í annarri kjördeild” virðist hafnað.
- “Að hefðbundnir kjörklefar hafi ekki verið notaðir við kosningarnar heldur hafi hver kjósandi setið við borð í opnu rými og greitt atkvæði ásamt öðrum kjósendum …” Að mati Hæstaréttar uppfyllti þetta ekki skilyrði laga um að vera kjörklefi og “uppfyllti þessi umbúnaður heldur ekki það skilyrði að þar mætti greiða atkvæði án þess að aðrir gætu séð hvernig kjósandi kaus, þar sem unnt var að sjá á kosningaseðil væri staðið fyrir aftan kjósanda sem sat við pappaskilrúmin að fylla út kjörseðil.” Vera má að ekki hafi verið um kjörklefa að ræða í skilningi laga, enda þótt nákvæmlega sams konar fyrirkomulag sé víða notað í kosningum í mörgum þeim lýðræðislöndum sem við viljum bera okkur saman við eins og auðvelt er að sannreyna með einfaldri leit á veraldarvefnum. Seinni fullyrðingin er aftur á móti ekki stutt neinum sönnunum. Gerði Hæstiréttur vettvangskönnun, t.d. að kosningarathöfnin væri sett á svið og prófað hvort eða hversu auðvelt væri að sjá á seðla annarra? Eða er byggir rétturinn ályktun sinni á innsæinu einu saman? Og hvert var það?
- Kært er “að kjósendum hafi verið bannað að brjóta kjörseðilinn saman eftir að hann hafði verið útfylltur.” Þetta telur rétturinn brjóta í bág við viðeigandi fyrirmæli laga um kosningar til Alþingis. “[T]elst telst það annmarki við framkvæmd [kosningarinnar].” Tveir dómarar taka þó ekki undir þetta.
- Kært er yfir því “að þeir „pappírskjörkassar“ sem notaðir hafi verið í stað hefðbundinna kjörkassa hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um kosningar til Alþingis. Hæstiréttur ályktar að kjörkassarnir hafi verið “þeirrar gerðar að unnt var án mikillar fyrirhafnar að taka þá í sundur og komast í kjörseðla.” Var þetta sannprófað? Ekki er minnst einu orði á að þessir kassar voru innsiglaðir, að ekki var unnt að komast í þá án þess að það sæist.
- Kært er “að frambjóðendum hafi ekki verið heimilað og gert kleift að hafa umboðsmann viðstaddan kosninguna sjálfa svo og talningu atkvæða svo sem skylt hafi verið …. Þá hafi talning ekki farið fram fyrir opnum dyrum.”. Rétturinn virðist aðeins taka undir seinni kæruliðinn, að umboðsmönnum frambjóðenda hafi ekki verið gert kleift að vera viðstaddir talninguna sjálfa. Rétturinn fjallar ekki um það aðgengi sem frambjóðendur höfðu þó að talningarstaðnum og undirritaður nýtti sér. Ályktun réttarins er sú að hér hafi verið “verulegu[ur] annmark[i] á framkvæmd við talningu atkvæða við kosningu til stjórnlagaþings”. Ef rétturinn telur svo hefði hann hæglega getað krafist endurtalningar. Það eru hin venjulegu viðbrögð þegar meinbugir eru taldir á framkvæmd talningar.
- Rétturinn tekur ekki afstöðu til þess kæruatriðis “að kjörbréf hafi verið gefin út til fulltrúa sem hafi ekki hlotið tilskilinn atkvæðafjölda eða svokallaðan sætishlut til þess að ná kosningu”. Hvers vegna ekki? Eiga kjósendur ekki jafnt rétt á að fá um það úrskurð hvaða kæruatriði reynast haldlaus og hver ekki? Undirritaður hefur fært fyrir því óyggjandi rök í ræðu og riti hvers konar fjarstæða umrætt kæruatriði er.
- Ekki er heldur tekin afstaða til þeirrar kæru “að talning atkvæða sé haldin annmörkum þar sem hún hafi farið fram í vélum sem enginn vissa sé fyrir hendi um að telji rétt”.
Það er niðurstaða undirritaðs að hvorugt þeirra tveggja kæruatriða sem talin eru til “verulegra annmarka” geti verið tilefni ógildingar kosningarinnar. Hið fyrra, rekjanleiki seðla, er einfaldlega fjarstæða og byggir ekki á neinum rökum. Það seinna, um að skort hafi að frambjóðendur eða kjósendur þeirra hafi getað fylgst með talningunni, réttlætir engan vegin ógildingu kosningarinnar, en gæti kallað á endurtalningu þar sem þessu eftirlitshlutverki væri fullnægt.
Eftir standa atriðin um kjörklefana, ósamanbrotna kjörseðla og að kjörkassarnir hafi verið gerðir af vanefnum. Um þetta má deila en kjarni málsins er hvort þetta réttlæti ógildingu kosningar sem haldin var á landsvísu. Tilvísun í kosningar í Helgafellssveit um sameiningu sveitarfélaga hljómar sem hjákátleg samlíking. Ógilding þeirra kosninga tafði lítt framkvæmd þess sem um var kosið og hefur vart kostað nema lítilræði. Ógilding kosninga til stjórnlagaþings kallar á endurteknar kosningar eigi allat að fara fram eins og að var stefnt. Lauslegt mat undiritaðs er að þetta leiði til útgjalda upp á um hálfan milljarð króna, bæði kosningin sjálft og síðan allur kostnaður af frestum þingsins. En það sem verra er þá gæti endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárainnar verið í mikilli óvissu vegna ófyrirsjánalegra tafa. Hæstiréttur hefur tekið á sig mikla pólitíska ábyrgð.
Ákvörðun réttarins um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings er hættuleg lýðræðinu.
Comments are closed.