Brennt barn forðast eldinn
Alþingi samþykkti 15. mars. s.l. breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
13. gr. laganna var svona fyrir breytinguna:
- [1. mgr.] Kjósandi getur sent kæru um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu, aðra en refsikærur, til Hæstaréttar eigi síðar en sjö dögum frá því að [ráðuneytið]1) auglýsir úrslit atkvæðagreiðslunnar.
[2. mgr.] Landskjörstjórn veitir Hæstarétti umsögn um atkvæðagreiðsluna. Umsögn skal veitt óháð því hvort kæra hafi borist skv. 1. mgr.
[3. mgr.] Að fenginni umsögn landskjörstjórnar getur Hæstiréttur ákveðið að ógilda niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar ef verulegur ágalli hefur verið á framkvæmd hennar sem ætla má að hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Séu slíkir verulegir ágallar á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í einu eða fleiri kjördæmum getur Hæstiréttur ákveðið að hún fari aftur fram þar.
Eftir breytinguna hljómar lagagreinin þannig:
- [1. mgr.] Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr.
[2. mgr.] Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.
[Feitletrun mín.] Samsvarandi ákvæði um að því aðeins megi ógilda kosningu að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna er einnig að finna í lögum um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna.
Þetta er allt athyglisvert m.a. í ljósi þess að lög um stjórnlagaþing voru “næsti bær við” þjóðaratkvæðagreiðslulögin, þau höfðu númerin 90/2010 og 91/2010. Í lögunum um stjórnlagaþingið segir í 15. gr. m.a:
- [1. mgr.] Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.
Hér segir ekkert um hvenær megi ógilda kosninguna. Voru mistök í lagasetningu eða vissi Alþingi hvað það var að gera?
Comments are closed.