Skip to content

Framboðið

Ég býð mig fram til setu á stjórnlagaþingi vegna einlægs áhuga og vilja til að bæta stjórnarfarið og gera það tryggara að búa í okkar fagra landi. Ég hef lokið starfsferli mínum og get því einhent mér í þetta mikilvæga verkefni. Hjá mér verður þessi þingseta, ef af verður, ekki stökkpallur til frekari frama á þjóðmálaferli. Ég get því um frjálst höfuð strokið!

Það sem ég tel mig hafa til brunns að bera er menntun mín í stærðfræði, sem ætti að hjálpa mér við að hafa stjórnarskrá rökrétta og skipulagða en ekki síður skiljanlega. Öndvert við það sem margir halda er stærðfræði til að meitla hugsanir, ekki til að flækja þær! Auk þess hef ég langa reynslu við háskólakennslu, rannsóknir, forstöðu fyrir opinberum stofnunum og sem ráðgjafi opinberra aðila á mörgum sviðum, svo sem í skattamálum, fiskveiðistjórnun en umfram allt á sviði kosningamála, einkum kosningakerfa. Ég hef komið að öllum meginbreytingum á kosningalögum síðustu þrjá áratugi. Nú er einmitt kallað á nýjar leiðir þar sem kjósendur fái meira að segja um val á fulltrúum sínum með persónukjöri og þjóðin verði í auknum mæli spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég tel því þekkingu mína í kosningafræðum og langa reynslu af ráðgjöf við Alþingi og ríkisstjórnir í þeim efnum einkar mikilvæga í starfi stjórnlagaþingsins.

Lög um stjórnlagaþing kveða á um að frambjóðendur skili knappri lýsingu á áherslum sínum. Það sem ég lét fylgja framboði mínu er þetta:

  • Ég býð mig fram til að vinna að vandaðri stjórnarskrá.
  • Til þess býð ég menntun mína, langa og fjölbreytta starfsreynslu og ekki síst reynslu og sérþekkingu í kosningafræðum.
  • Stjórnarskrá á að vera sáttmáli okkar um lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.
  • Þetta séu grunngildi í samfélagi þar sem manninum sé sýnd virðing og allir fái meira að vita og hafa áhrif.
  • Stjórnarskráin verði þjóðinni eftir megni vörn gegn græðgi sérhagsmunaseggja og afglöpum í stjórnarháttum.
  • Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum; sátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.
  • Ég hef almannaheill að leiðarljósi.
  • Ég þigg engin fjárframlög og dreg ekki taum sérhagsmuna.

Hverju þessara efnisatriða mun ég gera frekari skil annars staðar á þessari vefsíðu eftir föngum.