Skip to content

Frá framboði

Yfirlýsing um framboð til stjórnlagaþings haustið 2011

Ég býð mig fram til setu á stjórnlagaþingi vegna einlægs áhuga og vilja til að bæta stjórnarfarið og gera það tryggara að búa í okkar fagra landi. Ég hef lokið starfsferli mínum og get því einhent mér í þetta mikilvæga verkefni. Hjá mér verður þessi þingseta, ef af verður, ekki stökkpallur til frekari frama á þjóðmálaferli. Ég get því um frjálst höfuð strokið!

Það sem ég tel mig hafa til brunns að bera er menntun mín í stærðfræði, sem ætti að hjálpa mér við að hafa stjórnarskrá rökrétta og skipulagða en ekki síður skiljanlega. Öndvert við það sem margir halda er stærðfræði til að meitla hugsanir, ekki til að flækja þær! Auk þess hef ég langa reynslu við háskólakennslu, rannsóknir, forstöðu fyrir opinberum stofnunum og sem ráðgjafi opinberra aðila á mörgum sviðum, svo sem í skattamálum, fiskveiðistjórnun en umfram allt á sviði kosningamála, einkum kosningakerfa. Ég hef komið að öllum meginbreytingum á kosningalögum síðustu þrjá áratugi. Nú er einmitt kallað á nýjar leiðir þar sem kjósendur fái meira að segja um val á fulltrúum sínum með persónukjöri og þjóðin verði í auknum mæli spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég tel því þekkingu mína í kosningafræðum og langa reynslu af ráðgjöf við Alþingi og ríkisstjórnir í þeim efnum einkar mikilvæga í starfi stjórnlagaþingsins.

Lög um stjórnlagaþing kveða á um að frambjóðendur skili knappri lýsingu á áherslum sínum. Það sem ég lét fylgja framboði mínu er þetta:

  • » Ég býð mig fram til að vinna að vandaðri stjórnarskrá.
  • » Til þess býð ég menntun mína, langa og fjölbreytta starfsreynslu og ekki síst reynslu og sérþekkingu í kosningafræðum.
  • » Stjórnarskrá á að vera sáttmáli okkar um lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.
  • » Þetta séu grunngildi í samfélagi þar sem manninum sé sýnd virðing og allir fái meira að vita og hafa áhrif.
  • » Stjórnarskráin verði þjóðinni eftir megni vörn gegn græðgi sérhagsmunaseggja og afglöpum í stjórnarháttum.
  • » Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum; sátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.
  • » Ég hef almannaheill að leiðarljósi.
  • » Ég þigg engin fjárframlög og dreg ekki taum sérhagsmuna.

 

Af hverju ný stjórnarskrá?

Við búum við stjórnarskrá sem Danakonungur gaf okkur 1874, að vísu með nokkrum breytingum og umbótum, en lýðveldinu Íslandi hefur aldrei verið sett heilsteypt stjórnarskrá. Gildandi stjórnarskrá er að grunni til haldgóð enda á hún rætur að rekja til frelsisanda nítjándu aldar. Hingað til hefur Alþingi glímt við það í 66 ár að móta lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá en án umtalsverðs árangurs. Nú er ætlunin að reyna nýja leið með því að kalla saman stjórnlagaþing. Það verður að vísu aðeins ráðgefandi en takist vel til og breið samstaða verði á þinginu, samstaða um tillögur sem hafi sterkan hljómgrunn með þjóðinni, mun Alþingi vafalítið ljá tillögunni brautargengi. Að lokum þarf að búa svo um hnútana að stjórnarskrártillaga stjórnlagaþingsins verði borin undir þjóðina. Hún er uppspretta alls valds. Það ber að virða.

Miklu máli skiptir að vel takist til með val fulltrúa á stjórnlagaþingið, t.d. að þar fari saman þekking en líka sjónarmið hins almenna þjóðfélagsþegns, karla og kvenna, ungra og roskinna. Vinnubrögðin á þinginu verða að vera með öðrum hætti en tíðkast á Alþingi. Stjórnarskrá getur ekki orðið til þannig að hver haldi sínu sjónarmiði til streitu. Það verður að fara fram rökræða á þinginu, en án karps. Þingfulltrúar eiga ekki að koma til þingsins með niðurnjörvaðar skoðanir og mega ekki vera feimnir við að skipta um skoðun. Það er dyggð en ekki löstur. Þing- og nefndarfundir eiga vissulega að vera opnir og það má varpa frá þeim út. En samræður verða að vera óþvingaðar. Nú reynir á að vel takist til með breytt vinnubrögð á mikilvægu þingi. Það er því ekki aðeins kosningin til stjórnlagaþings sem verður nýmæli heldur og sjálft þinghaldið. Þingið verður tilraun til lýðræðislegrar samræðu, þar reynir á hvort einstaklingar, sem ekki hafa skipað sér í fylkingar, geta unnið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Takist það vel gæti það orðið fyrirmynd um starfshætti á Alþingi og í sveitarstjórnun. Döpur reynsla allra af stjórnmálaumræðunni, störfum Alþingis og ríkisstjórna, sýnir okkur að þörf er nýrrar hugsunar, nýrra aðferða.

Af þessum sökum öllum verður stjórnlagaþingið prófsteinn á lýðræðisþroska okkar.

 

Stuðningsyfirlýsingar við framboðið